Færsluflokkur: Mannréttindi

Yarmouk og Sýrlensk þakkargjörð

Í gærkvöldi reyndi ég að gera mér í hugarlund hvernig tilfinning það væri að sjá myndir af æskuheimili sínu og heimabæ í rjúkandi rústum.  Það er auðvitað ógjörningur að ímynda sér slíkt en fyrir "bróður minn" Muayad er það kaldur raunveruleikinn.  

Stjórnarher Assads ásamt Rússum gerðu harðar stórskota- og loftárásir á Yarmouk hverfið - um 8 km suður af miðborg Damaskus - í vikunni sem leið og jöfnuðu allt sem eftir stóð við jörðu.  

Yarmouk var hverfi flóttamanna frá Palestínu sem flúðu árásir og hernám Ísraela fyrir 70 árum síðan.  Afi Muayads var einn af þeim sem byggðu hverfið upp frá því að vera tjaldbúðir í eyðimörkinni yfir í blómlegt 160 þúsund manna samfélag (á 2.2 ferkílómetra svæði).  Muayad sýndi mér ljósmyndir af iðandi og fallegu torgi þar sem hann lék sér og tefldi skákir við gömlu mennina sem lögðu ofurkapp á menntun barna sinna.  Skólarnir á svæðinu voru raunar svo góðir að námsárangur, bæði í lestri og stærðfræði, var ekki einungis bestur í Sýrlandi heldur í öllum Araba-heiminum!  

Í lok árs árið 2014 var Yarmouk hverfið hertekið af vígamönnum ISIS.  Fjölskylda Muayads flúði heimili sitt og settust að nærri miðborg Damascus.  Í síðustu viku bjuggu um 3500 manns ennþá í Yarmouk - án vatns, rafmagns eða annara nauðþurfta.  Aðallega lasburðin gamalmenni og einstæðar mæður sem gátu ekki flúið.  Eftir sigur stjórnarhersins á ISIS í Austur-Gouta var nú loks látið til skarar skríða gegn Yarmouk og bókstaflega allt jafnað við jörðu.  Þar á meðal æskuheimili Muayads.

Foreldrar hans eru "örugg" en nú eru liðin 3 ár frá því að þau sendu son sinn, þá 18 ára gamlan, út í óvissunna.  Þá hafði hann fengið skipun um að hefja herþjónustu í stjórnarher Assads.  Að reyna flótta til Evrópu var hans eina von um líf og frið.  Sem "liðhlaupi" á hann aldrei afturkvæmt til Sýrlands.  

Þökk sé múttí Merkel þá endaði Muayad fyrir rest í fjölbýlishúsinu mínu hér í Saarlandi og ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þessum einstaka og góða dreng.  Ég þekki fáa sem búa yfir annari eins smitandi hlýju, jákvæðni, von og hugrekki.

Um síðustu helgi bauð hann, ásamt fimm fjölskyldum frá Sýrlandi, bæjarbúum til veislu í þakklætisskyni fyrir sýndan hlýhug og móttökur.  Þetta var falleg stund og bæjarbúar fylltu ráðhússalinn en færri komust að en vildu.  Nákvæmlega svona lítur semsagt "flóttamanna-vandamálið" út í Þýskalandi!  Gleði og samkennd í stað ótta, tortryggni og haturs.  

Bætti líka við myndum af okkur bræðrunum á Íslandi í fyrra - en það er óhætt að segja að drengurinn hafi orðið mikill Íslandsvinur og engin spurning með hverjum hann heldur á HM þrátt fyrir að við séum báðir að bíða eftir þýsku ríkisfangi.  

31081469_10103005706362711_3756838000305154506_n

31092071_10103005706372691_7074007517618946341_n

31118471_10103005706367701_5050668154803975246_n

fam

20620844_10102564242040751_6771683492255875993_n

21271269_10102618547317541_5653770771755500492_n

21192064_10102618546788601_1033135977791960163_n

21151265_10102618545366451_2551576154665827266_n

20663687_10102574461979911_4427291614227524215_n


Af meintum "reverse rasisma" Páls Óskars

Hin árlega gleðiganga Hinsegin daga er fagur vitnisburður um það besta í fari íslendinga. Við megum vera stolt og þakklát fyrir að búa í einu af frjálslyndustu samfélögum heims þar sem flestir eru sammála um gildi jafnréttis og mannréttinda minnihlutahópa. Þegar þriðjungur þjóðarinnar mætir með góða skapið og gleðina til þess að sýna samkynhneigðum stuðning, ást og staðfestingu á tilverurétti okkar – bærast ólýsanlegar tilfinningar í brjósti hvers homma og hverrar lesbíu. Gleymum því ekki hversu stutt er síðan tilvera okkar var sveipuð þöggun, skömm og ótta.

Einn er sá eðal-hommi sem ber sennilega meiri ábyrgð en flestir aðrir á því að fá þorra þjóðarinnar á okkar band á undanförnum árum. Með einlægni sinni, hreinskilni og persónutöfrum, hefur Páli Óskari tekist að koma við hjartað á íslendingum svo um munar. Hann var því vel að því kominn að hljóta mannréttinda-viðurkenningu Samtakanna 78 þetta árið. Eins og hann benti réttilega á í lok göngunnar á laugardaginn stendur Gay Pride á Íslandi orðið fyrir meira en „bara“ réttindabaráttu samkynhneigðra – þetta er orðin fjölskyldu-þjóðhátíð ALLRA íslendinga sem láta sig frjálslynd viðhorf og mannréttindi varða.

Ekki eru allir sáttir

Auðvitað fyrirfinnast enn einstaklingar sem láta Pál Óskar og Gay Pride fara í taugarnar á sér. Það kom því vart á óvart að einhverjir ákváðu að misskilja, oftúlka og snúa útúr ummælum Páls í Sjónvarpsfréttaviðtali um „hvíta gagnkynhneigða miðaldra karlmenn í jakkafötum, hægrisinnaða sem eiga peninga“ sem stundum eru með „biblíuna í annari hendi og byssuna í hinni“. Valinkunnir Mogga-bloggarar virtust taka þessi ummæli til sín og þóttu e.t.v. vegið að stöðu sinni og ímynd, þar á meðal Jón Magnússon hæstarréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður. Aðrir “usual suspects” eins og Jón Valur Jenson, þekktur öfgatrúarmaður og fordómapési, notfærði sér tækifærið og býsnaðist yfir meintum kostnaði Reykjavíkurborgar af gleðigöngunni.

a768_bm-viNú er það sem betur fer svo að flestir hvítir gagnkynhneigðir miðaldra karlmenn í jakkafötum – hvar sem þeir standa í pólitík og hvort sem þeir eiga peninga eða ekki – eru fordómalausir og sómakærir borgarar. Það eru ekki þeir sem létu ummæli Páls Óskars móðga sig – heldur þessar fáu risaeðlur sem eiga erfitt með að sleppa takinu af forréttinda stöðu sinni og íhaldssömum viðhorfum. Þessum mönnum sem líður illa í frjálslyndu og opnu samfélagi þar sem þeir fá ekki að drottna. Feminismi , jafnrétti og fjölmenning er eitur í þeirra beinum. Og þegar biblíur og byssur blandast í málið geta afleiðingarnar orðið skelfilegar eins og sannaðist nýverið í Noregi. Raunar er eftirtektarvert að þeir bloggarar sem helst hafa kvartað undan ummælum Páls Óskars eru flestir hinir sömu og kvörtuðu hæst yfir þeim „aðdróttunum“ að Anders Breivik væri „kristinn hægriöfgamaður“. Það voru nefnilega ekki „skoðanir“ hans sem voru brenglaðar heldur einungis verknaðurinn, að þeirra mati og það var óásættanlegt að sverta þeirra fínu og fullgildu lífsskoðanir vegna verknaðs eins „geðsjúklings“ sem af fullkominni tilviljun deildi skoðunum þeirra um „trúvillinga“, kynvillinga, útlendinga, kvenfólk og annað óæðra fólk.

Hrun feðraveldisins og sjálfsmynd karlmennskunnar

Ljóst er að með auknu jafnræði í samfélaginu hefur staða karlmannsins breyst. Þrátt fyrir að launamunur kynjanna á vinnumarkaði sé enn til staðar er það svo að karlar sitja ekki einir að valdastöðum í reykfylltum bakherberjum. Karlaklúbbarnir riða til falls. En til eru þeir karlar sem eiga erfitt með að aðlagast og finnast þeir jafnvel niðurlægðir. Við getum ekki og megum ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að „karlmennskan“ er í vissri tilvistarkreppu.

Þróunin hefur verið á þá leið að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum á meðan karlar hafa dregist aftur úr í menntun. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að konur munu koma til með að hafa hærri laun en karlar og verða aðal-fyrirvinnur heimilisins á sama tíma og atvinnuleysi eykst hraðast meðal ungra karlmanna. Þetta særir stolt þeirra og þeim finnst að þeim vegið. Reiðin brýst m.a. út í karl-rembu og and-femínisma.

Unga karlmenn skortir tilfinnanlega jákvæðar fyrirmyndir. Í grunnskólunum fyrirfinnast varla lengur karlkyns kennarar og of margir feður taka alltof lítinn þátt í uppeldi sona sinna. Þegar svo Agli Gillzenegger er hampað sem „fyrirmynd“ unglinga er orðið eitthvað verulega mikið að. Við verðum að gæta þess að hlúa betur að strákunum okkar, styrkja sjálfsmynd þeirra og hjálpa þeim út í lífið. Margir ungir karlmenn eiga um sárt að binda í dag og þeir tilheyra sko engum forréttindahópi þrátt fyrir að vera karlmenn. Þetta er sá hópur sem fær minnstan stuðning frá félags- og heilbrigðiskerfinu.

Atvinnuleysi og fátækt er hrikalegur bölvaldur sem nú ógnar heilli kynslóð. Við vitum að sá ótti, reiði, örvænting og tilgangsleysi sem herjar á ungt atvinnulaust fólk er hættuleg gróðrastíja fyrir öfga og hatur. Við verðum með öllum mætti að sameinast um að minnka atvinnuleysi og bæta félagsleg úrræði fyrir unga karlmenn áður en það er um seinan. Hættan er aðsteðjandi.

Elliheimili fyrir samkynhneigða

Í viðtali við DV talaði Páll Óskar um þörfina á sérstöku elliheimili fyrir samkynhneigða. Mörgum brá í brún og furðuðu sig á þeirri hugmynd, enda er markmiðið með réttindabaráttunni ekki aðskilnaður heldur samlögun. En við nánari athugun kemur í ljós að málið er flóknara en svo.

Viðtal við 77 ára gamlan homma birtist í dagskrárriti Hinsegin daga í ár. Þar lýsir hann því hvernig hann hafi notið þess að sækja kyrrðarstundir í Langholtskirkju í hádeginu þar sem hann naut samveru við aðra eldri borgara. Þetta breyttist allt eftir blaðaviðtal við hann í Morgunblaðinu árið 2007 þar sem hann opinberaði kynhneigð sína. Uppfrá þessu mætti hann gjörbreyttu viðmóti jafnaldra sinna í kirkjunni. Enginn tók undir þegar hann heilsaði né yrti á hann. Þá stóð fólk upp og færði sig þegar hann settist við borð eða kirkjubekk. Hann var flæmdur burt. Athugið að þetta var árið 2007...og ekki í neinum “sértrúarsöfnuði” heldur þjóðkirkju Íslands!

Hommar eru e.t.v. Í meiri hættu en aðrir á að einangrast í ellinni þar sem margir eiga ekki afkomendur, maka eða stórar fjölskyldur. Við vitum að hamingjusömustu gamalmennin eru þau sem bera gæfu til að njóta samvista við annað fólk sem það á samleið með. Sumir eldri borgarar stunda mikið félagslíf, dansæfingar og kvöldvökur og einhverjir eru jafnvel svo lánssamir að verða ástfangnir! Hvað er dásamlegra en það?

Hvers á einmanna homminn á Grund að gjalda?


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama: It Gets Better!


Blóðug mismunun hjá Blóðbankanum

kerry.jpgJohn Kerry, Öldungardeildarþingmaður frá Massachusetts og fyrrum forsetaframbjóðandi (sem ég gerðist svo frægur að kjósa hér um árið) lagði í dag fram frumvarp (ásamt 17 öðrum) þess efnis að lög sem banna Bandarískum hommum að gefa blóð verði afnumin.

Lögin voru sett árið 1983 af stjórn Ronalds Reagan (sem var með eindæmum hómófóbískur) en á þeim tíma var AIDS faraldurinn í hámarki og var sjúkdómurinn þá talinn "homma-plága" og "lækning Guðs" við samkynhneigð.

Síðan hefur sem betur fer mikið vatn runnið til sjávar (um 11 milljarðar rúmtonna úr Mississippi eingöngu) og í dag eru alls engin vísindaleg rök fyrir því að banna hommum að gefa sitt gæðablóð.  Bæði Ameríski rauði krossinn og Lyfjaeftirlitið (FDA) styðja tillögu Kerry´s enda benda þeir á að í dag er allt blóð skimað svo vel að nánast ógjörningur er að HIV smitað blóð komist í dreifingu auk þess sem nýjustu rannsóknir sýna að flest nýsmit HIV greinast nú meðal gagnkynhneigðra kvenna!

Það er því furðulegt að á meðan Blóðbankar (þar á meðal sá Íslenski) kvarta undan sífelldum skorti á blóði, skuli þeir ennþá vera svo vandlátir á viðskiptavini.  Skildi það vera að aðrar og ógeðfelldari (trúarlegar?) ástæður en vísindalegar séu ástæðan fyrir því að þessum lögum hefur ekki enn verið breytt.  Ekki einu sinni á Íslandi - sem þó stærir sig af því að vera í fararbroddi ríkja heims hvað varðar mannréttindi samkynhneigðra?  Getur það verið að þeir sem ráða ferðinni séu haldnir fordómum - eða finnst almenningi tilhugsunin um að fá dælt í sig "homma-blóði" á einhvern hátt fælandi?  Heldur fólk kannski að það gæti smitast af samkynhneigð?

Hvernig sem á það er litið væri það skammarlegt fyrir Íslenska Blóðbankann að láta Ameríkanana verða fyrri til að breyta þessum lögum (sem nú stefnir allt í...loksins Smile).  Það er ekki bara sár móðgun við fullhraustann mann, sem vill gefa af sér til samfélagsins, að vera "afþakkað" með þessum hætti - það er gróf mismunun.


Hjartagæska Kaþólskra skilyrðum háð

Eitt mega Kaþólikkar eiga sér til tekna - víða um heim stunda þeir hjálpar- og góðgerðarstarfsemi af ýmsum toga.  Þeir reka sjúkrahús, neyðarskýli fyrir heimilislausa og munaðarlaus börn og veita fátæku fólki matar-aðstoð.  Allt er þetta óskaplega fallega gert af þeim og ber að virða og þakka.

Í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C., er sorglega mikið af fólki í sárri neyð.  Það dylst engum sem heimsótt hefur D.C. að fjöldi heimilislausra er gríðarlegur og maður þarf ekki að ganga langt frá miðborginni til þess að koma í hverfi þar sem fátækt og eymd er allsráðandi.  Hingað til hafa Kaþólsk góðgerðarsamtök lagt sitt af mörkum til þess að hjálpa þessu fólki - en nú verður breyting þar á!

Washington Post skýrði nýlega frá því að Kaþólska kirkjan hefur hótað að hætta allri góðgerðarstarfsemi í Washington D.C. ef borgarráðið samþykkir nýtt frumvarp um að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og lög þess efnis að fyrirtækjum og stofnunum í D.C. verði óheimilt að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar.

hypocrisy.jpgÞessi hótun er ekkert annað en ógeðfelld tilraun til pólitískrar kúgunar - en sem betur fer hefur borgarráðið gefið út yfirlýsingu þess efnis að það ætli ekki að láta þessar hótanir hafa áhrif á sína ákvarðanatöku og fastlega er búist við því að tillögurnar verði samþykktar í næsta mánuði.  Skilaboð borgarráðsins til Kaþólskra eru þau að þeirra aðstoð er ekki ómissandi og vilji þeir verða af $8.2 milljóna samningi við velferðarsvið borgarinner er þeim frjálst að fara.  Aðrir munu fylla þeirra skarð.  Útsvar borgarbúa mun ekki renna til stofnunar sem mismunar íbúum og stendur gegn mannréttindum.

Eftir stendur spurningin hvort Kaþólskir ætli í alvöru að láta fægð sína á samkynhneigðum bitna á saklausu fólki í neyð.  Er góðmennska þeirra virkilega svona yfirborðskennd og hræsnisfull?  Megi það verða þeim til ævarandi skammar!

---

Nú líður senn að Þakkargjörðarhátíðinni, sem Nota Bene er algerlega ótengd trúarbrögðum.  Fyrir ári síðan var ég staddur í Washington D.C. á Þakkargjörðardaginn.  Á leið minni frá Smithsonian safninu á hótel-herbergi mitt gekk ég framhjá Hvíta Húsinu um kvöldmatarleitið - þegar flestir borgarbúar sátu að snæðingi og gæddu sér á fylltum kalkúna.  Það var svolítið súrrealískt að vera á gangi á þessum tíma því breiðstrætin voru næstum tóm - og þó ekki - þá fyrst sá ég hversu margt fólk lá kalt, einsamalt og svangt á bekkjum og í ræsum borgarinnar.  Það var átakanlegt.

Þegar ég heimsótti minnisvarðann um Thomas Jefferson, höfundar sjálfrar Stjórnarskrár Bandaríkjanna, varð mér umhugsað um þessi fleygu orð hans:

"Millions of innocent men, women and children, since the introduction of Christianity, have been burned, tortured, fined and imprisoned. What has been the effect of this coercion? To make one half the world fools and the other half hypocrites; to support roguery and error all over the earth..." - úr Notes on the State of Virginia, 1787.

Hér er smá myndbrot frá heimsókn minni til District of Columbia í fyrra. Smile



P.S. Ég datt nýlega í lukkupottinn og fékk starf sem er akkúrat á mínu áhugasviði og þar sem ég get nýtt mína menntun í viðhaldsmálum flugvéla. Happy  Ég býst því ekki við miklum blogg-skrifum næstu vikurnar þar sem öll mín orka mun væntanlega fara í starfsþjálfun sem að hluta til fer fram erlendis. 


Ómannúðleg stefna í málefnum hælisleitenda

amnesty.gifMig langar til að vekja athygli á góðri grein á Smugunni eftir Inga Björn Guðnason vin minn, um málefni hælisleitenda á Íslandi. 

Sú stefna stjórnvalda að senda hælisleitendur úr landi án efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli heimildar Dyflinnar-reglugerðarinnar er ekkert annað en sorgleg.  

Það er merkilegt að núverandi stjórnvöld sem réttilega gagnrýndu ólöglega þátttöku Íslands í Íraksstríðinu á sínum tíma - skuli nú senda stríðshrjáð fólk þaðan, í sárri neyð, til baka út í opinn dauðann, með viðkomu í ömurlegum flóttamannabúðum á Grikklandi.  Sveiattan!! 


Sotomayor lífgar uppá hæstarétt Bandaríkjanna

sonia_sotomayorVal Obama á eftirmanni David Souter hæstaréttardómara sem senn lætur af embætti er í senn áhugavert og ánægjulegt.  Sonia Sotomayor verður aðeins þriðja konan frá upphafi og fyrsti Latino einstaklingurinn sem vermir stól hæstaréttar, en hún er ættuð frá Puerto Rico.  Það veitir svo sannarlega ekki af að auka fjölbreytileika hæstaréttarins, sem ætti með réttu að innihalda fulltrúa sem flestra þjóðfélagshópa en í dag eru 7 af 9 dómurum miðaldra eða eldgamlir hvítir karl-fauskar og 5 af 9 eru kaþólikkar.

Hæstiréttur Bandaríkjanna er skelfilega íhaldssamur og er óhætt að segja að viðhorf og úrskurðir réttarins séu 20-30 árum á eftir almennings-álitinu hvað varðar samfélagsleg málefni.  Það er mikið fagnaðarefni að Obama fái tækifæri til þess á næstu 8 (vonandi) árum að endurnýja hæstaréttinn töluvert og yngja hann upp auk þess sem vonir standa við að hann tilnefni dómara með mun frjálslyndari og nútímalegri viðhorf en verið hefur.  Margir núverandi dómaranna eru komnir vel á aldur (sérstaklega Stevens og Ginsburg) en ég er helst að vona að Scalia hrökki uppaf þeirra fyrstur.

Kíkið á Obama kynna Sotomayor:

Fyrir skömmu úrskurðaði hæstiréttur Kalíforníu að umdeild tillaga um bann á hjónaböndum samkynhneigðra (Prop 8) myndi standa - en tillagan var samþykkt með 52% atkvæða kjósenda Kalíforníu s.l. haust eftir mikið áróðursstríð sem mormónar frá Utah, kaþólikkar og aðrir bókstafstrúarmenn dældu milljónum dollara í.  Með blekkjandi auglýsingum, lygum og rógi tókst þeim að hræða nógu marga til að samþykkja þessi svívirðilegu brot á mannréttindum.  En baráttunni er hvergi nærri lokið og réttlætið mun sigra fyrr en varir.  Yfirgnæfandi líkur eru á að á næstu árum muni sjálfur Hæstiréttur Bandaríkjanna þurfa að úrskurða um hjónabönd samkynhneigðra á Federal leveli in hingað til hafa fylkin ráðið þessum málum sjálf og þrátt fyrir að nú séu samkynja hjónabönd lögleg í 5 fylkjum þurfa hin fylkin og alríkið ekki að viðurkenna þau - þökk sé DOMA (ó)lögunum (Defense of Marriage Act) sem líklega standast ekki stjórnarskránna.

Árið 1969 úrskurðaði hæstiréttur í máli Loving vs. Virginia að fólk af mismunandi kynþáttum mættu giftast - en fram að því máttu svartir og hvítir ekki ganga í hjónabönd.  Þetta þætti okkur ótrúlegt og svívirðilegt í dag - en athugið að það eru aðeins 40 ár síðan!  Það merkilega er að kynþáttahatrið og rasisminn grasseruðu enn svo mikið á þessum tíma í Bandaríkjunum að ef kosið hefði verið um þetta mál - hefði það verið fellt með talsverðum meirihluta.  Mig minnir að um 60% Bandaríkjamanna hafi verið á móti blönduðum hjónaböndum í þá dagana.  En mannréttindi eru nefnilega ekki mál sem ákvarðast eiga af einföldum meirihluta í kosningum.  Þá yrðu nú litlar framfarir.  Það verður að vera í verkahring hæstaréttar að skera úr um svona mál. 

Eitt er víst - We Won´t Back Down Wink

En nú ætti ég kannski að hætta að blogga um Amerísk málefni fyrst ég er fluttur heim í bili...og þó...efast um að ég tolli lengi í þessari útópíu Steingríms J.  - A.m.k nenni ég ekki að blogga um sykurskatt og hækkuð olíugjöld.  Það er nokkuð ljóst að þessu landi verður hreinlega ekki viðbjargandi úr þessu...þetta er búið spil.  En þvílíkir snillingar að ætla sér að ná inn 2.7 milljörðum í ríkiskassann með nýju skattahækkununum á sama tíma og vísitala neysluverðs hækkar skuldir heimilana um 7 milljarða.  (Má ég minna á að ríkis-kirkjan kostar okkur 6 milljarða á ári)

Obama ákvað að taka þannig á kreppunni í Bandaríkjunum að hækka ekki skatta heldur dæla pening í atvinnulífið og reyna að sjá til þess að fólk geti haldið áfram að eyða í neyslu til þess að koma í veg fyrir að hjól atvinnulífsins stöðvist.  Þá hefur verið séð til þess að greiðslubyrgði af skuldum sé ekki hærri en 30% af heildar-tekjum fólks svo það haldi húsnæði sínu og eigi fyrir mat og nauðsynjum.   Hér er hins vegar farið í að skattpína fólk í hel ofan á öll hin ósköpin.  Úr verður fyrirsjáanlega vítahringur dauðans - einkaneysla dregst svo mikið saman að öll fyrirtæki fara á hausinn og atvinnuleysi stóreykst.  Þá dragast virðisaukaskatts-tekjur verulega saman og fólk hættir að geta keypt bensín, fer að svíkja undan skatti í auknum mæli og brugga landa til að drekkja sorgum sínum.  Það er greinilegt að þetta fólk sér ekki lengra en nef þeirra nær og úrræðaleysið og vanhæfnin er alger.  Mér segir svo hugur að næsta búsáhaldabylting sem án efa mun eiga sér stað með haustinu muni ekki fara jafn friðsamlega fram og sú síðasta...en þá verð ég vonandi sloppinn aftur burt af þessari vonlausu eyju. Frown


Flottur dómsmálaráðherra - "guðs-vírusinn" á undanhaldi

Það er mikið gleðiefni að sitjandi dóms-og kirkjumálaráðherra, Ragna Árnadóttir, hefur ákveðið að láta endurskoða ákvæði laga um að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélög.  Það er mér hálfpartinn til efs að pólitískt kjörinn ráðherra hefði haft kjark í að taka á þessum málum en Ragna er greinilega fagmaður sem þarf ekki að óttast um kjörfylgi.  Það færi betur ef fleiri ráðherraembætti væru skipuð á faglegum grundvelli í stað þess að vanhæfir pólitíkusar fari með umboð mála sem þeir hafa engan skilning á.  Þá væri sennilega margt öðruvísi á Íslandi í dag.

Það hefur ekki alltaf þótt fínt að vera trúlaus á Íslandi og satt að segja eru fordómarnir enn ótrúlega miklir í okkar garð - þrátt fyrir að okkur yfirlýstum trúleysingjum fjölgi nú ört.  Oft höfum við sem talað höfum gegn trúarbrögðum verið taldir sérvitrir rugludallar og vandræðagemlingar líkt og Helgi Hóseason - snillingur og hugaður brautryðjandi sem ég ber mikla virðingu fyrir!  Wink

godvirus.jpgNú er þetta sem betur fer loksins að snúast við og hinir heittrúuðu eru komnir út á jaðar samfélagsins.  Augu almennings hafa opnast gagnvart skaðsemi trúarbragða og þeim hörmungum og samfélagsmeinum sem t.d. kaþólska kirkjan og bókstafstrúaðir íslamistar valda út um allan heim.  Mig langar að benda á nýútkomna bók eftir Dr. Darrel Ray sem ber heitið "The God Virus: How religion infects our lives and culture".  Dr. Ray líkir trúarbrögðum við "samfélagslegan vírus" og útskýrir hvernig vírusinn hefur skaðleg áhrif á gáfnafar og persónuleika fólks, hvernig vírusinn dreifir sér og hvernig hægt er að stöðva hann.  Það er sem betur fer til lækning við trúar-vírusnum! Smile 

Dr. Ray talar um hvernig trúarbrögðum er troðið inn á saklaus börn strax við fæðingu: "Virtually all religions rely upon early childhood indoctrination as the prime infection strategy. Other infection strategies include proselytizing, offering help and financial aid with strings attached, providing educational opportunities at religious institutions and many other approaches which we encounter frequently in the media and in daily exposure to religion."

Að lokum eru hér stórskemtileg vídeó þar sem Richard Dawkins les tölvupósta sem honum hafa borist - uppfullum af "kristnu siðgæði" að sjálfsögðu - og svo svarar hann spurningu "frelsaðs manns" af mikilli hreinskilni. Joyful  


mbl.is Endurskoða sjálfkrafa skráningu í trúfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmenningarsamfélagið

Í gærkvöldi fór ég ásamt vinum mínum á afar eftirminnilega tónleika sem haldnir voru hér i háskólanum mínum.  Tónlistarfólkið var mætt í opinbera heimsókn frá systurskóla okkar í Kína - Nankai University og í boði var "traditional" kínversk tónlist leikin snilldarvel á aldagömul og framandi hljóðfæri.  Tónlistin ein og sér var heillandi en þó var ekki síður áhugavert að fylgjast með flytjendunum, samhæfni þeirra og "performance".  Þá var varpað upp á tjald svipmyndum frá Nankai ásamt kínverskum þjóðsögum og myndskreytingum.  Í lok tónleikanna komu Kínverjarnir svo á óvart með því að leika þekkt Bandarísk stef og þjóðlög á kínversku hljóðfærin sem vakti mikla lukku meðal viðstaddra.  Það var mjög táknrænt fyrir samstarf og vináttu skólanna og minnti okkur á að æðri menntun er lykillinn að samvinnu og gagnkvæmri virðingu ólíkra menningarheima.

kina

 

 

 

 

 Eitt mikilvægasta veganestið sem ég tek með mér út í lífið eftir að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að stunda nám hér - og það sem hefur gefið mér einna mest - er sú upplifun að hafa fengið að kynnast sannkölluðu fjölmenningarsamfélagi.  Af um 17,000 nemendum í St. Cloud State University erum við yfir 1200 (frá yfir 80 löndum) sem titlum okkur "international students".  Því hef ég ekki einungis kynnst Bandaríkjamönnum (sem eru þó nokkuð fjölbreyttur hópur fyrir) heldur hef ég fengið að stunda nám með fólki frá öllum heimshornum og eignast kunningja frá Afríku, Suður-Ameríku, Kína, Indlandi, Nepal, Japan, Kóreu og svo mætti lengi telja. 

Þess má geta að langstærstur hluti innfæddra hér í Minnesota eru af Skandínavískum og Þýskum ættum.  Hér í St. Cloud eru 90% íbúanna hvítir og því óhætt að segja að erlendu nemendurnir marki lit sinn á staðinn og auðgi menninguna verulega.  Hér er hægt að bragða á mat, upplifa tónlist og leiklist, kynnast ólíkum trúarbrögðum og lífsskoðunum hvaðanæfa úr veröldinni.  Það sem stendur uppúr er að komast að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allt sem skilur okkur að - erum við þó öll eins í grunninn.  Hvort sem við erum hvít, svört, gul eða rauð, kommar eða kapítalistar, trúfrjáls eða trúuð, gay or straight - öll erum við af sömu dýrategundinni og öll búum við á þessari litlu, viðkvæmu, jarðkringlu og deilum gæðum hennar.

childrenholdinghands_gif.pngFjölmenningar-hugtakið er því miður oft misskilið og vísvitandi gert tortryggilegt af þröngsýnu, illa upplýstu fólki sem þjáist af þjóðrembu og ótta við allt og alla sem eru öðruvísi en það sjálft.  Fjölmenning þýðir EKKI aðför að menningar-arfi, hefðum og gildum hvers þjóðfélags.  Þvert á móti gerir fjölmenning okkur kleift að njóta og fagna menningu hvers annars með gagnkvæmri virðingu.  Það er ekkert slæmt við að vera stoltur af sínum eigin menningar-arfi og uppruna, síður en svo!  Það er hins vegar slæmt þegar það stollt breytist yfir í hroka og vandlæti gagnvart fólki af ólíkum uppruna!

Þegar ég var lítill kynntist ég hugarheimi ættingja míns sem er blindaður af kynþáttahatri og sem fór ekki leynt með aðdáun sína á nasisma.  Að hlusta á ræður hans sem barn hafði djúpstæð áhrif á mig.  Öll hans orð virkuðu sem eitur í mínum eyrum og ég skildi ekki hvernig nokkur heilbrigð manneskja gæti hugsað svona.  Þetta mótaði mína réttlætiskennd fyrir lífstíð og gerði mig að jafnaðarmanni og húmanista.  Það er skrítið að segja það - en ég á þessum ættingja mínum því mikið að þakka!

Að lokum langar mig að sýna hér ágæta ræðu Keith Olbermann sem hann flutti nýlega á gala-kvöldverði Human Rights Campaign - þar sem hann fjallar m.a. um hvernig hann lærði að taka það persónulega nærri sér - í hvert skipti sem hann verður vitni að rasisma og hómófóbíu.  Celebrate Diversity! Smile


Lausn á fjárhagsvanda Kalíforníu fundin

Kalíforníu-fylki rambar á barmi gjaldþrots og leitar nú allra leiða til þess að draga úr útgjöldum og skapa tekjur.  Frumvarp hefur verið lagt fram á fylkisþingi Kalíforníu þess efnis að lögleiða og leyfa sölu á Maríjúana ásamt því að skattleggja vöruna.  Töluverðar líkur eru taldar á því að frumvarp þetta nái í gegn og verði að lögum á yfirstandandi þingi.  Líkur eru þó á að dómsmál yrði höfðað og að hæstiréttur yrði að úrskurða um lögmæti slíks gjörnings - en dómur í slíku máli yrði fordæmisgefandi fyrir allt landið.

En lítum nánar á málið - samkvæmt áhugaverðri skýrslu Dr. Jeffrey Miron prófessors við hagfræðideild Harvard háskóla eyða Bandaríkjamenn $12.9 Billjónum árlega í stríðið gegn Maríjúana - 775 þúsund manns voru handteknir fyrir vörslu Maríjúana árið 2007 og tugir þúsunda sátu í fangelsi en kostnaður per fanga er talinn um $20,000. (sjá skýrslur FBI)

Hagnaður af söluskatti á Maríjúana er talinn geta numið allt að $6.7 Billjónum.  Samkvæmt heimildarþætti á MSNBC sem ég sá nýlega - Marijuana, Inc. - kemur fram að Maríjúana ræktun telur um 2/3 af hagkerfi Mendocino-sýslu í Kalíforníu sem eru svipaðar tölur og fyrir kornrækt í Iowa og hveiti-rækt í Kansas!

prohibition.jpgMargir bera efnahagslegan ávinning þess að lögleiða Maríjúana við afnám Bannáranna á þriðja áratug síðustu aldar.  Bent er á að lögleiðing og söluskattur af áfengi vó þungt í að binda endi á Kreppuna miklu árið 1931.  Margir binda nú vonir við að sagan endurtaki sig.

Vert er að benda á að stríðið gegn Maríjúana er löngu tapað í Bandaríkjunum.  Samkvæmt tölum frá National Institute of Health hafa 40% útskriftarnema úr menntaksóla prófað að reykja Maríjúana.  Þá er áætlað að 14.8 milljónir Bandaríkjamanna (5.4% landsmanna) neyti Maríjúana að staðaldri (tölur frá 2006).  Þar sem aðgengi að Maríjúana er svo auðvelt nú þegar er ekki sjálfgefið að lögleiðing og sala undir eftirliti myndi fjölga neytendum verulega þó svo sjálfsagt mætti búast við einhverri aukningu.

Lögleiðing myndi væntanlega líka fækka glæpum tengdum Maríjúana-sölu mjög verulega.  Rétt eins og afnám áfengisbannsins losaði Bandaríkin undan oki gangstera eins og Al Capone á sínum tíma.  Þá yrði öryggi neitenda betur tryggt og eftirlit haft með ræktun og dreifingu rétt eins og með áfengi.

norml_remember_prohibition.jpgAfstaða mín gagnvart lögleiðingu Maríjúana er einungis byggð á þessum efnislegu og praktísku rökum.  Þar fyrir utan má rífast um siðferðilsegu hliðina á þessu - t.d. hvort það eigi að vera sjálfsagður réttur hvers einstaklings að ákveða sjálfur hvað hann lætur ofan í eigin líkama eða hvort ríkið eigi að skipta sér af því.  Ég ætla ekki að leggja mat á skaðsemi Maríjúana neyslu - það er efni í aðra umræðu sem mig skortir þekkingu til að tjá mig mikið um.  Samkvæmt lauslegri athugun sýnist mér þó ýmislegt styðja þá kenningu að Maríjúana sé jafnvel skaðlausara en áfengi - alltént er það ekki líkamlega ávanabindandi, ólíkt alkóhóli, og það hefur enginn látist vegna ofneyslu Maríjúana enda þyrfti að reykja yfir 680 kíló af grasi á innan við 15 mínútum til þess að fá banvæn eitrunaráhrif. (heimild: fræðigrein frá Lyfjafræðideild Hebreska háskólans í Jerúsalem - birt í "Science" 7 águst 1970)  Sömuleiðis virðast engin haldbær rök fyrir því að Maríjúana neysla leiði til neyslu harðari efna - ef svo væri mætti álykta að neytendahópur Maríjúana og harðra efna ætti að vera álíka stór - svo er alls ekki.

Því miður, þrátt fyrir að vera meðvituð um hugsalega skaðsemi, mun mannskeppnan ávallt leita í einhverja óhollustu - hvort sem það er koffein, hvítur sykur, tóbak eða alkóhól.  Því skyldi Maríjúana vera undanskilið?  Og hver veitir okkur móralskan rétt til þess að ákvarða hvað sé leyft og hvað ekki?  Persónulega hef ég ekki áhuga á að neyta Maríjúana - en ég tel mig ekki hafa rétt til þess að dæma sjálfsákvarðanir annara né fordæma þá sem kjósa að neyta Maríjúana hvort sem það er í lækningaskyni eður ey.

img_1612_801156.jpgEr ekki komin tími til þess að slaka á fordómunum sem byggjast að verulegu leiti á vanþekkingu og fölskum áróðri og horfa á þessi mál af yfirivegaðri skynsemi?  Þess má svo geta að sjálfur Barack Obama hefur viðurkennt fúslega að hafa reykt Maríjúana á sínum yngri árum - fæ ekki séð að hann sé stórskaddaður í dag!  Þá virðist þetta ekki aftra fólki frá því að vinna átta gullverðlaun á Ólympíu-leikunum sbr. Michael Phelps.

Verð svo að skjóta því að það var samkynhneigður þingmaður frá San Fransisco og samferðarmaður Harvey Milk - Tom Ammiano - sem hafði hugrekkið til þess að leggja fram umrætt frumvarp.  Annar samkynhneigður öldungardeilarþingmaður, Barney Frank frá Massachusetts undirbýr svipað frumvarp á Federal level - Trust the homos to save the economy! Wink

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.