Svanurinn í Hörpunni (myndband)

Það var dásamleg upplifun að koma í Hörpuna og njóta frábærra tónleika Lúðrasveitarinnar Svansins, sem fagnaði 80 ára stafsafmæli sínu á síðasta ári.

Hljómurinn í Hörpunni er hreint stórkostlegur og hreinir lúðratónarnir umluku mann á alla vegu, ólíkt nokkru sem maður hefur upplifað á Íslandi fyrr og það mátti litlu muna að maður fengi gæsahúð.  Þetta hús, þótt dýrt sé, á eftir að reynast Íslenskri menningu gríðarleg lyftistöng og komandi kynslóðum dýrmæt gersemi.

Það gladdi mitt gamla lúðrasveitarhjarta að sjá svo marga áhorfendur en ég leyfi mér að fullyrða að sjaldan eða aldrei hafi fleiri mætt á lúðrasveitartónleika á Íslandi.  Eldborgin var nánast fullsetin!

Og Svanurinn sveik ekki áhorfendur!  Undir stjórn Brjáns Ingasonar hefur sveitin vaxið og tekið ótrúlegum framförum.  Mikil endurnýjun hefur átt sér stað í sveitinni á undanförnum misserum og fjöldi ungra og stórefnilegra listamanna gera Svaninn að alvöru hljómsveit og svo miklu meiru en við höfum getað búist við af hefðbundinni lúðrasveit, hingað til.  Þessi sveit gerir sko fleira en að spila "Öxar við ána!" Wink

Hápunktur tónleikanna var án efa saxófón-konsertinn Rætur eftir Veigar Margeirsson sem saminn var sérstaklega fyrir saxófón-snillinginn Sigurð Flosason.  Flutningur Sigurðar var hreint magnaður!

Ég gat að lokum ekki stillt mig um að lauma upp símanum og taka upp lokalagið sem var Star Wars syrpa eftir maestro John Williams.  Það er auðvitað ekki hægt að búast við of miklum hljóð-og myndgæðum og þið afsakið vonandi hristinginn... en nokkurnvegin svona hljómar alvöru lúðrasveit! Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.