Fjallið mitt, jarðhiti og gróður-nasisminn

BúrfellÉg heimsótti ættar-óðalið mitt um helgina og virti fyrir mér jörðina mína eins og hver annar stór-greifi.  Það eru sko ekki allir sem eiga þúsund hektara lands og heilt fjall í Grímsnesinu!  Wink   Jæja ok...ég á það nú kannski ekki alveg allt sjálfur...ennþá.  Maður má nú samt gorta sig aðeins og spila sig svoítið stærri en maður er, svona til gamans endrum og eins.

Búrfell (I) í Grímsnesi er staðurinn sem um ræðir, en þar stunduðu afi minn og amma sinn búskap.  Ég ber alltaf frekar sterkar tilfinningar til Búrfells og finnst ég eiga þar mínar rætur og uppruna, þrátt fyrir að ég hafi aldrei búið þar.  Móðir mín var alltaf stolt af landinu sínu og þarna undi hún sér best.  Hún hvílir nú ca. 20 metra frá eldhúsglugganum sínum, í kirkjugarðinum að Búrfelli.  Jörðin er raunar nú í eigu föður míns og móðursystur, en þau hafa hingað til staðist áhlaup "ríku auðmannanna úr Reykjavík" sem vilja ólmir kaupa upp allt land á Suðurlandi undir hrossabúgarða og "frístundabyggðir".  Ekki veit ég hvernig það endar allt saman... en á meðan landið er enn í okkar eigu, held ég áfram að gorta mig af því að eiga heilt fjall. Smile

BúrfellÞarna eigum við góða granna, því næsta jörð fyrir norðan er Efri-Brú, en þar rak Guðmundur nokkur Byrgið sitt í mis-mikilli sátt við Guð og menn.  Nú er svo víst búið að brenna allar veggjatítlur á Efri-Brú og mættur til sögunnar annar Guðmundur með hyskið sitt.  Hárfagur maður líkt og forverinn en ku vera jarðbundnari og minna fyrir sado-masokisma.LoL

Það má svo geta þess að uppi á Búrfellsfjalli er eldgígur og í honum stöðuvatn þar sem finna má stöku silung.  Þjóðsögur herma að göng séu á milli gígsins á Búrfellsfjalli og Kersins í Grímsnesi, og að þar búi nykur, en það er grár hestur sem hófarnir og eyrun snúa öfugt á.  Ef einhver fór á bak nykursins þá hljóp hann með viðkomandi að vatninu í Kerinu eða á Búrfelli og stakk sér til sunds og drekkti þeim sem á baki var.


Búrfellskirkja og hús ömmu minnar

 

 

 

 

 

 

 

 

........

Nesjavallavirkjun - Ég fór í skoðunarferð um jarðvarma-virkjunina á Nesjavöllum í gær og þótti mikið til koma.  Glæsileg mannvirki og stórkostlegt að sjá þessa mikilvægu og óþrjótandi auðlind beislaða til að skapa umhverfisvæna orku. 

Ég var að spjalla við einn prófessorinn minn um jarðvarma-orku í vor og hann var grænn af öfund út í Íslendinga og jafnframt reiður Bandarískum stjórnvöldum og orkugeiranum fyrir að hundsa möguleikann á nýtingu jarðvarma í Bandaríkjunum.  Til eru nokkur jarðvarma-orkuver í Bandaríkjunum, flest í Kalíforníu og í Klettafjöllunum, nálægt Yellowstone hverasvæðinu.  Jarðvarmaorkan sem beisluð er í Bandaríkjunum í dag skapar einungis 0.3% orkubúskapar Bandaríkjanna, en tilfellið er að ef fé yrði lagt í uppbyggingu á fleiri virkjunum væri hæglega hægt að hækka þá tölu uppí 10% á næstu 20 árum, eða um 70,000 MW.  Staðreyndin er nefnilega sú að það er til nóg af háhitasvæðum í Bandaríkjunum sem standa algerlega ónýtt.  Meðfylgjandi kort sýnir svæðin sem um ræðir (í rauðum lit), aðallega í vestur-ríkjunum og Klettafjöllunum.  Einnig er gríðarlegt háhita-svæði á hafsbotni í Mexíkóflóa undan ströndum Texas og Louisiana, þar sem þegar er verið að bora fyrir olíu og gasi.

US Geothermal mapEn Bush stjórnin, í allri sinni visku, hefur tekið þá ákvörðun að leitin að endurnýtanlegum orkugjöfum sé of dýr og óhagkvæm.  Langtíma-stefna Bandaríkjanna í orkumálum er sú að byggja fleiri kjarnorkuver, halda áfram að brenna kolum og jarðgasi, dæla upp olíu í Alaska og breyta matarkistu heimsins (maís-ökrum Miðvesturríkjanna) í Etanól-bruggverksmiðju. 

Ljósi punkturinn er þó sá, að einstaka fylki hafa sett sín eigin lög og markmið í orkumálum sem eru mun framsæknari og gáfulegri en það sem kemur frá Washington DC.  Fylkisþing Minnesota, hefur t.d. samþykkt lög þess efnis að stóru orkufyrirtækin, eins og XCel Energy, verði skyldug til að framleiða 30% af sinni orku sem það selur íbúum Minnesota, með endurnýtanlegum orkugjöfum (t.d. sólar-rafhlöðum, vindmillum, jarðvarma) fyrir árið 2020.

........

Gróður-nasismi

Ég skoðaði mig um á Þingvöllum um helgina og tók eftir því að búið var að rífa upp nokkur stór og gömul barrtré.  Við nánari eftirgrennslan var mér tjáð að til stæði að fella öll barrtré í þjóðgarðinum af því að þetta væru aðflutt og óíslensk tré.  Stefnan er víst sú að allt eigi að líta út eins og um landnám!  Sama gildir um alla þjóðgarða landsins, þar á að rífa upp alla lúpínu, barrtré, Alaska-ösp...allt sem er ekki nógu Íslenskt og þjóðlegt.

Hvaða andskotans framsóknar-rugludallar fundu uppá þessu?  Ég hélt að það væri nú ekki of mikið af trjám og gróðri á þessu landi þó menn færu nú ekki að rífa allt upp með rótum á stórum svæðum.  Endilega setjið svo bara nokkrar rolluskjátur á þetta í leiðinni og búiði til almennileg rofabörð...eitthvað nógu Íslenskt!  Rekiði svo alla helvítis útlendingana í burtu sem voga sér að tjalda í þessum heilögu Íslensku þjóðgörðum í skjóli birkihríslanna!  Varla er svoleiðis hyski velkomið þar enda aðflutt og óíslenskt og hlýtur þarafleiðandi að skemma útsýnið fyrir hreinræktuðum þjóðernissinnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband