Guðrún Ásgerður Halldórsdóttir (9. desember 1937 - 21. apríl 2002)

GuðrúnÍ dag hefði ástkær móðir mín heitin fagnað stór-afmæli hefði hún fengið að lifa - orðið sjötug.

Það er einkennileg tilhugsun...hún var, að mér fannst, alltaf svo ung í anda.  En svona líður tíminn...það eru víst liðin fimm og hálft ár síðan hún skildi við þennan heim.  Hennar en ennþá sárt saknað. 

Þótt tíminn lini sorgina þá nær maður sennilega aldrei að fylla það tómarúm sem myndast þegar maður missir móður sína...allavega var ég það mikill mömmustrákur alla tíð að hennar skarð verður aldrei fyllt í minni tilveru...þó lífið haldi auðvitað áfram.  Einhverntíma sagði ég henni að hún væri "flugmóðurskipið" mitt! Joyful  Hún var ekki alveg með á nótunum hvað ég meinti...en ég útskýrði að það væri alveg sama í hvers konar óveður ég flygi inní, að þegar lágt væri á tönkunum gæti ég alltaf lækkað flugið niður úr skýjunum og stólað á öryggi hennar í hvaða ólgusjó sem er.
Eftir fráfall hennar hefur maður stundum flogið blindflug í gegnum lífið með bilaðan kompás...en yfirleitt hefur minningin um móður mína náð að vísa mér rétta leið heim á endanum eins og sterkur flugradíó-viti.

Móðir mín var af flestum kölluð Dúna.  Hún var sveitastelpa úr Grímsnesinu og "Íslenskari en sviðahaus" að eigin sögn. Smile  Hún giftist föður mínum árið 1962 og starfaði sem skrifstofustúlka hjá Kaupfélagi Árnesinga um nokkurra ára skeið en síðar sá hún um bókhald hjá fyrirtæki föður míns auk þess að starfa sem dagmóðir og "bara heimavinnandi húsmóðir" eftir að ég kom í heiminn.  Stóra ástríðan í lífi hennar var tónlistin.  Á "gamals-aldri" tók hún uppá því að fjárfesta í nýmóðins hljómborðum (electronic synthesizers) og sótti hljómborðs-nám til Reykjavíkur í tíu vetur.  Hún tók að sér að spila í veislum, afmælum og árshátíðum auk þess sem hún var orgel-leikari hjá Oddfellow-reglunni.  Hún var dugleg við að endurnýja tækjakostinn og mátti ég hafa mig allan við að aðstoða hana við að tengja tvö-til þrjú hljómborð í einu við  magnara og tölvu-búnað með midi tengingum svo hún gæti nú tekið upp og "mixað" lögin sín. Smile  Hún naut þess að æfa sig langt fram á nætur og var ekkert að hugsa um svefnfrið okkar pabba né nágrannanna því hún hafði mest gaman af því að opna alla glugga og kveikja á stóra Marshall magnaranum og þrusa léttum danslögum yfir hverfið!  Sem betur fer áttum við góða og skilningsríka granna og aldrei fékk hún kvörtun. Whistling

Sumarið 2001 var ég að ljúka námi í flugrafeindavirkjun (avionics) suður í Tulsa, Oklahoma.  Pabbi hafði heimsótt mig árið áður en mömmu þótti það skelfileg tilhugsun að ferðast til Ameríku.  Henni þótti jafn ólíklegt að hún færi þangað eins og til Tunglsins sagði hún mér einhverntíma.  Pabbi ætlaði að koma og kíkja á mig aftur og á síðustu stundu ákveður mamma að hún skildi drífa sig með, öllum að óvörum!  Þessi mynd var tekin á flugvellinum í Tulsa við komu þeirra.

mammaogpabbiTulsa

Upphaflega stóð til að þau yrðu hjá mér í þrjár vikur, en mömmu líkaði svo vel í Ameríku eftir allt saman að hún þvertók fyrir að fara heim og var hjá mér í tvo og hálfan mánuð! Smile  Ég naut þess að hafa hana hjá mér en við brölluðum ýmislegt og ferðuðumst töluvert, meðal annars um sléttur Oklahoma og Kansas, Ozarka fjöllin í Arkansas, Kléttafjöllin í Colorado og eyðimörkina í Nýju-Mexíkó.  Þá tókum við uppá því eina helgina að leigja glænýjan Lincoln Town-Car og rúlla suður til Dallas með stæl og heimsóttum m.a. Southfork Ranch, ættaróðal Ewing fjölskyldunnar. Cool

mammaDallasCarMamma

Þetta eru mér afar dýrmætar minningar, því þetta áttu eftir að vera okkar síðustu góðu stundir saman. 

Ég fylgdi mömmu heim til Íslands, en þegar þarna var komið hafði ég lokið náminu en var ákveðinn í að halda áfram og ná mér í B.S. gráðu í flugresktrarfræði við sama skóla (Spartan) og því fór ég út aftur 2 vikum síðar.  Það var reyndar merkileg tilviljun að við lentum á Íslandi 10. september 2001.  Morguninn eftir horfðum við á tvíburaturnana falla í beinni útsendingu...tilveran átti svo eftir að hrinja enn meira en það.  Þrátt fyrir breytta veröld og skiljanlegar áhyggjur fjölskyldunnar lét ég atburði 11. september ekki stöðva mig í að fara út aftur...en dvölin reyndist ekki löng í það skiptið.

Tveim vikum eftir að ég var kominn út aftur og byrjaður í nýja náminu fékk ég símhringingu að heiman.  Mamma hafði fengið einhvers konar krampa og við rannsókn fannst illkynja æxli í heila.  Hún vildi ekki að ég kæmi heim en fljótlega kom í ljós að meinið var ólæknandi og henni var tjáð að hún ætti skammt eftir ólifað.  Ég pakkaði saman föggum mínum og tróð í bílinn minn og á afmælisdaginn minn 25. október 2001 keyrði ég yfir hálfa Ameríku, frá Tulsa til Norfolk í Virginíu í einum rykk (20 tíma akstur) og setti bílinn í bát til Íslands og flaug svo heim daginn eftir. 

me&mom-oldpicVið tóku erfiðir tímar... við mamma áttum svo margt eftir ósagt...en sjúkdómurinn rændi hana getunni til að tjá sig.  Æxlið hafði eyðilagt málstöðvarnar í heilanum þannig að hún gat hvorki talað né skrifað svo hægt væri að skilja.  Hún hafði fulla hugsun en ef hún reyndi að segja eða skrifa það sem hún hugsaði kom eitthvað allt annað útúr henni eða á blaðið ...vatnsglas gat komið út sem stóll...útvarp sem ljósastaur.  Fyrst í stað var þetta hálf grátbroslegt og oftast var hægt að af-kóða hvað hún meinti...nafnorðin og mannanöfn voru erfiðust.  Samt gat hún lengi talið upp staðina sem við höfðum ferðast til í Ameríku um sumarið og nefnt þá réttum nöfnum...Santa Fe, Amarillo, Colorado Springs...en síðustu 2-3 mánuðina gat hún varla sagt já og nei...hvað þá talað við okkur um tilfinningar sínar...dauðann...eða kvatt okkur. 

Sumir finna víst Guð sinn þegar þeir horfast í augu við dauðann...ég aftur á móti glataði þarna endanlega trúnni á minn.  En þrátt fyrir að ég trúi ekki á líf eftir dauðann, né að ég eigi eftir að hitta móður mína aftur, þá lifir minningin um hana í hjarta mínu á meðan ég lifi, og sú minning gefur mér styrk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég missti mína móður í janúar á þessu ári. Ég var erlendis (Adak í Alaska) þannig að ferðalagið var langt heim. Því miður náði ég ekki heim áður en hún dó en það voru einmitt minningarnar sem ég yljaði mér við á meðan að ég beið á flugvellinum í Boston. Ég skil vel söknuð þinn.

Heimir Tómasson, 11.12.2007 kl. 18:24

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Þakka ykkur fyrir kommentin

Ég samhryggist þér Heimir, mömmurnar eru dýrmætar og þær lifa með okkur í minningunni. 

Róbert Björnsson, 15.12.2007 kl. 05:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.