1968 og 2008

mccarthyÞað má færa rök fyrir því að bandaríska þjóðin standi í dag að mörgu leiti á svipuðum tímamótum og hún gerði árið 1968.  Ástand þjóðmála árið ´68 voru að mörgu leiti lík og þau eru í dag.  Víetnamstríðið var í algleymingi og hatrömm barátta skildi að stríðsandstæðinga og þá sem töldu nauðsynlegt að sigra stríðið sama hvað það kostaði.  Bandaríkin voru tvístruð.  Unga kynslóðin sem hafði fæðst á velmegunarárum eftirstríðsáranna ("baby boomers") gerði uppreisn gegn gömlum gildum og heimtaði breytingar.  Mannréttindabarátta svartra stóð sem hæst og kvenfrelsishreyfingin fékk byr undir báða vængi.  Fólk sameinaðist um von til þess að jákvæðar og nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar gætu átt sér stað.

mccarthy_windsofchangeMorðin á Robert Kennedy og Martin Luther King höfðu gríðarleg áhrif á þjóðarsálina og Vietnam stríðið hafði gert Lyndon B. Johnson, sitjandi forseta, svo óvinsælann að hann fékk ekki útnefningu Demókrataflokksins til þess að bjóða sig fram til annars kjörtímabils.  Í kjölfarið hófst valdabarátta innan Demókrataflokksins sem átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heimsbyggðina.  Unga kynslóðin sá von í öldungardeildarþingmanni Minnesota, Eugene J. McCarthy, og má segja að það hafi myndast nokkurs konar "Obama mania" í kringum hann.  McCarthy var eini forsetaframbjóðandinn sem var andvígur Víetnam stríðinu og hét því að binda endi á það þegar hann tæki við embætti.  En þrátt fyrir miklar vinsældir og sæta sigra í prófkjörum ákvað flokksmaskína Demókrata að útnefna annan Minnesota-búa, Hubert H. Humphrey sem forsetaefni á flokksþinginu sögufræga í Chicago.  Humphrey var sitjandi varaforseti og fulltrúi gömlu kynslóðarinnar (nokkurs konar Hillary?).  Eftir útnefninguna brutust út miklar óeirðir í Chicago þar sem stuðningsmenn McCarthy´s voru barðir niður af lögreglu.

Það sem gerðist í kjölfarið var að vonin dó.  Unga kynslóðin og stríðsandstæðingar misstu tiltrú á stjórnmálum og lýðræðinu yfir höfuð.  Ungir Demókratar höfðu gefist upp og sátu heima á kjördag í stað þess að kjósa Humphrey sem leiddi til þess að Richard Nixon var kjörinn forseti.  Það sem meira er, þessi kynslóð Demókrata kom í raun aldrei til baka og fimm af næstu sjö forsetum urðu Repúblikanar.

2008

Í dag hefur unga kynslóðin fengið vonina um breytingar á ný.  Bandaríska þjóðin er ennþá tvístruð.  Í raun má segja að það ríki hatrammt stríð milli ólíkra menningarhópa (Culture Wars) þar sem tekist er á um grunngildi.  Barack Obama hefur gefið fólki von um að það sé hægt að binda endi á stríð og áframhaldandi mannréttindabrot, að hægt sé að minnka bilið milli ríkra og fátækra, svartra og hvítra, karla og kvenna.  Það hefur aldrei verið mikilvægara að vonin lifi.  Það er mikið í húfi...fyrir demókrataflokkinn, bandaríkin og heimsbyggðina alla.  Við megum ekki við því að unga kynslóðin missi vonina og hætti þátttöku í stjórnmálum.  Hillary gæti orðið næsti Hubert H. Humphrey.  John McCain gæti orðið næsti Richard Nixon.  Það má ekki gerast!

BoomMig langar að lokum til að benda lesendum á áhugaverða ritgerð Andrew Sullivan, ritstjóra "The Atlantic", um "Why Obama Matters".  Sömuleiðis vil ég benda á nýútkomna og mjög fróðlega bók fjölmiðlamannsins góðkunna Tom Brokaw sem ber nafnið "Boom! Voices of the Sixties: Personal Reflections of the 60´s and Today".  Bókin fjallar að miklu leiti um atburði ársins 1968 og samhljóm við nútímann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband