Framtíðardraumar hrynja - ber enginn ábyrgð?

Nú þegar þessari örlagaviku er að ljúka og hægist aðeins á glundroðanum sem hélt manni dofnum, orðlausum og í einskonar sprengjusjokki út vikuna, sækir að manni reiði og sorg.  Þó maður geri sér enn í raun litla grein fyrir endanlegum afleiðingum "hrunsins" er þegar nokkuð ljóst að veruleikinn er breyttur.  Öll framtíðaráform, allir draumar þúsunda íslendinga eru orðnir að engu, eða í besta falli í algerri óvissu.  Orðspor og mannorð íslendinga er orðið að háði í erlendum fjölmiðlum.  Í gærkvöldi horfði ég til að mynda á Conan O'Brien í Late Night á NBC gera grín að ástandinu á Íslandi...ég reyndi að hlægja en gat það ekki.

Stjórnmálamenn segja nú hver ofan í annan að nú sé ekki rétti tíminn til að leita sökudólga...nú verði "allir að standa saman".  Það þýðir væntanlega á mannamáli að enginn á að svara til saka.  Enginn á að axla ábyrgð á einu eða neinu.  Fólkið í landinu situr uppi með skaðann og fær ekkert réttlæti.

Það ber enginn ábyrgð á því að draumar ungs fólks sem farið hafa utan til að afla sér menntunar séu orðnir að engu.  Að hugsanlega þurfi fleiri tugir eða hundruðir íslenskra námsmanna erlendis að hætta námi og hrekjast heim þar sem fátt bíður þeirra annað en atvinnuleysi og skuldir.   Það ber enginn ábyrgð á því að líf fólks er lagt í rúst.

privategriefNákominn ættingi minn sem nýlega lagðist í helgan stein eftir að hafa verið bankastarfsmaður í yfir 30 ár og hafði skrapað saman í gegnum árin og keypt hlutabréf í bankanum sínum sem öruggan sparnað til efri áranna hefur nú glatað því fé og striti fyrir fullt og allt.  Það ber enginn ábyrgð á því.

Persónulega veit ég ekki hvað verður um mína framtíð.  Það var markmið mitt að skrimta hér í Bandaríkjunum og bíða eftir því að fá í hendur tímabundið atvinnuleyfi sem nemendur eiga rétt á að loknu námi.  Venjulega er um eins árs atvinnuleyfi að ræða en í sumar var lögum breytt í þá átt að þeir sem útskrifast með gráður á tækni, verkfræði og vísindasviðum geta sótt um 17 mánaða framlengingu eða þá samtals 29 mánuði.  Minn draumur var að reyna að nýta mér þetta tækifæri til að öðlast starfsreynslu og hugsanlega að fara svo í doktorsnám í framhaldi af því.  Atvinnuleyfið fæ ég hins vegar að öllum líkindum ekki fyrr en í desember eða janúar og ef ég fer úr landi í millitíðinni dettur umsóknin og dvalarleyfið úr gildi.  Það er ansi erfitt að vita ekki hvort fyrirgreiðsla fáist í hinum nýja íslenska ríkisbanka til þess að brúa þetta tímabil og í raun hvort maður geti greitt húsaleigu um næstu mánaðarmót.  Sem betur fer hef ég fyrir mat og nauðsynjum út mánuðinn en svo kemur í ljós hvort örlögin séu áframhaldandi dvöl í "landi tækifæranna" eða one-way ticket to Iceland.  

Þó svo það væri kannski ekki beint heimsendir fyrir mig að þurfa að flytjast til Íslands...þannig séð...þá hefði það verið ákvörðun sem ég hefði viljað fá að taka sjálfur og undir öðrum kringumstæðum.  Það er óþægileg tilfinning að vita til þess að heimska, vanhæfni og græðgi nokkurra einstaklinga verði til þess að eyðileggja framtíð heillar þjóðar.

Undir þessum kringumstæðum er erfitt að halda tilfinningunum í skefjum.  Vonin þverrar og reiðin vex.  Þó svo ég geri mér fulla grein fyrir því að reiði er tilgangslaus þá er hún einfaldlega eðlilegur hlutur af sorgarferlinu sem allir ganga nú í gegnum og fólk verður að vinna sig í gegnum það.  Auðvitað á ekki að leggjast í nornaveiðar og aftökur en það hlýtur að verða skipuð rannsóknar-þingnefnd (líkt og Senate Hearings hér í US) sem dregur menn (og hugmyndastefnur) til ábyrgðar.  

Varast ber þann blekkingaleik og smjörklípuaðferð að beina reiðinni að Bretum.  Þrátt fyrir óheppilega og sumpart ósanngjarna umfjöllun þeirra bera þeir ekki ábyrgð á hvernig fór.  Leyfum ekki íslenskum stjórnmálamönnum að komast upp með að firra sig ábyrgð með því að kvarta yfir viðbrögðum Breta, sem þrátt fyrir allt voru að vissu leiti skiljanleg.

Einhverntíma styttir upp og bjartsýni og þor taka völdin á ný.  Við verðum reynslunni ríkari.  Breytt gildismat.  Okkar sjálfsvorkunar-væl um brostna drauma og fjárhagsáhyggjur myndi hljóma furðulega í eyrum 90% mannkyns sem býr við alvarlegan skort, mannréttindabrot og ófriðarástand.  Sömuleiðis í eyrum þeirra sem glíma við veikindi og ástvinamissi.  

Fyrir ofdekraða íslendinga er þetta samt afar "hörð lending".


mbl.is Námsmenn erlendis í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir hlýju straumana alla leið frá Filippseyjum!    Þetta reddast...einhvernvegin einhverntíman.  Hvar svo sem við dönsum um næstu jól.

Rétt er það að réttvísin mun víst seint ná til þessara höfðingja... en við getum kannski vonast til að þeirra eigin samviska...hafi þeir einhverja...sjái þeim fyrir refsingu að lokum.

Bestu kveðjur til þín og Engilsins.

Róbert Björnsson, 11.10.2008 kl. 08:38

2 identicon

Fátækasta land í heimi.... Geir er orðin eins og hvítur Mugabe... eða eitthvað...
Þetta er algert fokk sem einhverjir verða að borga fyrir.... :/

DoctorE (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 10:42

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Nicolae Ceauşescu forseti Rúmeníu fékk það sem hann átti skilið á sínum tíma... segi ekki meir.

Róbert Björnsson, 11.10.2008 kl. 19:16

4 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Fyrir ofdekraða íslendinga er þetta samt afar "hörð lending". Þú segir nokkuð. Ég fór til Afríku í sumar og þegar ég sá alla fátæktina þar fannst mér við Íslendingar forrík þjóð, en svei mér þá ég er ekki svo viss núna eftir síðustu aðgerðir framámanna. Það er eitt að vera fátækur, efnislega en að vera spilltur  framagosi er annað.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 12.10.2008 kl. 11:27

5 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ýmsir aðrir hafa nú lagt til þessa fallöxi á Lækjartorgi. Ég myndi leggja til að við settum upp þar gapastokk en raunin er að fólk myndi losa ræningjana úr prísundinni til að þeir komist aftur á stjá.Þá erum við komnir aftur að fallöxinni...

Vonandi gengur allt upp hjá þér Róbert minn. 

Ólafur Þórðarson, 13.10.2008 kl. 03:52

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Við íslendingar erum ákaflega "forgiving" í eðli okkar virðist vera... nú er víst einn af fyrrum yfirmönnum IceSave vitleysunnar kominn í stjórn Nýja Landsbanka og flokkarnir skipta bönkunum á milli sín eins og í gamla daga...týpískt. 

Takk Veffari og sömuleiðis...þetta reddast eins og vanalega!

Róbert Björnsson, 14.10.2008 kl. 07:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband