Persona Non Grata í USA

Kaus í Bandarísku forsetakosningunum árið 2004 – stöðvaður við komuna til Minneapolis og neitað um landgöngu.  Dýrkeypt prakkarastrik og "tæknileg mistök".

"We cherish our democratic process" sagði landamæravörðurinn grafalvarlegur og ég passaði mig á því að bíta í tunguna á mér.

robert_dc3_925450.jpgTilgangur ferðar minnar um síðustu mánaðarmót var að sækja hluta búslóðar minnar sem ég skildi eftir í geymslu þegar ég snéri heim til Íslands í sumar.  Ég dvaldi við nám í Bandaríkjunum í tæp 9 ár og átti mér einskis ills von við komuna til Minneapolis enda búinn að ferðast mörgum sinnum til og frá Bandaríkjunum á undanförnum árum.  Um leið og ég steig út úr vélinni og gekk inn í salinn þar sem vegabréfaskoðunin fer fram, kom vígalegur landamæravörður á móti mér og bað mig um að fylgja sér inn í yfirheyrslu-herbergi.  Það var greinilegt að þeir áttu von á mér. 

Þetta kom mér þó ekki alveg í opna skjöldu því áður en ég lagði af stað hafði ég sótt um ferðaheimild á netinu (ESTA) og fengið neitun.  Ég hélt að það væri sökum þess að þegar ég yfirgaf Bandaríkin hafði mér ljáðst að láta skólann vita svo þeir gætu skráð mig út úr SEVIS tölvukerfinu sem fylgist með erlendum nemendum.  Ég hélt því að ég væri fyrir mistök “out of status” í kerfinu þrátt fyrir að vera með gilda námsmanna-vegabréfsáritun.  Ég fór því í sendiráðið og þeir staðfestu að ég væri enn skráður í SEVIS sem nemandi, svo ég varð að hringja í skólann og leiðrétta það auk þess sem ég þurfti að sækja um almenna ferðamanna-vegabréfsáritun sem ég og fékk og hafði ég því ekki frekari áhyggjur af því máli.  Það hvarflaði ekki að mér að forsetakosningarnar 2004 væru að bíta í rassinn á mér núna, 5 árum síðar, sérstaklega þar sem ég hef ferðast fram og til baka mörgum sinnum vandræðalaust síðan þá.

i_voted.jpgLandamæravörðurinn leit út eins og klipptur út úr klisjukenndri bíómynd.  Þessi stereótýpíska harða lögga sem tekur starfið sitt mjög alvarlega og nýtur þess að horfa á sjálfan sig í speglinum í skothelda vestinu með byssuna í beltinu.  Ég var látinn lyfta hægri hendi og sverja að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann.  Þessu fylgdi að ég ætti rétt á að svara ekki spurningum þeirra en ef að ég segði ósatt gæti það þýtt fimm ára fangelsisvist ellegar $10,000 sekt. 

Því næst tóku við alls kyns furðulegar spurningar sem greinilega voru ætlaðar til þess að gera mig taugaóstyrkan og það virtist fara í skapið á mínum manni að ég skyldi ekki virka hræddur við hann.  Loks kom hann sér að efninu og spurði mig hvort ég hefði nokkurn tíma kosið í Bandarískum kosningum og þarmeð þóst vera Bandarískur ríkisborgari.  Þá var mér fyrst ljóst að ég væri í klandri og að ferðaáætlun mín myndi varla standast úr þessu.

Hvað kom til að ég kaus í Bandarísku forsetakosningunum?

florida-recount.jpgÞegar ég kom fyrst til Bandaríkjanna var Bill Clinton ennþá forseti og lífið var ljúft.  Ég hafði orðið vitni að mikilli hnignun Bandarísks samfélags næstu fjögur árin og stóð ekki á sama um hvert stefndi.  Íraksstríðið var í algleymingi og öfgasinnaðir kristnir hægrimenn háðu menningarstríð með tilheyrandi mannréttindabrotum.  Tilhugsunin um annað kjörtímabil George W. Bush var skelfileg.

Skólafélagar mínir voru virkir meðlimir í “College Democrats” og fengu mig til þess að taka þátt í sjálfboðastarfi fyrir forsetakosningarnar 2004.  Það leiddi meðal annars til þess að ég hitti og tók í spaðann á ekki ómerkari mönnum en Howard Dean, fyrrv. Ríkisstjóra Vermont, forsetaframbjóðenda   og síðar formanns Demókrataflokksins sem og Al Franken nýkjörinum Öldungardeildarþingmanni frá Minnesota.

Stuttu fyrir kosningarnar stungu kunningjar mínir upp á því að ég skyldi mæta á kjörstað og kjósa.  Þeir tjáðu mér að það eina sem ég þyrfti að gera væri að mæta með rafmagnsreikning til þess að sanna búsetu sem og einhver persónuskilríki með mynd.  Til þess dugði skólaskírteinið mitt.

Ég ætlaði varla að trúa því að þetta væri hægt – en svo las ég mér til um það á netinu að þessi galli á kosningakerfinu leiddi til þess að í hverjum kosningum kysu hundruðir þúsunda ólöglegra innflytjenda frá Mexíkó sem og fjöldinn allur af látnu fólki.  Ennfremur kom fram að sjaldan kæmist upp um þá sem kjósa ólöglega og að nánast aldrei væri fólk ákært eða dæmt fyrir kosningasvindl.

i_voted2.jpgMér voru forsetakosningarnar árið 2000 enn í fersku minni sem og skandallinn í Flórída sem leiddi til þess að Bush gat stolið kosningunum.  Hann var að mínu mati ekki réttmætur forseti og það dró úr samviskubitinu yfir því að kjósa.  Ég taldi mér trú um að þeim væri nær að “bjóða upp á þetta” og að það væri m.a. þessu gallaða kosningakerfi að kenna að Bush væri nú forseti.  Ég vissi samt að það væri rangt af mér að mæta á kjörstað – en það var einhver skrítin samblanda af forvitni, spennufíkn, kæruleysi, prakkaraskap og öðrum tilfinningum sem ráku mig áfram.  Mig langaði til þess að komast að því hvort ég kæmist virkilega upp með þetta og hvort eftirlitið með kosningakerfinu væri virkilega svona lélegt.  Ennfremur báru tilfinningarnar mig ofurliði að því leiti að fyrr um daginn hafði ég mætt á kosningafund þar sem myndaðist gríðarleg stemmning.  Hvert einasta atkvæði gæti skipt sköpum um það hvort Bush yrði endurkjörinn og þarmeð var framtíð heimsbyggðarinnar að veði.  Ég lét glepjast í múgæsingnum, mætti á kjörstað með rafmagnsreikninginn minn og kaus John Kerry.  Heimskulegt já - en svo sannarlega áhugaverð upplifun.  Maður lifir ekki nema einu sinni.  Whistling

Kerry vann með yfirburðum í Minnesota en það dugði því miður skammt.

Þegar ég gekk út af kjörstað fékk ég forláta límmiða sem á stóð “I Voted” sem kjósendur áttu að bera á barmi til þess að minna aðra á að fara og kjósa.  Ég á þennan límmiða ennþá og hann er mér kær minjagripur um þá lífsreynslu sem þessi gjörningur átti eftir að valda. 

voter_registration_card.jpgTveim vikum eftir kosningarnar fékk ég svo bréf í pósti frá “Minnesota Secretary of State” þess efnis að ég væri nú skráður kjósandi í Sherburne sýslu og gæti því átt von á að vera kallaður fyrir kviðdóm (Jury duty).  Þetta þótti mér stórmerkilegt en jafnframt svolítið óþægilegt.

Svo leið og beið og ekkert gerðist fyrr en rétt fyrir “sveitarstjórnarkosningarnar” árið 2006.  Þá fékk ég óvænt símtal frá Skerfaranum í Sherburne sýslu og ég var spurður um hvort ég hefði kosið tveim árum fyrr.  Ég þorði ekki annað en að játa brot mitt fúslega og bjóst við hinu versta.  Samkvæmt lagabókstafnum hefði verið hægt að dæma mig í fangelsisvist.  Ég var gráti nær af iðrun í símanum og spurði Skerfarann ráða um hvort ég ætti að pakka niður og yfirgefa landið áður en mér yrði stungið í steininn.  Þá spurði hann mig hvern ég hefði kosið og eftir að ég sagðist hafa kosið Kerry varð hann ósköp kammó og sagði mér að hafa ekki miklar áhyggjur af þessu.  Ég skildi bara vera rólegur og klára námið.  Hann yrði að vísu að senda skýrslu til saksóknara en fullvissaði mig um að það væri ólíklegt að ég yrði kærður auk þess sem játning mín og samstarfsvilji myndi teljast mér til tekna.  Ég andaði því léttar og málið virtist úr sögunni.

voting.jpgEftir að hafa játað að hafa kosið tók við löng bið á flugvellinum á meðan þeir ráðfærðu sig um hvað skyldi gera við mig.  Þeir hringdu í Skerfarann í Sherburne sýslu og komust að því að málið hefði verið látið niður falla á sínum tíma.  Það var því loks ákveðið að ég yrði ekki ákærður enda var mér sagt að refsingin sem hefði getað beðið mín væri sennilega of hörð miðað við alvarleika brotsins.  Eftir sat þó að mér yrði ekki hleypt inn í landið heldur yrði ég sendur heim með næstu vél.  Ef ég vildi snúa aftur til Bandaríkjanna yrði ég að sækja um nýja vegabréfsáritun í Sendiráðinu og fá sérstaka undanþágu.  Ég hef því ekki verið gerður endanlega útlægur frá Bandaríkjunum en það er í sjálfu sér ekkert sjálfgefið að ég fái nýja vegabréfsáritun og ef ég þekki þá rétt mun það kosta mikið skrifræði og fyrirhöfn.

Þegar þarna var komið við sögu stóð eftir eitt vandamál.  Flugvélin var farin og ekki var von á annari Icelandair vél fyrr en tveimur dögum síðar.  Samkvæmt “standard procedure” átti því að ferja mig í St. Paul County Jail, klæða mig í appelsínugulan samfesting og láta mig dúsa þar og iðrast gjörða minna þar til hægt væri að senda mig heim.  Ég var myndaður í bak og fyrir og enn og aftur tóku þeir af mér fingraför, í þetta sinn með bleki á pappír.  Ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér leið á þessum tímapunkti.  Ég var farinn að undirbúa mig andlega undir að verða sendur í jailið og satt að segja þótti mér það hálf fyndið.  Ég sá fyrir mér auglýsingu fyrir þáttaröðina Fangavaktina.  Þetta var orðinn farsi.

pylsur.jpgLoks var mér tjáð að þetta væri “my lucky day” (einmitt það já!) því þeir hefðu ákveðið að þar sem það væri ólíklegt að ég reyndi að flýja, þá yrði mér sleppt inn í landið (paroled) gegn því skilyrði að ég gæfi mig fram fjórum tímum fyrir flug, tveim dögum síðar.  Ég varð hins vegar að skilja töskurnar mínar og ferðatölvuna eftir á flugvellinum og fékk bara að hafa með mér nærföt til skiptanna og tannburstann.  Loks var ég varaður við að láta mér ekki detta það í hug að mæta ekki á settum tíma því annars myndi téður landamæravörður persónulega sjá um að finna mig og þá fyrst væri ég í vondum málum!  Þvínæst þakkaði hann mér fyrir þolinmæðina og samstarfsviljann og gerðist svo biblíulegur og sagði “The Truth will set you free” (Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsan).  Ég verð að viðurkenna að mig langaði að sýna honum fingurinn...en sem betur fer tókst mér að halda aftur af mér.

Sá stutti tími sem ég hafði sem “frjáls maður” í Bandaríkjunum var skrítinn og fljótur að líða en mér tókst þó að sinna mínum helstu erindum, ganga frá dótinu mínu og svo átti ég mína “síðustu kvöldmáltíð” með mínum kæru vinum í St. Cloud.

acf3e41.jpgMér var sýnd fyllsta kurteisi á flugvellinum þegar ég gaf mig fram á tilsettum tíma en satt að segja var frekar óþægilegt að vera leiddur inn í flugvélina í lögreglufylgd eins og ótýndur glæpamaður fyrir framan alla hina farþegana.  Að lokum afhenti landamæravörðurinn yfirflugfreyjunni umslag sem innihélt vegabréfið mitt og öll málsgögn með þeim fyrirmælum að ég mætti fá umslagið þegar við værum komin inn í “alþjóðlega lofthelgi”.

Nú þegar heim er komið er ég varla búinn að átta mig á þessari skringilegu atburðarrás og ég veit eiginlega ekki hvort ég á að hlægja eða gráta.  Þetta er allavega lífsreynsla sem ég mun seint gleyma og maður hefur allavega frá áhugaverðri sögu að segja. Eftir að hafa eytt einum þriðja ævinnar í þessu “landi hinna frjálsu” þykir mér afar vænt um þessa kjána og ég vona svo sannarlega að ég eigi eftir að geta ferðast þangað aftur í framtíðinni.  Þó hef ég satt að segja ekki geð í mér til þess alveg á næstunni eftir þetta ævintýri.

god-bless-america_eagle-flag-liberty_925465.jpgMátti heldur ekki kjósa á Íslandi – Til gamans má geta að ég hef áður átt í vandræðum með forsetakosningar en mér var synjað um að fá að kjósa í mínum fyrstu kosningum á Íslandi á þeim forsendum að ég væri ekki Íslenskur ríkisborgari.  Sjá þá sögu hér. :-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Mikil snilld þessi frásögn.

Jafnaðargeð þitt og háttvísi til fyrirmyndar.

Ég vona samt að þú sért búinn að átta þig á takmarkaðri gæfu þessa skeggs sem prýðir fés þitt á mynd eitt. Ef ekki þá, glæsilegt skegg maður!

Kristinn Theódórsson, 22.10.2009 kl. 23:45

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Hehehe....já skegg hýjungurinn er fokinn.

Takk annars fyrir innlitið - ég sem hélt að við værum báðir hættir að blogga...og þá sérstaklega á moggablogginu... en það getur verið erfitt að þegja til lengdar.

Róbert Björnsson, 23.10.2009 kl. 00:23

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Manni datt strax í hug 1984, þótt það sé að verða hálfgerð klysja. Þannig er það nú samt. Þetta er bara að verða verra og ég held að það eigi eftir að vera verra.  Borgarar eru nú intimideraðir af state troopers um allar trissur og eins gott fyrir alla borgara að gleyma ekki að hafa á sér skilríki í eigin landi, annars eiga þeir á hættu fangelsisvist án dóms og laga.

Það er gott að þú ert kominn heim heilu og höldnu.  Þú getur sennilega þakkað stillingu þinni og jafnaðargeði fyrir.  (ekki Talibanaskegginu þó hehe)

Þetta er að sjálfsögðu alger nauðgun og það hyllir undir það að við komumst á sama level innan skamms. Heimur versnandi fer.

Ég vona að þetta trufli ekki möguleika þína til frekara náms þarna. Ofsóknaræðið er þó komið á þann level að enginn getur verið öruggur með neitt úr þessari átt. 

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 01:58

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lagið í lokin er stórkostlegt og súmmerar þetta algerlega upp.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 02:00

5 identicon

Gaman ad thessu.  Getur madur athugad upp á grín hvort madur er svartlistadur á ESTA?

Meyvant (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 07:44

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Jón Steinar:  Long time no see!   Jú, kannski var það talibana-skeggið sem gerði útslagið hehe.  Það er vonandi að Bandarískur almenningur sé öruggari fyrir vikið og gott að vita að svona "stórhættulegir glæpónar" séu gripnir glóðvolgir á flugvellinum... þeir hjá DHS eru greinilega að vinna vinnuna sína...erhem...

Ég ætti auðvitað að dauðskammast mín fyrir að hafa kosið...og ekki borið tilskylda virðingu fyrir þeirra dýrmæta "democratic process"...en mér þóttu þetta nú full barnalega ýkt viðbrögð ef ég á að segja alveg eins og er.  En hvað getur maður sagt?  

En já talandi um "big brother"...las það í héraðsfréttablaðinu Dagskránni að nú á að setja upp eftirlitsmyndavélar við veginn hjá Hveragerði til þess að lögreglan geti fylgst með "óæskilegum mannaferðum" inn í bæinn.  Ég ætlaði varla að trúa eigin augum hehe.

Meyvant:  gjörðu svo vel  https://esta.cbp.dhs.gov

Róbert Björnsson, 23.10.2009 kl. 09:00

7 Smámynd: Snorri Bergz

Spurning hvort við ættum ekki að stofna félag Íslendinga sem eru persona non grata í USA?

Snorri Bergz, 23.10.2009 kl. 09:52

8 identicon

það er nú svo skrítið að landamæragæslan í MN er útúr korti miðað við t.d. Boston. Maður er spurður útí eitt þegar maður kemur til MN um tilgang ferðarinnar, af hverju maður fari ekki til Las Vegas frekar, hvað maður ætli að eyða miklu, af hverju maður fara ekki til Las Vegas frekar, hvert maður ætli, hvernig o.s.frv, og svo loks aftur, hvers vegna maður fari ekki til Las Vegas frekar.

Í Boston er það meira 'Welcome to the land of the free, enjoy your stay'

Magnús (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 13:10

9 identicon

Jæja Róbert, þú ættir alla vegana að vera ánægður með núverandi forseta Bandaríkjanna.  Obama hefur nú hafið skipulagt undanhald vegna sóknar óvina Bandaríkjanna. 

Hann mun komast í sögubækurnar sem sú forseti sem breytti Bandaríkunum úr risaveldi í meðal stórveldi á borð við Íran eða Indónesíu.  Þetta ætti að gleðja marga.

Til að orða þetta í stuttu máli, að þá er Obama það sama og Gorbasjof var fyrir Sovétríkin.

 Sammála Magnúsi hér fyrir ofan.  Hef lent í þessu sama.  Fór til Boston með fjölskyldu mína 2007 og var boðinn meira en velkomin.  Fór til Las Vegas 2008 og millilenti í Minneapolis.  Við fjölskyldan vorum stoppuð þar og spurð spjörunum út úr eins og t.d. af hverju að miðarnir fyrir krakkana voru ekki keyptir samtímis miðum okkur hjónanna, o.s.frv.

Björn G. Jónasson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 13:27

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Afbragðs saga.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.10.2009 kl. 16:12

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já, svo heiðra þeir náttúrlega stjórnarskrána og mannréttindin, með að segja:"You have the right to remain silent..." En ef þú gerir það, þá verður þú settur inn í óskilgreindan tíma.

Þeir hafa engan rétt á að spyrja fólk um hagi þess og ferðir og fólk hefur rétt á að segja: "Non of your business." En þá hefur það verra af.

Ekki ósvipuð uppbygging og hugmyndafræði kirkjunnar. Promise and punishment. Submit or die.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 17:26

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Submit or burn...var það.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 17:27

13 Smámynd: Ægir

Snilldarsaga!!! vonandi bloggarðu meira Róbert.

Ægir , 23.10.2009 kl. 17:40

14 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Skemmtileg frásögn en hún réttlætir ekki það sem þú gerðir. Umræðan um kosningasvindl í Afganistan er enn of fersk í minni.

Ragnhildur Kolka, 23.10.2009 kl. 18:24

15 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Takk annars fyrir innlitið - ég sem hélt að við værum báðir hættir að blogga...og þá sérstaklega á moggablogginu... en það getur verið erfitt að þegja til lengdar.

Já, ég skeit alveg á mig maður. En það er enginn búinn að stríða mér út af því.

Það er gaman að tjá sig, jafnvel þó maður sé með þráhyggju um ákveðin málefni eins og ég ;-)

Kristinn Theódórsson, 23.10.2009 kl. 18:34

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eftirlitsmanían er annars afsprengi alþjóðavæðingarinnar. Nú er þjóðin orðin svo paranojuð eftir gllæpaöldu útlendinga að hún hrópar á þetta. Þetta á svo bara eftir að versna með inngöngu í evrópubandalagið og ekki langt að bíða þar til önnur samskipti og verðir verða mónitoruð.

Þetta er taktíkin. Ekki þröngva frelsisskerðingunni upp á fólk, heldur hræða það nægilega til að það biðji um skerðinguna. USA er ansi gott dæmi um þetta og raunar Bretland líka.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 18:57

17 identicon

Byrjaði að lesa þetta hugsandi "við hverju býst fólk eiginlega..?!!!" en sé að þú hefur gert þér grein fyrir hvað þetta var mikið rugl og iðrast þess sem þú átt virkilega að gera.  Kosningasvindl er aldrei hægt að afsaka, þó að það snúist um að George Bush komist ekki til valda!

Kæruleysi eins og að skrá sig ekki út úr hinum og þessum kerfum eins og reglur gera ráð fyrir er líka algert glapræði þegar USA er annars vegar.  Kemur fólki alltaf í koll seinna, oft löngu seinna, því hlutirnir eru svo lengi á leiðinni í gegnum kerfið þarna.

Vona þín vegna að mál þitt verði endurskoðað þannig að þú fáir að fara aftur til USA, en þú getur alveg lent í því að svo verði ekki, a.m.k. næstu árin.

Whatsername (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 19:18

18 identicon

Þú ert nú meiri stórglæpamaðurinn.. hefðir hreinlega getað breytt sögu USA :)

DoctorE (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 20:50

19 Smámynd: Heimir Tómasson

Sæll Róbert minn. Meira klandrið á þér alltaf :-)

Heimir Tómasson, 23.10.2009 kl. 22:05

20 identicon

Greatest democracy in the world?

Not.

Hrafnkell (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 22:37

21 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir kommentin öll - afgreiðast þau nú í réttri röð

Snorri:  Endilega...förum svo í hópferð til Kúbu!  Hvað gerðir þú af þér til þess að verðskulda non grata titilinn?  

Magnús:  Já, þetta var reyndar í fyrsta og eina skiptið sem ég lendi í einhverju veseni við komuna á MSP...hef að vísu verið spurður spjörunum úr en alltaf á kurteisu nótunum.   Okkur erlendu nemunum í skólanum mínum var hinsvegar ráðlagt að fara ALDREI í gegnum Detroit.

Björn:  Já, að sjálfsögðu er ég ánægður með núverandi Commander in Chief þó svo maður sé orðinn svolítið óþolinmóður eftir að hann efni öll loforðin.  Skipulagt undanhald segirðu... nú er að vísu mikið rætt um "surge" í Afganistan og Pakistanarnir eru loksins farnir að skipta sér af Talibönunum.   Þú líkir Obama við Gorba karlinn... voru þeir þá ekki báðir "victims of circumstance"?  Sovét hefði fallið óháð því hvort Gorbi sæti í Kreml.   Ef veldi Bandaríkjanna hningnar á næstu árum eins og ýmislegt bendir nú til (skuldastaðan, dollarinn etc.) þá fullyrði ég að það verði ekki Obama að kenna heldur fyrri stjórn sem setti upp þetta fail.   Sama má raunar segja um aumingja Jóku og Skallagrím og Icesave...not their fault but they gotta take the heat.

Sigurður:  Takk fyrir það.

Jón Steinar:  aldrei var mér tjáð að ég ætti rétt á lögfræðingi...ekki frekar en greyjunum í Guantanamo.

Ægir:  Takk kærlega 

Ragnhildur Kolka:  Alveg rétt hjá þér...ég reyni ekki að réttlæta þetta - segi bara söguna eins og hún var.   Ég sá á bloggsíðu þinni að þú virðist vera aðdáandi Ann Coulter...sú hefði nú aldeilis tjúllast út í mig blessunin.

Kristinn: dittó

Whatsername:  Rugl...jamm...iðrun...jú ætli það ekki....kæruleysi...það er kvart-bauninn í mér...ligeglað    Fari svo að mér sé ekki afturkvæmt er það svosem enginn heimsendir - ég hef ekki komið til meginlands Evrópu í 13 ár og kannski kominn tími á að skoða "the rest of the world" nú þegar maður hefur þegar flakkað um 38 af 50 fylkjum Brandararíkjanna og lokið sínum erindum þar í bili.  

DoctorE:  Seggðu!  þessir trúleysingjar sko

Heimir:  Æi já...það sem maður kemur sér ekki í hehe.  Maður verður jú að reyna að hafa gaman af þessu...til þess er leikurinn gerður.

Hrafnkell:  Það má vissulega deila um það...allavega mættu þeir endurskoða kosninga systemið sitt áður en þeir senda eftirlitsmenn til Afganistans...segi nú bara svona.  

Róbert Björnsson, 24.10.2009 kl. 01:53

22 identicon

Afslöppud spurning í léttum dúr og útúrdúr (sennilega eina 7 stafa íslenska ordid med 3ur úum):  Eitthvad sem thú keyptir í USA í thessari ferd...thá meina ég saelgaeti sem thú naerd ekki í á klakanum.  Eitthvad sérstakt í uppáhaldi hjá their?

Meyvant (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 14:16

23 identicon

thér?

Meyvant (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 14:18

24 Smámynd: Róbert Björnsson

Nei satt að segja finnst mér íslenskst (og pólskt) sælgæti almennt mun betra en hið Ameríska - allt súkkulaði frá Hershey´s finnst mér t.d. óætt.

Það eina sem ég keypti mér í þetta skiptið var forláta græja til þess að umbreyta gömlum 8 mm vídeóspólum yfir á stafrænt form.

Róbert Björnsson, 24.10.2009 kl. 16:40

25 identicon

Já...einmitt..ég hafdi Hershey's í huga thegar ég skrifadi thetta.  Hershey's drops eru algerlega óaetir...hvílíkur vidbjódur. 

Thad sem er svo undarlegt med thetta land samkeppninnar ad thar séu svo margar vonlausar vörur sem margir virdast thó kaupa...t.d. thetta vonlausa súkkuladi ´Hershey's, Bud bjór, bílarnir, junk foodid...og sennilega maetti lengi telja.

meyvant (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 16:53

26 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk fyrir þessa frábæru frásögn. Sorglegt hvernig komið er fyrir Bandaríkjunum, minnir sannarlega á sovétríkin sálugu.

Hörður Þórðarson, 25.10.2009 kl. 09:56

27 identicon

Haha, þvílík reynsla. Hefur örugglega ekki verið gaman.

Ég get gefið þér 2 góðar þegar ég var böstaður af security í Bretlandi. Það var nú bara fyndið miðað við þetta, svona eins og Monty-Python útgáfan af þinni reynslu.

Annað skiptið var 1988. Þar var ég á ferð með Guðmundi vini mínum og fundum við gistingu á penion (sem reyndar var eitt sinn herragarður) í Holland Park.

Í lobbýinu fengum við sængurföt og var bent á hvar húsið stóð, það var í garðinum. Við gengum út, það var dimmur desemberdagur. Nema hvað, við fundum hliðið inn í garðinn, en ekki inn á stykkið þar sem húsið stóð. 

Eftir allnokkra snúninga vorum við engu nær. Og allt í einu fengum við skæra ljóskeilu í andlitið og hrópað var: "YOU THERE: FREEZE!!!!".

Guðmundur vinur minn skilur ekki ensku svo að hann labbaði áfram þar til ég gat stoppað hann. Sem betur fer vorum við ekki í Ammríku, annars hefði kallinn sennilega verið gataður.

Þetta var 2ja metra svertíngi með halógen ljós og kylfu, og hann byrjaði á að ásaka okkur um að brjótast inn í garðinn. Eftir töluvert japl og jaml komst hann þó að því að við værum sennilega meinlausir, enda með innkaupapoka og sængurföt meðferðis. Hann fylgdi okkur til baka í lobbýið sem þýddi að við þurftum að klifra yfir girðingu, því ekki vildi kallinn viðurkenna að við hefðum fundið opið hlið. Í lobbýinu átti svo að staðfesta að við værum gestir, og vísa okkur veginn, en það tók langan tíma. Afgreiðslustúlkan var búin að tapa kærastanum (dömp), og þurfti vörðurinn að hugga hana heillengi áður en hún gat komið upp or'i, en allt fór þetta vel.

Sem viðbót við þetta, þá vorum við morguninn eftir í morgunmat og horfðum á fréttir BBC. Þar kom frétt um það að yfir 60% eggja í Bretlandi væru sýkt af Salmonellu, og nema hvað, við vorum að gúffa í okkur spæleggjum!!!

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 12:25

28 identicon

Í þessarri ferð höfðum við reyndar áður lent á æsilegum lótta undan löggunni í Hamborg, og náð að komast undan á hlaupum og svo með jarðlest. En það er efni í annan pistil, og tæpt prenthæfan, hehe.

Stuttu seinna var ég svo tekinn af óeinkennisklæddri löggu í Osló, - í misgripum fyrir liðhlaupa. Drepfyndið eftir á, og leystist vel. Enn önnur saga.

En hitt security dæmið hjá mér var í London 1997. Ég var á leið til Þýskalands og fór yfir London, undir Ermasund, frá París og til Frankfurt, síðar Saarbrucken. Nema hvað, að ég var á leiðinni í verknám nálægt Saarbrucken, en þekkti ekki fólkið,svo ég tók millistopp hjá vinkonu minni nálægt Frankfurt, sem glöð hýsti mig. Hún var með reiðskóla, og sem greiða hafði ég meðferðis íslenskan varning, fleiri ganga af skeifum (skaflajárn) og 5 lítra brúsa af fóðurlýsi.

Nema hvað, að í Eurostar (Ermasundslestin) tékkinu er allt skoðað, og þetta þótti grunsamlegur farangur í gegnumlýsingu.  Aftur varð ég að eiga við 2ja metra svertíngja, sem tók mig til hliðar með farangurinn, og fóru samræður okkar fram ca á eftirfarandi hátt: (S=security, J=Jég)

S : Our detectors show a suspicious baggage and a lot of metal, could you please tell us what is in your bag!

J : That's simple, it's horse-shoes and cod-liver oil.

S : Say WHAT?

J : Horse-shoes and Cod-liver oil. It's shoes for horses hoofs and oil for nutritional value.

S : Open the bag please!

J : Here you go!

Maðurinn var furðu lostinn, enda enginn venjulegur farangur á ferð. Hann tók up skeifupokana (Vallarskeifa, Hvolsvelli) og sýndi furðulostnum starfsfélögum sínum. Svo kom að lýsinu.

S : Would you open this cannister, I need to check what's in it.

J : Sure. Be cautious, it has a bit of a bad smell.

S : I have to check, let me have it.

Svo þefaði kallinn rækilega úr brúsanum. Og það kom hryllilegur ógeðs-svipur á hann, hann rétti mér brúsann í snarhasti og sagði : "Please take that away and pack and carry on as soon as possible".

Hehe. Þetta var bara fyndið í heildina. 

Komst nú reyndar í hann mun krappari 1995 þegar ég lokaðist inni í "túristagildru" í París, og eins það ár í Luxemburg, þegar ég átti fótum fjör að launa, - en þá var ekki verið að eiga við blessaða löggæsluna, heldur þvert á móti

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 12:48

29 identicon

Gaman ad thessu, Jón Logi....bíd spenntur eftir hinum sögunum.

meyvant (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 13:26

30 identicon

Eda réttara sagt: Gaman af thessu

meyvant (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 13:34

31 Smámynd: Róbert Björnsson

Meyvant:  Já, hvort sem það eru bílar eða súkkulaði þá hefur það sannast að kapítalisminn skilar oft ekki bestu vörunum sem fólkið vill kaupa - heldur þeim ódýrustu í framleiðslu.  Einn geimfaranna sem lentu á tunglinu var spurður hvað hann hefði hugsað á leiðinni og svarið var á þá leið að hann hefði mikið hugsað um það að hver einasti hlutur í geimfarinu hefði verið hannaður og smíðaður af "the lowest bidder".

Hörður:  Já, því miður minnir skriffinsku-æðið og paranoijan í þessu post 911 lögregluríki bara á gamla Sovét.  Það er allavega lítið skárra.  Sorglegt að þegnar þessa "frjálsa lands" skuli hafa múrað sig inni í fangelsi óttans.

Jón Logi:  Frábærar sögur!  Svona vesen gerir ferðalögin jú bara eftirminnilegri.

Róbert Björnsson, 25.10.2009 kl. 15:25

32 Smámynd: Snorri Bergz

Sælir Róbert, missti aðeins úr. Ég bloggaði um USA reynsluna á sínum tíma, 19. og 20. mars 2007. (gerðist 2002).

Hér er amk linkur á færslur 1 og 2.

 http://hvala.blog.is/blog/hvala/entry/151065/

Snorri Bergz, 26.10.2009 kl. 13:48

33 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir þetta Snorri - skemmtileg saga.  

Róbert Björnsson, 26.10.2009 kl. 17:02

34 Smámynd: Snorri Bergz

Ja, ekki fyrir mig :)

Snorri Bergz, 26.10.2009 kl. 20:04

35 identicon

Taladi ekki íslendingur vid thig ensku í heitapottinum, Snorri?  Gydingar grýta thig, arabar grýta thig,  kanar fangelsa thig og landsmenn tala vid thig ensku......hvar endar thetta? 

Meyvant (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 19:06

36 Smámynd: Heimir Tómasson

Í Færeyjum Meyvant.... í Færeyjum.

Og veistu hvað... okkur væri víðast hvar hvergi betur komið.

Heimir Tómasson, 28.10.2009 kl. 06:35

37 Smámynd: Snorri Bergz

Sammála Heimi. Færeyjar eru lausnin! Ég ætla að taka upp nafnið Sjúrður frá Stóra-Hvelli.

Snorri Bergz, 30.10.2009 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband