Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Sumarið og pólitíkin

Politics-essenceMér gafst ekki færi á að fylgjast vel með pólitíkinni og kosningunum á Íslandi sökum anna við próflestur en nú eru prófin loksins yfirstaðin og þá er kannski ekki úr vegi að fara aðeins yfir stöðuna. 

Ég get reyndar ekki sagt að ég hafi mjög mikinn áhuga á íslenskri pólitík því hún er alltof litlaus og leiðinleg fyrir minn smekk.  Það vantar allan kraft og eldmóð í þetta.  Það berst enginn fyrir hugsjónum sínum lengur, heldur einungis eiginhagmunapoti.  Það litla sem ég sá af kosningabaráttunni...ef baráttu skildi kalla...var ótrúlega "lame" að mínu mati og lítið um alvöru málefnalegar umræður.  Ég gat í rauninni ekki fundið út um hvað var verið að kjósa í raun og veru.  Stefnuskrár allra flokkanna voru keimlíkar og baráttumálin þynntust út á lokasprettinum.  Af hverju voru t.d. Evrópusambandsmálin ekki rædd af alvöru?

Að vísu er ég mjög feginn því að baráttan er ekki eins hatrömm og pólaríséruð og hún er hér í Ameríkunni.  Málin eru líka sem betur fer smærri og auðveldari.  Það er ekki verið að ræða um áframhaldandi stríðsrekstur, lög sem heimila ótakmarkað vald ríkisins til að stunda persónunjósnir, réttindi til byssueignar, einkavæðingu almannatrygginga (social security), stórfelldan niðurskurð til menntamála, félags- og heilbrigðismála, sem og hatrammar umræður um fóstureyðingar, réttindi samkynhneigðra, þróunarkenningu Darwins, og hvort hnattræn hlýnun er raunveruleg eða bara hrikaleg samsæriskenning vinstrimanna með þann tilgang að hamla áframhaldi hagvexti og gróða olíufyrirtækjanna.

Það má sem betur fer segja að allir þingflokkar og langflestir þingmenn séu í grundvallaratriðum sammála um að á Íslandi sé ekki pláss fyrir öfgasinnaðan hægriflokk þó svo Frjálslyndi flokkurinn hafi verið að gæla við slíkar kenndir með útlendingastefnu sinni.  Eini hægri flokkurinn á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, er þrátt fyrir allt (sem betur fer) mildur jafnaðarflokkur inn við beinið.  Það er þess vegna alltaf grátbroslegt að hlusta á íslenska íhaldsmenn og "Sjalla" lýsa því yfir að þeir styðji Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum... af því þeir eru sko alvöru íhaldsmenn!   Flestir þeirra hafa auðvitað ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala því þeir þekkja ekki nægilega vel til bandarískra stjórnmála...en að bera Sjálfstæðisflokkinn saman við Repúblikanaflokkinn er bara fáránlegt.  Í raun er Demókrataflokkurinn að mörgu leiti til hægri við Sjálfstæðisflokkinn íslenska þegar á heildina er litið.

talking politicsVarðandi úrslit kosninganna, varð ég satt að segja ákaflega hissa.  Ég átti fastlega von á því að stjórnin félli og annað hvort tæki kaffibandalagið við, eða þá að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin tækju við (sem getur reyndar ennþá gerst).  Ég óttast reyndar, fyrir hönd Samfylkingarinnar, að ef hún gangi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn þýði það að hennar bíði sömu örlög og Framsóknarflokksins.   Fylgið myndi örugglega hrynja og sennilega myndi flokkurinn í framhaldinu klofna og annað hvort gengi helmingurinn til liðs við VG eða stofnaður yrði annar Þjóðvaki fyrir rest.

Kannski það væri því bara best að núverandi stjórn sitji áfram, þangað til hún springur eftir eitt eða tvö ár og þá yrði boðað til annarra kosninga þar sem vinstrimenn fengju hugsanlega annan séns til að meika það.

Annars veit ég ekki hvað eiginlega þarf til að Íslendingar krefjist alvöru breytinga.  Þeir eru í eðli sínu alltof húsbóndahollir og hlýðnir.  Þeir hafa í gegnum tíðina vanist því að láta kúga sig og arðræna sig og kunna ekki að lifa við annað.  Fyrir hundrað árum átu þeir danskt maðkamjöl og skreið.  Í dag borga þeir framsóknarbönkunum glaðir í bragði 21% yfirdráttarvexti svo þeir hafi efni á að éta sínar tvísköttuðu og tollvernduðu ríkis-rollur.  Verði þeim að góðu.

Aðal skandall kosninganna (fyrir utan úrslitin) var sá að það kom í ljós hversu meingallað kjördæmakerfið er.  Þetta kerfi er engan veginn boðlegt og að mínu mati á að gera landið strax að einu kjördæmi og hætta þessu rugli með uppbótarþingmenn.  Það er firra að nokkur utankjörstaðaratkvæði á Ísafirði komi af stað keðjuverkun sem gjörbreytir þingmannastöðunni í Reykjavík.  Og er ekki eitthvað bogið við það að flokkur með 27% fylgi í einu kjördæmi fái 5 þingmenn kjörna á meðan flokkur með 36% fylgi fær bara 4?   Þar fyrir utan er 5% reglan algjörlega út í hött.  Íslandshreyfingin hefði með réttu átt að fá 2 menn kjörna og það hefði breytt öllu.  Verulega fúlt.

ElectionsHinn stóri skandallinn var þáttur DHL hraðflutningafyrirtækisins í ógildingu fleiri tuga utankjörfundaratkvæða.  Ég veit ekki hvort mitt aktvæði komst heilt til skila, en það er verulega fúlt að borga $50 dollara í hraðsendingarkostnað fyrir slíka þjónustu!  Margir þurftu líka að leggja á sig langt ferðalag með ærnum tilkostnaði til þess að hitta sinn konsúl.  Að heyra svo að atkvæðin hafi verið ógild, er svívirðilegt.

Það áttu margir erfitt með að skilja það hvernig bandaríkjamenn fóru að því að endurkjósa George W. Bush sem forseta árið 2004.   "Heimskir kanar" heyrði maður hrópað víða... ekki ætla ég að andmæla því.  En það eru greinilega fleiri heimskir en Bandaríkjamenn þegar það kemur að kosningum!  Frown


Skál fyrir því!

Falwell & FalwellÞá er þetta viðurstyggilega úrþvætti og "sorry excuse for a human being" loksins dautt og byrjað að rotna, þó fyrr hefði verið. 

Jerry trúði heitt á tilvist helvítis og Þó ég sé ekki trúaður, þá vona ég í dag svo sannarlega að hann hafi rétt fyrir sér og helvíti sé til.  Megi Jerry Falwell kveljast þar til eilífðarnóns í góðum félagsskap trúbræðra sinna.

Ég ætlaði raunar að skrifa lengri minningargrein um karl ræfilinn...en eftir að hafa rent færslunni í gegnum fúkyrðaflaumsfilterinn þá stóð hreinlega ekkert eftir.   


mbl.is Jerry Falwell látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sean Penn

Var í stuði hjá Bill Maher um helgina.  Hann hafði þetta að segja um þau George Tenet, Condoleezu Rice, Dick Cheney og George W. Bush...

 

Amen brother!  Wink


Dennis Kucinich

Af hverju er þessi maður ekki forseti Bandaríkjanna?


Bush hótar að beita neitunarvaldi - Ofbeldi gegn samkynhneigðum OK

Bush heart RoveFulltrúadeild Bandaríska þingsins samþykkti í dag breytingu á lögum um "hate crimes" eða glæpi sem rekja má til haturs á minnihlutahópum.  "Haturs-glæpa" lögin gera það að verkum að líkamsárásir og morð sem framin eru vegna kynþáttar, litarhátts, þjóðernis eða trúar fórnarlambsins eru rannsökuð af alríkislögreglunni og sótt til saka af alríkis-saksóknara.  Oft eru dómar vegna alríkis-glæpa harðari og dvölin í alríkisfangelsum erfiðari og eru lögin því hugsuð sem fælingar-tæki gegn haturs-glæpum sem hafa farið fjölgandi á síðustu árum.

Í dag samþykkti þingið með 237 atkvæðum gegn 180 að bæta kynhneigð á listann yfir þá minnihlutahópa sem falla eiga undir haturs-glæpa lögin.  Öldungardeildin mun taka málið upp fljótlega og er búist við að breytingartillagan verði sömuleiðis samþykkt þar, en frumvarpið var upphaflega sett fram af gamla brýninu Ted Kennedy þingmanni Massachusetts og co-sponsoruð af þeim Hillary Clinton og Barrack Obama. 

Þess má geta að samkvæmt tölum frá FBI voru 1,406 ofbeldisglæpir sem flokkast myndu sem haturs-glæpir vegna kynhneigðar tilkynntir árið 2004, en það er um 15% af öllum haturs-glæpum sem rannsakaðir voru það árið.

Grand Moff BushRepúblikanar eru hins vegar mjög ósáttir við að kynhneigð verði bætt á listann yfir hópa sem vernda þarf gegn haturs-glæpum og í tilkynningu frá Hvíta Húsinu í kvöld kom fram að George W. Bush myndi beita neitunarvaldi gegn slíkri breytingu.  Það yrði einungis í þriðja skiptið í forsetatíð Bush sem hann beitir neitunarvaldinu og sýnir því hversu málið er honum mikilvækt.  (sjá frétt CNN)

Andstæðingar frumvarpsins halda því fram að það myndi hefta málfrelsi presta og trúarleiðtoga og geri þeim erfiðara fyrir að mæla gegn samkynhneigð. Harry Jackson, biskup Hope Christian Church í Lanham, Maryland sagði: "We believe that this legislation will criminalize our freedom of speech and our ability to preach the gospel."

Justice and Liberty for SomeÞessi rök eru fáránleg í ljósi þess að lögin taka einungis á ofbeldisglæpum og hafa ekkert með skert málfrelsi að gera.  Það segir meira að segja í lögunum beinum orðum "Nothing in this Act, or the amendments made by this Act, shall be construed to prohibit any expressive conduct protected from legal prohibition by, or any activities protected by the free speech or free exercise clauses of, the First Amendment to the Constitution."  Sem þýðir að Fred Phelps, Pat Robertson, Jerry Falwell og félagar geta haldið áfram að breiða út sinn hatursáróður svo lengi sem þeir hvetji ekki til ofbeldisverka með beinum hætti. 

Endilega kíkið á þessa síðu  http://www.hatecrime.org/subpages/hatespeech/hate.html  og lesið hvað þessir "guðs-menn" láta út úr sér.  Sérstaklega bendi ég á orð Pat Robertson þar sem hann líkir samkynhneigðum við nasista (líkt og Sr. Geir Waage gerði í kastljósþætti nýlega) og orð Dr. Paul Cameron, fyrrverandi sálfræðings sem varð síðan útskúfaður af fræðasamfélaginu: "Unless we get medically lucky, in three or four years, one of the options discussed will be the extermination of homosexuals." Þess má geta að Jón Valur Jensson hefur vitnað beint í "rannsóknir" Dr. Cameron í greinum sínum sem og rannsóknir "The Family Research Council" sem byggja sömuleiðis á fræðum Dr. Camerons.

Hatursglæpir eru raunverulegt og alvarlegt vandamál, bæði hér í Bandaríkjunum sem og annars staðar í heiminum.  Ofbeldið snýr ekki eingöngu gegn sjálfu fórnarlambinu heldur líka gegn þeim hópi sem einstaklingurinn tilheyrir.  Sjálfur þekki ég til fólks sem hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar hér í bandaríkjunum.  Mér varð sömuleiðis illa brugðið í fyrra þegar framin voru skemmdarverk á bílnum mínum skömmu eftir að ég hafði sett lítinn límmiða frá Human Rights Campaign á stuðarann.  Ég hafði skroppið út í búð að kvöldi til og þegar ég kom út var bíllinn útataður í eggjum og búið að rispa lakkið og brjóta afturljósið þeim megin sem límmiðinn var og er.

Matt ShepardOftast eru þessi ofbeldisverk fyrst og fremst ætluð til þess að senda skilaboð til samfélagsins og til þess að vekja upp ótta hjá stórum hópi fólks.  Það er óskiljanlegt, sorglegt og kaldhæðnislegt að það séu oftast menn sem þykjast tala í nafni Guðs sem vekja upp þetta hatur meðal fólks.  Það kemur sannarlega úr hörðustu og ósvífnustu átt.

Að lokum langar mig að benda á vefsíðu Matthew Shepard Foundation sem og miður smekklegri "minningarsíðu" um Shepard sem haldið er úti af Westboro Baptist Church í Topeka, Kansas.


George Lucas hjá Conan O´Brien

Conan O´Brien hefur verið í San Francisco þessa viku og aðalgestur hans á þriðjudaginn var enginn annar en meistari George Lucas og að sjálfsögðu er viðtalið nú komið á youtube.  Síðar í mánuðinum verða liðin 30 ár frá frumsýningu fyrstu Star Wars myndarinnar og í tilefni af því mun ég halda á mikla afmælishátíð í Los Angeles eins og lesa má um hér

Conan kíkti líka á Skywalker Ranch og hitti liðið hjá Industrial Light & Magic.


Seperate but equal

marriageÞað hefur mikið verið rætt og rifist um málefni þjóðkirkjunnar og samkynhneigðra á bloggvefjum að undanförnu.  Vegna anna hef ég ekki getað tekinn mikinn þátt í þeirri umræðu en get þó ekki annað en lagt smá orð í belg nú þegar tími gefst til.  Ég hef nokkrum sinnum átt í orðaskiptum við hinn sjálfskipaða vörð kristinna gilda, Jón Val Jensson, og haft gaman af (hann er svo sexy þegar hann æsir sig þessi elska LoL) en hann fékk leið á mér og mínum óþægilegu kommentum og lokaði fyrir fleiri færslur frá mér.  Fýlupúki.

Varðandi blessuðu þjóðkirkjuna og þá krísu sem hún á í þessa dagana, þá held ég að hennar aðal-vandamál sé það að hún er ríkisrekin.  Það dettur engum í hug að þvinga Gunnar í Krossinum til að gefa saman homma og lesbíur.  En samkvæmt stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins er ríkisreknum stofnunum (sem og öðrum) óheimilt að mismuna fólki (og neita um þjónustu) á grundvelli kynhneigðar.  Í eðli sínu er þjóðkirkjan stofnun sem ber skylda til að veita borgurum ýmsa þjónustu.  (því allir landsmenn borga brúsann...hvort sem þeir eru trúaðir eður ey...gay eða straight)  Flestir landsmenn leita þangað til að gleðjast yfir hefðbundnum tímamótum í lífi barna sinna, svo og giftingum og loks til að minnast látinna ættingja og vina...ekki bara vegna trúarinnar, heldur vegna hefðarinnar og þess að kirkjurnar eru hentugir samkomustaðir fyrir fjölskyldur og vini, sem og samfélagið allt.  Það geta því fáir sloppið við það að þurfa að mæta í kirkju, nokkrum sinnum á lífsleiðinni, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

marriage1Auðvitað á ekki að þvinga trúfélög til þess að gera neitt sem þeim er á móti skapi og þau eiga að ráða sínum málum sjálf.  Að sama skapi á Alþingi að sjálfsögðu að leyfa trúfélögum að gefa saman samkynhneigða.  Þá geta þau trúfélög sem það kjósa (t.d. Fríkirkjan í Reykjavík og Ásatrúarfélagið) gert það en jafnframt væru hin trúfélögin á engann hátt þvinguð til þess.  Vissulega myndi skapast veruleg pressa á þjóðkirkjuna, því innan hennar starfa margir skynsamir og velviljaðir prestar, sem ekki túlka biblíuna á jafn þröngan hátt og Svartstakkarnir, og mikill meirihluti sóknarbarna þjóðkirkjunnar er fylgjandi því að samkynhneigðir fái þar notið sömu þjónustu og aðrir. 

Nú er ég ekki trúaður og myndi ekki kæra mig um kirkju-giftingu ef ég skyldi nú einhverntíma finna hinn eina rétta, en svo lengi sem ríkið er að borga ótalda milljarða á ári til að halda uppi kirkju-batteríinu, finnst mér að allir ættu þar heimtingu á sömu þjónustu. 

gay marriageMargir hafa velt því fyrir sér hvort hugtakið "staðfest samvist" sé í raun það sama og "gifting".  Svarið er nei, ekki á meðan orðalagið er svona og ekki á meðan trúfélög hafa ekki rétt til að gefa saman samkynheigð pör.  Krafa samkynhneigðra hér í bandaríkjunum er ekki "domestic partnership" eða "civil union"...heldur "marriage".  No more, no less.  Á meðan það er kallað eitthvað annað, þá er það "seperate but equal".  Frasi sem táknar "jafnrétti en aðskilnað"...líka þekkt sem "Apartheit". 

Einhver bloggari spurði um daginn af hverju samkynhneigðir væru alltaf að troða sér þangað sem þeir væru óvelkomnir, og nú meira að segja inn í heilaga kirkju.   Svarið er kannski það að það er ekki svo langt síðan samkynhneigðir voru óvelkomnir alls staðar.  Þau mannréttindi sem samkynhneigðir búa við í dag á Íslandi, komu alls ekki af sjálfu sér og víða þurfti að troða sér inn þar sem fólk var ekki velkomið áður.  Hér í bandaríkjunum sér maður ekki lengur skilti á veitingahúsum, skemmtistöðum, skólum, opinberum byggingum og kirkjum sem segja "Whites Only".  Það er ekki vegna þess að svertingjar hafi allt í einu verið velkomnir (eru það reyndar víða ekki enn í dag), heldur vegna þess að fólk neitaði að láta koma fram við sig eins og annars flokks borgara vegna fordóma.

bush-gay-marriage"Kristnir" menn hafa í gegnum aldirnar reynt að réttlæta misrétti, kvennakúgun og þrælahald með tilvitnunum í biblíuna.  Á síðustu öld risu konur upp og kröfðust jafnréttis og frelsis.  Sama gerðu blökkumenn.  Í dag eru það samkynhneigðir.   Það er sorglegt að fólk reyni enn þann dag í dag að fela fáfræði sína og mannhatur í skjóli biblíunnar.  Þó ég sé ekki trúaður hef ég þó lesið biblíuna og fékk ekki betur séð en að skilaboð Jésús Krists hefðu verið ást og umburðarlyndi til handa öllum mönnum (og konum).  Eru þessir "sann-kristnu" því ekki að misskilja frelsara sinn all verulega?

Hér er að lokum áhugavert myndband um stöðu mála í baráttunni fyrir "hinsegin hjónaböndum" hér í bandaríkjunum.


A Bit of Fry and Laurie

Rakst á þetta yndislega sketch með félögunum Stephen Fry og Hugh Laurie (Dr. House).  Með fullri virðingu fyrir Amerískum húmor, þá er það virkilega nærandi fyrir andann að fá smá skammt af fágaðri breskri kómík, from time to time.   Því miður hefur kaninn bara almennt ekki jafn gott vald á enskri tungu eins og tjallinn...með nokkrum undantekningum þó, sbr. George Carlin.

 


Megamollið

mall_of_americaÉg lét mig hafa það að hætta mér inn í Mall of America um daginn.  Þangað fer ég helst ekki ótilneyddur, en ég fékk til mín góða gesti frá Íslandi og þau langaði að sjálfsögðu til að bera þetta fyrirbæri augum.

Það er sorgleg staðreynd að þessi stærsta verslunarmiðstöð í Bandaríkjunum er mest sótta "túrista attractsjónið" í Minnesota, en árlega sækja þangað 40 milljónir gesta.  Eftir að Icelandair hóf að fljúga á Minneapolis hefur mollið orðið vinsæll áfangastaður kaupglaðra íslendinga sem mæta gráðugir með Visakortið sitt til þess að gera góð kaup á meðan gengið á dollarnum er hagstætt.  Flestir þessara íslendinga koma hingað í helgarferðir og gefa sér því miður aldrei tíma til að skoða neitt annað sem Minnesota og tvíburaborgirnar Minneapolis og St. Paul hafa að bjóða og fara því á mis við mikið.  Þar fyrir utan gera þeir nú ekkert sérstaklega góð kaup í mollinu því þar er allt mikið dýrara en í sérverslununum sem finna má annars staðar, til dæmis í stóra "factory outlet" verslunarkjarnanum í Albertville, rétt fyrir utan Minneapolis.  Þar er verðlagið að jafnaði 20-30% ódýrara en í megamollinu.

mall_of_america2Það má alveg reikna með heilum degi í ferð í mollið og eins gott að vera á góðum gönguskóm því gólfflöturinn eru heilir 390,000 m² á fjórum hæðum.  Sé maður ekki í verslunarhugleiðingum getur verið gaman að kíkja í sædýrasafnið í kjallaranum, eða fara í rússíbanaferð í Camp Snoopy skemmtigarðinum í miðjunni og gæða sér svo á rækjurétti á Bubba Gump Shrimp (tilvísun í Forrest Gump myndina) eða grilluðu BBQ svínarifi á Tony Roma´s.

Nú stendur til að stækka mollið um helming því í ljós kom að búið var að byggja stærra moll í Kanada og í Kína og því búið að ræna Mall of America titlinum um stærsta moll í heimi...það gengur auðvitað ekki. 

Það má til gamans geta þess að kvikmyndin "Jingle All The Way" með Arnaldi Schwarzenegger og Jake Lloyd (sem síðar öðlaðist frægð sem Anakin Skywalker í The Phantom Menace) í aðalhlutverkum, var tekin upp í Mall of America og á götum Minneapolis.


Baráttudagur verkalýðsins

may 1Það fer ekki mikið fyrir hátíðahöldum í dag hér vestra í tilefni dagsins.  Kúgaður almúginn mætir bara í vinnuna sína í Wal-Mart eins og alla aðra daga og vinnur fyrir sínum 7 dollurum á tímann enda hollara að vera ekki með neitt væl um bætt kjör því það er brottrekstrarsök að skipuleggja stéttarfélag.  Níutíu prósent starfsfólks Wal-Mart vinnur reyndar bara 75% vinnu því þá þarf fyrirtækið ekki að útvega því heilsu-tryggingu, lífeyrirssjóð, launað sumarfrí eða neitt annað slíkt sósíalískt bruðl.

Í rúman áratug var það fastur liður hjá mér á 1. maí að mæta í rauðum lúðrasveitarbúning á samkomu komma og krata sem haldin var á Hótel Selfossi ár hvert.  Þar blés ég Internasjónallan af öllum mætti í lúðurinn minn við góðar undirtektir.  Allir risu úr sætum og sungu með hástöfum eins og væri verið að leika þjóðsönginn.  Ekki var síður sungið hástöfum með Maístjörnunni og Sjá roðann í austri!

Ég hafði yfirleitt bara nokkuð gaman af þessu þó ræðurnar væru margar langar og leiðinlegar, en það sem hélt manni gangandi voru kaffiveitingarnar sem bornar voru fram í lok dagskrárinnar.  Það skorti aldrei á kræsingarnar...rúllutertur og brauðtertur, kleinur, flatkökur með hangikjöti og rjómapönnukökur.  Þetta voru laun erfiðisins og allir sáttir.

Með árunum urðu þessar samkomur þó alltaf fámennari og íburðarminni.  Mestmegnis mætti alltaf sama fólkið á þessar samkomur, flestir eldri borgarar.  Það var hálf raunarlegt að finna hvað krafturinn og eldmóðurinn dvínaði með hverju ári sem leið.  Ræðurnar urðu styttri og tónninn í þeim áberandi lægri.  Undir það síðasta voru ekki nema um 10 hræður sem sungu hástöfum með Nallanum og stemmningin fór úr því að kalla fram einlægan samhug í það að verða hálf uppgerðarleg.  Það var eins og fólk væri frekar að mæta af gömlum vana og til þess að fá eitthvað gott með kaffinu.

maydayEkki veit ég hverju um er að kenna.  Kannski var hið svokallaða góðæri orðið svo mikið að fólki fannst ekki lengur taka því að koma saman og kyrja baráttumarsa.  Eða kannski var það fall Berlínarmúrsins og dauði kommúnismans sem varð þess valdandi að fólk varð svona dauft. 

Ég veit satt að segja ekki hvort þessar samkomur séu ennþá við lýði eða hvort þær hafi lagst alveg af síðan ég hætti í lúðrasveitinni og rauðu eldri borgararnir týndu tölunni.  Hvað sem því líður þá er ekki hægt annað en að minnast þessara daga með ákveðnum söknuði og maður veltir því fyrir sér hversu langt sé í það að 1. maí verði ekki einu sinni lengur almennur frídagur á Íslandi.  Hversu langt er í það að 1. maí verði svipaður á Íslandi og hér í Bandaríkjunum?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband