Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Bloggið situr á hakanum

Hér hefur lítið verið bloggað undanfarnar vikur og bið ég bloggvini nær og fjær afsökunar á því, sérstaklega ykkur 14 sem kíkið hérna við á hverjum degi þrátt fyrir að sjá aldrei neitt nýtt! Wink   Skýringin á bloggletinni er aðallega tilkomin út af skóla-stressi, en það er í mörg horn að líta svona á síðasta sprettinum.   Væntanlega verður lítil aukning á blogg afköstum mínum á allra næstu vikum, nema sérstakar ástæður/málefni gefi tilefni til.

Þar sem ég var búinn að lofa nokkrum frænkum mínum reglulegum updeitum af högum mínum og velferð, þá tilkynnist það hér með að ég hef það annars bara alveg með ágætum, er enn í góðum og sívaxandi holdum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þökk sé hinu heilnæma Ameríska mataræði (egg, beikon og pönnukökur á morgnana, hormóna-borgarar með kransæðakremi í hádeginu og KFC á kvöldin! Tounge).   Hér er ég reyndar svosem ekki nema meðalmaður að stærð og fell vel inn í hópinn enn sem komið er...en það er hætt við að maður verði strappður niður og sendur á Reykjalund þegar maður kemur aftur til íslands...í gastric bypass og lyposuction áður en maður fær passa sem gildur þjóðfélagsþegn!  Den tid, den sorg.

Lamp of KnowledgeMyndin hér að neðan var annars tekin í síðustu viku á svokölluðu "Student Research Colloquium" sem er samkunda þar sem nemendur kynna rannsóknarverkefni sín fyrir gestum og gangandi.  Vinstra megin á myndinni er Robert nafni minn og umsjónar-prófessor, þá ég, og síðhærða horringlan hægra megin er Patrick vinur minn sem ég fékk lánaðann úr grunn-náminu í flugdeildinni til að aðstoða mig við verkefnið.  Þessir kanar eru svo glysgjarnir að þeir ákváðu að hengja svokallaðar "akademískar medalíur" um hálsinn á okkur í virðingarskyni fyrir þátttökuna.  Við eigum víst að bera þessar medalíur í útskriftar-seremóníunni, en þær eru skreyttar með hinu forna tákni mennta sem kallast "Academic Lamp of Knowledge".  Ekki safna ég medalíum í frjálsum íþróttum úr þessu, þannig að þessi kemur sér bara vel. Wink  

Verkefnið okkar, sem var könnun á möguleikum þess að nýta jarðvarma til að koma í veg fyrir ísingu og létta snjóruðning á flugbrautum, er svo líka komið í loka-umferð í hönnunarsamkeppni sem við tókum þátt í á vegum bandarísku flugmálastofnunarinnar, FAA.  Það kemur síðan í ljós í byrjun júní hvernig það fer, en ef við fáum eitt af þremur efstu sætunum þar, yrði okkur boðið til að halda fyrirlestur á ráðstefnu American Association of Airport Executives í New Orleans...sem væri náttúrulega stuð.

 SRC


John Adams

John_Adams_Presidential_DollarUndanfarin sunnudagskvöld hef ég verið límdur við imbakassann til að fylgjast með frábærri nýrri míní-seríu á HBO kapalstöðinni sem fjallar um lífshlaup annars forseta og eins af stofnendum (Founding Fathers) Bandaríkjanna, John Adams. 

Það sem gerir þessa þætti áhugaverða er hversu vel er vandað til verks en framleiðendur eru þeir sömu og gerðu "Band of Brothers" þættina vinsælu og executive producer er enginn annar en sjálfur Tom Hanks.  Þættirnir eru gerðir eftir metsölubók Pulitzer verðlaunahafans David McCullough og mikið er lagt í að gera þættina sem raunverulegasta, bæði hvað varðar leikmyndina og persónusköpun.

Þættirnir hefjast í Boston árið 1775 þegar sauð upp úr samskiptum Breta og íbúa Massachusetts nýlendunnar og sýna í framhaldinu hvernig John Adams átti stóran þátt í að sameina hin upprunalegu 13 fylki bandaríkjanna sem lýstu svo yfir sjálfstæði og fóru í stríð við Breta.  Þættirnir fylgjast svo með Adams í för hans til Evrópu þar sem gerði mikilvæga samninga við Frakka og síðar Breta og Hollendinga.  Þá er því líst hvernig hann varð fyrsti varaforseti bandaríkjanna (undir George Washington) og síðar annar forseti hins nýstofnaða lýðveldis.

Paul Giamatti (Sideways) fer á kostum í hlutverki Adams og Laura Linney sömuleiðis í hlutverki Abigail konu hans.  Stephen Dillane brillerar sem Thomas Jefferson og sömu sögu má segja um David Morse og Tom Wilkinson í hlutverkum George Washington og Ben Franklin.

Það sem gerir það að verkum að þessir þættir eiga erindi við okkur í dag er sú staðreynd að núverandi ríkisstjórn bandaríkjanna hefur traðkað á þeim gildum sem "the Founding Fathers" hugsuðu sér við stofnun bandaríkjanna og ekki síst sjálfri stjórnarskránni sem allir bandaríkjamenn líta á sem heilagt plagg.  Thomas Jefferson sem samdi sjálfstæðisyfirlýsingunna og stóran hluta stjórnarskrárinnar myndi snúa sér við í gröfinni ef hann vissi hvernig málum er háttað í dag. 

Enginn sem hefur áhuga á sögu bandaríkjanna ætti að láta þessa þætti framhjá sér fara en væntanlega koma þeir út á DVD innan skamms auk þess sem "óprúttnir náungar" geta eflaust fundið þá á torrentum internetsins.   Hér er að lokum þáttur um gerð "John Adams" míní-seríunnar.


Delta/NWA...ekki nýjar fréttir

northwest-airlines-n544us_442516

Að gefnu tilefni endurbirti ég nú þessa færslu mína frá 21. febrúar s.l. 

Viðræður virðast á lokastigi um samruna tveggja af elstu og stærstu flugfélögum Bandaríkjanna, Delta og North West Airlines.  Búist er við tilkynningu á allra næstu dögum um hvort samningar náist en í augnablikinu virðist málið geta strandað á því hvort samkomulag náist við stéttarfélög flugmanna beggja flugfélagana.

Ef af samrunanum verður mun nýja flugfélagið verða stærsta flugfélag í heimi með um 85 þúsund starfsmenn, þar af um 12 þúsund flugmenn.  Í dag er Delta þriðja stærsta flugfélag í heiminum á eftir American og United en NWA er í fimmta sæti.  Mikið liggur á að ganga frá sameiningunni áður en ný stjórn kemst í Hvíta Húsið því samruninn verður að fá samþykki þingnefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins sem úrsurðar um það hvort hann stenst samkeppnislög.  Menn telja að auðveldara reynist að koma málinu í gegn á meðan að "pro big business" Repúblikanar sitja við völd.

Það sem gerir samþykki samkeppnisyfirvalda líklegra er sú staðreynd að leiðarkerfi flugfélaganna tveggja skarast tiltölulega lítið og þar af leiðandi yrði ekki um einokun á leiðum að ræða.  Samt búast menn við að þessi aukna samþjöppun á markaðinum muni skila sér í hærri fargjöldum.  Markaðssvæði Delta hefur að mestu verið á austurströndinni og suðurríkjunum sem og yfir Atlantshafið til Evrópu á meðan leiðakerfi NWA hefur fókusað á norðanverð miðríkin, vesturströndina og Kyrrahafsmarkaðinn til Asíu.  Hið nýja markaðssvæði yrði því gríðarlega umfangsmikið.

Delta757Hið nýja félag myndi að öllum líkindum halda nafni Delta þar sem það er þekktara "brand name" og sömuleiðis yrðu höfuðstöðvar nýs fyrirtækis í Atlanta (heimavelli Delta) og forstjóri Delta, Richard Anderson (sem áður var raunar forstjóri NWA), yrði forstjóri hins nýja sameinaða félags.  Þrátt fyrir þetta leggja menn áherslu á að þetta sé ekki yfirtaka Delta á NWA heldur sameining.

Bæði félög hafa staðið illa fjárhagslega um langt skeið og er talið að sameining sé eina leiðin fyrir fyrirtækin til þess að snúa við blaðinu og skila hagstæðum rekstri í framtíðinni.  Bæði félögin hafa svarið við sárt enni að ekki muni koma til stórfelldra uppsagna í kjölfar samrunans en þó er ljóst að töluverðar tilfæringar eru líklegar í hagræðingarskyni. 

Hér í Minnesota hafa menn miklar áhyggjur af glötuðum störfum því höfuðstöðvar NWA eru staðsettar í Minneapolis og þar starfa nú yfir 1000 manns en samtals er starfsfólk NWA í Minnesota um 12 þúsund talsins og er fyrirtækið því einn stærsti vinnuveitandi í fylkinu. Fyrir utan starfsfólk í höfuðstöðvunum hafa flugvirkjar áhyggjur af því að viðhaldsstöð NWA í Minneapolis yrði lögð niður.  Tim Pawlenty ríkisstjóri (R) og Amy Klobuchar öldungardeildarþingmaður (D) standa í ströngu til þess að tryggja að sem fæst störf færist frá Minnesota og virðist vera búið að tryggja að Minneapolis flugvöllur verði áfram "Hub" fyrir hið nýja flugfélag og því verði áframhaldandi flugsamgöngur í Minnesota tryggðar.  Jim Oberstar formaður samgöngumálanefndar fulltrúaþingsins (Demókrati frá Minnesota) hefur þó laggst þungt gegn fyrirhugaðri samþjöppun og hefur miklar áhyggjur af því að hún þýði minna framboð, hærri fargjöld og færri störf.

A330HeavyMaintenance_NorthwestNúverandi "Hubbar" eða aðal-skiptiflugvellir NWA eru Minneapolis, Detroit og Memphis á meðan Atlanta, Cincinatti og JFK sinna því hlutverki hjá Delta.  Talað er um að mesti samdrátturinn muni eiga sér stað í Memphis og Cincinatti.  Sumir benda þó á að ef hið nýja flugfélag muni einbeita sér að stærri mörkuðum muni það opna aðgang lággjaldaflugfélaga að minni mörkuðunum og það komi til með að koma einhverjum til góða.

Það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu en það hlýtur að verða hrein martröð hjá stjórnendum að sjá um tæknilega útfærslu sameiningarinnar.  Það er ekki lítið mál að sameina ólíkan starfsmanna "kúltúr" hjá svo stóru fyrirtæki, að ég tali nú ekki um tölvukerfi og annað.  Ef ég væri yfirmaður flugrekstrar eða viðhaldsmála hjá hinu nýja fyrirtæki ætti ég a.m.k. erfitt með svefn.  Eitt af því sem á eftir að vera áhyggjuefni er sú staðreynd að núverandi flugflotar Delta og NWA eru gjörólíkir sem þýðir mikinn viðbótarkostnað varðandi viðhald og þjálfun áhafna.  Delta flýgur einungis Boeing vélum (737-800, 757, 767 og 777) á meðan floti NWA er mjög blandaður (Airbus A320, A330, B757, B747 auk hátt í 90 gamalla DC-9 og MD-80 varíanta sem til stendur að skipta út á næstu misserum fyrir A320 eða Embraer 190.  Þá staðfesti NWA nýverið pöntun á 30 splunkunýjum 787 Dreamliners. 


mbl.is Rætt um sameiningu Delta og Northwest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lá við stórslysi í Minneapolis

AA frozen wingAmerican Airlines kyrrsetur ekki MD-80 flotann sinn af ástæðulausu, enda fylgir þessum aðgerðum gríðarlegur kostnaður.  Samkvæmt frétt CNN (smellið hér) lá við stórslysi í Minneapolis í desember síðastliðnum þegar nefhjól MD-80 vélar AA fór ekki upp og við það bilaði afísingarbúnaður með þeim afleiðingum að ís hlóðst upp á vængi og stél vélarinnar sem og á framrúðuna.

Sam Meyer flugstjóri segir frá því að eftir flugtak frá MSP í miklum kulda og ísingu hafi nefhjólið ekki farið upp og stuttu seinna hafi hann heyrt mikinn hvell og allir fengið mikla hellu fyrir eyrun, en þá var ljóst að loftþrýstingur hafði fallið í vélinni.  Fljótlega fór ís að myndast á framrúðu vélarinnar en eftir vel heppnaða nauðlendingu fékk flugsjórinn áfall þegar hann sá hversu mikill ís hafði hlaðist upp á vélinni og líkti henni við íspinna.  Litlu hefur munað að vélin yrði ísingunni að bráð og í raun merkilegt að vélin skuli ekki hafa ofrisið í lendingunni.

Smellið hér til að sjá viðtalið við kaftein Meyer

Samkvæmt American Airlines hafa 23 atvik vegna bilunar í nefhjóli verið skráð frá nóvember til febrúar, en á móti kemur að AA starfrækir 1200 flug með MD-80 vélum á hverjum degi, svo í því samhengi er bilanahlutfallið etv. ekki hátt...og þó.

Nú er sjálfsagt mikið fjör í aðal viðhaldsstöð American Airlines sem er staðsett í Tulsa í Oklahoma.  Sjálfur var ég svo lánsamur að komast í ýtarlega skoðunarferð um viðhaldsstöðina á meðan ég var í avionics náminu í Spartan.  Þetta er stærsti (og fjölmennasti) vinnustaðurinn í Tulsa og tilkomumikið að koma þarna inn.  Ætli maður væri ekki bara að vinna þarna ef maður hefði nú haft atvinnuleyfi á sínum tíma. Crying

tul-aa


mbl.is Þúsund flugferðum aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Doh!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband