Yfirgef Ísland á ný – hasta la vista, baby!

Eftir tæplega þriggja ára viðdvöl á Íslandi er nú aftur komið að því að leggjast í Víking og herja á nýjar slóðir eftir nýjum tækifærum og ævintýrum.  Í næsta mánuði flyt ég til hjarta Evrópu, Lúxemborgar, þar sem smérið drýpur af hverju strái.

Ég ákvað að grípa gæsina þegar mér bauðst starf (Maintenance Programs & Reliability Engineer) hjá hinu fornfræga og íslensk-ættaða flugfélagi Cargolux.   Það verður spennandi áskorun og einstækt tækifæri til að vaxa faglega og taka þátt í metnaðargjarnri uppbyggingu hjá framsæknu fyrirtæki sem er leiðandi í heiminum á sínu sviði.   Cargolux er þessa dagana að endurnýja flugflota sinn og er nýbúið að taka við heimsins fyrstu Boeing 747-8F flugvélunum sem er nýjasta útfærslan á gömlu góðu „Júmbó-bumbunni“ eða „Drottningu háloftanna“.  Nýja „áttan“ er fimm og hálfum metra lengri en -400 týpan, ber allt að 29 tonnum meira og nýjir vængir og hreyflar gera hana allt að 16% sparneytnari.   Sem áreiðanleikasérfræðingur mun ég vinna mjög náið með verkfræðingum Boeing sem fylgjast grannt með „performance“ og öllum hugsanlegum byrjunarörðugleikum, bilunum og viðhaldsgögnum.

 

Það verður með miklum söknuði sem ég kveð frábæra félaga og kollega hjá Air Atlanta í bili – en þessi bransi er lítill og aldrei að vita hvenær/hvar við sjáumst aftur. Þá á ég auðvitað eftir að sakna góðra vina, ættingja, Lúðrasveitarinnar Svans...og íslenskrar náttúru.

En nokkurra hluta reikna ég ekki með að sakna:

• Íslenskrar stjórnmála-umræðu/menningar – vanhæfs Alþingis.

• „Djöfulsins snillinga“ sem búa sig nú undir að taka við stjórnartaumunum á ný eftir að hafa talið þjóðinni trú um að hið „svokallaða hrun“ hafi bara verið misskilningur sem enginn ber ábyrgð á.

• Íslensku krónunnar

• Verðtryggingarinnar

• Verðsamráðs, neyslustýringar, okurs og skattpíningar

• Íslenskra fjármálastofnanna

• Íslensks réttarkerfis

• Íslensks menntakerfis

• Íslenskrar ríkis-kirkju og varðhunda hennar

• LÍÚ og bændamafíunnar

• Útvarps Sögu og valinkunnra ofstækisfullra og „þjóðhollra“ Mogga-bloggara haldna ýmsum komplexum

• Þjóðrembu og ótta við útlendinga og erlent samstarf

• Idjóta sem láta sérhagsmunaklíkur blekkja og heilaþvo sig til hlýðni

• Gillzenegger-væðingar

• Heilbrigðis-og tryggingakerfis sem greiðir „skinkum“ fyrir nýja sílíkon-púða í tútturnar á sér á sama tíma og þeir neita að taka þátt í að greiða fyrir handa-ágræðslu Guðmundar Grétarssonar.

Og svo mætti svosem lengi, lengi telja...en því í ósköpunum að ergja sig á því fyrst maður er svo gott sem „sloppinn“? Whistling

En þetta eru kannski hlutir sem þeir sem eftir sitja geta velt fyrir sér þegar allt unga og menntaða fólkið sem hefur tækifæri til að komast burt er farið?  Kannski þarf einhverju að breyta hérna?   Eða hvað?   Það er svosem sem ég sjái það.   Og kannski er bara „landhreinsun“ af okkur „landráðamönnunum“ sem svíkjum íslensku sauðkindina og fjallkonuna og stingum af til illa óvina-heimsveldisins ESB?  Ísland er jú, hefur alltaf verið og mun áfram verða, „bezt í heimi!“. Pinch


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sæll Róber

Vegni þér vel í Mosel-landinu. Meðal íbúa sem verða að umbera ólíka nágrana og tala fjölmörg tungumál. Það er söknuður að þínum líkum, mönnum sem sjá hlutina í samhengi. Mönnum sem sjá fyrir sér að með samvinnu í Evrópu megi verða friðvænlegt um mörg ókomin ár. Flugævintýrið í Lúxemborg byrjar með djörfum ungum mönnum sem komu með nýja sýn og ferðamenn. Eignamyndun Íslendinga í flugævintýrinu í Lúxemborg hefði mátt vera meiri en án banka í baklandinu er ekki mikils að vænta. Flugþátturinn sýnir að við getum náð árangri. Margir óttast að Íslendingar einangrist í heimóttarlegri þröngsýni og nái ekki tökum á sínum málum. Það er alltaf blóðtaka þegar ungir menn fara erlendis til langdvalar. Vonandi er sá ótti ástæðulaus. Upptalning þín hér að framan á fyllilega rétt á sér. Án spurninga verða engar framfarir. Bíð eftir pistlum úr landi vínþrúganna.

Sigurður Antonsson, 11.1.2012 kl. 22:49

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

Þetta er frábær upptalning. Til hamingju með nýja starfið.. glæsilegt hjá þér og megi allt "fljúga" þér í haginn.

Atli Hermannsson., 12.1.2012 kl. 00:17

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir góðar kveðjur Sigurður og Atli! :)

Róbert Björnsson, 12.1.2012 kl. 10:37

4 identicon

Nei er þetta ekki Róbert, litli bróðir Halldórs. Blessaður, það er aldeilis að menn eru orðnir sprengmentaðir (og kjaftforir )

Þessar Bóeing bumbur eru eitthvað annað en smávélafokkið á okkur Dóra.

Raunar sammála ýmsu í þessari upptalningu á þó erfitt með að átta mig á þessu með landbúnaðarmafíuna, telst kanski til "Idjóta sem láta sérhagsmunaklíkur blekkja og heilaþvo sig til hlýðni ".

Góða ferð í "úttlandið" bið að heilsa bumbunum (nei ekki að meina Dóra og Bassa en bið að heilsa þeim líka).

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 11:13

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gangi þér vel í nýju lífi Róbert minn og til lukku.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.1.2012 kl. 13:55

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Heill og sæll Bjarni! Jú, jú, ég verð víst að kannast við stóra bróður þó svo hann kannist ekki við mig lengur hehe.

Og já, það er ekki seinna vænna að fara að gerast svolítið kjaftfor...hef nú haldið mig á mottunni hingað til en nú verður tilvalið að láta vaða bara. ;)

Vona samt að þú takir þetta með "bændamafíuna" ekki til þín...bændur eru upp til hópa sómakært og gott fólk. En mér líkar illa við ýmislegt sem kemur frá forystu bændasamtakanna og karakterum eins og Jóni Bjarnasyni, Bjarna Harrrðar og framsóknarmanninum úr Dölunum. Og ég skil ekki alveg af hverju óbreyttir bændur kæra sig ekki um himinháa heimsskauta-landbúnaðarstyrki frá ESB...og því síður af hverju íslenskir neytendur eiga að þurfa að sætta sig við einokun, hærra matvælaverð og minna vöruúrval á sama tíma og þeir niðurgreiða útflutning á lambakéti? Íslenskar landbúnaðarafurðir eru gæðavörur sem ættu fyllilega að geta keppt við innfluttar vörur á eðlilegum samkeppnisgrundvelli...skyldi maður halda.

Róbert Björnsson, 12.1.2012 kl. 14:16

7 Smámynd: Róbert Björnsson

takk fyrir það Ásthildur! :)

Róbert Björnsson, 12.1.2012 kl. 14:16

8 identicon

Kannski maður fari líka.. það eru ekkert nema fífl og glæpahyski á þessu helvítis fokking bavianaskeri.

Enjoy!

DoctorE (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 14:45

9 Smámynd: Róbert Björnsson

Svona, svona minn kæri Doctor...svo er sagt að ÉG sé kjaftfor ! hehe ;)

Sem betur fer eru þetta nú svolitlar ýkjur hjá þér...hér fyrirfinnst nú ágætis-fólk víða...svona innanum, sko!

Róbert Björnsson, 12.1.2012 kl. 15:04

10 identicon

Hm. ekki lýst mér á það ef stóri bróðir vill ekki kannast við þig!  Ef það er vegna bersögli þinnar um kynhneigðina þá held ég hann hljóti að sjá að sér á endanum enda maður skynsamur, ég hefði í hanns sporum miklu meiri áhyggjur af því að þú virðist vera krati

Þakka hlý orð í garð okkar bænda, ekki veitir af þar! 

Háu landbúnaðarstyrkirnir frá ESB yrðu nú víst frá Íslendingum sjálfum ef og þegar að kæmi. 

Íslenskir neytendur þurfa að búa við einokun og fákeppni á þeim mat sem er fluttur inn nú þegar (líklega rúml. helmingur af því sem menn láta ofan í sig) Varla verður það neitt betra með hinn helminginn ef hann yrði fluttur inn!          

Rollubændur njóta fastra styrkja óháð framleiðslu þannig að ef ekkert væri flutt út hvað yrði þá um þá fullyrðingu að hluti styrkjanna færu í útflutning?

Ég heyrði síðast í dag kunnan hagfræðing (Guðmund Ólafsson á ÍNN) halda því fram að styrkir til landbúnaðar væru 15 milljarðar. Þetta virðast sömu tölur og menn vorur að þvælast með fyrir hrun en þá var tæpur helmingur uppreiknuð markaðsvernd. Síðan hafa mörg vötn til sjávar runnið, gengi krónunnar lækkað úr vitleysis hæðum en að vísu full mikið niður  og svo hefur heimsmarkaðsverð á matvælum hækkað.  Það hafa fáar samanburðartölur á íslenskri matvælaframleiðslu sést eftir allar þessar breytingar.

Styrkur til sauðfjárræktar er um leið bygðastyrkur, spurning hvort hann ætti ekki að hluta að skrifast á t.d. ferðamálabatteríið! Ég hef raunar aldrei botnað neitt í sálarlífi rollubænda, þ.e. að hafa lifibrauð sitt af því að drepa vini sina ;-)   Er þó með aldri og þroska farinn að átta mig á menningarlegu hlutverki og dáist að seiglunni og þrautseigjunni í þessu liði!

Styrkur til mjólkurframleiðslu er að hluta kjarajöfnunartæki svo hinir efnaminni hafi tök á að kaupa mjólkurvörur. Persónulega fyndist mér réttast að leggja af niðurgreiðslur til okkar kúabænda en við hækkuðum í staðin verðið til neytenda.  Í dag er mjólk ódýrari en sykurvatnið kók!

Læt duga að sinni og vona að ég hafi náð að afkrata þig eitthvað!

Bestu kveðjur, Bjarni bóndi og fyrrum smáflugmaður.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 17:08

11 Smámynd: Róbert Björnsson

Já, Bjarni, það er margt í þessu með landbúnaðarmálin sem er ofar mínum skilningi.  Mér heyrist að bændur telji að þeir myndu tapa á ESB aðild, þó svo það liggi svosem ekkert fyrir um það ennþá hvernig kerfisbreytingarnar kæmu út fyrir þá á endanum og hvernig komið yrði til móts við þá.  En bændasamtökin hafa talað og þeir vilja vernda status quo með öllum tiltækum ráðum...og þjóðernisrómantíkin er öflugt vopn í þeirra höndum. 

En hvernig sem á það er litið er svolítið merkilegt hversu fámennur hópur hagsmuna-aðila kemst upp með að halda restinni af þjóðinni í gíslingu í þessu máli.  Það eru reyndar fyrst og fremst útgerðarmennirnir, kvóta-eigendurnir og fjármagnseigendur sem dæla peningum í áróðurinn gegn ESB (hverjir eiga Moggann?).  90% íslendinga byggja lífsviðurværi sitt á einhverju öðru en fiski og landbúnaði en þurfa samt að sætta sig við kúgunarkerfi sem er hannað af lénsherrum þeirra sem handstýra genginu eftir eigin behag til þess að lækka laun og eigin skuldir og velta þeim yfir á almenning.  Og það sorglega er að fólk heldur áfram að gleypa við þessari fléttu eins og hverjar aðrar strengjabrúður.

En hvað um það...

Já, kannski er það bara meintur kratisminn sem angrar stóra bróður hehe...vissulega djævar það ekki vel við þjóðernis-sósjalisma hans frekar en ýmislegt annað.  Skynsamur maður segirðu - þú þekkir hann kannski betur en ég? ;)  En jú kannski sér hann að sér, þó svo komin séu 7 ár, og ekkert bóli á því ennþá.

Róbert Björnsson, 13.1.2012 kl. 12:47

12 identicon

Það er nú bara þannig að naflastrengur þessarar þjóðar er við landið í gegnum landbúnað og sjávarútveg. Það yrði trúlega ekki mikið fyrir hin 90% að gera ef við hættum að stunda þessar undirstöður. Enda furðu margir á því að kvótinn eigi að vera í þjóðareigu, sýnir það ekki að menn átta sig á því hver undirstaðan er.      Fólk sem aðhyllist jafnaðarstefnu hefur sumt hvert þá hugsjón að því sé best borgið innan ESB, þaðan komi reglur sem verndi almenning fyrir hverskyns græðgispúkum.  Veit ekki, efast um þá útópíu!   Þetta minnir dálítið á þegar kommúnistar vildu gefa skít í þjóðríkið en sameinast á alþjóðavísu, tókst að vísu ekki.

Af því þú ert nú að fara að vinna hjá Cargolux, þá er vert að spyrja sig hvort Loftleiðaævintýrið hefði orðið að veruleika nema vegna óvæntra tækifæra smáríkis sem tróð sér á milli stórveldanna. (Útrásin sem tókst)

Þar voru að verki hálfgerðir sveitastrákar sem unnu hörðum höndum og lögðu sjálfa sig að veði en ekki viðskiftamógúlar sem gerðust sérfræðingar í að eyða annara manna fé.

Þú ert fjandi vel máli farinn og þið bræður báðir, hvort sem er á íslensku eða ensku, jólasveinabréfið er snilld. 

Bestu kveðjur og ég vona að þið bræður náið saman.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband