Góður dagur í Hollywood

IMG_1479Það er búið að vera gaman hér í Hollywood í dag.  Ég tók daginn snemma og labbaði um Melrose Avenue og Rodeo Drive í Beverly Hills þar sem blessaðar stjörnurnar versla.  Mér sýndist ég sjá frú Victoriu Beckham, en er þó ekki viss...þær eru allar með anorexíu hérna.  Það fór ekki svo að ég fataði mig upp...ekkert í mínum númerum hérna...og maður hefur ekki alveg efni á $500 vasaklút!

Því næst fór ég á Farmers Market og rölti um þar þangað til það var tími til kominn að mæta í CBS Television City til að sjá Real Time with Bill Maher.  Þetta var að vísu ekki sjálf útsendingin heldur bara "dress rehearsal".  Þannig er að þátturinn er sendur út einu sinni í viku á föstudagskvöldum í beinni útsendingu.  Á fimmtudögum er hins vegar haldin æfing þar sem Bill rúllar í gegnum þáttinn og testar brandarana á okkur í áhorfendahópnum.  Það er svo heill her af handritshöfundum og þáttastjórnendum sem fylgdust með viðbrögðum okkar og ákveða svo hvað verður klippt út og hvað lagfært. 

IMG_1542Þátturinn er tekinn upp í stúdíó 33 hjá CBS þó hann sé sendur út á HBO kapalstöðinni.  Það kom mér í opna skjöldu þegar ég gekk inn í stúdíóið að ég var allt í einu kominn inn í settið í "The Price is Right" og sá glitta í gamla brýnið Bob Barker, sem hefur stjórnað þessum vinsæla getraunaleik síðan 1972.  Real Time er sem sagt tekið upp á sama sviði og ég fylgdist með sviðsmönnum rífa niður Price is Right sviðsmyndina og koma Real Time sviðsmyndinni fyrir á nokkrum mínútum.

Svo birtist Bill...og allt varð vitlaust í salnum.  Ég mætti snemma og fékk því gott sæti, á öðrum bekk fyrir miðju og var svona 4 metra frá hr. Maher á meðan hann flutti inngangsorðin.  Það sem kom næst kom mér svolítið á óvart...það voru fengnir einhverjir óþekktir leikarar til að leika gesti þáttarins og fara með þeirra texta...sem virðist vera fyrirfram skriptaður.  Gestir þáttarins voru Michael Moore, leikstjóri, Ben Affleck stjarna með meiru, og Ron Paul forsetaframbjóðandi frá Texas.  

Bob BarkerReal TimeBesti hluti þáttarins er alltaf New Rules í lokin og fengum við góðan og óklipptan skammt af honum.  Það var gert gott grín að Wikipedia, Jimmy Carter og Gogga Búsh.  Þegar þátturinn kláraðist þá strunsaði Bill af sviðinu án þess svo mikið sem að vinka eða segja takk við okkur áhorfendurnar og var svo keyrt í burt á litlum golf-bíl.

Eftir þessa upplifun þá keyrði ég niður í miðbæ Los Angeles og inní Chinatown.  Þvínæst asnaðist ég uppá hraðbraut (I-5) og keyrði til Glendale og Van Nuys áður en ég komst uppá I-405 suður og Hwy 101 aftur til Hollywood.  Þessi óplanaði rúntur tók einn og hálfan tíma, en það getur verið tímafrekt að villast í LA.  Los Angeles stórsvæðið (með öllum úthverfum og nágrannasveitafélgugum) er að flatarmáli 2x stærra en Sviss! (já, landið Sviss) og hérna búa um 20 milljónir íbúa.

Í sólsetrinu keyrði ég upp Mulholland Drive en það er vegur sem liggur uppá sjálfa Hollywood hæðina, en þaðan er virkilega flott útsýni yfir borgina og meðal íbúa við götuna eru Jack Nicholson, Tom Hanks og Johnny Depp.  Ég var að pæla í að kíkja í kvöldkaffi hjá þeim en ég kunni nú ekki við að banka svona óboðinn. Tounge    Þangað til næst... bestu kveðjur!

IMG_1520IMG_1496

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband