Transportation Academy

schoolbusÞessa dagana sit ég sumarkúrs sem fjallar um samgöngutækni, í lofti, láði og legi.  Þetta námskeið er samvinnuverkefni skólans míns (SCSU) og University of Minnesota og er kostað af miklu leiti af samgönguráðuneyti Minnesota (MN Department of Transportation).

Mér gafst reyndar kostur á að sitja svipaðan kúrs síðasta sumar en þetta er framhald af honum og byggist aðallega á heimsóknum og skoðunarferðum þar sem samgöngutækni er skoðuð frá ýmsum hliðum.  Meðal annars fengum við siglingu á Mississippi ánni með pramma-togbát, skoðuðum flutningalestar-kerfið og sporvagnakerfið ýtarlega, fórum í heimsókn í vöruflutninga-fyrirtæki sem rekur yfir 1000 vöruflutningabíla, skoðuðum flugturninn og flugumferðarmiðstöðina í Minneapolis sem og viðhaldsstöð og flugumsjónarmiðstöð Northwest Airlines. 

Í Duluth skoðuðum við svo Cirrus flugvélaverksmiðjuna, heimsóttum F-16 flugsveit Air National Guard, skoðum vöruflutningahöfnina og fengum skemmtisiglingu á Lake Superior.  Allt saman ákaflega skemmtilegt.

Í dag heimsóttum við verkfræðideild U of M og prófuðum nýjan og fullkominn ökuhermi, svo og rútu sem keyrir sig sjálf, svokallaður Techno-bus, en hann keyrir um skólasvæði U of M á sjálfstýringu með aðstoð GPS tækni og notar radar og laser-skynjara til að sjá gangandi vegfarendur og önnur ökutæki.  Mjög sérstakur bíltúr.
Þvínæst heimsóttum við "Regional Traffic Management Center" en það er nokkurskonar "umferðar-stjórnstöð" þar sem fylgst er með bílaumferð Minneapolis og St. Paul og reynt að greiða úr flækjum, en á háannatímum eru u.þ.b. 900 þúsund bílar á flakki í borginni.  State Patrol, eða þjóðvegalöggan er einnig með höfuðstöðvar sínar í þessari byggingu og fengum við góðan túr um þeirra stjórnstöð sem og stjórnstöð neyðarlínunnar 911.  Tölvukerfið þeirra í kjallaranum var vægast sagt tilkomumikið.

Þess má geta að í Minnesota látast árlega um 600 manns í umferðarslysum.  Þrátt fyrir það er MN með 5. lægstu slysatíðnina í Bandaríkjunum, en í landinu öllu deyja árlega 42 þúsund manns og þrjár milljónir slasast alvarlega!  Það tekur smá tíma að melta þessar tölur og setja þær í samhengi.

Að lokum kíktum við í áhaldahús Minneapolis en þar var okkur sýndur nýtískulegur snjóruðnings-hefill, en hann er útbúinn "heads-up-display" sem sýnir útlínur vegarins þegar skyggni er ekkert vegna skafrennings.  Einnig er hann útbúinn radar sem sýnir bíla eða aðra hluti sem grafnir eru í fönn og sjást ekki með berum augum bílstjórans.  Svona græja kæmi sér sko vel á Hellisheiðinni.

Hérna má sjá nokkrar myndir frá heimsóknunum í fyrrasumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta hljómar allavegana mjög spennandi

Ragnhildur (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband