Lausn á fjárhagsvanda Kalíforníu fundin

Kalíforníu-fylki rambar á barmi gjaldþrots og leitar nú allra leiða til þess að draga úr útgjöldum og skapa tekjur.  Frumvarp hefur verið lagt fram á fylkisþingi Kalíforníu þess efnis að lögleiða og leyfa sölu á Maríjúana ásamt því að skattleggja vöruna.  Töluverðar líkur eru taldar á því að frumvarp þetta nái í gegn og verði að lögum á yfirstandandi þingi.  Líkur eru þó á að dómsmál yrði höfðað og að hæstiréttur yrði að úrskurða um lögmæti slíks gjörnings - en dómur í slíku máli yrði fordæmisgefandi fyrir allt landið.

En lítum nánar á málið - samkvæmt áhugaverðri skýrslu Dr. Jeffrey Miron prófessors við hagfræðideild Harvard háskóla eyða Bandaríkjamenn $12.9 Billjónum árlega í stríðið gegn Maríjúana - 775 þúsund manns voru handteknir fyrir vörslu Maríjúana árið 2007 og tugir þúsunda sátu í fangelsi en kostnaður per fanga er talinn um $20,000. (sjá skýrslur FBI)

Hagnaður af söluskatti á Maríjúana er talinn geta numið allt að $6.7 Billjónum.  Samkvæmt heimildarþætti á MSNBC sem ég sá nýlega - Marijuana, Inc. - kemur fram að Maríjúana ræktun telur um 2/3 af hagkerfi Mendocino-sýslu í Kalíforníu sem eru svipaðar tölur og fyrir kornrækt í Iowa og hveiti-rækt í Kansas!

prohibition.jpgMargir bera efnahagslegan ávinning þess að lögleiða Maríjúana við afnám Bannáranna á þriðja áratug síðustu aldar.  Bent er á að lögleiðing og söluskattur af áfengi vó þungt í að binda endi á Kreppuna miklu árið 1931.  Margir binda nú vonir við að sagan endurtaki sig.

Vert er að benda á að stríðið gegn Maríjúana er löngu tapað í Bandaríkjunum.  Samkvæmt tölum frá National Institute of Health hafa 40% útskriftarnema úr menntaksóla prófað að reykja Maríjúana.  Þá er áætlað að 14.8 milljónir Bandaríkjamanna (5.4% landsmanna) neyti Maríjúana að staðaldri (tölur frá 2006).  Þar sem aðgengi að Maríjúana er svo auðvelt nú þegar er ekki sjálfgefið að lögleiðing og sala undir eftirliti myndi fjölga neytendum verulega þó svo sjálfsagt mætti búast við einhverri aukningu.

Lögleiðing myndi væntanlega líka fækka glæpum tengdum Maríjúana-sölu mjög verulega.  Rétt eins og afnám áfengisbannsins losaði Bandaríkin undan oki gangstera eins og Al Capone á sínum tíma.  Þá yrði öryggi neitenda betur tryggt og eftirlit haft með ræktun og dreifingu rétt eins og með áfengi.

norml_remember_prohibition.jpgAfstaða mín gagnvart lögleiðingu Maríjúana er einungis byggð á þessum efnislegu og praktísku rökum.  Þar fyrir utan má rífast um siðferðilsegu hliðina á þessu - t.d. hvort það eigi að vera sjálfsagður réttur hvers einstaklings að ákveða sjálfur hvað hann lætur ofan í eigin líkama eða hvort ríkið eigi að skipta sér af því.  Ég ætla ekki að leggja mat á skaðsemi Maríjúana neyslu - það er efni í aðra umræðu sem mig skortir þekkingu til að tjá mig mikið um.  Samkvæmt lauslegri athugun sýnist mér þó ýmislegt styðja þá kenningu að Maríjúana sé jafnvel skaðlausara en áfengi - alltént er það ekki líkamlega ávanabindandi, ólíkt alkóhóli, og það hefur enginn látist vegna ofneyslu Maríjúana enda þyrfti að reykja yfir 680 kíló af grasi á innan við 15 mínútum til þess að fá banvæn eitrunaráhrif. (heimild: fræðigrein frá Lyfjafræðideild Hebreska háskólans í Jerúsalem - birt í "Science" 7 águst 1970)  Sömuleiðis virðast engin haldbær rök fyrir því að Maríjúana neysla leiði til neyslu harðari efna - ef svo væri mætti álykta að neytendahópur Maríjúana og harðra efna ætti að vera álíka stór - svo er alls ekki.

Því miður, þrátt fyrir að vera meðvituð um hugsalega skaðsemi, mun mannskeppnan ávallt leita í einhverja óhollustu - hvort sem það er koffein, hvítur sykur, tóbak eða alkóhól.  Því skyldi Maríjúana vera undanskilið?  Og hver veitir okkur móralskan rétt til þess að ákvarða hvað sé leyft og hvað ekki?  Persónulega hef ég ekki áhuga á að neyta Maríjúana - en ég tel mig ekki hafa rétt til þess að dæma sjálfsákvarðanir annara né fordæma þá sem kjósa að neyta Maríjúana hvort sem það er í lækningaskyni eður ey.

img_1612_801156.jpgEr ekki komin tími til þess að slaka á fordómunum sem byggjast að verulegu leiti á vanþekkingu og fölskum áróðri og horfa á þessi mál af yfirivegaðri skynsemi?  Þess má svo geta að sjálfur Barack Obama hefur viðurkennt fúslega að hafa reykt Maríjúana á sínum yngri árum - fæ ekki séð að hann sé stórskaddaður í dag!  Þá virðist þetta ekki aftra fólki frá því að vinna átta gullverðlaun á Ólympíu-leikunum sbr. Michael Phelps.

Verð svo að skjóta því að það var samkynhneigður þingmaður frá San Fransisco og samferðarmaður Harvey Milk - Tom Ammiano - sem hafði hugrekkið til þess að leggja fram umrætt frumvarp.  Annar samkynhneigður öldungardeilarþingmaður, Barney Frank frá Massachusetts undirbýr svipað frumvarp á Federal level - Trust the homos to save the economy! Wink

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð hugmynd... á nokkra vegu :)

DoctorE (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 08:51

2 identicon

Á alla vegu, DoctorE; þetta eru 20 milljónir á DAG, á Íslandi. Hvað getur samfélag okkar gert við þá aura í núverandi ástandi?

Skorrdal (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 17:57

3 identicon

Góð grein hjá þér Róbert.

Alexander (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 18:24

4 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Mjög áhugavert og jákvætt að ég held.

Kristinn Theódórsson, 26.2.2009 kl. 18:35

5 Smámynd: Róbert Björnsson

Eitt af því sem gera mætti við peningana sem sparast/skapast við lögleiðingu væri að stórauka meðferðar-úrræði fyrir fíkla.  Það hlýtur að vera miklu þjóðhagslega gáfulegra að hjálpa fólki að halda sig frá vímuefnum og gerast virkir og nýtir þjóðfélagsþegnar heldur en að loka fólk inni í fangelsum fyrir svona "glæpi án fórnarlamba".

Róbert Björnsson, 27.2.2009 kl. 20:33

6 identicon

Er þetta einhver djók færsla hjá þér eða hvað?   
 Komdu við hjá mér næst þegar þú ert á ferðinni í Danmörku og ég skal sýna þér fólkið inní Kristjaníu, þá sem reykja bara Maríjúana og hafa gert í 25.ár, og segðu mér svo að Maríjúana sé skaðlaust.  
 

Steini (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 17:58

7 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Er þetta ekki dálítið einfalt hjá þér Steini?

Það er enginn að segja að draslið sé skaðlaust, það er verið að segja að fólk eig að hafa val um að nota þetta, alveg eins og margt annað sem er mun skaðlegra.

Þeir sem ofnota mat, drykk eða reyk verða fyrir heilsufarstjóni, en Þeir sem nota hlutina hóflega gera það ekki.

Svo flókið er það nú.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 11.3.2009 kl. 21:24

8 Smámynd: Róbert Björnsson

Steini minn...hverskonar púritani ertu orðinn í ellinni?   - ef þú lest þessa færslu aftur þá sérðu að ég er ekki að halda því fram að Maríjúana sé skaðlaust þó svo ég leyfi mér að efast um að það sé nokkuð skaðlegra en alkóhól.  Því finnst mér hræsni að leyfa sölu á alkóhóli en banna Maríjúana.  Ennfremur er ég að benda á góð og gild efnahagsleg og þjóðhagkvæm rök fyrir því að eyða peningum skattborgaranna í eitthvað gáfulegra og uppbyggilegra en að eltast við svona lagað.  Þar að auki þoli ég ekki svona afturhaldskommatitta-ríkisafskipti og skerðingar á persónu-frelsi.  Að því leiti er ég ennþá frjálshyggjumaður mikill.  Ríkinu kemur ekki við hvað fólk lætur ofan í sig að mínu mati svo lengi sem það skaðar ekki aðra.

Mér finnst fáránlegt að benda á Kristjaníu í þessu samhengi - í fyrsta lagi er fólkið sem bjó/býr þar upp til hópa nokkurs konar "hippar" sem kjósa ákveðinn lífsstíl og eru alls ekki "representative" fyrir þá sem neyta Maríjúana í hófi og af ábyrgð.  Það er rétt eins og að segja að danskar fóboltabullur séu dæmi um skaðsemi alkóhóls!  Þar að auki stórefast ég um að þetta blessaða fólk í Kristjaníu sé svona skemmt eingöngu af Maríjúana heldur grunar mig að það sé nú margt líka á kafi í sveppum, LSD og alkóhóli - ennfremur skilst mér að í Kristjaníu sé meira um hass en Maríjúana - sem er ekki alveg sami hluturinn.

Var annars að lesa mér til um Kristjaníu og samkvæmt þeim heimildum hefur ofbeldi og glæpir þar og í nágrenninu stóraukist í kjölfar þess að árið 2004 var ákveðið að stöðva þar frjálsa sölu á kannabis.  Nú eru það Hells Angels og innflytjendagengin sem græða á þessu öllu saman.  Makes no sense.

Að mínu mati á að selja þetta í apótekum eða áfengisverslunum - undir eftirliti - og skattleggja þetta.  Mér er óskiljanlegt af hverju ríkinu finnst ekkert mál að selja og græða á tóbaki og alkóhóli og setja svo eitthvert móralskt skilrúm á Maríjúana!

Róbert Björnsson, 11.3.2009 kl. 21:27

9 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

THC-mólekúlið í hassi er nákvæmlega eins og THC-mólekúlið í grasi. THC-mólekúlið er alltaf eins.

Páll Geir Bjarnason, 19.3.2009 kl. 02:04

10 Smámynd: Róbert Björnsson

Hárrétt Páll Geir - rétt eins og alkóhólið í bjór er nákvæmlega eins og alkóhólið í Vodka!

Róbert Björnsson, 19.3.2009 kl. 02:09

11 identicon

Munurinn á hassi og maríjúana á Íslandi er sá að maríjúanað kemur frá Íslandi en hassið kemur frá N-Afríku. Íslenska grasið okkar er svo lengst fyrir ofan afríska hassið í gæðum að það er eiginlega merkilegt að þetta hass sé ennþá í umferð.

En það er alveg rétt að hass er engu síðra en maríjúana, svo lengi sem það er unnið rétt. Við höfum bara verið "óheppin" með hass hérna heima. 

Rúnar (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 09:18

12 identicon

Og Róbert, mig langar að benda þér á vefsíðuna www.kannabis.net, en það er síða tileinkuð lögleiðingu kannabiss á Íslandi. Hægt er að senda inn greinar og ekki veitir af góðum pennum eins og þér þar. 

Rúnar (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 09:20

13 Smámynd: Róbert Björnsson

Sæll Rúnar - áhugaverð síða hjá Skorrdal vini mínum - hann gefst ekki upp hehe   Það er jákvætt að loksins sé að skapast grundvöllur fyrir opinskáum og fordómalausum umræðum um þessi mál á Íslandi.  Það er þó ekki sama hvernig er staðið að þessari umræðu og hvaða sjónarmiðum er beitt í rökræðunni svo hægt sé að taka þetta alvarlega.

Annars held ég að íslendingar séu almennt ljósárum á eftir í þessari umræðu og að það verði ansi langt þangað til nokkur stjórnmálamaður þori að taka þessi mál upp á sína arma.  Þvílík er forsjárhyggjan og ranghugmyndirnar sem búið er að innprennta í fólk.

Róbert Björnsson, 19.3.2009 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband