Sumarið og pólitíkin

Politics-essenceMér gafst ekki færi á að fylgjast vel með pólitíkinni og kosningunum á Íslandi sökum anna við próflestur en nú eru prófin loksins yfirstaðin og þá er kannski ekki úr vegi að fara aðeins yfir stöðuna. 

Ég get reyndar ekki sagt að ég hafi mjög mikinn áhuga á íslenskri pólitík því hún er alltof litlaus og leiðinleg fyrir minn smekk.  Það vantar allan kraft og eldmóð í þetta.  Það berst enginn fyrir hugsjónum sínum lengur, heldur einungis eiginhagmunapoti.  Það litla sem ég sá af kosningabaráttunni...ef baráttu skildi kalla...var ótrúlega "lame" að mínu mati og lítið um alvöru málefnalegar umræður.  Ég gat í rauninni ekki fundið út um hvað var verið að kjósa í raun og veru.  Stefnuskrár allra flokkanna voru keimlíkar og baráttumálin þynntust út á lokasprettinum.  Af hverju voru t.d. Evrópusambandsmálin ekki rædd af alvöru?

Að vísu er ég mjög feginn því að baráttan er ekki eins hatrömm og pólaríséruð og hún er hér í Ameríkunni.  Málin eru líka sem betur fer smærri og auðveldari.  Það er ekki verið að ræða um áframhaldandi stríðsrekstur, lög sem heimila ótakmarkað vald ríkisins til að stunda persónunjósnir, réttindi til byssueignar, einkavæðingu almannatrygginga (social security), stórfelldan niðurskurð til menntamála, félags- og heilbrigðismála, sem og hatrammar umræður um fóstureyðingar, réttindi samkynhneigðra, þróunarkenningu Darwins, og hvort hnattræn hlýnun er raunveruleg eða bara hrikaleg samsæriskenning vinstrimanna með þann tilgang að hamla áframhaldi hagvexti og gróða olíufyrirtækjanna.

Það má sem betur fer segja að allir þingflokkar og langflestir þingmenn séu í grundvallaratriðum sammála um að á Íslandi sé ekki pláss fyrir öfgasinnaðan hægriflokk þó svo Frjálslyndi flokkurinn hafi verið að gæla við slíkar kenndir með útlendingastefnu sinni.  Eini hægri flokkurinn á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, er þrátt fyrir allt (sem betur fer) mildur jafnaðarflokkur inn við beinið.  Það er þess vegna alltaf grátbroslegt að hlusta á íslenska íhaldsmenn og "Sjalla" lýsa því yfir að þeir styðji Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum... af því þeir eru sko alvöru íhaldsmenn!   Flestir þeirra hafa auðvitað ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala því þeir þekkja ekki nægilega vel til bandarískra stjórnmála...en að bera Sjálfstæðisflokkinn saman við Repúblikanaflokkinn er bara fáránlegt.  Í raun er Demókrataflokkurinn að mörgu leiti til hægri við Sjálfstæðisflokkinn íslenska þegar á heildina er litið.

talking politicsVarðandi úrslit kosninganna, varð ég satt að segja ákaflega hissa.  Ég átti fastlega von á því að stjórnin félli og annað hvort tæki kaffibandalagið við, eða þá að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin tækju við (sem getur reyndar ennþá gerst).  Ég óttast reyndar, fyrir hönd Samfylkingarinnar, að ef hún gangi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn þýði það að hennar bíði sömu örlög og Framsóknarflokksins.   Fylgið myndi örugglega hrynja og sennilega myndi flokkurinn í framhaldinu klofna og annað hvort gengi helmingurinn til liðs við VG eða stofnaður yrði annar Þjóðvaki fyrir rest.

Kannski það væri því bara best að núverandi stjórn sitji áfram, þangað til hún springur eftir eitt eða tvö ár og þá yrði boðað til annarra kosninga þar sem vinstrimenn fengju hugsanlega annan séns til að meika það.

Annars veit ég ekki hvað eiginlega þarf til að Íslendingar krefjist alvöru breytinga.  Þeir eru í eðli sínu alltof húsbóndahollir og hlýðnir.  Þeir hafa í gegnum tíðina vanist því að láta kúga sig og arðræna sig og kunna ekki að lifa við annað.  Fyrir hundrað árum átu þeir danskt maðkamjöl og skreið.  Í dag borga þeir framsóknarbönkunum glaðir í bragði 21% yfirdráttarvexti svo þeir hafi efni á að éta sínar tvísköttuðu og tollvernduðu ríkis-rollur.  Verði þeim að góðu.

Aðal skandall kosninganna (fyrir utan úrslitin) var sá að það kom í ljós hversu meingallað kjördæmakerfið er.  Þetta kerfi er engan veginn boðlegt og að mínu mati á að gera landið strax að einu kjördæmi og hætta þessu rugli með uppbótarþingmenn.  Það er firra að nokkur utankjörstaðaratkvæði á Ísafirði komi af stað keðjuverkun sem gjörbreytir þingmannastöðunni í Reykjavík.  Og er ekki eitthvað bogið við það að flokkur með 27% fylgi í einu kjördæmi fái 5 þingmenn kjörna á meðan flokkur með 36% fylgi fær bara 4?   Þar fyrir utan er 5% reglan algjörlega út í hött.  Íslandshreyfingin hefði með réttu átt að fá 2 menn kjörna og það hefði breytt öllu.  Verulega fúlt.

ElectionsHinn stóri skandallinn var þáttur DHL hraðflutningafyrirtækisins í ógildingu fleiri tuga utankjörfundaratkvæða.  Ég veit ekki hvort mitt aktvæði komst heilt til skila, en það er verulega fúlt að borga $50 dollara í hraðsendingarkostnað fyrir slíka þjónustu!  Margir þurftu líka að leggja á sig langt ferðalag með ærnum tilkostnaði til þess að hitta sinn konsúl.  Að heyra svo að atkvæðin hafi verið ógild, er svívirðilegt.

Það áttu margir erfitt með að skilja það hvernig bandaríkjamenn fóru að því að endurkjósa George W. Bush sem forseta árið 2004.   "Heimskir kanar" heyrði maður hrópað víða... ekki ætla ég að andmæla því.  En það eru greinilega fleiri heimskir en Bandaríkjamenn þegar það kemur að kosningum!  Frown


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband