Delta II geimskot

Delta2Fyrir rúmum tveimur árum gafst mér tækifæri til að fylgjast með flugtaki Delta II eldflaugar frá Canaveral-höfða á Flórída.  Að sjá, heyra og finna fyrir ca. 5.5 milljón Newtona afli er nokkuð sem maður gleymir ekki í bráð.  Það er eitthvað "magical" við það að upplifa geimskot.  Maður fyllist lotningu og stolti yfir mannsandanum og því hverju við getum áorkað.

Ekki fékkst uppgefið hvað var um borð í eldflauginni sem ég horfði á yfirgefa jörðina, einungis að það væri "classified payload" fyrir flugherinn.  Það þýðir væntanlega njósnagervihnöttur.  Það hefði satt að segja verið skemmtilegra að vita til þess að þarna hefði verið vísindabúnaður frá NASA eins og þessi sem á að rannsaka norðurljósin.

Ástæða þess að ég var að flækjast þarna suðurfrá var sú að ég hafði hugsað mér að sækja um skólavist við Embry-Riddle Aeronautical University á Daytona Beach og fór ég því í skoðunarferð til að kynna mér staðinn.  Þrátt fyrir að lítast vel á skólann ákvað ég samt á endanum að halda kyrru fyrir í kuldanum í Minnesota...ákvörðun sem ég hef stundum nagað mig í handarbökin yfir...sérstaklega á köldum febrúarkvöldum. Errm

Fyrst ég var kominn til Flórída gat ég ekki annað en heimsótt Kennedy Space Center sem er hreint magnaður staður fyrir "geim-nörda" eins og mig.  Áður hef ég reyndar heimsótt Johnson Space Center í Houston, Texas (Mission Control) sem er ekki síður áhugavert, sem og eytt nokkrum dögum á Smithsonian National Air and Space Museum í Washington, D.C.

National Air and Space AdministrationÞað er erfitt að útskýra þennan áhuga minn á geimferðum...en ætli Star Wars og Star Trek fyrirbærin hafi ekki veitt mér þessa "inspirasjón".

Það eina sem Bush karlinn hefur gert rétt að undanförnu að mínu mati var að veita NASA fyrirskipun um að snúa aftur til tunglins fyrir árið 2020.  Fjörutíu-og sjö árum eftir að Apollo 17 yfirgaf það síðast mannaðra geimfara.  Í þetta skiptið er ætlunin að byggja varanlega bækistöð á tunglinu sem lið í undirbúningi að mönnuðum ferðalögum til Mars.  Lockheed Martin hefur þegar hafist handa við smíði á nýju geimfari sem hefur fengið nafnið Orion.

Gagnrýnendur geimferðaáætlunarinnar kvarta skiljanlega yfir háum kostnaði.  NASA mun eyða 104 milljörðum dollara á næstu 12 árum í tungl-áætlunina.  Það hljómar afskaplega dýrt, en til samanburðar má þó geta þess að stríðið í Írak mun kosta bandaríska skattgreiðendur yfir 2 trilljónir dollara þegar upp verður staðið...svo ekki sé talað um mannfórnirnar. 

Af hverju að fara aftur til tunglsins?  Hér eru 10 góðar ástæður.


mbl.is NASA rannsakar norðurljósin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Róbert

Takk fyrir pistilinn. Þú hefur væntanlega séð myndir af geimskoti Frakka á Íslandi þegar þeir skutu fjórum eldflaugum í meira en 400 km hæð árin 1964 og 1965: www.agust.net/dragon   og http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/60907/

Bestu kveðjur

Ágúst H Bjarnason, 15.2.2007 kl. 08:46

2 Smámynd: Róbert Björnsson

 

Komdu sæll Ágúst og kærar þakkir fyrir ábendinguna!  Nei, ég hafði ekki séð þessar mögnuðu myndir né hafði ég satt að segja hugmynd um að þessir atburðir hefðu átt sér stað.  Greynilega margt verið brallað á söndunum í gamla daga!

Aftur kærar þakkir fyrir ábendinguna og góða frásögn frá þessum merkilegu atburðum í íslenskri "geimsögu"!

Róbert Björnsson, 15.2.2007 kl. 18:28

3 Smámynd: Sævar Már Sævarsson

Þetta er góður punktur með fjármagnið.  Tungl-áætlunin er frjárfesting í grunnrannsóknum og þekkingu sem skilar sér langt inn í framtíðina og mætti dreifa henni á hundrað, jafnvel þúsund ár.  Stríðið í Írak, ja, sjáum til hvernig það endar.

Ég mun gerast stuðningsmaður NASA um leið og þeir eru búnir að laga uppstillinguna á Yuri Gagarin í Space Center-inu í Huntsville, Alabama.

Þessar myndir frá söndunum eru magnaðar, gætu verið úr fyrstu James Bond myndunum.

Sævar Már Sævarsson, 16.2.2007 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband