Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Skemmtileg upprifjun...þegar FL Grúpp átti American Airlines

Fyrir réttu ári síðan skrifaði ég eftirfarandi færslu sem ég ákvað að endurbirta nú til gamans.  Nú vill svo til að American Airlines er aðeins að rétta úr kútnum (merkilegt nokk án hjálpar íslensku snillinganna)...á meðan að FL Grúpp er að....ehhh... well... þið vitið! Whistling   Ekki það að mér finnist gaman í þessu tilfelli að hafa reynst sannspár...en þetta vara bara aðeins of augljóst.  

 

Hvað verður þá um AA mílurnar mínar?

aviator-6Nú ætla verðbréfaguttarnir hjá FL grúpp að fara að kenna stjórn American Airlines alvöru Íslenska flugrekstrarfræði, enda sennilega ekki vanþörf á. 

Eins og segir í tilkynningu frá Hannesi Smárasyni: „FL Group hefur umfangsmikla reynslu af rekstri flugfélaga og við teljum að stjórn AMR beri að leita nýrra leiða til að auka verðmæti félagsins. Með því að aðskilja Vildarklúbb félagsins verður hægt að minnka skuldir og auka virði AMR.“

Það er nefnilega það.  Vonandi hlusta stjórnarmenn elsta og stærsta starfrækta legacy flugfélags Bandaríkjanna, sem fyrir örfáum árum létu sig ekki muna um að taka yfir rekstur TWA, flugfélagsins sem Howard Hughes stofnaði í gamla gamla daga, á nýríka íslenska braskara sem helstu afrek hingað til hafa verið að kaupa Lettneskt ríkisflugfélag og Tékkneskt lággjaldaflugfélag.  Jú, því stjórnarmenn FL Grúpp hafa nefnilega umfangsmikla reynslu af rekstri flugfélagaGetLost  Please!   Næst heyrir maður að Jóhannes í Bónus kaupi 8% hlut í Wal-Mart og fari að kenna Kananum hvernig eigi að selja kjötfars.  Gimme a break!

Nú er ég ekki að halda því fram að AA sé vel rekið flugfélag, langt frá því, og það sama má segja um hin gömlu legacy flugfélögin sem eftir eru; United, Delta og Northwest  Einungis Continental og US Airways virðast vera að ná að rétta eitthvað úr kútnum í harðri samkeppni við lággjaldaflugfélögin Southwest og JetBlue.  En einhvernveginn efast ég um að Icelandair módelið virki fyrir AA.

AAdvantage-logoAnyway...fyrir nokkrum árum flaug ég svolítið oft með TWA (Trans World Airlines) og gekk í vildarklúbbinn og átti orðið einhverjar mílur hjá þeim sem svo fluttust yfir í AAdvantage þegar AA tók yfir.  Hvað ætli verði af þessum mílum mínum ef Hannes nær sínu framgengt?  Kannski þær færist þá yfir í vildarklúb Icelandair?  GetLost  Það væri nú ekki nema sanngjarnt.

Annars held ég að FL grúpp ætti að vara sig á of-fjárfestingum í illa stæðum flugfélögum sem þeir halda að þeir geti snúið við eins og ekkert sé með því að fara að reka þau eins og Icelandair.  Ef þeir fara ekki varlega gæti endað fyrir þeim eins og Swissair sáluga.

Hér má sjá stutta ritgerð sem ég skrifaði einu sinni um endalok Swissair. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Var Icelandair að panta 20 Sukhoi Superjet-100 þotur???

superj.jpgSamkvæmt fullyrðingum Rússneskra fjölmiðla (sjá hér og hér og á Wikipedia hér) skrifaði Icelandair nýlega undir pöntun á 20 nýjum Sukhoi Superjet-100 farþegaþotum fyrir litlar $530 milljónir dollara. 

Sagt er að skrifað hafi verið undir samninga á Farnborough flugsýningunni í Englandi þann 15. júlí síðastliðinn eða fyrir réttum mánuði síðan.  Ef rétt reynist er einkennilegt að ekkert hefur heyrst um þessi fyrirhuguðu kaup í íslenskum fjölmiðlum og Icelandair hefur ekki sent frá sér fréttatilkynningu um málið.  Hefði haldið að hluthafar Icelandair hefðu áhuga á svona fréttum í miðju krepputalinu!

Kannski málið sé eitthvað viðkvæmt en ég hef heyrt gróusögur um að Icelandair hafi nú þegar eða sé við það að selja kaupréttarsamninga sína á Boeing 787 Dreamliner þotunum sem þeir áttu annars að fá afhendar 2010/20012 sökum bágs efnahagsástands.

Líklega væru þetta annars frábær kaup á þessu verði og ég reikna með að þeir séu þá að hugsa um endursölu og/eða leigu (dry lease).  Það er ólíklegt að Icelandair taki þessa flugvélategund í notkun á sínu leiðarkerfi enda um frekar skammdræga vél að ræða sem tekur 75-95 farþega og er hönnuð fyrir styttri leiðir (regional) og mun t.d. henta ákaflega vel í evrópu í samkeppni við Embraer 190 og Bombardier CRJ900.

Sukhoi Superjet-100 er fyrsta farþegaþotan sem smíðuð er í Rússlandi frá hruni Sovétríkjanna og hún fór í sitt fyrsta flug í maí síðastliðnum (sjá mynband neðst).  Þetta er sannarlega engin Lada Sport heldur ákaflega háþróuð og hagkvæm vél sem stenst fyllilega vestræna samkeppni og á örugglega eftir að slá í gegn.  Samkvæmt rússneskum heimildum á Icelandair að fá fyrstu vélarnar afhentar 2011/2012.

Hér má sjá myndband af fyrsta flugi Sukhoi Superjet-100


Sameinast Delta og NWA?

Northwest-Airlines-N544USViðræður virðast á lokastigi um samruna tveggja af elstu og stærstu flugfélögum Bandaríkjanna, Delta og North West Airlines.  Búist er við tilkynningu á allra næstu dögum um hvort samningar náist en í augnablikinu virðist málið geta strandað á því hvort samkomulag náist við stéttarfélög flugmanna beggja flugfélagana.

Ef af samrunanum verður mun nýja flugfélagið verða stærsta flugfélag í heimi með um 85 þúsund starfsmenn, þar af um 12 þúsund flugmenn.  Í dag er Delta þriðja stærsta flugfélag í heiminum á eftir American og United en NWA er í fimmta sæti.  Mikið liggur á að ganga frá sameiningunni áður en ný stjórn kemst í Hvíta Húsið því samruninn verður að fá samþykki þingnefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins sem úrsurðar um það hvort hann stenst samkeppnislög.  Menn telja að auðveldara reynist að koma málinu í gegn á meðan að "pro big business" Repúblikanar sitja við völd.

Það sem gerir samþykki samkeppnisyfirvalda líklegra er sú staðreynd að leiðarkerfi flugfélaganna tveggja skarast tiltölulega lítið og þar af leiðandi yrði ekki um einokun á leiðum að ræða.  Samt búast menn við að þessi aukna samþjöppun á markaðinum muni skila sér í hærri fargjöldum.  Markaðssvæði Delta hefur að mestu verið á austurströndinni og suðurríkjunum sem og yfir Atlantshafið til Evrópu á meðan leiðakerfi NWA hefur fókusað á norðanverð miðríkin, vesturströndina og Kyrrahafsmarkaðinn til Asíu.  Hið nýja markaðssvæði yrði því gríðarlega umfangsmikið.

Delta757Hið nýja félag myndi að öllum líkindum halda nafni Delta þar sem það er þekktara "brand name" og sömuleiðis yrðu höfuðstöðvar nýs fyrirtækis í Atlanta (heimavelli Delta) og forstjóri Delta, Richard Anderson (sem áður var raunar forstjóri NWA), yrði forstjóri hins nýja sameinaða félags.  Þrátt fyrir þetta leggja menn áherslu á að þetta sé ekki yfirtaka Delta á NWA heldur sameining.

Bæði félög hafa staðið illa fjárhagslega um langt skeið og er talið að sameining sé eina leiðin fyrir fyrirtækin til þess að snúa við blaðinu og skila hagstæðum rekstri í framtíðinni.  Bæði félögin hafa svarið við sárt enni að ekki muni koma til stórfelldra uppsagna í kjölfar samrunans en þó er ljóst að töluverðar tilfæringar eru líklegar í hagræðingarskyni. 

Hér í Minnesota hafa menn miklar áhyggjur af glötuðum störfum því höfuðstöðvar NWA eru staðsettar í Minneapolis og þar starfa nú yfir 1000 manns en samtals er starfsfólk NWA í Minnesota um 12 þúsund talsins og er fyrirtækið því einn stærsti vinnuveitandi í fylkinu. Fyrir utan starfsfólk í höfuðstöðvunum hafa flugvirkjar áhyggjur af því að viðhaldsstöð NWA í Minneapolis yrði lögð niður.  Tim Pawlenty ríkisstjóri (R) og Amy Klobuchar öldungardeildarþingmaður (D) standa í ströngu til þess að tryggja að sem fæst störf færist frá Minnesota og virðist vera búið að tryggja að Minneapolis flugvöllur verði áfram "Hub" fyrir hið nýja flugfélag og því verði áframhaldandi flugsamgöngur í Minnesota tryggðar.  Jim Oberstar formaður samgöngumálanefndar fulltrúaþingsins (Demókrati frá Minnesota) hefur þó laggst þungt gegn fyrirhugaðri samþjöppun og hefur miklar áhyggjur af því að hún þýði minna framboð, hærri fargjöld og færri störf.

A330HeavyMaintenance_NorthwestNúverandi "Hubbar" eða aðal-skiptiflugvellir NWA eru Minneapolis, Detroit og Memphis á meðan Atlanta, Cincinatti og JFK sinna því hlutverki hjá Delta.  Talað er um að mesti samdrátturinn muni eiga sér stað í Memphis og Cincinatti.  Sumir benda þó á að ef hið nýja flugfélag muni einbeita sér að stærri mörkuðum muni það opna aðgang lággjaldaflugfélaga að minni mörkuðunum og það komi til með að koma einhverjum til góða.

Það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu en það hlýtur að verða hrein martröð hjá stjórnendum að sjá um tæknilega útfærslu sameiningarinnar.  Það er ekki lítið mál að sameina ólíkan starfsmanna "kúltúr" hjá svo stóru fyrirtæki, að ég tali nú ekki um tölvukerfi og annað.  Ef ég væri yfirmaður flugrekstrar eða viðhaldsmála hjá hinu nýja fyrirtæki ætti ég a.m.k. erfitt með svefn.  Eitt af því sem á eftir að vera áhyggjuefni er sú staðreynd að núverandi flugflotar Delta og NWA eru gjörólíkir sem þýðir mikinn viðbótarkostnað varðandi viðhald og þjálfun áhafna.  Delta flýgur einungis Boeing vélum (737-800, 757, 767 og 777) á meðan floti NWA er mjög blandaður (Airbus A320, A330, B757, B747 auk hátt í 90 gamalla DC-9 og MD-80 varíanta sem til stendur að skipta út á næstu misserum fyrir A320 eða Embraer 190.  Þá staðfesti NWA nýverið pöntun á 30 splunkunýjum 787 Dreamliners. 

Interesting stuff dontyathink? Wink  Hey einhver verður allavegana að hafa gaman af þessu.


Norðurljósin rokseljast!

Northern LightsÉg vil byrja á að óska bloggvinum sem og öðrum tilfallandi gestum gleðilegs árs og friðar með þökk fyrir ánægjulegar blogg-samverustundir á árinu sem leið.  Smile

Nýárshugvekjan að þessu sinni fjallar um íslenska ferðamanna-iðnaðinn, sem eins og svo margt annað á Íslandi, einkennist af græðgi, okri, svikinni vöru, lygum og prettum.  There...I said it.  

Ferðalag til Íslands er fyrir flesta erlenda gesti "a once in a lifetime event".  Kostnaðurinn við för til Íslands er slíkur að margir ferðalangar hafa safnað sér fyrir ferðinni í mörg ár og oft er ferðin tengd einhverjum merkis-viðburði í lífi fólks, svo sem afmæli eða giftingu.  Fólk hefur oft miklar væntingar til landsins eftir glæsilegar kynningar í ferðabæklingum og glanstímaritum og býst að sjáfsögðu við að það fái fyrsta flokks þjónustu fyrir peningana sína...því nóg kostar þetta allavega.

Íslenskar ferðaskrifstofur og flugfélög eru nokkuð lunkin við að narra nýja gesti hingað ár eftir ár með fögrum loforðum og myndum... en hver skyldi ánægja ferðamannana vera við brottför?  Hversu marga langar til að koma aftur?  Hversu margir myndu mæla með ferð til Íslands við vini sína?  Spyr sá sem ekki veit.

Mér hefði t.d. þótt fróðlegt að heyra hljóðið í þreyttum ferðalöngum sem í gærkvöldi (nýárskvöld) borguðu 5.500 kr. ($88) á kjaft til þess að fara í 5 tíma rútuferð frá Reykjavík til að elta norðurljósin...í roki, éljagangi og dimmviðri alla leið!  

Ég hef öruggar heimildir fyrir því að Kynnisferðir sendu a.m.k. fimm troðfullar rútur af stærstu gerð af stað í vonskuveðri, vitandi fullvel að það væru meiri líkur á því að ferðamennirnir sæju Loch Ness skrímslið á Þingvallavatni eða Snjómanninn ógurlega í hlíðum Ingólfsfjalls heldur en norðurljósin!  Hagnaðurinn af þessari halarófu-ferð í gærkvöldi hefur verið vel yfir einni milljón krónua og því kannski ekki að undra að það hafi verið freistandi fyrir stjórnendur að hundsa veðurspána og "vona það besta".  Það er ekki eins og þetta ferðamannapakk hefði getað haft eitthvað betra að gera á nýárskvöldi en að hossast í svona vitleysis ferð í þéttsetinni rútu í myrkri og ógeði.

Nú veit ég ekki hversu oft hefur sést til norðurljósa á liðnu hausti og hversu hátt "success rate" er í þessum ferðum almennt...en mér finnst satt að segja að það sé verið að féfletta fólk og hafa það að fíflum.  Þetta geta varla talið siðlegir viðskiptahættir.  Í raun er þetta bara sér-íslenskt "Nígeríu-svindl"! Bandit  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.