Kveðja úr Mósel-dalnum

luxcoatofarmsÞá er maður loks búinn að koma sér fyrir í hjarta Evrópu og maður leyfir sér að horfa björtum augum á framtíðina.  Byrjunin lofar í það minnsta góðu - nýja starfið hjá Cargolux leggst vel í mig og umhverfið er ekki af lakari endanum. 

Ég leigi íbúð (sjá myndir) í Þýska bænum Perl í Saarlandi sem stendur við Mósel-ánna gegnt Lúxembúrgíska bænum Schengen (þar sem samnefnt landamæra-samkomulag var undirritað á sínum tíma).  Frakkland er svo ekki langt undan (um 2 km) og er þetta svæði því kallað "dreiländereck" eða þriggja landa hornið.  Og hér vaxa sko rúsínurnar - í orðsins fyllstu merkingu...eða a.m.k. vínberin. :)

CXNálægt því helmingur þeirra sem vinna í Hertogaríkinu Lúxemborg búa hinum-megin landamæranna, ýmist í Frakklandi, Þýskalandi eða Belgíu - sökum húsnæðisverðs í Lúx.  Við köllumst "grenzgänger" en þökk sé Schengen samkomulaginu er það lítið mál.  Ég er um hálftíma að keyra í vinnuna uppá Findel-flugvöll - 26 km í gegnum blómlegar sveitir og vínakra.  Eitthvað annað en blessuð Hellisheiðin.   Veðrið er líka aðeins skárra - í dag var 15 stiga hiti og léttskýjað og ég býst við að það styttist í túlípanana!

Ég hef svo passað mig á því að fylgjast sem minnst með íslenskum fjölmiðlum og þjóðfélagsumræðu - og viti menn, þvílíkur léttir!  Ég finn hvernig blóðþrýstingurinn lækkar og lundin léttist!  Í alvöru talað - ísland er orðið einn allsherjar Kleppur!

euroluxBestu kveðjur frá "hinu illa heimsveldi" ESB - Schengen - Eurozone.  Gangi ykkur vel með krónuna og "fullveldið" og verði ykkur að góðu - suckers*! ;)

(*þessari stríðni er að sjálfsögðu eingöngu beint til valinkunnra Moggabloggara og Heimssýnar-félaga sem kynnu að slysast inná þessa síðu - aðra bið ég afsökunar og votta þeim samúð mína!)

P.S. Þetta er útsýnið af svölunum mínum :)


mbl.is „Evrópusambandið er framtíð okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir þetta Róbert. 

Bið kærlega að heilsa Herbert í Zell — sé hann enn á lífi — og fólkinu í Kröv. Síðast þegar ég talaði við Herbert og þegar við fórum á ball í Kröv þá sátu menn enn í fangabúðum fyrir skoðanir sínar austan við Járntjaldið bara rétt austan við Travemunde þar sem ég kom stundum inn í landið. Þá deildum við Herbert um það hvort múrinn félli nokkurn tíma. Hann hafði ekki trú á því. Herbert átti og á kannski enn aðal-kránna í Zell. Ég sagði honum að múrinn myndi falla, sama hvað hann segði. Og hann féll 6 árum síðar. 

Og nú er ég sömu skoðunar um Evrópusambandið. Sá nýi múr gegn fólkinu mun einnig falla. 

Bið kærlega að heilsa þessum gamla og góða dvalarstað mínum. Zell er yndislegt þorp.
 
Kveðjur úr Móseldal Íslands
og gangi þér vel í nýja starfinu
 

Gunnar Rögnvaldsson, 2.3.2012 kl. 21:55

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sæll Róbert

Suðaustan tuttugu. Mikill vindhraði leikur um okkur í kvöld. Hér skelfur allt með stuttu millibili, ef ekki vegna vinds þá vegna misgengis jarðlaga. Þið sem akið á nýjum benzum innan um vínviðinn finnið líklega ekki áþreifanlega fyrir Kára.

Dálítið djarft af þér að tala um Schengen. Sannarlega viðkvæmt umræðuefni á Fróni. Þú ættir að taka einhverja af þessum sem tala hæst um Schengen með þér í bíltúr um Rínarlönd. Einn er löglærður þáttastjórnandi á Útvarpi Sögu sem aldrei gleymir að tala um ykkur miðevrópufólkið. Hann vill bæði úr EES og Schengen og telur að aukin fátækt í EBS geti komið til Íslands eins og hver önnur fjárpest. Valinkunnir Moggabloggarar eru hátíð á móti þeim vaðli.

Annars allt gott að frétta. Rífandi þorskur og loðna út um allan sjó. Hrafninn minn er orðinn svo góðu vanur að hann fúlsar við feitum makríl, en gleypir hamborgarahrygg og pönnusteiktan kjúkling. Tákn um breytta tíma. Þegar við gengum í EES hafði þorri landsmanna aldrei fengið á sinn disk bacon, skinnku eða hamborgarahrygg.

Sigurður Antonsson, 2.3.2012 kl. 21:56

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Samkvæmt ESB-sinnum ætti flugfélagið Caroglux ekki að vera til. En það var stofnað árið 1970, tuttugu og þremur árum áður en Evrópusambandið var stofnað. Það þurfti sem sé ekkert ESB til að stofna Cargolux. Breks-franska Concorde ríkis-verkefnið fór hins vegar ríkisrekið af stað í kringum 1960, en varð eitt samfellt viðskiptalegt fiaskó í tæp 50 ár.

Þegar ég hóf búsetu þarna þá var ekkert Evrópusamband til, og okkur var einnig sagt að það yrði aldrei til (sjá: Evrópusambandið er steindautt). Og okkur var einnig sagt að Schengen, sem virðist vera sérhannað fyrir glæpastarfsemi þvers á landamæri ESB, yrði aldrei til. Ég bjó í Evrópu í samfellt 25 ár og stundaði atvinnurekstur og hef séð ýmislegt. 

Það hefur aldrei verið nein þörf fyrir neitt Evrópusamband í Evrópu. Lýðræðisríki munu alltaf leysa sín mál i friði. Það er ekki fyrr en lýðræðið er komið á undanhald að ófriðarhættan vex í takt við undanhald þess. Og nú er lýðræðið í ESB að hverfa. Einu sinni enn. Órfriðarhættan vex í takt aukin völd hinna nýju Sovétríkja ESB. Og stjórnmálin í Evrópu hafa nú, einu sinni enn, verið þjóðnýtt á ný.
 
ESB er elítuverk. Fólkið vill það ekki og hefur aldrei viljað það. En það hefur bara ekki verið spurt að neinu.

Gunnar Rögnvaldsson, 2.3.2012 kl. 22:45

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Fyrir áhugamenn: nokkrir gamlir "kunningjar" frá Luxspotting

Gunnar Rögnvaldsson, 2.3.2012 kl. 23:12

5 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir innlitið og kveðjurnar félagar!

Gunnar - takk fyrir hlekkinn á Luxspotting!  Manni hlýnar alltaf um hjartaræturnar að sjá gömlu Loftleiða átturnar.  Mínar fyrstu utanlandsferðir sem krakki voru einmitt farnar með þeim hingað til Lúx. :)

Vonandi hefur Herbert það gott í Zell og unir hag sínum vel í ESB. Ég fæ nú ekki séð í fljótu bragði að ESB sé sá múr og áþján á fólkinu sem hér býr sem þú vilt vera láta - og samanburður við austantjaldsríkin á Sovét-árunum þykir mér heldur langsóttur og öfgakenndur. Ég hef ekki orðið var við að fólk sé fangelsað fyrir skoðanir sínar, kúgað eða beitt grófum mannréttindabrotum, þó svo enn sé víða pottur brotinn í austur og suður evrópu hvað það varðar - en það er ekki ESB að kenna. Og ekki er kreppan mjög sýnileg ennþá í Lúxemborg í það minnsta.

Og ekki hefur ESB drepið Cargolux ennþá - raunar væri nýstofnað dótturfyrirtækið Cargolux Italia sennilega ekki til ef ekki væri fyrir ESB. Að vísu er svo komið vegna samdráttar í fraktflugi að Cargolux þurfti að leita að fjárfestum í Qatar - og ekki kom ESB í veg fyrir það.

Þá gleymdir þú kannski að nefna Airbus Industries - sem ég veit ekki betur en að lifi nokkuð góðu lífi í ESB - þrátt fyrir að Boeing framleiði ennþá betri flugvélar! ;)

Lýðræðið lifir góðu lífi í ESB - sumir vilja bara ekki viðurkenna það eða þykjast ekki sjá það. Það er líka mun auðveldara að kenna öðrum um ástandið heima fyrir (eins og á Grikklandi) heldur en að horfast í augu við eigið hugarfar, hagsmunapot og spillingu. Þannig er það nú líka á íslandi og hefur lengi verið.

Sigurður: Vonandi hristir Kári og Reykjanes-misgengið upp í landanum og veitir fólki nýja innsýn og inspirasjón til góðra verka og hugmynda - ekki veitir af! :) Óttinn við Schengen og útlendinga almennt er því miður landlægur enda dettur engum í hug að aðrir vilji koma til Íslands en glæpa-hyski. Það hefur heldur svosem aldrei verið mikið gert til að laða að aðra útlendinga en "ódýrt vinnuafl" þegar þannig hefur árað - sem síðan er fundið allt til foráttu og skipað að drattast heim til sín þegar þeirra er ekki lengur þörf. Fáir tala um að laða að ungt og menntað fólk með nýjar hugmyndir, kraft og þor til að byggja upp og auðga mannlífið. Eitthvað sem Ísland þyrfti svo sannarlega á að halda. Heldur viljum við loka öllu í lás og "verja okkar" fyrir þessum "allraþjóða kvikindum".

En gott að heyra að Hrafninn dafnar! :) "Guð launar fyrir Hrafninn" sagði amma mín alltaf. Sá yrði gráðugur ef hann kæmist í krásirnar í búðunum hér! Ég er hræddur um að ég grennist lítið af dvöl minni hér í öllu Schnitzelinu og skinkunum. Þeir kunna þetta þjóðverjarnir...og ekki okra þeir á kétinu. :)

Róbert Björnsson, 2.3.2012 kl. 23:22

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Og talandi um Luxspotting - smellti mynd af þessu DreamLifter skrímsli sem kom í pit-stop hjá CX í gær.  Vona að hlekkurinn virki.

http://www.facebook.com/?ref=logo#!/photo.php?fbid=10100158689267791&set=a.889612153511.2339752.56013946&type=1&theater

Róbert Björnsson, 2.3.2012 kl. 23:36

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þegar Adolf Hitler var útnefndur sem kanslari Þýskalands árið 1933 þá hélt flokkurinn upp á það með miklum mannfögnuði í Trier sem er í ca. 50 km fjarlægð frá þér. Það þótti ekki góð latína að tala illa um þann mann á þeim tímum og hvað þá að benda á ókosti þess stjórnarfars sem hann kom sér upp, án þess að ráðfæra sig við kjósendur, sem voru þurrkaðir út. Úr þessu varð smá saman til einræði. Fyrsta tilraun Þýskalands með lýðræðið mistókst þarna. Nú er önnur tilraun þessa lands til lýðræðis í gangi, en gengur ekki vel. Þýska þjóðin hefur aldrei verið spurð að neinu er varðar Evrópusambandið.

Það erfiða við kreppur Róbert er það að þær eru mönnum ekki svo gerla sýnilegar. Þegar ég kom til Íslands í kjölfar bankahrunsins sá ég ekkert fólk liggjandi dautt á götum og gangstéttum. Það var enn ljós í gluggum sjúkrahúsa, veitingastaðir voru fullir af fólki og strætisvagnar óku eins og ekkert hefði í skorist. En maður vissi samt að margir áttu um sárt að binda. 

Þú átt væntanlega ennþá eftir að heimsækja stóran hluta Þýskalands og sérstaklega, norður og austurhluta landsins. Einnig væri fróðlegt að fá viðtöl við það fólk sem stendur á verksmiðjugólfum landsins fyrir minna en eina evru í tímalaun. Og kannski þær milljónir þýskra fjölskyldna sem þurfa fátæktarhjálp þrátt fyrir að vera bæði í fullri vinnu allan daginn alla daga vikunnar. 

Það kom viss krísa upp í stórhertogadæminu Lúxemburg þegar í ljós og úr skattaskjóli komu lúxuslífeyrissjóðir 1.100 embættis- og stjórnmálamanna Evrópusambandsins í byrjun ársins 2009. Árinu áður hafði ríkisstjórn Þýskalands svartlistað Lxembúrg sem skattaskjól. Þetta er kannski það næsta sem forráðamenn hertogadæmisins hafa komist svitabaði.

Gunnar Rögnvaldsson, 3.3.2012 kl. 01:13

8 Smámynd: Jón Arnar

úff hvernig nennirðu honum Gunnari sem veit alt svo betra en adrir kæri Róbert? Eg er löngu buinn ad hend þeim mergsug frá mér enda er hann typiskt dæmi um þá sem vila lata einkakraftinn rada og þess vegna mergsjuga almenning fyrir sig og bara sig.  Til hamingju med ad vera kominn inn til okkar i EU.  Honum finnst nok ekki hafa sked neitt er evropurikin byrjudu ad vinna saman en það var ju rett eftir seinni heimstyrjöld 9mai 1950 og svo hinn 18. april 1951 startadi svo fjörið er Belgien, Frankrig, Holland, Italien, Luxembourg, og Tyskland sameinuðust um ad vinna saman ekki a moti hvort öðru. Sumir telja eu nytt en það hefur altaf verið draumur okkar her ad vid getum unnid og buid saman i fridi og ro  þvi er Lluxemborgar kjarninn eitt gott dæmi um þann arangur fjögur lönd og allir vinir.

Jón Arnar, 3.3.2012 kl. 12:10

9 Smámynd: Jón Arnar

p.s "De vesteuropæiske lande opretter Europarådet i 1949. Det er første skridt mod et tættere europæisk samarbejde, men seks af landene ønsker at gå et trin" som er jo EU 2012 

Jón Arnar, 3.3.2012 kl. 12:12

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sem sagt:


Cargolux fær ekki lán í ESB því fjármálageiri evrulanda er með evrur og þess vegna því sem næst óstarfhæfur bæði á fyrirtækja - og heimilamarkaði.

Húsnæðisverð í Luxembúrg er svo hátt að vinnuaflið getur ekki búið í landinu og ekki greitt húsalegu þar vegna lágra launa. Verða því að flýja til láglaunalandsins Þýskalands, þar sem fólk hefur ekki fengið launahækkun í 15 ár.

Að fjarlægjast hinn lýðræðislega rétt sinn sem körgengur kjósandi fær menn til að slappa af. Þeir vita þá að frá og með nú er möguleiki þeirra til að hafa áhrif á samfélag sitt jafnstór og núll komma núll. Það er auðvitað viss afslöppun fólgin í því að geta engin áhrif haft á það samfélag sem maður býr í. Að vera í annarra manna landi. 

Gunnar Rögnvaldsson, 3.3.2012 kl. 16:08

11 Smámynd: Róbert Björnsson

Sæll Jón Arnar og kære hilsen til Danmark - min farfars Jensen fødselsland.

Gunnar:  Ég skrapp upp til Trier áðan og sá enga hakakrossa hangandi á götunum.  En nú ert þú bæði búinn að líkja EU við Sovét og Þýskaland Nasismans.  Er það nú ekki full gróft? 

Varla er heldur hægt að kenna EU um launaþróun í Þýskalandi þar sem hægri-sinnað Bundestag ákveður efnahagsstefnuna - ekki EU.

Efnahagsþrengingar koma og fara og ég efast ekki um að EU muni spjara sig ekki síður en aðrir heimshlutar...ekki er staðan glæsilegri í Bandaríkjunum, því miður.  Þar ala Repúblíkanar og Tepoka-hyskið á öfgahægri-þjóðernis-fasisma, útlendingahatri, trúaröfgum, rasisma, heims-imperialisma og öðrum ófögnuði.   Wall-Street ber jú langmesta ábyrgð á yfirstandandi heimskreppu...ekki Brussel.  Og talandi um lýðræði...í bandaríkjunum er það orð löngu orðið að lélegum brandara og sýndarleik. 

Róbert Björnsson, 3.3.2012 kl. 16:38

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kæri Róbert

Reyndar ER það þannig að Þýskaland ER ESB og ræður þar mestu ásamt Frakklandi. Þessi lönd eru því sem næst einráð í ESB. Í dag, aðeins 66 árum frá lokum síðustu heimsstyrjaldar sem Þýskaland stofnaði til í Evrópu, er Þýskaland orðið ráðandi í Evrópu. Skugginn af landinu er aftur að færast yfir meginlandið. Hverjum hefði dottið þetta í hug fyrir aðeins 20 síðan, þegar Maastichtsáttmálinn var undirritaður. Sennilega engum nema Margaret Thatcher.
 
Reyndar ER það þannig að Þýskaland VAR hið svo kallaða þriðja ríki nasista undir kanslaranum Adolf Hitler, sem kosinn var á þing af Þjóðverjum sjálfum, en sem með bolabröðgum — í ætt við ESB-aðferðir nútímans — tókst að koma þingræði frá völdum í landinu með tilskipanakerfi eins og því sem nú er að leggja lýðræði 27 þjóðríkja ESB í rúst. Metorðamenn innan nasistahreyfingarinnar gufuðu ekki bara upp. Þeir hurfu ekki út í blátt loft. Heldur ekki arftakar þeirra.

Reyndar VORU það sósíaldemókratar undir stjórn kanslara Gerhard Schröder sem komu á láglaunastefnu í Þýskalandi.

Reyndar ERU 10 af 27 löndum ESB fyrrverandi Sovétríki. Metorðamenn þeirra gufuðu heldur ekki upp. Og heldur ekki arftakar þeirra.

Hefði kanslari og ríkisstjórn Þýskalands haldið því til streitu vorið 2009 að Luxembúrg væri haldið föstu á svarta listanum yfir það sem þeir kölluðu þá "ólögmæt skattaskjól", og sem kanslarinn kom því á haustið 2008, þá væri lítið sem ekkert Lúxembúrg til í dag og sennilega ekki neitt Caroglux staðsett þar nú. Samfélagslíkan hertogadæmisins væri búið að vera. Luxembúrg þrífst fyrir náð og miskunn - og mest þeirra sem eiga þar innistæður.
 
Varðandi Vesturheim: Samfylkingin hefur víst ekki sótt um inngöngu í Bandaríki Norður-Ameríku, Róbert. Er það?

En kannski 29 prósent einhverra dul-drauma geri það samt í trássi við vilja 71 prósent kjósenda í næstu kosningum. Hver veit hverju menn taka upp á til að tryggja sér völd. Ég býst við öllu úr þessu.
 
Kveðjur
 
 

Gunnar Rögnvaldsson, 3.3.2012 kl. 17:47

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Til lukku með þetta Róbert minn.  Er ekki oft rigning þarna í Moseldalnum?  Finnst það einhvernveginn.  Þú mátt alveg skála í eðalhvítvíni fyrir mig

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2012 kl. 17:49

14 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk Ásthildur - ég tók eina flösku af Schloß Trier Riesling með af bensínstöðinni í dag og veitir ekki af að opna hana snöggvast eftir að hafa lesið um Þriðja ríkið hans Gunnars!    En jú, það er nú stundum rakt í Mósel-dalnum og nágrenni og þó svo það rigni kannski ekki svo mikið er oft langvarandi svarta-þoka sem getur orðið frekar leiðigjörn og niðurdrepandi. 

Róbert Björnsson, 3.3.2012 kl. 18:15

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm svoleiðis hefur það gjarnan verið þegar ég hef ekið þarna um.  En fallegt er það og gott vínræktarsvæði.  Skál vinur minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2012 kl. 18:19

16 Smámynd: Róbert Björnsson

Gunnar: frá unnanda góðrar lúðrasveitar-tónlistar - sérstaklega til þín!

Róbert Björnsson, 3.3.2012 kl. 18:36

17 Smámynd: Róbert Björnsson

Ach scheisse... embeddið virkaði ekki... en hér er linkurinn  http://www.youtube.com/watch?v=OZfgD_-gJeo&feature=related

Róbert Björnsson, 3.3.2012 kl. 18:38

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þessa góðu frásögn og samgleðst þér innilega. Ég var Au-pair í Luxemborg þegar ég var 17 ára (fyrir nokkrum árum ;-)) .. og finnst það gífurlega fallegt land! Njóttu!

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.3.2012 kl. 20:38

19 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk Jóhanna og bestu kveðjur!

Róbert Björnsson, 3.3.2012 kl. 21:01

20 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll, njóttu þokunnar og Evrulands! Linkurinn á Boeing skrímslið virkaði ekki fyrir anti-Fésara eins og mig. :-)

Erlingur Alfreð Jónsson, 3.3.2012 kl. 22:47

21 Smámynd: Róbert Björnsson

Sæll Erlingur - hér er linkur fyrir anti-Fésara :)  Annað kunnulegt flygildi sést þarna líka...TF-ARJ.  Bestu kveðjur í Hlíðasmárann!

https://picasaweb.google.com/118199952143317794672/March42012#

Róbert Björnsson, 3.3.2012 kl. 23:16

22 identicon

Já, það bætir, hressir og kætir að komast inn í ESB, Schengen og evrubáknið:)

Ekki spurning.

En þetta er skemmtileg árátta hjá mörgum Íslendingum að blanda Hitler alltaf inn í alla umræðu um Þýskaland.  Eins og að kallinn sé enn við völd.  

Hugarfar Þjóðverja hefur breyst mikið og Íslendingar gætu lært mikið af þeim.

Ég veit að ég hef það. 

Stefán (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 12:25

23 Smámynd: Róbert Björnsson

Já, það er sannarlega merkilegur þessi fjandskapur og tortryggni margra út í þjóðverja.  Þeir hafa horfst í augu við og gert upp sína fortíð og í kjölfarið tekist að byggja upp fyrirmyndar þjóðfélag.  Sammála því að við gætum margt lært af þeim.

Róbert Björnsson, 4.3.2012 kl. 15:57

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tveir af minum bestu vinum eru Þjóðverjar.  Reyndar ekki alveg týpiskir þjóðverjar, því þau eru meira íslendingar í sér.  En yndislegt fólk og allir sem ég hef hitt í kring um þau.  Reyndar er fólk bara fólk hvar í heiminum sem það er.  Það er til gott fólk yndirlegt fólk, vont fólk og allskonar fólk, en það fer bara eftir manneskjunni sjálfri en ekki ætt- eða þjóðerni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.3.2012 kl. 16:44

25 Smámynd: Róbert Björnsson

Mikið rétt Ásthildur! 

Róbert Björnsson, 4.3.2012 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband