Færsluflokkur: Umhverfismál

Kjarnorku mótmælt í Schengen

800px-Nuclear_Power_Plant_CattenomÍ dag fóru fram kröftug mótmæli hér hinum-megin við Mósel-ánna, í bænum Schengen í Lúxemborg.  Ekki snérust mótmælin um vindhanann Sarkozy og örvæntingafulla tilraun hans til þess að höfða til lægstu hvata þjóðernissinna með tillögu sinni um að draga Frakkland út úr Schengen samkomulaginu.  Nei, þessi mótmæli beindust að kjarnorkuverinu í Cattenom í Frakklandi, sem er í um 10 km fjarlægð héðan frá mér hér í Perl.

Mótmæli þessi trufluðu sunnudagsbíltúrinn minn, því brúnni hér yfir var lokað í um hálftíma á meðan mestu lætin stóðu yfir í þessum græningjum.  En loks tókst mér að komast leiðar minnar og ég hélt yfir til Frakklands, þar sem ég keyrði um blómlegar sveitir Lorraine héraðs, kom við í Thionville og Metz og keyrði svo að sjálfsögðu framhjá Cattenom í bakaleiðinni.

cattenomMér líður ágætlega vitandi af kjarnorkuverinu í bakgarðinum og deili ekki áhyggjum Die Linke og GreenPeace félaga af hættunni sem þeir telja að stafi af þessu.  Verið var tekið í gagnið 1986 og er hið þriðja stærsta í Frakklandi með fjórum kjarnaofnum sem skila um 1300 MW hver og samtals um 34 Tera-vattsstundum á ári.  Frá kæliturnunum rísa fallegir gufustrókar sem á björtum degi setja svip sinn á umhverfið og maður getur glaðst yfir hreina loftinu sem þeir tákna - því ef ekki væri fyrir kjarnorkuna, þyrfti að brenna óhemju magni af kolum eða olíu sem myndi þýða gríðarlega mengun og losun gróðurhúsalofttegunda.  Í bandaríkjunum er talið að allt að 50 þúsund manns látist árlega af völdum öndunarfærasjúkdóma sem rekja má til kolabrennslu-orkuvera.

Hræðslan við geislun frá kjarnorkuverum er auðvitað skiljanleg en jafnframt er hún byggð á fullkominni vanþekkingu.  Meðal-geislun sem íbúar í nágrenni kjarnorku verða fyrir umfram aðra er um 3/8 úr einu milliremi á ári - en til samanburðar er geislaskammturinn úr einni röntgen-myndatöku allt að 50 millirem.

catnmLíkurnar á kjarnorku-slysi líkt og í Fukushima eða Chernobyl eru sömuleiðis hverfandi, í það minnsta hér í Cattenom.  Hér verða ekki náttúruhamfarir á borð við sterka jarðskjálfta eða flóðbylgjur sem gætu hrundið af stað slíkri atburðarrás. 

Staðreyndin er sú að kjarnorka er örugg, ódýr og "græn" orka sem við komumst ekki hjá því að nýta okkur næstu áratugina hið minnsta, eða þangað til tæknin gerir okkur kleyft að ná betri nýtni úr endurnýjanlegri orku eins og sól og vind.

Stóra vandamálið við kjarnorkuna er auðvitað úrgangurinn.  Úran-eldsneytis-stangirnar verður að geyma á öruggum urðunar-geymslustað næstu þúsund árin eða svo.  Enginn vill auðvitað urða geislavirkan úrgang í bakgarðinum sínum, en þrátt fyrir að samkomulag náist um hentuga staðsetningu, t.d. í neðanjarðar-göngum í Úral-fjöllum, þá er ekki nema hálfur sigur unninn.  Flutningurinn þangað er nefnilega veikasti hlekkurinn í öryggis-keðjunni.  Þess vegna er lausnin til bráðabirgða sú að geyma all unnið eldsneyti á staðnum, í kjarnorkuverunum sjálfum, en það getur þó aldrei verið varanleg lausn.


mbl.is Hótar að draga Frakkland úr Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brrrr...31° gaddur

Það fer lítið fyrir Global Warming hér í Minnesota þessa dagana.  Nú í kvöld var kuldamet desembermánaðar að falla hér í St. Cloud og svo er rok í þokkabót þannig að með vindkælingu erum við að tala um -40°...hvort heldur á Celsíus eða Farenheit.  Svo spyr maður sig aftur...af hverju í ósköpunum valdi ég ekki Flórída?

En þrátt fyrir að nefhár frjósi og mann verki í lungun við hvern andadrátt...já og þótt bíllinn fari ekki í gang...þá er alltaf gaman af þessum nágrönnum þegar þeir komast í jólaskap. Smile

juletid


Frábær gestur frá Íslandi

profileimg_481_023629_743904.gifÞjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi (Icelandic League of North America) stóð fyrir heimsókn Yrsu Sigurðardóttur verkfræðings og rithöfundar í skólann minn í dag.  Yrsa hélt áhugaverðan fyrirlestur um jarðvarma og fallvatnsorkunýtingu á Íslandi fyrir nemendur í minni deild (Environmental and Technological Studies) og vakti mikla lukku hjá samnemendum mínum og prófessorum.

inl-logo---top-left_743906.jpgMér gafst kostur á að snæða hádegisverð með Yrsu, ásamt Claire Eckley forseta Icelandic-American Association of Minnesota, Dr. Erni Böðvarssyni prófessor í hagfræði hér við St. Cloud State og Dr. Balsi Kasi umsjónar-prófessornum mínum í ETS deildinni.

lastrituals-300px.jpgYrsa áritaði svo skáldsögur sínar í bókabúðinni en hún er á góðri leið með að verða mjög stórt nafn í glæpasagnaheiminum og hafa bækur hennar verið þýddar á 33 tungumálum.   Þar fyrir utan hefur hún starfað sem verkefnastjóri á Kárahnjúkum og við Jarðvarmavirkjanir.  Sannarlega fjölhæf og mögnuð kona sem var gaman að fá að hitta og ég hlakka til að lesa bækurnar hennar.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.