Færsluflokkur: Spil og leikir

Flugumferðar-hermir

ARTS-IIIa Radar TerminalFlestir eiga sér einhver skrítin áhugamál og nýlega dustaði ég rykið af einu slíku, en það er forritið ATC Simulator 2 frá AeroSoft.  Það var alltof heitt úti í gær til útiveru þannig að ég dró fyrir alla glugga, slökkti öll ljós og settist fyrir framan ratsjána í nokkra klukkutíma.

Þessi hugbúnaður, sem varla er hægt að kalla tölvuleik enda notaður til kennslu, hermir á mjög raunverulegan hátt eftir aðflugsstjórn flugvalla eða TRACON (Terminal Radar Approach Control).  Flugumferðarstjórn skiptist í þrjú grunn-svið: flugturninn sem stjórnar flugtaki og lendingum sem og flugi í næsta nágrenni við flugvöllinn (venjulega 5 mílna radíus uppí 3 þús. feta hæð); aðflugsstjórnin (TRACON) stýrir aðflugssvæðinu sem nær oftast uppí 30-50 mílna radíus og 10 þús. feta hæð; og svo loks flugumferðarmiðstöð (Area Control Center) sem sér um allt annað flug.

Þessi hugbúnaður býður uppá aðflugsstjórn á 120 flugvöllum í Bandaríkjunum og maður getur stillt traffíkina allt frá því að hafa kannski 10 vélar í einu uppí 50-60...sem er mjög erfitt.  Ef maður vill hafa þetta sem raunverulegast getur maður líka stjórnað ALVÖRU traffík, þ.e.a.s. tölvan sækir þá upplýsingar um raunverulega flugumferð á viðkomandi svæði (með ca. 15 mínútna seinkun).  Einnig er hægt að tengja forritið við Microsoft Flight Simulator og stjórna vinum sínum í "multiplayer mode".

Það sem gerir þetta forrit svo frábært að mínu mati er að það býður uppá raddstýringu (speech recognition - MS SAPI staðall) sem þýðir að maður getur stýrt flugvélunum munnlega án þess að nota mús eða takka.  Það tekur tíma að ná "língóinu" en þegar það er komið þá er þetta rosalega skemmtilegt..."NorthWest 327 descend and maintain 3000, turn left heading 330, expect ILS runway 27 left"..."Continental 28-niner heavy, cleared for visual approach rwy 27 left, contact tower on 122.4" ;-)

MSP-tower2Anywho...áhugi minn á þessu forriti kviknaði fyrir tveimur árum en þá tók ég tvo kúrsa í flugumferðarstjórn hérna í skólanum mínum hjá Dr. Mattson en hann starfaði sem flugumferðarstjóri hjá flughernum í um 20 ár og hefur tekið þátt í að hanna þennan hugbúnað og var að prófa hann á okkur í bekknum.  Karlinn breytti einni skólastofunni í ansi skemmtilegt "simulation" herbergi þar sem honum tókst að skapa mjög raunverulegt umhverfi.  Þá þurftum við líka að skrifa allar upplýsingar á sérstakar pappírsræmur og skipta niður "sectorum" á milli okkar.  Þetta var alveg stórskemmtilegt.

Seinna komst ég svo í heimsókn í flugturninn og aðflugsstjórnina í Minneapolis og þá kannaðist maður heldur betur við kerfið. 

Það er örugglega ágætis jobb að vera flugumferðarstjóri, en það er alls ekki fyrir alla.  Mig dreymdi á sínum tíma um að komast í flugumferðastjóranám, en það er hægara sagt en gert að komast inn í slíkt.  Ég sótti einu sinni um hjá Flugumferðarstjórn Íslands og komst í 20 manna úrtak eftir inntökupróf, en það voru um 150 manns sem þreyttu fyrsta prófið.  Þá tók við sálfræðiviðtal og svokallað "taxi-test" þar sem maður stýrir leikfangaflugvélum á bílabraut á meðan prófdómarar reyna að taka mann á taugum.  Þeir tóku svo aðeins 4 inn í þetta skiptið og ég var því miður ekki einn af þeim heppnu.  En svo maður líti á björtu hliðarnar þá væri maður ekki staddur hér hefði maður komist inn...þannig að kannski var það bara eins gott eftir allt saman.
Ekki þýðir svo að ætla sér að læra flugumferðarstjórn hérna því í Bandaríkjunum þarf maður að vera US ríkisborgari til að fá vinnu hjá FAA. Woundering

En...ein kvöldstund fyrir framan ATC Simulator 2 svalar þessari dellu ágætlega! Wink


Grand Casino á löngum föstudegi

gamlingNú á eftir er ég að leggja í hann uppá indjánaverndarsvæði Ojibwe ættbálksins ásamt félögum mínum.  Þar ætlum við að halda daginn hátíðlegan á Grand Casino Mille Lacs með því að spila smá bingó, rúllettu, blackjack, póker og eyða smá klinki í spilakassana.  Það verður væntanlega mikið stuð frameftir kvöldi,  all-you-can-eat hlaðborð og glæsileg skemmtiatriði.

Mér skilst að svona lagað sé víst kolólöglegt á Íslandi...sérstaklega á helgislepjudögum.   Forpokaháttur er þetta.   En jæja...mér er ekki til setunnar boðið.

Kærar kveðjur frá landi hinna frjálsu!


Klappstýrur

Dallas Cowboys cheerleaderFara í taugarnar á mér.  Ég hef aldrei skilið hlutverk þeirra á kappleikjum og satt að segja finnst mér klappstýrur vera yfir höfuð sorglega hallærislegar.  Þrátt fyrir að gera lítið til þess að auka á stemmninguna á kappleikjum, né hafa nokkur áhrif á gang leiksins er þetta fyrirbrigði jafn samgróið Bandarískri menningu og eplabaka og hafnabolti.

Strax í grunnskóla er stelpum kennt að þeirra hlutverk á íþróttavellinum sé að dilla sér hálfnaktar með heimskulegt bros á vör, vera sætar og hvetja strákana áfram með asnalegum píkuskrækjum.

Sem jafnréttissinna og hófsömum femínista blöskrar mér að stelpur láti niðurlægja sig á þennan hátt.  Hvar er sjálfsvirðingin?  Mér verður álíka flökurt í hvert sinn sem ég sé svokallaðar fegurðarsamkeppnir, sem er auðvitað ekkert annað en keppni um hver nær að svelta sig mest, fara í nógu marga ljósatíma, og troða nógu miklu sílíkoni á vissa staði.

Svo er það þessi double-standard sem fer í taugarnar á mér varðandi "klámvæðinguna"...klappstýrurnar mega dilla sér á eggjandi hátt framan í unga sem aldna en guð hjálpi Janet Jackson ef það verður smá "wardrobe malfunction" í hálfleik!

Laker girlsVesturlandabúar saka múslima um kvennakúgun fyrir það að í þeirra heimshluta eru konur ekki hafðar sem sýningargripir.  En er það ekki álíka mikil kvennakúgun að ala stelpur upp í þeirri trú að eina leiðin fyrir þær til þess að ná langt í heiminum sé sú að fá sér sílíkonbrjóst og klæða sig upp eins og hórur?

Æ...ég biðst forláts.  Ætli ég sé ekki bara svona argur yfir því hvað körfuboltaliðinu mínu hefur gengið illa að undanförnu...það er eitthvað svo ergjandi að horfa á liðið sitt 20 stigum undir þegar lítið er eftir og horfa svo á þessar barbí-dúkkur hoppandi um skælbrosandi veifandi þessum asnalegu pom poms!

Bush at YaleSamkvæmt Wikipedia var þetta klappstýrufyrirbæri fundið upp hérna í Minnesota af öllum stöðum.  Fyrsta klappstýran var drengur að nafni Johnny Campbell sem var nemandi við Minnesota-háskóla árið 1898, og fyrsti klappstýruhópurinn var einungis skipaður strákum sem ekki komust í fótboltaliðið.  Það var ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar að stelpur sem æfðu fimleika fengu að gerast klappstýrur.  Undir lok fimmta áratugsins voru stelpur hins vegar komnar í yfirgnæfandi meirihluta og í dag er hlutfallið komið upp í 97% stelpunum í vil.  En nota bene þeir fáu strákar sem stunda klappstjórn í dag eru kappklæddir!  Hvað á það að þýða?  Ósanngjörn kynjamismunun segi ég nú bara!

Það er athyglisverð staðreynd að George W. Bush var klappstýra á námsárum sínum í Yale.  Það útskýrir kannski margt!

Ok ég verð víst að viðurkenna að ég hefði nú sennilega svolítið gaman af klappstýrum ef þær væru fleiri svona!  W00t         Erhm... og þar með fauk púrítana-röksemdarfærslan hér að ofan útum veður og vind...Úps!  Whistling     Go Minnesota!  Go!  Wizard

Klappstjórar

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.