Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Blóðug mismunun hjá Blóðbankanum

kerry.jpgJohn Kerry, Öldungardeildarþingmaður frá Massachusetts og fyrrum forsetaframbjóðandi (sem ég gerðist svo frægur að kjósa hér um árið) lagði í dag fram frumvarp (ásamt 17 öðrum) þess efnis að lög sem banna Bandarískum hommum að gefa blóð verði afnumin.

Lögin voru sett árið 1983 af stjórn Ronalds Reagan (sem var með eindæmum hómófóbískur) en á þeim tíma var AIDS faraldurinn í hámarki og var sjúkdómurinn þá talinn "homma-plága" og "lækning Guðs" við samkynhneigð.

Síðan hefur sem betur fer mikið vatn runnið til sjávar (um 11 milljarðar rúmtonna úr Mississippi eingöngu) og í dag eru alls engin vísindaleg rök fyrir því að banna hommum að gefa sitt gæðablóð.  Bæði Ameríski rauði krossinn og Lyfjaeftirlitið (FDA) styðja tillögu Kerry´s enda benda þeir á að í dag er allt blóð skimað svo vel að nánast ógjörningur er að HIV smitað blóð komist í dreifingu auk þess sem nýjustu rannsóknir sýna að flest nýsmit HIV greinast nú meðal gagnkynhneigðra kvenna!

Það er því furðulegt að á meðan Blóðbankar (þar á meðal sá Íslenski) kvarta undan sífelldum skorti á blóði, skuli þeir ennþá vera svo vandlátir á viðskiptavini.  Skildi það vera að aðrar og ógeðfelldari (trúarlegar?) ástæður en vísindalegar séu ástæðan fyrir því að þessum lögum hefur ekki enn verið breytt.  Ekki einu sinni á Íslandi - sem þó stærir sig af því að vera í fararbroddi ríkja heims hvað varðar mannréttindi samkynhneigðra?  Getur það verið að þeir sem ráða ferðinni séu haldnir fordómum - eða finnst almenningi tilhugsunin um að fá dælt í sig "homma-blóði" á einhvern hátt fælandi?  Heldur fólk kannski að það gæti smitast af samkynhneigð?

Hvernig sem á það er litið væri það skammarlegt fyrir Íslenska Blóðbankann að láta Ameríkanana verða fyrri til að breyta þessum lögum (sem nú stefnir allt í...loksins Smile).  Það er ekki bara sár móðgun við fullhraustann mann, sem vill gefa af sér til samfélagsins, að vera "afþakkað" með þessum hætti - það er gróf mismunun.


Sicko

Ég vissi að það gæti varla talist heilsusamleg ákvörðun að flytjast til Íslands á þessum tíma en grunaði þó ekki að það væri svona bráðdrepandi.  Undanfarna daga hef ég fengið að kynnast hinu margrómaða íslenska heilbrigðiskerfi að eigin raun og bíð nú eftir að ná nægum bata til að komast í aðgerð...einhverntíma innan þriggja mánaða var mér sagt.

Áður en lengra er haldið er best að taka það fram að ég efast ekki um hæfni og fagmennsku íslenskra heilbrigðisstarfsmanna og ég er í engum vafa um að við eigum þar fólk í heimsklassa sem sinnir starfi sínu frábærlega þrátt fyrir fjársveltið sem var nú nógu slæmt á meðan á "góðærinu" stóð.  Ég fæ hins vegar ekki séð hvernig á að skera meira niður til heilbrigðismála á næstu árum án þess að þjónustustigið lækki verulega.  Frekari niðurskurður mun einungis þýða að líf og heilsa íslendinga verður stemmt í hættu...og leyfi ég mér þó að fullyrða að við ofmetum þjónustustig heilbrigðiskerfisins nú þegar.

skurðtólNú vill svo til að ég hef aðeins kynnst Bandaríska heilbrigðiskerfinu, þó ekki á sjálfum mér heldur í gegnum nána vini.  Það merkilega er að þrátt fyrir allt er það ekki svo grábölvað að öllu leyti - svo lengi sem þú ert tryggður.  Þar liggur vandinn - hvernig vilja menn borga fyrir heilbrigðisþjónustuna sína og hvað vill maður fá fyrir peningana? 

Tvær íslenskar vinkonur mínar sem búsettar eru í Minnesota segjast sannfærðar um að þær væru báðar dauðar ef þær hefðu veikst á Íslandi.  Þetta eru stór orð en það athyglisverða er að önnur er menntaður hjúkrunarfræðingur og hin starfaði sem sjúkraliði á Íslandi til margra ára.  Þær ættu því að vita hvað þær eru að tala um.  Eitt er víst að þær fengu báðar fyrirtaksþjónustu sem bjargaði lífum þeirra.  Þrátt fyrir að tryggingarnar hafi ekki dekkað allan þeirra kostnað kom í ljós að Íslenska ríkið borgaði ekki eina krónu í þeirra veikindum þar sem þær veiktust á erlendri grund.  Svo mikils virði er ríkisborgararétturinn og skattgreiðslur þeirra í gegnum árin.  Ekki þarf þó að taka fram að báðar greiða þær sínar sjúkra-skuldir með glöðu geði og þakka fyrir að hafa haldið lífi þökk sé fullkomnasta* heilbrigðiskerfi heims.  *Þrátt fyrir ýmsa alvarlega galla varðandi tryggingakerfið.

Ég hef hingað til verið hlynntur sósíalísku heilbrigðiskerfi en ég verð að viðurkenna að mér brá við að koma inn í gamla lúna Landsspítalann og mér þótti slæmt að þurfa að bíða klukkutímum og dögum saman eftir einföldum rannsóknum og greiningu sem og að vera sendur heim í millitíðinni með bullandi sýkingu.

Mér varð fljótt ljóst að stollt okkar íslenskra jafnaðarmanna er sannarlega enginn Mayo Clinic...og varla byggjum við nýtt "hátæknisjúkrahús" fyrr en búið er að ljúka við Tónleikahöllina og borga IceSlave skuldirnar.  Nema kannski...ef hægt væri að græða á því!  Og ég sem hélt að ég væri ennþá jafnaðarmaður! Undecided

Hvernig væri að reyna að flytja inn erlenda sjúklinga sem eiga fullt af dollurum og evrum og láta þá borga nýtt hátæknisjúkrahús handa okkur?  Ef staðreyndin er sú að við eigum helling af færustu læknum heims sem ekki snúa heim að loknu námi vegna launanna sem þeim býðst hér - af hverju reynum við ekki að slá þrjár flugur í einu höggi - sköpum gjaldeyri, lokkum heim okkar hæfasta fólk með mannsæmandi launum og verkefnum og sjáum til þess að íslendingar haldi áfram að búa við gott heilbrigðiskerfi?

Af hverju stefnum við ekki að því að byggja glæsilegt hátækni-rannsóknarsjúkrahús sem gefur Mayo-Clinic ekkert eftir í gæðum og þjónustu sem gæti í framtíðinni orðið eitt af stærstu aðdráttaröflum Íslenskrar ferðaþjónustu og tryggt afkomu hins íslenzka ríkisflugfélags næstu áratugina?  Tælendingar og Búlgarar hafa grætt á tá og fingri á þessu í mörg ár - af hverju ekki við?  Með okkar "hreinu" og heilsusamlegu ímynd...hversu raunveruleg sem hún kann nú að vera.

Einhvernvegin efast ég þó um að okkar annars ágæti heilbrigðisráðherra væri best til þess fallinn að koma þessu verkefni í framkvæmd.  Enda ljótt að græða á heilsu fólks...eða hvað?

Íbúar Rochester í Minnesota virðast þó ekki hafa mikið samviskubit yfir öllum milljónunum sem þeir græða á veru erlendra sjúklinga á Mayo Clinic.  En kannski er ég bara með óráði enda sit ég heima með 39 stiga hita og kviðverki. FootinMouth


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband