Aldrei hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka

Nei, þrátt fyrir titilinn er þetta ekki færsla um hetjur RAF sem sigruðust á ofurefli Luftwaffe Görings í Orustunni um Bretland árið 1940.  Þess í stað tileinka ég þessum fleygu orðum sir Winston Churchill, hugrökkum og fórnfúsum brautryðjendum í réttindabaráttu hinsegin fólks.

...

pride-2007-castro-rainbow-flag.jpgÍ dag, 27. júní, á alþjóðlegum baráttudegi hinsegin fólks, halda Samtökin 78 uppá 30 ára afmæli sitt og vil ég hvetja alla til að skoða veglegt afmælisrit þeirra, sem var gefið út nýlega (smellið hér til að opna það í nýjum glugga).   Í því má meðal annars fræðast um sögu Samtakanna 78 og reynslu fyrstu einstaklinganna sem tóku hið stóra skref út úr skápnum, löngu áður en samfélagið var tilbúið til að taka á móti þeim. 

Þær miklu framfarir sem við höfum séð á Íslandi á undanförnum 30 árum á mannréttindum hinsegin fólks hafa ekki gerst af sjálfu sér.  Að baki liggur þrotlaus vinna góðra manna og kvenna sem hafa látið málstaðinn sér varða og lagt sitt af mörkum.  Þó svo einstakir brautryðjendur og Samtökin 78 eigi mikinn heiður skilinn, má þó ekki heldur gleyma þætti vina okkar og aðstandenda...já og einstakra stjórnmálamanna og meira að segja presta! Wink

...
 

Þrjátíu ár eru í senn langur og stuttur tími, eftir því hvernig á það er litið.  Ég er viss um að Hörður Torfason man það eins og það hafi gerst í gær, þegar hann missti vinnuna sína og húsnæðið, vinir snéru baki við honum, hann var laminn í spað og honum hótað lífláti.  Hans eina von var að flýja land, úthrópaður "kynvillingur".  En hann neitaði að gefast upp og bugast.  Hann kom til baka til landsins sem hafði afneitað honum og horfðist í augu við hatrið og fáfræðina.  Hann barðist fyrir tilverurétti sínum og stóð  beinn í baki í gegnum erfiða tíma og gaf um leið öðrum kjark og hvatningu til að gera slíkt hið sama.

Þó svo að á þessum degi beri að fagna og minnast unnina afreka, er einnig við hæfi að staldra við og minnast þeirra þúsunda Íslendinga sem fóru á mis við breytta tíma.  Þeirra sem máttu lifa við þá kvöl alla ævi að þurfa að bæla niður sínar náttúrulegu tilfinningar.  Þeirra sem gátu aldrei horfst í augu við sjálfan sig og tekið sjálfan sig í sátt.  Þeirra sem gátu aldrei tjáð sínum nánustu hverjir þeir voru í raun og veru.  Þeirra sem lifðu með brotna sjálfsmynd, niðurbrotnar og einmanna sálir.  Þeirra sem lifðu alla sína ævi í lygi og sjálfsblekkingu.  Þeirra sem trúðu því að þeir hlytu að vera sjúkir,  gallaðir og einskis verðir.  Þeirra sem trúðu því að meira að segja sjálfur Guð fyrirliti þá.  Þeirra sem í örvæntingu sinni leituðu á náðir bakkusar eða annara vímuefna...og þeirra fjöldamörgu sem enduðu líf sitt ótímabærlega.

...
 

Er baráttan unnin?

Á þessum tímamótum gefst tækifæri til að meta stöðuna og í ljósi þess að nú hafa íslenskir hommar og lesbíur að mestu leiti hlotið lagaleg réttindi á við aðra íslendinga er eðlilegt að spyrja hvort takmarkinu sé kannski náð og hvort það sé lengur þörf fyrir félag eins og Samtökin 78 og árlega Gay Pride hátíð?

Svarið er þó fljótfengið og það er því miður nei, takmarkinu hefur ekki verið náð ennþá.  Þó lagalegir sigrar séu mikilvægir og séu forsenda þess að öðlast jafnrétti í þjóðfélaginu, þá duga þeir ekki einir og sér.

Þótt svo glæstar orustur hafi unnist, þá er stríðinu ekki lokið á meðan:

  • Enn er til fólk sem þorir ekki að koma út úr skápnum.
  • Fordómar, fáfræði og hatur (homophobia) þrífst ennþá víða í þjóðfélagi okkar.
  • Fólk verður fyrir áreiti, barsmíðum eða einelti vegna kynhneigðar sinnar. (já það gerist ennþá)
  • Það þykir enn í lagi að segja niðrandi "homma/lessu-brandara" og kynda undir ýktum staðalímyndum í fjölmiðlum, vinnustöðum og skólum.
  • Til eru menn sem fá í skjóli trúar sinnar (sumir ríkisstarfsmenn) að niðurlægja og rakka niður líf hinsegin fólks og boða að það fari til helvítis snúi það ekki af "kynvillunni".  (Það eru því miður til trúaðir samkynhneigðir einstaklingar sem taka þetta til sín!  "Miklir kærleiksmenn" eins og Gunnar í Krossinum, Snorri í Betel, Jón Valur Jensson og Geir Waage eiga því miður ófá líf á samviskunni.)
  • Til eru menn eins og minn eigin bróðir, sem hefur ekki talað við mig og látið sem ég sé ekki til síðan ég kom út úr skápnum.
...


Hvert er næsta skrefið?

Eitt það mikilvægasta vopn sem við eigum í baráttunni er sýnileikinn og öflugar fyrirmyndir.  Hinsegin fólk má finna í öllum starfstéttum og á öllum stigum þjóðfélagsins.  Með fullri virðingu fyrir Páli Óskari (sem á mikinn heiður skilinn og þakkir fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir samfélagið) þá geta ekki allir hommar verið poppdívur! Whistling  Páll Óskar er að mörgu leiti góð fyrirmynd, en hann "representar" þó alls ekki alla homma.  Þegar ég var í framhaldsskóla (fyrir 10-15 árum síðan) var Páll Óskar nánast eini sýnilegi homminn á landinu og ég hélt hálfpartinn í einfeldni minni að allir hommar hlytu að vera eins og hann!  Fyrir einhvern eins og mig, sem hafði engan áhuga á Júróvisjón, tískuhönnun eða hárgreiðslu var það svolítið erfitt að sjá samsvörun...og mig langaði heldur ekki að gerast leikskólakennari, innanhús-arkitekt, hjúkka eða flugfreyja! (no offense, darlings! Kissing )

Ég tel að ein áhrifaríkasta aðferðin til að losna undan oki staðalímyndanna og til þess að styrkja sjálfsmynd ungra hinsegin einstaklinga sé sú að auka sýnileika "okkar hinna"...sem fæsta grunar að séu hinsegin.  Við þurfum að sýna að við erum líka löggur og lögfræðingar, ruslakallar og rafvirkjar, háskólaprófessorar og handboltamenn, stjórnmálamenn og sjómenn, blaðamenn og bændur, tannlæknar og tölvunarfræðingar, fjármálaséní og flugmenn...já ég þekki íslenskan eðalhomma sem flýgur Boeing 747 Júmbóþotu! Police  Ennþá eru margir ragir við að koma út úr skápnum á sínum vinnustað, vegna ótta við viðbrögð vinnufélaganna og áhrif á stöðu sína innan fyrirtækisins.  Þessu verður að breyta!

...


Við erum ekki ein í heiminum!

city-hall-gay-pride-flag.jpgEftir því sem fleiri sigrar vinnast á Íslandi ber okkur skilda til að leggjast í Víking og hjálpa bræðrum okkar og systrum úti í hinum stóra grimma heimi!  Í fyrra tók til handa frábær samstarfshópur innan Samtakanna 78 og Amnesty International sem kallar sig Verndarvættirnar, en meðal verkefna þeirra er að stuðla að bættum mannréttindum hinsegin fólks út um allan heim.  Við þurfum ekki að fara langt til þess að finna stað sem þarf á hjálp að halda...Færeyjar eiga enn langt í land, auk þess sem ástandið er víða skelfilegt í austan- og sunnanverðri Evrópu.  Sömuleiðis er sorglegt að hugsa til fólks í löndum þar sem Íslam ræður ríkjum og hvar samkynhneigð getur verið dauðadómur.

En hvað er hægt að gera?  Í fyrsta lagi að vaka yfir fréttum af mannréttindabrotum og koma þeim á framfæri við almenning sem víðast. Sömuleiðis er mikilvægt að krefjast alþjóðlegs pólitísks þrýstings frá stjórnvöldum, senda áskoranir og styðja erlend samtök hinsegin fólks með ráðum og dáðum, hvatningu og fjárframlögum.  Einnig hafa nokkrir hugrakkir íslendingar ásamt erlendum félögum sínum mætt á Gay Pride samkomur til að sýna samstöðu í löndum þar sem þær hafa verið bannaðar af yfirvöldum og/eða þeim hefur verið mætt með ofbeldi.  Þetta eru lönd eins og Pólland, Rússland, Eystrasalts-ríkin og löndin á Balkan-skaganum.

...
 

Stonewall

img_0624.jpgFyrir þá sem ekki vita, þá er ástæða þess að 27. júní er alþjóðlegur baráttudagur hinsegin fólks sú, að á þessum degi fyrir 39 árum (1969) má segja að mannréttindabarátta hinsegin fólks hafi formlega hafist, þegar óeyrðir brutust út í New York í kjölfar ofsókna lögreglunnar.  Á þessum árum var samkynhneigð enn bönnuð með lögum í Bandaríkjunum og það var daglegt brauð að lögreglan réðist til inngöngu á skemmtistaði sem sóttir voru af hinsegin fólki og það handtekið, oftar en ekki misþyrmt af lögreglunni, sektað fyrir "ósiðlegt athæfi" og nöfn þeirra voru jafnvel birt í blöðunum.  Að lokum kom að því að uppúr sauð þegar lögreglan réðist til inngöngu á Stonewall Inn barinn í Greenwich Village og viðskiptavinir börðust á móti í fyrsta sinn.  Um 400 manns mættu til að slást í leikinn og óeyrðirnar vörðu í 5 daga!  Í kjölfarið voru stofnuð fyrstu samtök hinsegin fólks í Bandaríkjunum (Gay Liberation Front) í New York og fljótlega spruttu upp hópar í öllum helstu borgum Bandaríkjanna.  Einu ári eftir Stonewall var fyrsta Gay Pride gangan haldin en þá marseruðu um 10 þúsund manns frá Stonewall upp í Central Park...and the rest, as they say, is history! Smile

img_0623_582141.jpgÉg þvældist aðeins um í New York fyrir tveimur árum síðan og varð auðvitað að kíkja niður á Christopher Street og taka mynd af Stonewall og minnisvarðanum beint á móti, í Christopher Park.  Minnisvarðinn, hannaður af George Segal, var tilbúinn árið 1982 en hómófóbískir borgarbúar komu í veg fyrir að hann væri settur upp fyrr en árið 1992.  Árið 2000 var Stonwall Inn svo friðaður sem "National Historic Landmark" og er nú vinsæll áningastaður túrista í pílagrímaferð.  Einnig varð ég að koma við í hinni sögufrægu Oscar Wilde bókabúð þarna rétt hjá.

 
 

Ég á líka afmæli

Það vill svo til að í dag eru liðin nákvæmlega 5 ár frá því ég tók loksins mín fyrstu skref út úr skápnum.  Ég hálf skammast mín fyrir að viðurkenna það í dag að ég hafi verið algert "closet case" til 25 ára aldurs!  Stundum sé ég eftir að hafa ekki haft kjark fyrr...sérstaklega þykir mér leiðinlegt að hafa ekki getað sagt móður minni frá þessu áður en hún dó.  Einnig sé ég eftir öllum þessum árum sem fóru til spillis í áhyggjur og þunglyndi...en þetta hafðist fyrir rest. Wizard 

Í dag sér maður krakka koma út úr skápnum allt niður í 13-14 ára...og þó maður öfundi þá að vissu leiti þá vakna líka áhyggjur um að sumir þeirra hafi ekki endilega öðlast þann þroska sem til þarf til að standast það andlega álag sem getur fylgt því að koma út úr skápnum...en auðvitað er þetta þó að mörgu leiti líka frábær þróun og stórkostlegt að þessir krakkar þurfi ekki að sligast með þetta á bakinu til lengdar, sem vafalaust gerir þá að heilbrigðari einstaklingum.  Það er frábært að vita til þess öfluga starfs sem Ungliðahreyfing Samtakanna 78 starfrækir í dag auk samtaka Foreldra og Aðstandenda (FAS - íslensk versjóna af PFLAG) sem er þessum krökkum gríðarlega mikilvægt.

...

Af hverju Gay Pride?

Besti vinur minn (sem er straight - but not narrow) sagði mér um daginn að þó hann styddi öll réttindi samkynhneigðra heils hugar þá skildi hann ekkert í Gay Pride göngunum.  Hann sagði að þessar stereótýpísku drag-dívur og fáklætt fólk dillandi rassinum útí loftið færu óskaplega í taugarnar á sér og þau hlytu að skaða málstað samkynhneigðra frekar en hitt!  Þess ber að geta að hann hefur aldrei farið í Gay Pride göngu og bara séð myndir úr sjónvarpinu.

Ég verð að viðurkenna að áður en ég mætti í mína fyrstu gleðigöngu, þá var ég sama sinnis og þessi vinur minn!  En fyrir forvitnis-sakir ákvað ég á endanum að sjá þessi "fyrirbæri" með eigin augum, svo ég læddist meðfram veggjum og lét mig hverfa inní þvöguna.  Upplifunin kom mér algerlega í opna skjöldu! Að finna stemmninguna í andrúmsloftinu, sjá gleðina skína úr hverju andliti, stoltið og sjálfstraustið, mannfjöldan sem var samankominn til að styðja okkur...þetta breytti lífi mínu!  Í fyrsta skipti á ævinni upplifði ég að ég var ekki einn...og að "it´s really ok to be gay!" Joyful  Ég var alls ekki viðbúinn þessu tilfinningaflóði og satt að segja fór ég að há-grenja þegar ég sá mörg þúsund blöðrur í regnbogalitunum þekja himininn.  Ég veit að ég er ekki einn um að upplifa sitt "first time" svona og ég er handviss um að þetta hefur bjargað mörgu sálartetrinu!

Núna um helgina fer fram Twin Cities Pride í Minneapolis og ætla ég ekki að missa af því (hér eru myndir sem ég tók í fyrra en þá mættu yfir 300 þúsund manns!  Ein af stærstu Pride hátíðum í Bandaríkjunum og sú stærsta í miðvestrinu utan Chicago)

Það sem meira er... fyrrnefndur besti vinur minn ætlar að koma með í þetta skiptið! Happy  Vonandi kemur þetta honum skemmtilega á óvart.  Lofa myndum og/eða vídeói á mánudag.


O.J. Mayo

mayo_stern_draft_292_582126.jpg"With the 3rd pick of the 2008 NBA Draft, the Minnesota Timberwolves select O.J. Mayo from the University of Southern California".  Það var ljúft að heyra David Stern loksins segja þessi orð núna áðan, en nýliðavalinu var rétt að ljúka og Minnesotans geta tekið gleði sýna á ný og horft fram á betri tíma!  Margir voru hræddir um að Kevin McHale, stjóri TWolves, gerði enn ein mistökin og tæki eitthvað stiff eins og Brook Lopes eða Kevin Love...en loksins, loksins gerði hann eitthvað rétt og valdi leikmann sem að margra mati hefur hæfileikana til að verða súperstjarna.  Þó svo Derrick Rose og Michael Beasly (sem voru valdir no. 1 og 2 af Bulls og Heat) eigi örugglega eftir að verða solid leikmenn, þá telja sumir að Mayo skjóti þeim ref fyrir rass og verði Rookie of the Year og muni verða "franchise player" Minnesota Timberwolves næstu árin.  This kid is the real deal folks!

UPPFÆRT 2:27 AM  -    AAAAAAAAARRRRRRGGGGGGGHHHHHHHH!!!!!!!!!!!!!!!

Timberwolves voru rétt í þessu að treida Mæjónesinu til Memphis í skiptum fyrir Kevin Love og Mike Miller!     HVAÐ ER AÐ KEVIN MCHALE?????   ÚÚFFFFF....það heldur áfram að vera erfitt að vera Timberwolves fan!

Timberwolves fá:  Kevin Love, Mike Miller, Brian Cardinal og Jason Collins.  Memphis fær Mayo, Marco Jaric, Antoine Walker og Greg Buckner.    *sigh*


Bloggfærslur 27. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.