Baráttudagur verkalýðsins

may 1Það fer ekki mikið fyrir hátíðahöldum í dag hér vestra í tilefni dagsins.  Kúgaður almúginn mætir bara í vinnuna sína í Wal-Mart eins og alla aðra daga og vinnur fyrir sínum 7 dollurum á tímann enda hollara að vera ekki með neitt væl um bætt kjör því það er brottrekstrarsök að skipuleggja stéttarfélag.  Níutíu prósent starfsfólks Wal-Mart vinnur reyndar bara 75% vinnu því þá þarf fyrirtækið ekki að útvega því heilsu-tryggingu, lífeyrirssjóð, launað sumarfrí eða neitt annað slíkt sósíalískt bruðl.

Í rúman áratug var það fastur liður hjá mér á 1. maí að mæta í rauðum lúðrasveitarbúning á samkomu komma og krata sem haldin var á Hótel Selfossi ár hvert.  Þar blés ég Internasjónallan af öllum mætti í lúðurinn minn við góðar undirtektir.  Allir risu úr sætum og sungu með hástöfum eins og væri verið að leika þjóðsönginn.  Ekki var síður sungið hástöfum með Maístjörnunni og Sjá roðann í austri!

Ég hafði yfirleitt bara nokkuð gaman af þessu þó ræðurnar væru margar langar og leiðinlegar, en það sem hélt manni gangandi voru kaffiveitingarnar sem bornar voru fram í lok dagskrárinnar.  Það skorti aldrei á kræsingarnar...rúllutertur og brauðtertur, kleinur, flatkökur með hangikjöti og rjómapönnukökur.  Þetta voru laun erfiðisins og allir sáttir.

Með árunum urðu þessar samkomur þó alltaf fámennari og íburðarminni.  Mestmegnis mætti alltaf sama fólkið á þessar samkomur, flestir eldri borgarar.  Það var hálf raunarlegt að finna hvað krafturinn og eldmóðurinn dvínaði með hverju ári sem leið.  Ræðurnar urðu styttri og tónninn í þeim áberandi lægri.  Undir það síðasta voru ekki nema um 10 hræður sem sungu hástöfum með Nallanum og stemmningin fór úr því að kalla fram einlægan samhug í það að verða hálf uppgerðarleg.  Það var eins og fólk væri frekar að mæta af gömlum vana og til þess að fá eitthvað gott með kaffinu.

maydayEkki veit ég hverju um er að kenna.  Kannski var hið svokallaða góðæri orðið svo mikið að fólki fannst ekki lengur taka því að koma saman og kyrja baráttumarsa.  Eða kannski var það fall Berlínarmúrsins og dauði kommúnismans sem varð þess valdandi að fólk varð svona dauft. 

Ég veit satt að segja ekki hvort þessar samkomur séu ennþá við lýði eða hvort þær hafi lagst alveg af síðan ég hætti í lúðrasveitinni og rauðu eldri borgararnir týndu tölunni.  Hvað sem því líður þá er ekki hægt annað en að minnast þessara daga með ákveðnum söknuði og maður veltir því fyrir sér hversu langt sé í það að 1. maí verði ekki einu sinni lengur almennur frídagur á Íslandi.  Hversu langt er í það að 1. maí verði svipaður á Íslandi og hér í Bandaríkjunum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Janus

Sæll Róbert! Ég gat ekki annað en kastað á þig kveðju þegar ég óvart rambaði inn á síðuna þína og þóttist þekkja kauða. Ég fylgist með þér áfram. Síðan mín er www.skrifar-inn.blogspot.com þetta mogga blogg er bara flipp.

Bestu kveðjur, Jana fyrrverandi bekkjarfélagi frá Selfossi.

Janus, 1.5.2007 kl. 15:21

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Blessuð og sæl Jana og takk fyrir innlitið!    Vá, long time no see...gaman að heyra frá þér og lesa bloggið þitt.  Þú ert skemmtilegur penni!     

Endilega sendu mér mail einhverntíma þegar þú mátt vera að og segðu mér hvað þú ert búin að bardúsa í öll þessi ár síðan síðast...mér sýnist á blogginu þínu að þú sért grunnskólakennari? 

Kærar kveðjur.

Róbert Björnsson, 1.5.2007 kl. 21:39

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ha, SJÖ dollara?? Á maður að þurfa að hækka launin hjá þessum zombies enn einu sinni? Nú er tími til kominn að ríkið hætti að skipta sér af manns einka-mála-rekstri. Næst fer þetta fólk að heimta sumarfrí, og hver á þá að borga! 

Ólafur Þórðarson, 2.5.2007 kl. 13:51

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Hehe góður punktur veffari!  Sjö dollarar eru náttúrulega outrageous!  Þessir bévaðir demókratar að hækka federal minimum wage úr $5.15 uppí $7.25 núna um daginn.   

Þetta veldur auðvitað asaverðbólgu og atvinnuleysi...og næst fara óskráðu Mexíkanarnir að heimta hærri laun og benefits líka...og þá fyrst fer nú allt til andskotans!

Róbert Björnsson, 2.5.2007 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband