Bush hótar að beita neitunarvaldi - Ofbeldi gegn samkynhneigðum OK
4.5.2007 | 08:18
Fulltrúadeild Bandaríska þingsins samþykkti í dag breytingu á lögum um "hate crimes" eða glæpi sem rekja má til haturs á minnihlutahópum. "Haturs-glæpa" lögin gera það að verkum að líkamsárásir og morð sem framin eru vegna kynþáttar, litarhátts, þjóðernis eða trúar fórnarlambsins eru rannsökuð af alríkislögreglunni og sótt til saka af alríkis-saksóknara. Oft eru dómar vegna alríkis-glæpa harðari og dvölin í alríkisfangelsum erfiðari og eru lögin því hugsuð sem fælingar-tæki gegn haturs-glæpum sem hafa farið fjölgandi á síðustu árum.
Í dag samþykkti þingið með 237 atkvæðum gegn 180 að bæta kynhneigð á listann yfir þá minnihlutahópa sem falla eiga undir haturs-glæpa lögin. Öldungardeildin mun taka málið upp fljótlega og er búist við að breytingartillagan verði sömuleiðis samþykkt þar, en frumvarpið var upphaflega sett fram af gamla brýninu Ted Kennedy þingmanni Massachusetts og co-sponsoruð af þeim Hillary Clinton og Barrack Obama.
Þess má geta að samkvæmt tölum frá FBI voru 1,406 ofbeldisglæpir sem flokkast myndu sem haturs-glæpir vegna kynhneigðar tilkynntir árið 2004, en það er um 15% af öllum haturs-glæpum sem rannsakaðir voru það árið.
Repúblikanar eru hins vegar mjög ósáttir við að kynhneigð verði bætt á listann yfir hópa sem vernda þarf gegn haturs-glæpum og í tilkynningu frá Hvíta Húsinu í kvöld kom fram að George W. Bush myndi beita neitunarvaldi gegn slíkri breytingu. Það yrði einungis í þriðja skiptið í forsetatíð Bush sem hann beitir neitunarvaldinu og sýnir því hversu málið er honum mikilvækt. (sjá frétt CNN)
Andstæðingar frumvarpsins halda því fram að það myndi hefta málfrelsi presta og trúarleiðtoga og geri þeim erfiðara fyrir að mæla gegn samkynhneigð. Harry Jackson, biskup Hope Christian Church í Lanham, Maryland sagði: "We believe that this legislation will criminalize our freedom of speech and our ability to preach the gospel."
Þessi rök eru fáránleg í ljósi þess að lögin taka einungis á ofbeldisglæpum og hafa ekkert með skert málfrelsi að gera. Það segir meira að segja í lögunum beinum orðum "Nothing in this Act, or the amendments made by this Act, shall be construed to prohibit any expressive conduct protected from legal prohibition by, or any activities protected by the free speech or free exercise clauses of, the First Amendment to the Constitution." Sem þýðir að Fred Phelps, Pat Robertson, Jerry Falwell og félagar geta haldið áfram að breiða út sinn hatursáróður svo lengi sem þeir hvetji ekki til ofbeldisverka með beinum hætti.
Endilega kíkið á þessa síðu http://www.hatecrime.org/subpages/hatespeech/hate.html og lesið hvað þessir "guðs-menn" láta út úr sér. Sérstaklega bendi ég á orð Pat Robertson þar sem hann líkir samkynhneigðum við nasista (líkt og Sr. Geir Waage gerði í kastljósþætti nýlega) og orð Dr. Paul Cameron, fyrrverandi sálfræðings sem varð síðan útskúfaður af fræðasamfélaginu: "Unless we get medically lucky, in three or four years, one of the options discussed will be the extermination of homosexuals." Þess má geta að Jón Valur Jensson hefur vitnað beint í "rannsóknir" Dr. Cameron í greinum sínum sem og rannsóknir "The Family Research Council" sem byggja sömuleiðis á fræðum Dr. Camerons.
Hatursglæpir eru raunverulegt og alvarlegt vandamál, bæði hér í Bandaríkjunum sem og annars staðar í heiminum. Ofbeldið snýr ekki eingöngu gegn sjálfu fórnarlambinu heldur líka gegn þeim hópi sem einstaklingurinn tilheyrir. Sjálfur þekki ég til fólks sem hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar hér í bandaríkjunum. Mér varð sömuleiðis illa brugðið í fyrra þegar framin voru skemmdarverk á bílnum mínum skömmu eftir að ég hafði sett lítinn límmiða frá Human Rights Campaign á stuðarann. Ég hafði skroppið út í búð að kvöldi til og þegar ég kom út var bíllinn útataður í eggjum og búið að rispa lakkið og brjóta afturljósið þeim megin sem límmiðinn var og er.
Oftast eru þessi ofbeldisverk fyrst og fremst ætluð til þess að senda skilaboð til samfélagsins og til þess að vekja upp ótta hjá stórum hópi fólks. Það er óskiljanlegt, sorglegt og kaldhæðnislegt að það séu oftast menn sem þykjast tala í nafni Guðs sem vekja upp þetta hatur meðal fólks. Það kemur sannarlega úr hörðustu og ósvífnustu átt.
Að lokum langar mig að benda á vefsíðu Matthew Shepard Foundation sem og miður smekklegri "minningarsíðu" um Shepard sem haldið er úti af Westboro Baptist Church í Topeka, Kansas.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:20 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef verið að fylgjast með þessu máli - takk fyrir samantektina. Andstaða "trúaðra" repúblíkana gegn þesum lögum eru sennilega ekkert annað en publicity stunt - því allur rökstuðningur þeirra gegn lögnum er byggður á rangfærslum og misskilningi, og þetta með "sérréttindin": lögin ná nú þegar til þeirra sjálfra, þ.e. glæpir mótíveraðir af hatri á trú fórnarlambsins eru dæmdir harðar en séu þeir mótíveraðir af hatri á kynferði, svo þegar þeir tala um að það sé verið að veita samkynhneigðum "sérréttindi" eru þeir raunverulega að tala um að samkynhneigðir eigi, sem hópur, að njóta sömu réttinda og aðrir hópar.
Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að andstaðan gangi raunverulega út á það, að lögin munu viðurkenna samkynhneigða sem einhverskonar "hóp" sem ríkinu beri skylda til að vernda. Það er furðulegt að þeim hafi ekki tekist að finna betri rökstuðning fyrir þeirri skoðun sinni. Eða ekki, því talsmenn og forgöngumenn ofsa- og bókstafstrúarfólks eru yfirleitt hálfgerðir aular, og nokkurnveginn alltaf hálf "unhinged". Það gildir beggja vegna Atlantshafsins. Og úti í því miðju líka.
En það er einn vinkill á þessu máli sem ekki hefur almennilega komið fram í umræðunni hér vestra, en það er spurningin um umsvif alríkislögreglunnar: Íhaldsmenn (alvöru íhaldsmenn, allavegana) og margir aðrir hægrimenn hafa (réttilega, að því er ég held) áhyggjur af stöðugt vaxandi valdi alríkisins og alríkislögreglunnar. Stjórnin getur ekki skýlt sér á bak við þá vörn - vegna þess að þeir hafa gert meira en nokkur ríkisstjórn síðan FDR í að þenja út valdsvið alríkisins, en mér finnst að trúaðir íhaldsmenn hefðu átt að reyna að nota þau rök, frekar en þessi málfrelsisrök. (Það er ekkert skemmtilegra, finnst mér, en að monday morning quarterback-a repúblíkanaflokkinn ;)
Eða hefur þú heyrt þetta rak einhverstaðar? Kannski er góð ástæða fyrir því að þeir hafa ekki reynt að nota það? Hver veit.
Bestu kveðjur! Magnús
FreedomFries, 4.5.2007 kl. 19:41
ógeðslegt hvernig hægt er að mismuna fólki svona út af kynhneigð og af einhverjum ofbeldisfullum brjálæðingum sem segjast vera með guði í liði. Oj segi ég nú bara. Bush er líka algjört fífl og það verður hreinsun fyrir ameríkana þegar hann fer frá völdum. Vonandi verður næsti forseti mannvinur og víðsýnn.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 4.5.2007 kl. 22:26
Það er aldrei gott að hafa neitunarvald. Ekki einu sinni mundi ég vilja hafa neiunarvald til að þvinga annað fólk.
Hvað endalaust hatur gagnvart samkynhneigðum varðar, vaknaði ég við þennan þátt í London um daginn, nokkuð sem sýnir hversu hræðilega fók getur hugsað... http://video.google.com/videoplay?docid=-4413388146858417528
Hreinn viðbjóður...
Víðir Ragnarsson, 4.5.2007 kl. 22:38
Magnús: Já, þetta er góður punktur með umsvif alríkisins. Ég gæti skilið slík rök en ef þeir ætluðu að skýla sér á bak við þau í þessu máli þá væri nær að fara fram á að allur hate-crime pakkinn eins og hann leggur sig yrði felldur úr gildi, ekki bara þessi viðbót. Þar fyrir utan ferst núverandi stjórn ekki að tala mikið um aukið valdsvið alríkisins eins og þú bendir á og er það kannski ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki þorað að reyna að beita þeim rökum.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta mál vindur uppá sig eftir að Öldungardeildin afgreiðir málið. Þá má búast við meiri fjölmiðlaumfjöllun, sérstaklega ef þeir í Hvíta Húsinu halda því til streitu að beita neitunarvaldinu. Þá hljóta þeir að verða að koma með einhver haldbærari rök...ef þau eru til.
Margrét: Já, nú eru bara 20 mánuðir 19 dagar og 10 klukkustundir eftir af forsetatíð bjánans frá Texas og þá taka vonandi við betri tímar með blóm í haga. "Hreinsunin" mun ekki gerast á einni nóttu, því sóðarnir í Hvíta Húsinu hafa þegar gert slíkan óskunda, bæði heimafyrir sem og í öðrum heimshlutum, en vonandi mun næsti forseti (hvort sem það verður Obama, Hillary eða Edwards) ná að taka til á heimilinu og bæta ímynd Bandaríkjanna, sem þrátt fyrir allt eru nú ágæt inn við beinið og eiga betra skilið en þessa vitleysinga.
Víðir: Neitunarvaldið er umdeilt þar sem það takmarkar mjög völd þingsins. Maður bölvar því núna...en samt má ekki gleyma því að Bill Clinton beitti því alls 37 sinnum á meðan hann var forseti og Repúblikanar stjórnuðu þinginu. Þetta á víst allt að vera hluti af "checks and balances" og til hjálpar lýðræðinu. Það fer víst eftir því hver situr í Hvíta Húsinu hverju sinni hvað manni finnst um það.
Varðandi Phelps fjölskylduna, þá er eiginlega ekki hægt annað en að vorkenna þessu fólki, sérstaklega börnunum sem þurfa að alast upp við þetta. Þetta sýnir svart á hvítu hversu stutt getur verið á milli ofsatrúar/bókstafstrúar og geðveiki. Oftast helst þetta í hendur. Geðsjúkt fólk sem blindast af trú (á guð, menn eða hugsjón) er líklegt til alls. Það getur framkvæmt ótrúlegustu hluti með góðri samvisku í nafni trúarinnar.
Róbert Björnsson, 5.5.2007 kl. 02:53
Ég er búin að skrifa talsvert um þessa trúarbrjálæðinga á minni síðu og það urðu vægast sagt fjörugar umræður Ég sagði þeim að það væri skrattinn sem héldi í skottið á þeim
Margrét St Hafsteinsdóttir, 5.5.2007 kl. 21:47
Víðir! Takk fyrir þennann frábæra link á þáttinn. Þetta er auðvitað extreme handleggur og það sem fólkið kallar FAG er lífsstíll okkar allra. Klikkað kult.
Hætulegri eru þeir sem koma fram sem eðlilegri og viðræðuhæfari en búa undir niðri yfir sínu hatri.
Ólafur Þórðarson, 6.5.2007 kl. 03:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.