Flugumferðar-hermir
20.6.2007 | 08:15
Flestir eiga sér einhver skrítin áhugamál og nýlega dustaði ég rykið af einu slíku, en það er forritið ATC Simulator 2 frá AeroSoft. Það var alltof heitt úti í gær til útiveru þannig að ég dró fyrir alla glugga, slökkti öll ljós og settist fyrir framan ratsjána í nokkra klukkutíma.
Þessi hugbúnaður, sem varla er hægt að kalla tölvuleik enda notaður til kennslu, hermir á mjög raunverulegan hátt eftir aðflugsstjórn flugvalla eða TRACON (Terminal Radar Approach Control). Flugumferðarstjórn skiptist í þrjú grunn-svið: flugturninn sem stjórnar flugtaki og lendingum sem og flugi í næsta nágrenni við flugvöllinn (venjulega 5 mílna radíus uppí 3 þús. feta hæð); aðflugsstjórnin (TRACON) stýrir aðflugssvæðinu sem nær oftast uppí 30-50 mílna radíus og 10 þús. feta hæð; og svo loks flugumferðarmiðstöð (Area Control Center) sem sér um allt annað flug.
Þessi hugbúnaður býður uppá aðflugsstjórn á 120 flugvöllum í Bandaríkjunum og maður getur stillt traffíkina allt frá því að hafa kannski 10 vélar í einu uppí 50-60...sem er mjög erfitt. Ef maður vill hafa þetta sem raunverulegast getur maður líka stjórnað ALVÖRU traffík, þ.e.a.s. tölvan sækir þá upplýsingar um raunverulega flugumferð á viðkomandi svæði (með ca. 15 mínútna seinkun). Einnig er hægt að tengja forritið við Microsoft Flight Simulator og stjórna vinum sínum í "multiplayer mode".
Það sem gerir þetta forrit svo frábært að mínu mati er að það býður uppá raddstýringu (speech recognition - MS SAPI staðall) sem þýðir að maður getur stýrt flugvélunum munnlega án þess að nota mús eða takka. Það tekur tíma að ná "língóinu" en þegar það er komið þá er þetta rosalega skemmtilegt..."NorthWest 327 descend and maintain 3000, turn left heading 330, expect ILS runway 27 left"..."Continental 28-niner heavy, cleared for visual approach rwy 27 left, contact tower on 122.4" ;-)
Anywho...áhugi minn á þessu forriti kviknaði fyrir tveimur árum en þá tók ég tvo kúrsa í flugumferðarstjórn hérna í skólanum mínum hjá Dr. Mattson en hann starfaði sem flugumferðarstjóri hjá flughernum í um 20 ár og hefur tekið þátt í að hanna þennan hugbúnað og var að prófa hann á okkur í bekknum. Karlinn breytti einni skólastofunni í ansi skemmtilegt "simulation" herbergi þar sem honum tókst að skapa mjög raunverulegt umhverfi. Þá þurftum við líka að skrifa allar upplýsingar á sérstakar pappírsræmur og skipta niður "sectorum" á milli okkar. Þetta var alveg stórskemmtilegt.
Seinna komst ég svo í heimsókn í flugturninn og aðflugsstjórnina í Minneapolis og þá kannaðist maður heldur betur við kerfið.
Það er örugglega ágætis jobb að vera flugumferðarstjóri, en það er alls ekki fyrir alla. Mig dreymdi á sínum tíma um að komast í flugumferðastjóranám, en það er hægara sagt en gert að komast inn í slíkt. Ég sótti einu sinni um hjá Flugumferðarstjórn Íslands og komst í 20 manna úrtak eftir inntökupróf, en það voru um 150 manns sem þreyttu fyrsta prófið. Þá tók við sálfræðiviðtal og svokallað "taxi-test" þar sem maður stýrir leikfangaflugvélum á bílabraut á meðan prófdómarar reyna að taka mann á taugum. Þeir tóku svo aðeins 4 inn í þetta skiptið og ég var því miður ekki einn af þeim heppnu. En svo maður líti á björtu hliðarnar þá væri maður ekki staddur hér hefði maður komist inn...þannig að kannski var það bara eins gott eftir allt saman.
Ekki þýðir svo að ætla sér að læra flugumferðarstjórn hérna því í Bandaríkjunum þarf maður að vera US ríkisborgari til að fá vinnu hjá FAA.
En...ein kvöldstund fyrir framan ATC Simulator 2 svalar þessari dellu ágætlega!
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Spil og leikir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.