The War on Christmas
4.12.2007 | 03:11
Stundum valda íslendingar mér miklum vonbrigðum. Oft leyfi ég mér að hrista hausinn hér í barbaríinu í Ameríku og hugsa með mér að vel menntaðir og upplýstir íslendingar létu sér nú ekki detta svona vitleysu í hug. En aftur og aftur er ég að komast að því að þessi innprentaða hugmynd mín um yfirburði íslensks samfélags og þjóðarsálar er ekkert nema tálsýnin ein.
Síst átti ég nú þó von á því að íslendingar færu að apa upp hysteríuna og ruglið úr áróðursmaskínu Kristinna-öfgahægrimanna, Fox "news" og Bill O´Reilly, um árásir trúleysingja á jólin!
Það hefur löngum tíðkast hér í Ameríku að mála trúleysingja (Atheists) sem stórhættulega og siðlausa glæpamenn, kommúnista, nasista og andfélagslega og and-Ameríska hryðjuverkamenn! Sjálfur George Bush eldri sagði á meðan hann gengdi forsetaembættinu að hann teldi ekki að trúleysingjar ættu að teljast bandarískir ríkisborgarar! Í 13 fylkjum Bandaríkjanna mega trúleysingjar ekki bjóða sig fram til embætta og allir dómarar, lögmenn og kviðdómendur verða að sverja eið við biblíuna.
Bill O´Reilly og hans kónar titla sig "Culture Warriors" og berjast með kjafti og klóm gegn því sem þeir kalla "The Secular Progressive Agenda" sem að hans áliti eru að tortíma "kristnu siðgæði" Bandaríkjanna með stöðugum árásum á JóLIN, sem og baráttu fyrir lögleiðingu fíkniefna, líknardrápum, óheftum fóstureyðingum og skelfilegast af öllu - hjónaböndum samkynhneigðra!
Nú gerðist sá atburður á íslandi um daginn að í nýju frumvarpi menntamálaráðuneytisins voru gerðar breytingar á orðalagi grunnskólalaganna í þá veru að orðin "kristilegt siðgæði" voru fjarlægð og í stað þeirra talað um manngildi, sanngirni, mannréttindi og annað í þeim dúr. Við þetta ætlaði allt um koll að keyra í þjóðfélaginu, biskupinn húðskammaði menntamálaráðherra og mætti svo í sjónvarpsviðtal hvar hann hvatti trúaða til að rísa uppá afturlappirnar og berjast með kjafti og klóm gegn hinum and-kristna og and-íslenska félagskap Siðmennt. Já, nú skyldi gera atlögu að þessum bölvuðu og óforskömmuðu trúleysingjum sem allt eru að drepa með sínum svæsna yfirgangi! Kristnir hafa svo sannarlega svarað kalli leiðtoga síns og hafa ráðist að trúfrjálsum með dylgjum og dónaskap í blöðum og á bloggsíðum.
Þessi litla breyting á orðalagi hefur orðið til þess að við trúleysingjar höfum verið sakaðir um að vilja láta leggja niður litlu-jólin í skólunum, sem og alla trúarbragðafræðslu og jafnvel eigum við að vilja láta leggja niður jólafrí og páskafrí. Vitleysingar eins og Eyþór Arnalds og Jón Magnússon eru farnir að búa til "War on Christmas" á íslandi og kenna "fjölmenningarstefnunni" um enda er oft stutt á útlendingahatrinu hjá kristnum öfgahægrimönnum. Ég vorkenni þeim börnum sem þurfa að alast upp við slíkt "kristið siðgæði".
Það er svosem skiljanlegt að þjóðkirkjufólki standi ekki á sama lengur þar sem flóttinn úr kirkjunni hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum og sóknarbörnum fækkað um fleiri þúsundir. Þau sjá ekki nema eina von í stöðunni og það er að gera skurk í skólunum og veiða ungar og ómótaðar sálir með svokallaðri "vinaleið" sem er ekkert annað en ekki-svo-vel-dulbúið trúboð. Trúboð á ekki heima í skólum. Punktur. Trúaðir foreldrar hljóta að geta heilaþvegið börnin sín heima hjá sér eða farið með þau í sunnudagaskóla á eigin kostnað.
Þá geta allir haldið sín jól í friði, trúaðir jafnt og trúfrjálsir. Persónulega held ég uppá sólstöðuhátíðina með því að mæta í fjölskylduboð og snæði góðan mat og drekk Egils malt og appelsín, gef og þygg gjafir og hlusta á fallega tónlist. Eini munurinn á mínu jólahaldi og þeirra trúuðu er að ég mæti ekki í kirkju, hlusta ekki á útvarpsmessuna og gæti ekki staðið meira á sama um þykjustu-afmæli löngudauðs rabbía og flökku-sjónhverfingarmanns að nafni Yahushua ben Yosef.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 04:20 | Facebook
Athugasemdir
Málflutningur og yfirgangur trúaðra er að gera mig svarin óvin þessarar steypu, það er eins og flestir trúaðir séu mótaðir í sama móti, alltaf sömu "rökin" sem engan vegin standast, allir eins og fíflið hann Bill, stríð gegn jólunum, stríð gegn kristni ef fólk fer bara fram á að þeir haldi sér á mottunni og láti börn manns í friði.. BANG stríð gegn Jesú.
Þetta er lýsandi fyrir því að trúarbrögð geta ekki lifað af í nútíma samfélagi ef þeir ná ekki þroska til þess að skilja að allir eru ekki eins
DoctorE (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 08:51
Aldeilis frábær yfirferð um þessi mál og góður samanburður á hysteríuna, þar sem einföld krafa um að trúboði og afstæðri innrætingu sé haldið utan menntastofnana er dregin niður á eitthvað pathetic tilfinningaplan um piparkökur kertaljós og páskaegg.
Skilaboðin eru einföld. Haldið trú ykkar fyrir ykkur sjálf og boðið trúarbrögð í þartil gerðum stofnunum. Kennið trúarbragðasögu í öllum bænum og segið þá allann sannleikann um hana. Þá ættu allir að vera sáttir.
Þessir sukkópatar neita hinsvegar að heyra og skilja og hafa varla lesið fyrirsagnirnar á bloggum frjálshuga áður en þeir ryðjast inn með ofstæki sitt og hótanir í skjóli ritningargreina.
Enginn hefur nefnt að banna trúboð, né að leggja niður trúarbrögð. Það skal bara gert þar sem því er ætlaður staður þ.e. innan kirkjunnar og söfnuða. Engin er að tala um að leggja niður jól og páska né endurskýra þær hátíðir. Allir hafi frjálst val um á hvaða forsendum þessar hátíðir eru.
Enga presta og ekkert trúboð í skólum. punktur. Hvað er svona flókið við að skilja þá sjálfsögðu kröfu. Til að lýðræðisháttum sé þjónað, þá má kjósa um þetta fyrir mér og veit ég að almenningur mun vilja slíkt hið sama.
Jón Valur er farinn að kalla okkur nasista og þá finnst mér full langt gengið. Svo talar hann um ofstæki. Svo er orðið Trúleysingi oxymoron, því maður getur ekki verið það sem maður er ekki, frekar en ekki flugmaður aða ekki læknir eða ekki framsóknarmaður. Hér er í raun verið að tala um frelsi andans og ég skil ekki hvað fólk hefur gegn því.
Annars hef ég litlar áhyggju af því að ekki takist að vinna þennan málstað. Við erum þó framar rugludollunum O'Reilly og co. Hér eru þó enn lög um guðlast, sem geta tæknilega sett okkur alla í þriggja mánaða fangelsi, svo miðaldarhugarfarið ríkir enn í stjórnsýslunni.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 16:33
Ég horfi á þetta allt sem prófstein fyrir trúarbrögð í nútíma samfélagi, fólk horfir á ruglið í islam og svo fáránleg "rök" hjá kristnum mönnum sem vilja vaða yfir allt og alla.
Ef trúarbrögðin þróast ekki á vitrænan máta þá munu þau deyja út, valið er hjá trúuðum
DoctorE (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 18:38
Já, það er fróðlegt að fylgjast með þessu...miklar hræringar í gangi í veröldinni í dag og óljóst hvar trúarbrögðin passa inní myndina. Sem fyrr eru trúarbrögð mesta ógnin við heimsfrið og margur skugginn lifir í skjóli hempunnar.
Og Guðmundur: Happy Holidays sömuleiðis!
Róbert Björnsson, 5.12.2007 kl. 00:28
Hehe flottur víkingur þarna! Vissulega ættu þeir frekar að nota orðið jól! Ég held að íslendingum þætti skrýtið að tala um kristsmessu. Það er rétt að jólin snúast um að lýsa upp mesta skammdegið...gyðingarnir kveikja á sjö kertum á Hanukkah og african-americans halda uppá Kwanzaa með kertum og ljósum.
Um að gera að gera sér dagamun og halda hátíðleg jól ljóss, áts og friðar án nokkurs dogma.
Róbert Björnsson, 5.12.2007 kl. 00:57
Þeir nota nú orðið Jól í Ameríku. Juletide. Sennilega tekið úr skandinavísku eins og smorgasbord eða hvað það var nú.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.12.2007 kl. 01:01
Jú jú...sérstaklega heyrist þetta notað í smábæjum hérna í ofanverðu miðvestrinu þar sem annar hver maður er af skandínavískum ættum. Samt hef ég nú ekki heyrt fólk segja "happy juletide"...nema ef vera skildi útvarpsmanninn góðkunna Garrison Keillor úr þáttunum "A Prairy Home Companion" á NPR.
Róbert Björnsson, 5.12.2007 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.