Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Breakfast at McDonalds (timelapse)
20.6.2008 | 20:09
Hvað er betra en að vakna klukkan 6 am og skjótast (í gymmið) á McDonalds til að kaupa sausage McGriddles með miklu sírópi og hash browns to go?
Víðeó-bloggur
15.6.2008 | 13:28
Kæru vinir og vandamenn, ég vona að þið sjáið ykkur fært að kíkja á eftirfarandi myndbönd. Gærdagurinn fór í að taka þetta upp og ég vakti til 5 í morgun til að klippa þetta saman og hlaða inná youtube...eins gott að það er sunnudagur...zzzZZZzzz... Vona að þið hafið smá gaman af þessu! ATHUGIÐ - Til að sjá myndböndin í betri myndgæðum er hægt að tvísmella á myndbandið (þá opnast nýr gluggi inn á youtube síðunni) - þar er hægt að smella á "watch in high quality" hægra megin undir myndbandinu - svo er um að gera að stækka gluggan og horfa í full screen. (smellið á íkon neðst í hægra horni myndbandsins)
Saint Cloud - Part 1
Saint Cloud Part 2
Saint Cloud State University - skoðunarferð um campusinn
Tornado Warning
15.6.2008 | 08:06
Eitt af því sem fylgir því að búa í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er að á þessum árstíma ganga oft yfir heljarinnar þrumuveður sem geta myndað skýstrokka (tornadoes). Við sluppum við skrekkinn í kvöld, en þó brá manni svolítið í brún þegar ég yfirgaf kínverskan veitingastað hér í bæ en þá tóku að glymja háværar loftvarnarflautur. Fólk átti sem sé að drífa sig ofan í kjallara eða ofan í baðkarið sitt og hylja sig með rúmdýnunni sinni...en...auðvitað er ekkert fútt í því svo við bara störðum upp í loftið og náðum ágætum myndum af skýjunum...m.a. ský sem virtist vera svokallað "funnel cloud" með "vertical rotation". Alltént gerði svo hellidembu og ágætis rok, eða ca. 60 mph. Endilega kíkið á!
Franskur fréttavefur birtir myndbandið mitt
6.6.2008 | 03:57
Netútgáfa franska fréttablaðsins Le Nouvel Observeur birti myndbandið mitt sem ég tók af Obama í St. Paul á vefnum sínum í gær...án þess að spyrja leyfis eða láta mig vita auðvitað. Það var bara tilviljun að ég tók eftir því á youtube þegar ég fór að athuga hvaðan þessi þúsund áhorf hefðu komið allt í einu.
Æ, þessir Frakkar...tsk, tsk...
Pomp and Circumstance
12.5.2008 | 06:02
Nú um helgina var ég neyddur í svartan kjól og skotthúfu og látinn ganga uppá svið þar sem ég var svo "hood-aður" sem Master of Science. Merkilegt nokk var þetta fyrsta útskriftar seremónían sem ég er viðstaddur eigin útskrift, en aðstæður voru þess valdandi að ég missti bæði af B.Sc. og Spartan útskriftunum mínum. Það var því ekki um annað að ræða en að taka þátt í þetta skiptið og mér til mikillar ánægju mættu pabbi gamli í fylgd með tveimur bróðurbörnum mínum á staðinn. Læt hér fylgja nokkrar myndir sem og video af því þegar ég fer yfir sviðið og lokum athafnarinnar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Memoirs of a Spartan Alumnus
14.2.2008 | 07:07
Nú um helgina verða liðin nákvæmlega 8 ár frá því ég settist fyrst á skólabekk í Bandaríkjunum. Bill Clinton var forseti og heimsbyggðin andaði léttar eftir að ekkert varð úr aldamótavillunni ógurlegu (Y2k Bug). Ég var 22 ára tölvunörd, lítt lífsreyndur og saklaus, en staðráðinn í því að standa mig á eigin fótum í fyrsta sinn, í stóra útlandinu. Ég vildi "verða eitthvað".
Spartan School of Aeronautics er mörgum íslendingum að góðu kunnur. Hundruðir íslenskra flugvirkja og flugmanna hlutu þjálfun sína hjá Spartan, allt frá árinu 1947. Spartan nafnið hefur alla tíð verið þekkt í flugheiminum og alltaf þótt ákveðinn gæðastimpill fylgja því að útskrifast frá Spartan. (eða svo teljum við okkur trú um...sem létu plata okkur í að borga skólagjöldin! ) Í dag er reyndar skólinn búinn að breyta um nafn; heitir Spartan College of Aeronautics and Technology...sem er auðvitað miklu virðulegra. Því miður var ég í hópi allra síðustu íslendinganna sem stunduðu nám við Spartan. Haustið 2001, um það leiti sem ég útskrifaðist, tóku nefnliega í gildi nýjar sam-evrópskar flug-reglur (JAR-Ops) sem leiddu til þess að Amerísk FAA skírteini fyrir flugvirkja og flugmenn, sem fram að því höfðu verið tekin góð og gild út um allan heim, voru ekki lengur nógu góður pappír fyrir Evrópu-markað (þ.m.t. ísland). Þess má geta að JAR-Ops reglurnar eru nánast orð fyrir orð kópering á FAA reglunum en málið var pólitískt til þess að koma í veg fyrir að Evrópubúar sæktu "ódýrt" flugnám til Bandaríkjanna.
Merki og mottó Spartan - Svartur köttur með númerinu 13 - "Knowledge and Skill Overcome Superstition and Luck"
Ég man að þegar ég lenti í Tulsa, Oklahoma var 23 stiga hiti (í febrúar) og daginn eftir vaknaði ég upp við loftvarnar-sírenur. Ég hélt að Rússarnir væru komnir...en nei þá var það bara tornado af styrkleikanum F3 ásamt viðeigandi eldingum, hagléljum og vatnsveðri. Maður átti eftir að venjast veðrinu.
Þrátt fyrir að það væru sennilega á milli 20 og 30 íslendingar í Tulsa á þessum tíma átti ég frekar lítil samskipti við þá flesta. Íslensku nemendurnir skiptust reyndar í tvo ólíka hópa. Annars vegar voru það jafnaldrar mínir, sem flestir voru miklir stuðboltar og virtust margir hafa meiri áhuga á ódýra bjórnum og kaftein Morgan í kók, heldur en skólabókunum. Hins vegar voru þarna líka nokkrir eldri og rólegri menn, sumir með fjölskyldur með sér, sem flestir leigðu íbúðir í suðurhluta Tulsa (Woodland Oaks á Memorial og 71st, nálægt Broken Arrow). Ég tók þá stefnu að leigja í nágrenni þeirra eldri og sleppa partístandinu, enda annálaður bindindismaður og var kominn til að læra en ekki leika mér.
Varðandi partístandið á sumum, heyrði maður margar skrautlegar sögur af þessu liði. Satt að segja var maður ekkert að flagga því að maður væri íslendingur þarna því í gegnum tíðina var búið að banna íslendingum aðgengi að ansi mörgum skemmti- og veitingahúsum. Það þurfti víst að beila nokkra slagsmálahundana og fyllibitturnar úr jailinu oftar en einu sinni og einhverjir drifu sig heim með næstu vél áður en þeir þyrftu að mæta fyrir dómarann, enda eru þeir ekkert sérstaklega liðlegir í Oklahoma og lítið spennandi að dúsa í nokkur ár í fangelsi þar. Ég heyrði um einn sem átti bara sex vikur eftir í útskrift þegar honum varð á í messunni og lét sig hverfa. Með 20 þús. dollara skólagjöld á bakinu, ekkert skírteini og með handtökuskipun sem þýðir að hann á ekki afturkvæmt til USA - ever. Bömmer!
Anyway...önnur ástæða þess að ég átti lítil samskipti við íslendingana var sú að flestallir voru þeir að læra flugvirkjun - dirty grease monkeys - eins og við snobb-liðið í Avionics deildinni kölluðum þá. Flugvirkjarnir lærðu í gömlum skýlum uppá flugvelli (Tulsa Intl.) á meðan við rafeinda-nemarnir lærðum mestmegnis í loftkældum skólastofum á suður-kampusnum svokallaða.
Námið í Spartan byggðist upp á stífum 6 vikna lotum þar sem eitt námsefni var tekið fyrir í einu. Þannig var hægt að ljúka flugvirkja- eða flugrafeindanámi á 18-21 mánuðum. Námið var samtals um 2300 klukkustundir og ef maður missti úr tíma varð maður að vinna hann upp með því að sitja eftir næsta dag, engin miskun. Ef maður missti úr heilan dag, gat það verið meiriháttar mál og þeir sem misstu úr tvo og hálfan dag urðu að endurtaka allan 6 vikna kúrsinn! Námið stóð yfir frá 7:30 á morgnana til 2:30 á daginn og yfirleitt var theoría á morgnana og verklegir tímar eftir hádegi. Við þetta bættust 2-4 tímar í heimanám á hverjum degi (a.m.k. í avionics náminu). Það voru svo haldin próf hvern einasta föstudag svo það þýddi lítið að slaka á. Nánast allir kennararnir mínir höfðu þjónað í Sjóhernum eða Flughernum og sumir voru frekar tense og héldu uppi góðum aga.
Sjá kynningarmyndband Spartan um avionics námið:
Þetta fyrirkomulag virkaði einstaklega vel fyrir mig og ég fann mig vel undir þessu álagi. Satt að segja hafði ég hálfpartinn slæpst, áhugalítill, í gegnum framhaldsskólann á Íslandi og einkunnirnar mínar voru svosem eftir því...mediocre at best. Þess vegna var ég frekar stressaður þegar ég hóf námið í Spartan, því ég vildi sanna það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég gæti staðið mig vel. Ég ætlaði sko ekki að gefast upp og fara heim með skottið á milli lappana. Sama hvað tautaði og raulaði, þá ætlaði ég að gera mitt besta. Það kom sjálfum mér þó mjög á óvart, hversu vel mér átti eftir að ganga.
Eitt af því sem hélt mér við efnið var að það kom fljótt í ljós ákveðin samkeppni meðal okkar sem best gekk í bekknum. Einkunnirnar voru alltaf hengdar uppá vegg þannig að við vissum nákvæmlega hvernig hver öðrum gekk. Það myndaðist fljótt hópur sem alltaf náði yfir 90% á öllum prófum og við vorum alltaf inná hinum svokallaða "President´s Honor Roll" og söfnuðum fyrir það hálfgerðum medalíum sem við festum á skólaskilríkin okkar, svona til að aðgreina okkur gáfnaljósin frá hinum bjánunum!
Svo gerðist það raunar strax eftir fyrstu tvær annirnar mínar að ég fékk tilkynningu um að ég hefði verið valinn "Student of the Quarter" sem var þónokkuð stór viðurkenning. Ég var boðaður í hádegisverð með forseta skólans auk æðstu yfirstrumpa þar sem mér var fært forláta viðurkenningarskjal með orðunum "For Positive Attitude, Exceptional Class Attendance, And Outstanding Work Ethic. Your Motivation And Enthusiasm For Learning Will Serve You Well In Your Studies And In Your Career. We Are Pleased To Recognize Your Achievement." Í ofanálag fékk "Student of the Quarter" sérmerkt bílastæði til afnota út ársfjórðunginn, sérstaka nælu á skólaskilríkin og nafninu var flassað á stóru ljósaskilti fyrir framan skólann...bara svona til að ALLIR vissu hver væri mesta nördið og kennarasleikjan! Mér þótti satt að segja frekar vandræðalegt hversu mikið var gert úr þessu en varð um leið áskynja að ég var töluvert öfundaður af þessum "bragging rights". Ég veit annars bara um einn annan íslending sem fékk þessa viðurkenningu, en sá er fluggáfaður tappi og starfaði síðast þegar ég vissi hjá Icelandair. *Leiðrétting - Mér hefur verið bent á a.m.k. þrjá til viðbótar! *
Ég verð að játa að þessi viðurkenning hafði virkilega hvetjandi áhrif á mig. Ég hafði aldrei áður fengið svona hrós fyrir vel unnin störf og mér fannst ég nú verða að standa undir þessari viðurkenningu með því að standa mig enn betur og sýna að ég væri þeirra verðugur. Þess vegna slakaði ég aldrei á heldur hélt út allan tímann og útskrifaðist með GPA uppá 4.0 sem er hæsta einkunn (og fékk auðvitað aðra viðurkenningu fyrir það).
Það var svo eiginlega þessum námsárangri að kenna að ég er hérna ennþá, því námsráðgjafinn minn taldi mér trú um að ég yrði endilega að halda áfram og taka bachelors gráðuna og þá væru mér nú allir vegir færir og græna kortið og allez...well... síðan eru nú liðnir ár og dagar og alls óvíst hvernig þetta ævintýri endar allt saman. En það sem mestu skiptir er að ég hef haft gaman af þessu. Það hefur verið ómetanleg og þroskandi lífsreynsla að fá tækifæri til að kynnast þessu stórfurðulega samfélagi og ég er þakklátur fyrir að hafa drifið mig af stað í þetta ferðalag fyrir réttum átta árum síðan.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Obama heimsækir Minneapolis
3.2.2008 | 18:34
Næsti forseti bandaríkjanna kom til Minneapolis í gær og troðfyllti Target Center (heimavöll Minnesota Timberwolves) þar sem hann flutti magnaða ræðu fyrir ríflega 20 þúsund dygga stuðningsmenn sína.
Ég gerði mér að sjálfsögðu far í bæinn og stóð í tveggja mílna langri biðröð í kuldanum fyrir utan Target Center í rúma 3 tíma. Ég hef satt að segja aldrei séð annað eins og þessa mögnuðu biðröð...stemmningin var engu lík og eftirvæntingin í andlitum fólks var greinileg. Ég heyrði í fólki sem var komið langt að, sumir frá Wisconsin og aðrir frá "way up north" og öllum leið leið okkur eins og við værum að taka þátt í sögulegum viðburði...ógleymanleg stund. Ég man ekki eftir sambærilegri stemmningu í Target Center fyrr, ekki einu sinni á tónleikum Bob Dylan né þegar Timberwolves spiluðu á móti L.A. Lakers í úrslitum vesturdeildarinnar í NBA vorið 2003. Stjarna Obama skín skært.
Smellið hér til að horfa á sjónvarpsupptöku NBC frá ræðu Obama í Target Center í gær.
Þess má geta að Hillary mætir til Minneapolis í dag og heldur fund í litlum íþróttasal Augsburg College (erhem...kristilegum einkaskóla!), Mitt Romney hélt í gær fund hjá einkafyrirtæki í Edina (úthverfi Minneapolis) og öfga-frjálshyggjumaðurinn skemmtilegi Ron Paul mætir í U of M á mánudaginn.
Guðrún Ásgerður Halldórsdóttir (9. desember 1937 - 21. apríl 2002)
9.12.2007 | 10:35
Í dag hefði ástkær móðir mín heitin fagnað stór-afmæli hefði hún fengið að lifa - orðið sjötug.
Það er einkennileg tilhugsun...hún var, að mér fannst, alltaf svo ung í anda. En svona líður tíminn...það eru víst liðin fimm og hálft ár síðan hún skildi við þennan heim. Hennar en ennþá sárt saknað.
Þótt tíminn lini sorgina þá nær maður sennilega aldrei að fylla það tómarúm sem myndast þegar maður missir móður sína...allavega var ég það mikill mömmustrákur alla tíð að hennar skarð verður aldrei fyllt í minni tilveru...þó lífið haldi auðvitað áfram. Einhverntíma sagði ég henni að hún væri "flugmóðurskipið" mitt! Hún var ekki alveg með á nótunum hvað ég meinti...en ég útskýrði að það væri alveg sama í hvers konar óveður ég flygi inní, að þegar lágt væri á tönkunum gæti ég alltaf lækkað flugið niður úr skýjunum og stólað á öryggi hennar í hvaða ólgusjó sem er.
Eftir fráfall hennar hefur maður stundum flogið blindflug í gegnum lífið með bilaðan kompás...en yfirleitt hefur minningin um móður mína náð að vísa mér rétta leið heim á endanum eins og sterkur flugradíó-viti.
Móðir mín var af flestum kölluð Dúna. Hún var sveitastelpa úr Grímsnesinu og "Íslenskari en sviðahaus" að eigin sögn. Hún giftist föður mínum árið 1962 og starfaði sem skrifstofustúlka hjá Kaupfélagi Árnesinga um nokkurra ára skeið en síðar sá hún um bókhald hjá fyrirtæki föður míns auk þess að starfa sem dagmóðir og "bara heimavinnandi húsmóðir" eftir að ég kom í heiminn. Stóra ástríðan í lífi hennar var tónlistin. Á "gamals-aldri" tók hún uppá því að fjárfesta í nýmóðins hljómborðum (electronic synthesizers) og sótti hljómborðs-nám til Reykjavíkur í tíu vetur. Hún tók að sér að spila í veislum, afmælum og árshátíðum auk þess sem hún var orgel-leikari hjá Oddfellow-reglunni. Hún var dugleg við að endurnýja tækjakostinn og mátti ég hafa mig allan við að aðstoða hana við að tengja tvö-til þrjú hljómborð í einu við magnara og tölvu-búnað með midi tengingum svo hún gæti nú tekið upp og "mixað" lögin sín. Hún naut þess að æfa sig langt fram á nætur og var ekkert að hugsa um svefnfrið okkar pabba né nágrannanna því hún hafði mest gaman af því að opna alla glugga og kveikja á stóra Marshall magnaranum og þrusa léttum danslögum yfir hverfið! Sem betur fer áttum við góða og skilningsríka granna og aldrei fékk hún kvörtun.
Sumarið 2001 var ég að ljúka námi í flugrafeindavirkjun (avionics) suður í Tulsa, Oklahoma. Pabbi hafði heimsótt mig árið áður en mömmu þótti það skelfileg tilhugsun að ferðast til Ameríku. Henni þótti jafn ólíklegt að hún færi þangað eins og til Tunglsins sagði hún mér einhverntíma. Pabbi ætlaði að koma og kíkja á mig aftur og á síðustu stundu ákveður mamma að hún skildi drífa sig með, öllum að óvörum! Þessi mynd var tekin á flugvellinum í Tulsa við komu þeirra.
Upphaflega stóð til að þau yrðu hjá mér í þrjár vikur, en mömmu líkaði svo vel í Ameríku eftir allt saman að hún þvertók fyrir að fara heim og var hjá mér í tvo og hálfan mánuð! Ég naut þess að hafa hana hjá mér en við brölluðum ýmislegt og ferðuðumst töluvert, meðal annars um sléttur Oklahoma og Kansas, Ozarka fjöllin í Arkansas, Kléttafjöllin í Colorado og eyðimörkina í Nýju-Mexíkó. Þá tókum við uppá því eina helgina að leigja glænýjan Lincoln Town-Car og rúlla suður til Dallas með stæl og heimsóttum m.a. Southfork Ranch, ættaróðal Ewing fjölskyldunnar.
Þetta eru mér afar dýrmætar minningar, því þetta áttu eftir að vera okkar síðustu góðu stundir saman.
Ég fylgdi mömmu heim til Íslands, en þegar þarna var komið hafði ég lokið náminu en var ákveðinn í að halda áfram og ná mér í B.S. gráðu í flugresktrarfræði við sama skóla (Spartan) og því fór ég út aftur 2 vikum síðar. Það var reyndar merkileg tilviljun að við lentum á Íslandi 10. september 2001. Morguninn eftir horfðum við á tvíburaturnana falla í beinni útsendingu...tilveran átti svo eftir að hrinja enn meira en það. Þrátt fyrir breytta veröld og skiljanlegar áhyggjur fjölskyldunnar lét ég atburði 11. september ekki stöðva mig í að fara út aftur...en dvölin reyndist ekki löng í það skiptið.
Tveim vikum eftir að ég var kominn út aftur og byrjaður í nýja náminu fékk ég símhringingu að heiman. Mamma hafði fengið einhvers konar krampa og við rannsókn fannst illkynja æxli í heila. Hún vildi ekki að ég kæmi heim en fljótlega kom í ljós að meinið var ólæknandi og henni var tjáð að hún ætti skammt eftir ólifað. Ég pakkaði saman föggum mínum og tróð í bílinn minn og á afmælisdaginn minn 25. október 2001 keyrði ég yfir hálfa Ameríku, frá Tulsa til Norfolk í Virginíu í einum rykk (20 tíma akstur) og setti bílinn í bát til Íslands og flaug svo heim daginn eftir.
Við tóku erfiðir tímar... við mamma áttum svo margt eftir ósagt...en sjúkdómurinn rændi hana getunni til að tjá sig. Æxlið hafði eyðilagt málstöðvarnar í heilanum þannig að hún gat hvorki talað né skrifað svo hægt væri að skilja. Hún hafði fulla hugsun en ef hún reyndi að segja eða skrifa það sem hún hugsaði kom eitthvað allt annað útúr henni eða á blaðið ...vatnsglas gat komið út sem stóll...útvarp sem ljósastaur. Fyrst í stað var þetta hálf grátbroslegt og oftast var hægt að af-kóða hvað hún meinti...nafnorðin og mannanöfn voru erfiðust. Samt gat hún lengi talið upp staðina sem við höfðum ferðast til í Ameríku um sumarið og nefnt þá réttum nöfnum...Santa Fe, Amarillo, Colorado Springs...en síðustu 2-3 mánuðina gat hún varla sagt já og nei...hvað þá talað við okkur um tilfinningar sínar...dauðann...eða kvatt okkur.
Sumir finna víst Guð sinn þegar þeir horfast í augu við dauðann...ég aftur á móti glataði þarna endanlega trúnni á minn. En þrátt fyrir að ég trúi ekki á líf eftir dauðann, né að ég eigi eftir að hitta móður mína aftur, þá lifir minningin um hana í hjarta mínu á meðan ég lifi, og sú minning gefur mér styrk.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Somewhere Over The Rainbow...
11.10.2007 | 19:57
Ég smellti af þessum myndum í skólanum áðan, en í dag fór fram athöfn í tilefni "National Coming Out Day" sem ég skrifaði aðeins um í síðustu viku.
Er ekki svo við hæfi að vera svolítið væminn uppá Ameríska mátann og skella inn þessu ágæta mynbandi með (Minnesota´s very own) Judy Garland.
Og hér má sjá frú Nancy Pelosi, forseta bandaríska þingsins, taka við viðurkenningu á hátíðarsamkomu HRC í gærkvöldi.
Well folks, time for a lil´update
19.9.2007 | 05:46
Ennþá brjálað að gera í skólanum þannig að ég hef þurft að skera niður bloggrúntinn all verulega að undanförnu og er fyrst núna að komast yfir blogg-fráhvarfseinkennin.
Ég hef staðið í svolitlu basli með prófessorana sem sitja í thesis-nefndinni minni en þannig er að tveimur þeirra kemur alls ekki saman og annar bað mig um að skipta hinum út svo þeir þyrftu ekki að vinna saman. Svo er sá þriðji úr annari deild og virðist hafa allt aðrar hugmyndir um hvernig skal staðið að rannsóknarvinnunni en hinir tveir og allir hafa þeir sínar skoðanir á verkefninu og gefa mér misvísandi leiðbeiningar. Þetta er ekki til að auðvelda vinnuna og ég veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér til að halda þeim öllum happy og komast áfram með ritgerðina.
Anywho...pabbi gamli og Óa frænka (móðursystir mín) ásamt Sigurði manni hennar voru svo í heimsókn hjá mér í síðustu viku en þau fóru heim á Sunnudaginn. Ég reyndi mitt besta til að hafa ofan af fyrir þeim þrátt fyrir skólastússið og skruppum við pabbi m.a. niður til La Crosse í Wisconsin, þaðan sem við fórum í siglingu á Missisippi fljótinu á gamaldags fljótabáti (paddleboat). Það var ágætis upplifun þrátt fyrir um 30 moskítóbit, en kvöldverðar-hlaðborðið og dixie hljómsveitin um borð gerðu ferðina alveg þess virði.
Íslenska sauðkindin kom svo við sögu um daginn því Sigurður hennar Óu minnar hafði uppá bóndabýli hér í nágrenninu sem elur íslenskar rollur og vildi endilega fara í heimsókn þangað, enda er hann fyrrv. yfirdýralæknir á Keldum og eru ær hans ær og kýr. Það vildi svo skemmtilega til að þegar við mættum á staðinn var þar staddur kollegi Sigurðar við landbúnaðarstofnunina á Selfossi, dr. Þorsteinn, en hann var að kenna Amerískum bændum nýjustu tækni við sæðingar. Það var satt að segja hálf skrítið að sjá blessaðar skjáturnar í þessu umhverfi...en það virtist bara fara vel um þær í öllum hitanum.
....
Ég var svo að fá mér nýja græju í gær...24" widescreen tölvuskjá (Gateway FPD2485W). Þvílíkur munur, 1920*1200 upplausn og allez. Styður 1080p Hi-Def svo hann dobblar sem fullkominn skjár fyrir X-boxið líka og svo verður maður auðvitað að fá sér Blu-Ray spilara innan skamms.
Svona lítur desktoppurinn út hjá mér núna.