Færsluflokkur: Dægurmál
Vinur minn og Purpurahjörtun
6.8.2008 | 07:58
Að gefnu tilefni birti ég aftur þessa færslu sem ég póstaði í fyrra. Var að heyra í kappanum og líf hans gengur bærilega.
...
Um daginn fékk ég tölvupóst frá gömlum skólafélaga sem ég hafði ekki heyrt í lengi. Ýmislegt hefur dregið á daga hans síðan ég sá hann síðast, í október 2001. Mig langar til að deila með ykkur sögu hans.
Ég kynntist Terry Hudson í febrúar árið 2000. Við vorum samferða í gegnum nám í flugrafeindavirkjun (avionics) við Spartan School of Aeronautics, í Tulsa, Oklahoma. Þrátt fyrir mjög ólíkan bakrunn kom okkur strax mjög vel saman og við mynduðum ágætt teymi í verklegu tímunum ("lab parntners") auk þess sem við grúskuðum ýmislegt utan skólatíma.
Terry er svartur og ólst upp í gettóinu í suðurhluta Chicago. Til að sleppa undan fátækt, gengjastríðum og crack-cocaine faraldrinum, skráði hann sig í herinn 18 ára gamall. Það var árið 1990, árið sem Saddam Hussein heitinn réðst með offorsi inn í Kúvæt, sællar minningar. Terry var umsvifalaust sendur á svæðið til að taka þátt í Operation Desert Storm sem fallbyssuskytta á M1A1 Abrams skriðdreka. Hann var mjög súr yfir því að hafa aldrei lent í alvöru "combat" en þó kom hann heim með Purpurahjarta í farteskinu því hann fékk sprengjubrot í handlegginn þegar að Skud-flugskeyti lenti nálægt herskálanum hans í Sádí-Arabíu. Hann var voða stoltur yfir því blessaður að vera "wounded veteran".
Terry hélt áfram í hernum (active-duty) næstu 9 árin og lauk ferlinum sem Staff Sergeant (E-6). Hann ákvað svo að nýta sér skólagjaldastyrk hersins til þess að afla sér mentunar og skráði sig í Spartan, en í hernum hafði hann nokkra reynslu af viðhaldi á þyrlum og ýmsum vopnakerfum.
Um það leiti sem við vorum að útskrifast úr Spartan voru framin skelfileg hryðjuverk, kennd við 11. september, 2001. Terry var mikill "patriot" og sagðist sko ætla beint í herinn aftur til að taka í lurginn á þessum bansettu "towelheads". Þegar leiðir okkar skildu vissi ég að hann var búinn að skrá sig í varaliðið (Army reserves) en ætlaði samt að leita sér að vinnu í nýja faginu. Síðan heyrði ég ekki frá honum í nokkur ár.
Í ársbyrjun 2005 var varaliðs-deildin hans kölluð út og send til Írak. Þegar kallið kom hafði hann verið búinn að koma sér fyrir í sæmilegri vinnu hjá Lockheed Martin suður í Dallas, Texas. Eftir tæplega 4 mánaða dvöl í Írak særðist hann svo aftur þegar brynvarinn Hum-Vee sem hann var farþegi í keyrði yfir jarðsprengju. Hann slapp tiltölulega vel miðað við aðstæður, fékk í sig sprengjuflísar og hlaut innvortis blæðingar auk þess sem hann missti varanlega heyrn á öðru eyra. Félagi hans í jeppanum lét lífið.
Eftir einhverja dvöl á hersjúkrahúsi í Þýskalandi fór hann heim til Texas með nýja Purpurahjartað sitt í barminum. Þegar heim var komið komst hann að því að konan hans hafði haldið framhjá honum og var horfin á brott. Starfið hans hjá Lockheed Martin var sömuleiðis farið (fyrirtæki eru ekki skyldug til að taka aftur við varaliðsmönnum sem kvaddir eru á brott). Honum var bara tjáð að fyrirtækið hefði þurft að segja upp fjölda manns vegna samdráttar (ég sem hélt að það væri rífandi bisness hjá hergagnaframleiðendum á stríðstímum).
Terry var svo atvinnulaus í nokkra mánuði uns hann fór að vinna við afgreiðslu á bensínstöð! Hann er með sykursýki og þarf að kaupa insúlínið sitt sjálfur, því engin er sjúkratryggingin. Hann fær að vísu einhver "VA benefits" frá hernum en þau dekka ekki insúlínið. Nú ætlar hann svo að flytjast aftur til Chicago og reyna að byrja nýtt líf.
Já, svona er lífið hér í landi tækifæranna. Leiðin úr gettóinu í suðurhluta Chicago getur verið þyrnum stráð. En Terry Hudson er stoltur af Purpurahjörtunum sínum...þó svo öllum öðrum sé slétt sama.Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Wal-Mart þrýstir á starfsfólk að kjósa McCain
3.8.2008 | 03:13
Verslunar-risinn og fasista-fyrirtækið Wal-Mart hefur undanfarið beitt starfsfólk sitt hótunum og hræðsluáróðri í von um að hafa áhrif á komandi forsetakosningar. Obama hefur lýst yfir stuðningi við nýtt lagafrumvarp sem myndi gera verkafólki auðveldara að stofna verkalýðsfélög, en Wal-Mart hefur hingað til umsvifalaust rekið alla starfsmenn sem hafa reynt að skipuleggja starfsmannafélög og þrýstihópa. Hjá Wal-Mart starfa um 1.1 milljón manns (lang fjölmennasta fyrirtæki Bandaríkjanna) og nýlega hafa deildarstjórar fyritækisins verið boðaðir á fundi þar sem lögð er mikil áhersla á "hættuna" sem stafar af því að demókratar vinni kosningarnar og rekinn áróður fyrir John McCain. (sjá umfjöllun Huffington Post)
Þess má geta að 80% starfsfólks Wal-Mart keðjunnar er ekki ráðið í fulla vinnu svo fyrirtækið sleppi við að útvega starfsfólki sínu sjúkratryggingar. Mér satt að segja býður við þessu fyrirtæki og hef ekki lengur lyst á að versla þar.
Hvað er fólk svo að kvarta yfir Baugi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Játningar eineltisbarns - vídeóblogg
25.7.2008 | 05:46
Dr. Phil hver???
Franskur fréttavefur birtir myndbandið mitt
6.6.2008 | 03:57
Netútgáfa franska fréttablaðsins Le Nouvel Observeur birti myndbandið mitt sem ég tók af Obama í St. Paul á vefnum sínum í gær...án þess að spyrja leyfis eða láta mig vita auðvitað. Það var bara tilviljun að ég tók eftir því á youtube þegar ég fór að athuga hvaðan þessi þúsund áhorf hefðu komið allt í einu.
Æ, þessir Frakkar...tsk, tsk...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tölvupóstar sýna kynþáttahatur innan lífvarðarsveitar forsetans
25.5.2008 | 02:50
Nýleg innanhús-rannsókn hjá lífvarðasveit forsetaembættisins (Secret Service) hefur uppgötvað tölvupósta sem sendir voru milli háttsettra starfsmanna Secret Service sem eru uppfullir af mjög grófum "svertingja-bröndurum" auk þess sem í sumum skeytum er kvartað yfir stöðuhækkunum svartra starfsmanna framyfir hvíta menn og í einu bréfinu talaði starfsmaður um að "reverse racism" og "political correctness" væri að ganga að landinu dauðu.
Maður spyr sig í ljósi ummæla frú Clinton í gær...tæki þessi maður kúlu fyrir Obama?
Sjá frétt CNN um málið:
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
"Smiley Face" raðmorðingjar á ferðinni í St. Cloud, Minnesota?
23.5.2008 | 20:49
Fjölmiðlar hér í Minnesota fjalla nú mikið um hugsanleg raðmorð sem hafa fengið nafnið "Smiley Face Murders". Þannig er að á undanförnum árum hafa hátt í 40 ungir menn, allir háskólanemendur sem "fitta sama prófæl" fundist látnir í ám eða vötnum eftir að hafa horfið sporlaust. Flestir hurfu eftir að hafa verið úti að skemmta sér og í flestum tilfellum hélt lögregla að um slys hefði verið að ræða, þ.e. að þeir hefðu allir óvart dottið fullir í ánna á leiðinni heim. En fjöldi þessara mála á afmörkuðum svæðum er farinn að vekja grunsemdir auk þess að nýlega hefur verið greint frá því að nálægt þeim svæðum þar sem líkin fundust, voru í mörgum tilfellum veggjakrot af svipuðum "bros-andlitum".
Tveir fyrrum rannsóknarlögreglumenn frá NYPD ásamt prófessor í afbrotafræði hérna frá skólanum mínum, Dr. Lee Gilbertson telja að hér sé ekki um tilviljun að ræða og FBI rannsakar nú málið.
Þrátt fyrir að þessi 40 mál séu frá 11 fylkjum eru langflest málin héðan frá Minnesota og Wisconsin og fylgja nokkurnveginn I-94 hraðbrautinni frá Fargo/Moorehead niður í gegnum St. Cloud, Minneapolis, Eue Claire og La Crosee, Wisconsin. Hér á St. Cloud svæðinu hafa 3 piltar horfið og tveir af þeim fundist í Mississippi ánni.
Hér er frétt MSNBC um málið:
P.S. ef flash-embeddið birtist ekki hér að ofan er hægt að smella á þennan link http://www.msnbc.msn.com/id/21134540/vp/24366287#24366287
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Oklahoma: háskóla-nemar beri skotvopn
14.3.2008 | 21:28
Neðri deild fylkisþings Oklahoma samþykkti í dag lög þess efnis að leyfa háskólanemum í fylkinu að bera skotvopn innanklæða í skólanum. Hugsunin er sú að vopnaðir nemendur geti komið í veg fyrir skotárásir og fjöldamorð í skólum með því að bregðast við og drepa meintan árásarmann. Lausnin við auknu byssu-ofbeldi í villta vestrinu er sem sagt fleiri byssur. Go figure! Sjá frétt CNN Lögin eiga þó eftir að vera samþykkt í efri deildinni og af ríkisstjóranum en það kæmi mér svosem ekki á óvart að þetta brjálæði næði í gegn.
Annars var ég svosem til í hvað sem er þegar ég bjó í Oklahoma eins og sjá má...en þessi 9mm semi-automatic "Saturday Night Special" sem ég keypti á $99 á byssusýningu í Tulsa var því miður algert drasl og entist ekki í nema tvær ferðir í skotsalinn þar sem ég náði að tæma kannski 10 magasín áður en hún jammaði og gormurinn í gikknum brotnaði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1968 og 2008
1.3.2008 | 01:43
Það má færa rök fyrir því að bandaríska þjóðin standi í dag að mörgu leiti á svipuðum tímamótum og hún gerði árið 1968. Ástand þjóðmála árið ´68 voru að mörgu leiti lík og þau eru í dag. Víetnamstríðið var í algleymingi og hatrömm barátta skildi að stríðsandstæðinga og þá sem töldu nauðsynlegt að sigra stríðið sama hvað það kostaði. Bandaríkin voru tvístruð. Unga kynslóðin sem hafði fæðst á velmegunarárum eftirstríðsáranna ("baby boomers") gerði uppreisn gegn gömlum gildum og heimtaði breytingar. Mannréttindabarátta svartra stóð sem hæst og kvenfrelsishreyfingin fékk byr undir báða vængi. Fólk sameinaðist um von til þess að jákvæðar og nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar gætu átt sér stað.
Morðin á Robert Kennedy og Martin Luther King höfðu gríðarleg áhrif á þjóðarsálina og Vietnam stríðið hafði gert Lyndon B. Johnson, sitjandi forseta, svo óvinsælann að hann fékk ekki útnefningu Demókrataflokksins til þess að bjóða sig fram til annars kjörtímabils. Í kjölfarið hófst valdabarátta innan Demókrataflokksins sem átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heimsbyggðina. Unga kynslóðin sá von í öldungardeildarþingmanni Minnesota, Eugene J. McCarthy, og má segja að það hafi myndast nokkurs konar "Obama mania" í kringum hann. McCarthy var eini forsetaframbjóðandinn sem var andvígur Víetnam stríðinu og hét því að binda endi á það þegar hann tæki við embætti. En þrátt fyrir miklar vinsældir og sæta sigra í prófkjörum ákvað flokksmaskína Demókrata að útnefna annan Minnesota-búa, Hubert H. Humphrey sem forsetaefni á flokksþinginu sögufræga í Chicago. Humphrey var sitjandi varaforseti og fulltrúi gömlu kynslóðarinnar (nokkurs konar Hillary?). Eftir útnefninguna brutust út miklar óeirðir í Chicago þar sem stuðningsmenn McCarthy´s voru barðir niður af lögreglu.
Það sem gerðist í kjölfarið var að vonin dó. Unga kynslóðin og stríðsandstæðingar misstu tiltrú á stjórnmálum og lýðræðinu yfir höfuð. Ungir Demókratar höfðu gefist upp og sátu heima á kjördag í stað þess að kjósa Humphrey sem leiddi til þess að Richard Nixon var kjörinn forseti. Það sem meira er, þessi kynslóð Demókrata kom í raun aldrei til baka og fimm af næstu sjö forsetum urðu Repúblikanar.
2008
Í dag hefur unga kynslóðin fengið vonina um breytingar á ný. Bandaríska þjóðin er ennþá tvístruð. Í raun má segja að það ríki hatrammt stríð milli ólíkra menningarhópa (Culture Wars) þar sem tekist er á um grunngildi. Barack Obama hefur gefið fólki von um að það sé hægt að binda endi á stríð og áframhaldandi mannréttindabrot, að hægt sé að minnka bilið milli ríkra og fátækra, svartra og hvítra, karla og kvenna. Það hefur aldrei verið mikilvægara að vonin lifi. Það er mikið í húfi...fyrir demókrataflokkinn, bandaríkin og heimsbyggðina alla. Við megum ekki við því að unga kynslóðin missi vonina og hætti þátttöku í stjórnmálum. Hillary gæti orðið næsti Hubert H. Humphrey. John McCain gæti orðið næsti Richard Nixon. Það má ekki gerast!
Mig langar að lokum til að benda lesendum á áhugaverða ritgerð Andrew Sullivan, ritstjóra "The Atlantic", um "Why Obama Matters". Sömuleiðis vil ég benda á nýútkomna og mjög fróðlega bók fjölmiðlamannsins góðkunna Tom Brokaw sem ber nafnið "Boom! Voices of the Sixties: Personal Reflections of the 60´s and Today". Bókin fjallar að miklu leiti um atburði ársins 1968 og samhljóm við nútímann.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Obama heimsækir Minneapolis
3.2.2008 | 18:34
Næsti forseti bandaríkjanna kom til Minneapolis í gær og troðfyllti Target Center (heimavöll Minnesota Timberwolves) þar sem hann flutti magnaða ræðu fyrir ríflega 20 þúsund dygga stuðningsmenn sína.
Ég gerði mér að sjálfsögðu far í bæinn og stóð í tveggja mílna langri biðröð í kuldanum fyrir utan Target Center í rúma 3 tíma. Ég hef satt að segja aldrei séð annað eins og þessa mögnuðu biðröð...stemmningin var engu lík og eftirvæntingin í andlitum fólks var greinileg. Ég heyrði í fólki sem var komið langt að, sumir frá Wisconsin og aðrir frá "way up north" og öllum leið leið okkur eins og við værum að taka þátt í sögulegum viðburði...ógleymanleg stund. Ég man ekki eftir sambærilegri stemmningu í Target Center fyrr, ekki einu sinni á tónleikum Bob Dylan né þegar Timberwolves spiluðu á móti L.A. Lakers í úrslitum vesturdeildarinnar í NBA vorið 2003. Stjarna Obama skín skært.
Smellið hér til að horfa á sjónvarpsupptöku NBC frá ræðu Obama í Target Center í gær.
Þess má geta að Hillary mætir til Minneapolis í dag og heldur fund í litlum íþróttasal Augsburg College (erhem...kristilegum einkaskóla!), Mitt Romney hélt í gær fund hjá einkafyrirtæki í Edina (úthverfi Minneapolis) og öfga-frjálshyggjumaðurinn skemmtilegi Ron Paul mætir í U of M á mánudaginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Norðurljósin rokseljast!
3.1.2008 | 03:07
Ég vil byrja á að óska bloggvinum sem og öðrum tilfallandi gestum gleðilegs árs og friðar með þökk fyrir ánægjulegar blogg-samverustundir á árinu sem leið.
Nýárshugvekjan að þessu sinni fjallar um íslenska ferðamanna-iðnaðinn, sem eins og svo margt annað á Íslandi, einkennist af græðgi, okri, svikinni vöru, lygum og prettum. There...I said it.
Ferðalag til Íslands er fyrir flesta erlenda gesti "a once in a lifetime event". Kostnaðurinn við för til Íslands er slíkur að margir ferðalangar hafa safnað sér fyrir ferðinni í mörg ár og oft er ferðin tengd einhverjum merkis-viðburði í lífi fólks, svo sem afmæli eða giftingu. Fólk hefur oft miklar væntingar til landsins eftir glæsilegar kynningar í ferðabæklingum og glanstímaritum og býst að sjáfsögðu við að það fái fyrsta flokks þjónustu fyrir peningana sína...því nóg kostar þetta allavega.
Íslenskar ferðaskrifstofur og flugfélög eru nokkuð lunkin við að narra nýja gesti hingað ár eftir ár með fögrum loforðum og myndum... en hver skyldi ánægja ferðamannana vera við brottför? Hversu marga langar til að koma aftur? Hversu margir myndu mæla með ferð til Íslands við vini sína? Spyr sá sem ekki veit.
Mér hefði t.d. þótt fróðlegt að heyra hljóðið í þreyttum ferðalöngum sem í gærkvöldi (nýárskvöld) borguðu 5.500 kr. ($88) á kjaft til þess að fara í 5 tíma rútuferð frá Reykjavík til að elta norðurljósin...í roki, éljagangi og dimmviðri alla leið!
Ég hef öruggar heimildir fyrir því að Kynnisferðir sendu a.m.k. fimm troðfullar rútur af stærstu gerð af stað í vonskuveðri, vitandi fullvel að það væru meiri líkur á því að ferðamennirnir sæju Loch Ness skrímslið á Þingvallavatni eða Snjómanninn ógurlega í hlíðum Ingólfsfjalls heldur en norðurljósin! Hagnaðurinn af þessari halarófu-ferð í gærkvöldi hefur verið vel yfir einni milljón krónua og því kannski ekki að undra að það hafi verið freistandi fyrir stjórnendur að hundsa veðurspána og "vona það besta". Það er ekki eins og þetta ferðamannapakk hefði getað haft eitthvað betra að gera á nýárskvöldi en að hossast í svona vitleysis ferð í þéttsetinni rútu í myrkri og ógeði.
Nú veit ég ekki hversu oft hefur sést til norðurljósa á liðnu hausti og hversu hátt "success rate" er í þessum ferðum almennt...en mér finnst satt að segja að það sé verið að féfletta fólk og hafa það að fíflum. Þetta geta varla talið siðlegir viðskiptahættir. Í raun er þetta bara sér-íslenskt "Nígeríu-svindl"!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)