Færsluflokkur: Dægurmál
Ameríku-fóbía
14.12.2007 | 17:47
Mér hefur hálf blöskrað öll hysterían sem virðist hafa gripið landann í kjölfar frétta af vesalings konunni sem var svo ólánsöm að lenda í önugum landamæravörðum á JFK flugvelli um daginn. Það liggur við að þetta ómerkilega atvik hafi skapað milliríkjadeilur því Íslendingar virðast vera soddan prímadonnur að halda að þeir eigi rétt á einhverri sérmeðferð við komuna til Bandaríkjanna bara af því að þeir eru ljóshærðir og með "kristið siðgæði"!? Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir því að á hverjum degi er fleiri tugum eða hundruðum manna snúið við á flugvöllum víðs vegar um Bandaríkin af nákvæmlega sömu ástæðu, þ.e. eftir að hafa brotið mjög skýrar reglur um landvistarleyfi. Þess vegna þótti mér þetta fjölmiðlaupplaup vera hálfgerð Ekki frétt. Það er afskaplega leiðinlegt að umrædd kona skyldi hafa þurft að ganga í gegnum þessa lífsreynslu og að hún skuli hafa upplifað hana á þann hátt sem hún lýsir. Ég geri mér að vísu ekki grein fyrir því hvort að í þessu tilfelli hafi verið farið eftir hefðbundnum vinnuferlum hvað varðar framkomu og meðferð á farþeganum, en mér finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að hún hafi verið færð í járnum í fangageymslu yfir nóttina, hafi geymslurými á flugvellinum ekki verið til staðar.
Ég hef sjálfur aldrei orðið fyrir ókurteysi við komuna til Bandaríkjanna, en á undanförnum árum eru komurnar sjálfsagt orðnar vel á annan tuginn. Það kemur fyrir að landamæraverðirnir séu þurrir á manninn og pirraðir eftir langan dag, en mín reynsla er sú að svari maður spurningum þeirra kurteisislega og virki afslappaður og léttur, brosi og bjóði þeim gott kvöld, þá fær maður yfirleitt góðar móttökur. Oftar en ekki hafa landamæraverðirnir slegið á létta strengi og boðið mann innilega velkominn.
Ég hef hins vegar oft tekið eftir því að margir landar mínir í biðröðinni standa í einni taugahrúgu og líta út eins og þeir séu við það að skíta í sig, grænir í framan. Þá eiga margir í tungumálaerfiðleikum og eiga í mesta basli með að svara einföldustu spurningum og virka eins og þeir hafi eitthvað að fela. Það er ekkert skrítið við það að það fólk lendi í lengri og erfiðari yfirheyrslum. Ég skil reyndar ekki við hvað fólk er svona hrætt...landamæraverðirnir eru jú bara manneskjur af holdi og blóði sem fara heim til fjölskyldunnar að loknum vinnudegi og glápa á endursýningar á sömu sjónvarpsþáttunum og íslendingar glápa á. Það er enginn skotinn í hnakkann eða sendur til Guantanamo! Það versta sem getur gerst er það sem kom fyrir hjá þessari ágætu konu um daginn...vissulega verulega fúlt, en varla stórhættulegt.
Það hefur farið svolítið fyrir brjóstið á mér hversu margir ágætir bloggarar, þ.m.t. bloggvinir mínir, hafa úthúðað Bandaríkjunum á undanförnum dögum. Mér liggur við að segja að það hafi skapast ákveðin múgsefjun og hatur í garð Bandaríkjamanna. Ég hef séð marga einstaklinga, sem by the way hafa aldrei komið til Bandaríkjanna, leggja fram ýmiskonar alhæfingar um land og þjóð, sem að mínu mati eru rangar, ósanngjarnar og fullar af fordómum.
Vissulega hefur þetta þjóðfélag gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum árum og núverandi forseti og hans fylgisveinar hafa því miður náð að eyðileggja orðstír þessa lands með heimsku sinni og yfirgangi. En það er eitt að hata Bush og annað að hata Bandaríkin! Hér býr margt gott og skynsamt fólk sem mun vonandi ná að reisa þessa miklu þjóð uppúr öskustónni og leiða heiminn til góðra verka í nafni frelsis og hugrekkis!
Ég veit að ég á örugglega eftir að vera skotinn í kaf af æstum antí-Ameríkönum fyrir þessa færslu...but so be it! Bring it on! Glápið bara á þetta! hehe
P.S. Hér verður lítið bloggað framyfir áramót sökum verkefnaskila og fyrirhugaðara ferðalaga, en ég mun kíkja í heimsókn á Klakann núna í vetrarfríinu sem skellur á bráðlega. Ég lendi að morgni 22. desember og verð væntanlega á landinu eitthvað fram í janúar að öllu óbreyttu...ef íslenskir landamæraverðir hleypa mér inn!
The War on Christmas
4.12.2007 | 03:11
Stundum valda íslendingar mér miklum vonbrigðum. Oft leyfi ég mér að hrista hausinn hér í barbaríinu í Ameríku og hugsa með mér að vel menntaðir og upplýstir íslendingar létu sér nú ekki detta svona vitleysu í hug. En aftur og aftur er ég að komast að því að þessi innprentaða hugmynd mín um yfirburði íslensks samfélags og þjóðarsálar er ekkert nema tálsýnin ein.
Síst átti ég nú þó von á því að íslendingar færu að apa upp hysteríuna og ruglið úr áróðursmaskínu Kristinna-öfgahægrimanna, Fox "news" og Bill O´Reilly, um árásir trúleysingja á jólin!
Það hefur löngum tíðkast hér í Ameríku að mála trúleysingja (Atheists) sem stórhættulega og siðlausa glæpamenn, kommúnista, nasista og andfélagslega og and-Ameríska hryðjuverkamenn! Sjálfur George Bush eldri sagði á meðan hann gengdi forsetaembættinu að hann teldi ekki að trúleysingjar ættu að teljast bandarískir ríkisborgarar! Í 13 fylkjum Bandaríkjanna mega trúleysingjar ekki bjóða sig fram til embætta og allir dómarar, lögmenn og kviðdómendur verða að sverja eið við biblíuna.
Bill O´Reilly og hans kónar titla sig "Culture Warriors" og berjast með kjafti og klóm gegn því sem þeir kalla "The Secular Progressive Agenda" sem að hans áliti eru að tortíma "kristnu siðgæði" Bandaríkjanna með stöðugum árásum á JóLIN, sem og baráttu fyrir lögleiðingu fíkniefna, líknardrápum, óheftum fóstureyðingum og skelfilegast af öllu - hjónaböndum samkynhneigðra!
Nú gerðist sá atburður á íslandi um daginn að í nýju frumvarpi menntamálaráðuneytisins voru gerðar breytingar á orðalagi grunnskólalaganna í þá veru að orðin "kristilegt siðgæði" voru fjarlægð og í stað þeirra talað um manngildi, sanngirni, mannréttindi og annað í þeim dúr. Við þetta ætlaði allt um koll að keyra í þjóðfélaginu, biskupinn húðskammaði menntamálaráðherra og mætti svo í sjónvarpsviðtal hvar hann hvatti trúaða til að rísa uppá afturlappirnar og berjast með kjafti og klóm gegn hinum and-kristna og and-íslenska félagskap Siðmennt. Já, nú skyldi gera atlögu að þessum bölvuðu og óforskömmuðu trúleysingjum sem allt eru að drepa með sínum svæsna yfirgangi! Kristnir hafa svo sannarlega svarað kalli leiðtoga síns og hafa ráðist að trúfrjálsum með dylgjum og dónaskap í blöðum og á bloggsíðum.
Þessi litla breyting á orðalagi hefur orðið til þess að við trúleysingjar höfum verið sakaðir um að vilja láta leggja niður litlu-jólin í skólunum, sem og alla trúarbragðafræðslu og jafnvel eigum við að vilja láta leggja niður jólafrí og páskafrí. Vitleysingar eins og Eyþór Arnalds og Jón Magnússon eru farnir að búa til "War on Christmas" á íslandi og kenna "fjölmenningarstefnunni" um enda er oft stutt á útlendingahatrinu hjá kristnum öfgahægrimönnum. Ég vorkenni þeim börnum sem þurfa að alast upp við slíkt "kristið siðgæði".
Það er svosem skiljanlegt að þjóðkirkjufólki standi ekki á sama lengur þar sem flóttinn úr kirkjunni hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum og sóknarbörnum fækkað um fleiri þúsundir. Þau sjá ekki nema eina von í stöðunni og það er að gera skurk í skólunum og veiða ungar og ómótaðar sálir með svokallaðri "vinaleið" sem er ekkert annað en ekki-svo-vel-dulbúið trúboð. Trúboð á ekki heima í skólum. Punktur. Trúaðir foreldrar hljóta að geta heilaþvegið börnin sín heima hjá sér eða farið með þau í sunnudagaskóla á eigin kostnað.
Þá geta allir haldið sín jól í friði, trúaðir jafnt og trúfrjálsir. Persónulega held ég uppá sólstöðuhátíðina með því að mæta í fjölskylduboð og snæði góðan mat og drekk Egils malt og appelsín, gef og þygg gjafir og hlusta á fallega tónlist. Eini munurinn á mínu jólahaldi og þeirra trúuðu er að ég mæti ekki í kirkju, hlusta ekki á útvarpsmessuna og gæti ekki staðið meira á sama um þykjustu-afmæli löngudauðs rabbía og flökku-sjónhverfingarmanns að nafni Yahushua ben Yosef.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 04:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Húsnæðisleigan hækkar
14.11.2007 | 06:26
Í dag fékk ég bréf frá landlordinum þess efnis að sökum hækkanna á leigumarkaðinum sé hún tilneydd til að hækka hjá mér leiguna frá og með 1. janúar næstkomandi. Ég svitnaði upp og ætlaði nú varla að þora að fletta fylgiskjalinu til að sjá hversu mikil hækkunin yrði. Ég var strax farinn að sjá fyrir mér verulega lífskjaraskerðingu og aukin yfirdráttarlán.
Ég andaði hins vegar töluvert léttar þegar ég sá að hækkunin nemur heilum $10 á mánuði! Jamm...600 kall...bévað...nú eru það bara núðlur í hvert mál!
Þess má geta að ég leigi blokkaríbúð sem er 900 sq.ft. (ca. 83 m2) að stærð sem inniheldur tvö rúmgóð herbergi (myndi þá væntanlega flokkast sem 3ja herbergja íbúð samkvæmt íslenskum stöðlum) og fyrir herlegheitin greiði ég heila $570 ($580 frá og með 1. jan.) sem gerir um 35 þúsund krónur miðað við núverandi gengi dals og krónu.
Nú er hins vegar farið að styttast í að ég klári loksins námið og þá vakna verulega óþægilegar spurningar um framtíðina og þann kalda veruleika sem blasir við ef/þegar maður kýs/neyðist til að flytja aftur til Íslands.
Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld er húsaleigumarkaðurinn í Reykjavík þannig í dag að fermetraverð er á bilinu 2-5 þúsund krónur!!! Þetta þýðir að herbergiskitra eða stúdíó-íbúð getur kostað allt að 100 þúsund krónum á mánuði og íbúð sambærileg þeirri sem ég leigi hér á 35 þús. getur kostað á bilinu 160-250 þúsund krónur! Ma..ma...ma...mabbbara áttar sig ekki á svona ruggli! Hvernig í ósköpunum fær fólk þetta til að ganga upp??? Að ég tali nú ekki um ósköpin, að ætla sér að kaupa húsnæði...á þessum svívirðilegu okur-lána glæpa-vöxtum sem viðgangast og fólk lætur bjóða sér.
Nei...fjandakornið...
Nú verður held ég bara farið á fullt í að redda sér græna kortinu með öllum tiltækum ráðum... nema kannski... nei andskotinn, ætli ég færi nú að giftast kellingu???
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
pínu yfirdrifið?
30.10.2007 | 18:20
Umræðan um endurútgáfu bókarinnar um negrastrákana tíu heldur áfram og áðan birti einn ástsælasti fjölmiðlamaður þjóðarinnar mikinn skammarpistil yfir "fulltrúum góðmennskunnar í samfélaginu" sem í skjóli yfirdrifins félagslegs réttrúnaðar, skipbrota sósíalisma, fjölmenningarhyggju og feminisma, gera atlögu að "litblindum" menningarsögulegum verðmætum sem hafa að hans mati "enga skírskotun" í rasisma þann sem þekkist í útlöndum.
Enga skírskotun??? Er "útlenskur rasismi" ekki til á Íslandi eða er hann í svo allt öðru samhengi að hann er á einhvern hátt bara saklaust og meinlaust grín og barnagælur?
Það má vel vera að ég hafi lægra tolerance fyrir rasisma en gengur og gerist, enda hef ég undanfarin sjö ár búið í landi þar sem hið ljóta andlit rasismans er tiltakanlega áberandi og yfirþyrmandi. Ég hef séð rasismann "in action" með eigin augum og kynnst fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á honum.
Ég man raunar að þegar ég var nýkominn hingað þá gerði ég mér í raun enga grein fyrir hvað rasismi væri í raun og veru, því heima á Íslandi var rasismi "ekki til" (eða öllu heldur, ekki vandamál þar sem það voru engir útlendingar né litað fólk til á íslandi - svona eins og það eru engir hommar til í Íran ). Sem "freshman í college" hérna í liberal Minnesota var ég skikkaður til að taka kúrs í "Multicultural & Gender Minority Studies". Ég var frekar skeptískur á þennan kúrs í byrjun og hundfúll yfir því að vera neyddur til að taka hann því ég taldi mig ekki hafa neina fordóma. Í dag er ég hins vegar afar þakklátur fyrir að hafa tekið þennan kúrs því ég get með sanni sagt að hann var eftirminnilegri og lærdómsríkari en margir aðrir þeir kúrsar sem ég hef tekið um dagana. Ég komst að því þarna að ég vissi nákvæmlega ekkert um fordóma, hvorki mína eigin fordóma né annarra. Lestrarefnið setti efnið í sögulegt samhengi og fyrirlestrarnir og umræðurnar í tímunum gerbreyttu sín minni á rasisma í öllum sínum birtingarmyndum.
Ég man að í fyrstu tímunum var ég hálf utangátta og hafði ekki mikið gáfulegt til málanna að leggja í umræðunum en áhuginn og skilningurinn óx smám saman og svo fór fyrir rest að prófessorinn (sem var ansi skemmtileg "half hispanic, half jewish" lesbía) heimtaði að ég læsi svarið mitt við ritgerðarspurningunni á lokaprófinu upp fyrir bekkinn. Svo gaf hún mér A+ þessi elska.
En en...þið sem sjáð ennþá engan rasisma í 10 litlum negrastrákum, endilega kíkið á þennan pistil eftir dr. Gauta B. Eggertsson, hagfræðing hjá seðlabanka bandaríkjanna og bróður borgarstjóra Reykjavíkur.
Það er leitt að vissum feitlögnum hvítum (og rauðhærðum), sannkristnum menningarsnobburum, framsóknaríhaldsplebbum og karlpungum fynnst tilverurétti sínum og lífsskoðunum ógnað af okkur háværa og leiðinlega jafnaðarmannapakkinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
REI hvað?
21.10.2007 | 20:29
PS. Hér er lengri auglýsing frá Chevron og hér er einhver prakkari búinn að breyta henni aðeins.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skandall skekur Oral Roberts "University"
8.10.2007 | 21:26
Í gamla heimabæ mínum, Tulsa í Oklahoma, er starfræktur einn stærsti og virtasti kristilegi "háskólinn" í Bandaríkjunum. Hann var stofnaður af sjónvarps-predikaranum Oral Roberts árið 1962 og er fyrirmynd skólans hans Jerry Falwell sáluga, Regent "University".
ORU kampusinn er satt að segja einn sá flottasti sem ég hef nokkurntíma séð. Skólinn situr á 275 ekrum lands í suðurhluta Tulsa og byggingarnar eru allar glæsilegar og gullhúðaðar. Á níunda áratugnum fékk Roberts "köllun frá Guði" um að byggja nýja byggingu sem átti að hýsa læknaskóla. Hann lokaði sig inni og hótaði því að Guð myndi drepa sig ef honum tækist ekki að safna $8 milljónum til verkefnisins. Það tókst og byggðu þeir 300 metra háan turn sem í dag er eitt helsta kennileiti Tulsa borgar...en er að vísu bara notað sem skrifstofuhúsnæði. Tæplega 6000 nemendur stunda nú nám við skólann og hagnaður skólans á árinu 2005 var $76 milljónir.
Þess má til gamans geta að skólinn hefur m.a. útskrifað sjálfan Ted Haggard sem allir muna vonandi eftir, sem og Michele Bachman (snælduvitlausan þingmann repúblikana hér í kjördæmi mínu í Minnesota )...og í Simpsons þáttunum kom fram að Ned Flanders átti að hafa útskrifast úr ORU!
Nema hvað...nú er kominn upp svaka spillingar skandall hjá ORU...surprise, surprise.
Í fyrsta lagi nýttu stjórnedur skólans áhrif sín og fjármagn til að styðja "sinn mann" í borgarstjóra-kosningum Tulsa borgar í fyrra og létu nemendur taka þátt í sjálfboðavinnu fyrir hann. Þetta er auðvitað kolólöglegt þar sem skólinn er skattalega skráður sem "non-profit organization".
En það sem er kannski meira juicy er bruðl Roberts fjölskyldunnar úr sjóðum skólans og grunsamleg tengls Lindsay Roberts, eiginkonu forseta skólans (og kölluð "first lady" á kampusnum) við unga karlkyns nemendur skólans, sem eru undir lögaldri! (man einhver eftir Mark Foley?)
Lindsay mun hafa sent hundruð SMS skilaboða til "underage males who had been provided phones at university expense" sem voru send á milli klukkan 1 og 3 á næturnar! Símreikningar Lindsays og ungu nemendanna mun hafa numið $800 á mánuði. Lindsay mun líka hafa rekið húsvörð sem starfað hafði lengi við skólann til að geta gefið einum af sínum ungu vinum starfið.
Þá mun Lindsay hafa verslað sér föt í tískuvöruverslun í Beverly Hills fyrir $39,000 á reikning skólans og mun hafa sagt "As long as I wear it once on TV, we can charge it off". Einnig sendi Lindsey dætur sínar í útskriftarferð til Orlando og Bahama á einkaþotu skólans og skrifað það sem "evangelistic function of the president". Þá voru starfsmenn skólans oft kallaðir á heimili Roberts hjónana til að "sinna heimanámi" dætra þeirra og skólinn rekur hesthús með hrossum til einkanota fyrir dæturnar.
Auk þessa mun heimili Roberts hjónanna hafa verið endur-innréttað 11 sinnum á síðustu 14 árum á kostnað skólans og frúin ekur um á Lexus jeppa og Mercedes Bens blæjubíl sem kostaðir eru af gjafafé "ministry donors".
Svona fer Jesús með fólk í biblíu-beltinu. Hvenær ætli ruglukollunum og féfletturunum á Omega TV detti í hug að stofna háskóla?
Að lokum er hér ágætt myndband sem sýnir skólann og kampusinn í allri sinni dýrð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Síðasta kvöldmáltíðin og kaldhæðni örlaganna
7.10.2007 | 08:24
Frjálsir vesturlandabúar eiga réttilega erfitt með að skilja viðkvæmni múslima sem ærast ef birt er skopmynd af Múhammeð spámanni og sem hóta fólki dauða og limlestingum fyrir athæfið. Við þykjumst nefnilega búa í þjóðfélagi sem virðir málfrelsi ofar flestu og við sættum okkur ekki skoðanakúgun og hótanir öfgatrúarafla. Eða hvað?
Það eru nefnlilega fleiri viðkvæmir en múslimar. Margir þeir hinir sömu og harðast gagnrýndu viðbrögð múslíma við spámanns-teikningunum og birtu jafnvel myndir á sínum eigin vefsíðum, urðu svo sjálfir alveg bit þegar þeir sáu auglýsingu Símans um daginn sem líkti eftir mynd eðal-hommans Leonardo Da Vinci af Síðustu kvöldmáltíðinni. Það er semsagt allt í lagi að móðga múslíma, en á sama tíma er það forkastanalegt guðlast að gantast með kristna spámanninn Jesús. Á ekki eitt yfir alla að ganga?
Skurðgoðadýrkun kristinna manna á kvöldmáltíðarmynd Leonardo er svo athyglisvert fyrirbæri útaf fyrir sig. Sumir ganga svo langt að kalla skopstælingar á myndinni "hatursfullar og andstyggilegar" og segja þær persónulegar árásir á trú sína. Þeim ferst að tala!
Þessi mynd stuðaði marga í San Fransisco (og víðar) um daginn og varð til þess að kristin öfgasamtök bannfærðu Miller bjórframleiðandann sem var styrktaraðili að þessari samkomu og hvatti alla kristna menn til að sniðganga vörur Miller (nú drekka þeir kristnu bara Budweiser).
Þessi er kannski ekki eins stuðandi...eða hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Staðfest samvist samkynhneigðra tíðkaðist á miðöldum í Frakklandi
28.8.2007 | 17:56
Sagnfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að staðfestar samvistir (civil unions) samkynhneigðra eru ekki eins nýjar af nálinni eins og margir hafa haldið til þessa. Samkvæmt þessari frétt sem birtist á LiveScience vefnum í gær, birtir Allan Tulchin sagnfræðiprófessor við Shippensburg University í Pennsylvaníu, rannsóknir sínar þess efnis í september-hefti The Journal of Modern History.
Sagnfræðileg gögn, svo sem löggildir pappírar, erfðaskrár og grafreitir benda til þess að lögskráðar samvistir tveggja karla hafi verið nokkuð algengar í Frakklandi fyrir um 600 árum. Til dæmis fundust heimildir um svokölluð "affrèrement" (sem gæti verið þýtt sem bræðralag) þar sem "bræðurnir" (sem voru þó oft ekki raunverulegir bræður, heldur einhleypir og óskyldir karlar) gerðu með sér samning um að búa saman "un pain, un vin, et une bourse" þýð. "eitt brauð, eitt vín, ein peningabudda". Líkt og hjónabönd, urðu þessir samningar að vera gerðir í vitna viðurvist hjá opinberum stjórnsýslumanni. Ekki er minnst á samskonar samninga milli tveggja kvenna.
Það er fróðlegt að sjá að samfélagið var etv. á sumum sviðum framsæknara en sögur fara af á hinum myrku tímum miðaldanna í Evrópu. Það er fyrst núna á tímum "upplýsingar og umburðarlyndis" sem sagnfræðingar hætta sér til að birta heimildir um þetta sambúðarform, sem á síðustu öldum hefur verið gert tabú og þaggað niður, kannski aðallega af kirkjunnar mönnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hinsegin tilvera
11.8.2007 | 04:20
Því miður er staðan allt önnur ansi víða í veröldinni, þ.m.t. í ríkjum sem við skilgreinum sem vinaþjóðir okkar og ríki sem við eigum mikil viðskipti við. Nú nýlega fóru Vilhjálmur borgarstjóri og Gísli Marteinn borgarbarn ásamt fríðu föruneyti í opinbera heimsókn til Moskvu. Þar hittu þeir borgarstjóra Moskvu, Yuri Luzhkov, og færðu honum gjafir, m.a. tvo íslenska hesta og tilkynntu honum að nú stæði til að reisa rússneska réttrúnaðarkirkju á besta stað í Reykjavík. Fyrr á árinu hafði Yuri þessi borgarstjóri beitt lögregluvaldi til að koma í veg fyrir að haldin yrði Gay Pride ganga í Moskvu, sem hann lýsti sem djöfullegri ónáttúru. Er réttlætanlegt að púkka uppá svona lið?
Íslenska gleðigangan virðist vera farin að vekja nokkra athygli erlendis og er orðið þónokkuð um erlenda gesti sem gera sér far til landsins í þeim tilgangi að taka þátt í Hinsegin dögum.
Í gær skellti ég mér í sögu-göngu um miðborg Reykjavíkur sem hjónakornin Felix Bergsson og Baldur Þórhallsson stóðu fyrir. Gengið var um staði sem tengdust sögu og menningu samkynhneigðra á Íslandi síðustu 150 ár og það var margt áhugavert og skemmtilegt sem fram kom í máli þeirra Felix og Baldurs. Gangan í gær fór fram á ensku og var aðallega ætluð útlendingum, en önnur fjölmennari ganga fór fram í fyrradag á íslensku.
Það vildi svo sérkennilega til að einn útlendingurinn vatt sér að mér og spurði mig hvort ég væri frá Minnesota! Það kom til af því að ég klæddist peysu merktri skólanum mínum en í ljós kom að viðkomandi var ættaður frá smábæ í nágrenni litlu borgarinnar minnar St. Cloud, og það sem meira var, bróðir hans stundar nú nám í skólanum mínum og er að læra það sama og ég! How wierd is that!? Þessi náungi var hins vegar búinn að fá nóg af Bandaríkjunum og fluttur til Vancouver í Kanada, sem hann sagði vera frábæran stað.
Meanwhile...í Bandaríkjunum fóru fram áhugaverðar kappræður forsetaframbjóðendanna í gær. Það var sjónvarpsstöðin LOGO í samvinnu við HRC sem bauð til þessara kappræðna sem snérust eingöngu um málefni samkynhneigðra. Slíkt hefur aldrei áður gerst en það kom fáum á óvart að allir frambjóðendur Repúblikanaflokksins hundsuðu boðið, en Demókratarnir mættu allir nema Joe Biden og Chris Dodd.
Hér má sjá útsendinguna í heild sem og brot úr viðtölum við einstaka frambjóðendur. (Go Dennis Kucinich! )
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Minnesota næs
8.7.2007 | 19:29
Samkvæmt þessari frétt CNN eru íbúar Minneapolis/St. Paul þeir hjálpsömustu í öllum Bandaríkjunum og mun líklegri til þess að stunda sjálfboðavinnu og samfélagsþjónustu heldur en aðrir Ameríkanar. Samkvæmt nýjustu tölum höfðu um 4 af 10 íbúum Minneapolis svæðisins boðið fram ókeypis hjálparhönd á síðasta ári.
Áberandi munur er á framboði sjálfboðaliða eftir landshlutum í Bandaríkjunum, en mið-vesturríkin virðast koma best út og þá sérstaklega á þeim svæðum þar sem menntunarstig er hátt, en á eftir Minneapolis/St. Paul koma Austin í Texas, Omaha í Nebraska, Salt Lake City, Utah og Seattle í Washington.
Þeir þættir sem virðast hafa hvað mest áhrif á hjálpsemi íbúanna eru hátt menntunarstig sem skilar sér í aukinni "borgaralegri þátttöku", samgöngumál (stuttur tími í og úr vinnu gefur fólki meiri tíma til umráða), hlutfall þeirra sem eiga eigin heimili eykur tengsl fólks við samfélagið sitt og svo auðvitað hversu margar "non-profit organizations" starfa á viðkomandi svæði.
Lægsta hlutfall sjálfboðastarfs er í Las Vegas í Nevada þar sem einungis 14.4% sinntu einhverju sjálfboðastarfi á síðasta ári, og ástandið er litlu skárra í Miami á Flórída, Virginia Beach í Virginíu og New York City.
Fróðlegt væri að sjá sambærilegar tölur frá Íslandi...eitthvað fær mig til þess að gruna að Íslendingar séu almennt of uppteknir í lífsgæðakapphlaupinu til að stunda of mikla sjálfboðavinnu og kannski eru Íslendingar líka enn meiri kapítalistar í sér en blessaður Kaninn!
En það er gott að búa í Minnesota og hér er vingjarnlegt fólk, enda eru flestir hér af Skandínavískum sósíaldemókrata ættum.
P.S. Á meðan ég var að skrifa þessa færslu ringdi niður haglélum sem voru eflaust um sentímeter í þvermál, þrátt fyrir að úti sé 35 stiga hiti. Semsagt inniveður í dag, loftkælingin á full blast og engin sjálfboðavinna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)