Fjölmenningarsamfélagið
27.2.2009 | 19:59
Í gærkvöldi fór ég ásamt vinum mínum á afar eftirminnilega tónleika sem haldnir voru hér i háskólanum mínum. Tónlistarfólkið var mætt í opinbera heimsókn frá systurskóla okkar í Kína - Nankai University og í boði var "traditional" kínversk tónlist leikin snilldarvel á aldagömul og framandi hljóðfæri. Tónlistin ein og sér var heillandi en þó var ekki síður áhugavert að fylgjast með flytjendunum, samhæfni þeirra og "performance". Þá var varpað upp á tjald svipmyndum frá Nankai ásamt kínverskum þjóðsögum og myndskreytingum. Í lok tónleikanna komu Kínverjarnir svo á óvart með því að leika þekkt Bandarísk stef og þjóðlög á kínversku hljóðfærin sem vakti mikla lukku meðal viðstaddra. Það var mjög táknrænt fyrir samstarf og vináttu skólanna og minnti okkur á að æðri menntun er lykillinn að samvinnu og gagnkvæmri virðingu ólíkra menningarheima.
Eitt mikilvægasta veganestið sem ég tek með mér út í lífið eftir að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að stunda nám hér - og það sem hefur gefið mér einna mest - er sú upplifun að hafa fengið að kynnast sannkölluðu fjölmenningarsamfélagi. Af um 17,000 nemendum í St. Cloud State University erum við yfir 1200 (frá yfir 80 löndum) sem titlum okkur "international students". Því hef ég ekki einungis kynnst Bandaríkjamönnum (sem eru þó nokkuð fjölbreyttur hópur fyrir) heldur hef ég fengið að stunda nám með fólki frá öllum heimshornum og eignast kunningja frá Afríku, Suður-Ameríku, Kína, Indlandi, Nepal, Japan, Kóreu og svo mætti lengi telja.
Þess má geta að langstærstur hluti innfæddra hér í Minnesota eru af Skandínavískum og Þýskum ættum. Hér í St. Cloud eru 90% íbúanna hvítir og því óhætt að segja að erlendu nemendurnir marki lit sinn á staðinn og auðgi menninguna verulega. Hér er hægt að bragða á mat, upplifa tónlist og leiklist, kynnast ólíkum trúarbrögðum og lífsskoðunum hvaðanæfa úr veröldinni. Það sem stendur uppúr er að komast að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allt sem skilur okkur að - erum við þó öll eins í grunninn. Hvort sem við erum hvít, svört, gul eða rauð, kommar eða kapítalistar, trúfrjáls eða trúuð, gay or straight - öll erum við af sömu dýrategundinni og öll búum við á þessari litlu, viðkvæmu, jarðkringlu og deilum gæðum hennar.
Fjölmenningar-hugtakið er því miður oft misskilið og vísvitandi gert tortryggilegt af þröngsýnu, illa upplýstu fólki sem þjáist af þjóðrembu og ótta við allt og alla sem eru öðruvísi en það sjálft. Fjölmenning þýðir EKKI aðför að menningar-arfi, hefðum og gildum hvers þjóðfélags. Þvert á móti gerir fjölmenning okkur kleift að njóta og fagna menningu hvers annars með gagnkvæmri virðingu. Það er ekkert slæmt við að vera stoltur af sínum eigin menningar-arfi og uppruna, síður en svo! Það er hins vegar slæmt þegar það stollt breytist yfir í hroka og vandlæti gagnvart fólki af ólíkum uppruna!
Þegar ég var lítill kynntist ég hugarheimi ættingja míns sem er blindaður af kynþáttahatri og sem fór ekki leynt með aðdáun sína á nasisma. Að hlusta á ræður hans sem barn hafði djúpstæð áhrif á mig. Öll hans orð virkuðu sem eitur í mínum eyrum og ég skildi ekki hvernig nokkur heilbrigð manneskja gæti hugsað svona. Þetta mótaði mína réttlætiskennd fyrir lífstíð og gerði mig að jafnaðarmanni og húmanista. Það er skrítið að segja það - en ég á þessum ættingja mínum því mikið að þakka!
Að lokum langar mig að sýna hér ágæta ræðu Keith Olbermann sem hann flutti nýlega á gala-kvöldverði Human Rights Campaign - þar sem hann fjallar m.a. um hvernig hann lærði að taka það persónulega nærri sér - í hvert skipti sem hann verður vitni að rasisma og hómófóbíu. Celebrate Diversity!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)