Sem skattgreiðanda í Lúxemborg yljar það mér um hjartaræturnar að vita til þess að ekkert annað ríki veraldar veitir jafn-háu hlutfalli vergrar þjóðartekna sinna til þróunar-aðstoðar við bágstödd ríki. Samtals ver Lúxemborg heilu prósenti af þjóðartekjum sínum í þróunar-aðstoð, sem á síðasta ári nam yfir $430 milljónum eða rúmum 51 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar nam þróunar-aðstoð Íslands á síðasta ári 0.22% þjóðartekna þrátt fyrir loforð og alþjóðlegar yfirlýsingar um að framlögin skyldu vera 0.7%.
Nú hafa lýðskrumara-plebbarnir í Stjórnarráðinu hins vegar ákveðið að íslendingar séu of fátækir til þess að halda úti heilbrigðisþjónustu (að ég minnist nú ekki á mennta-og menningarstofnanir) öðruvísi en að hætta stuðningi við þá íbúa jarðarinnar sem líða hvað mestan skort (af þeirri tegund sem fæstir íslendingar geta ímyndað sér, sem betur fer).
Þrátt fyrir meinta fátækt Íslands (sem kannski er fremur andleg fátækt en veraldleg) ákváðu aumu smá-sálirnar í Stjórnarráðinu að nú væri upplagt að lækka auðlegðarskatta (á mis illa fengið fé) þeirra ríkustu og að afnema auðlindagjöld á arðræningjana í útgerðinni.
Já, þessa sömu arðræningja og sjóræningja sem moka upp fiski við strendur Afríku og hverra uppgefinn gróði nam 2.6 milljörðum í fyrra og rúmum 19 milljörðum á árunum 2007-2011. Sjá http://www.dv.is/frettir/2012/11/25/samherji-hagnadist-um-26-milljarda-afrikuveidunum/
Ebenezer Scrooge leynist víða og ljóst að hugmynd hans um hugtakið "samfélagslega ábyrgð" nær ekki langt út fyrir lóðarmörkin í Vestmannaeyjum og Akureyri. Það er borin von að fólk sem ekki telur sig knúið til þess að leggja sitt af mörkum til þess að halda úti grunnstoðum eigin lands og þjóðar sé fært um að hugsa um "samfélagslega ábyrgð" í alþjóðlegu samhengi.
Þetta fólk kann ekki að skammast sín.
En mikið óskaplega er ég feginn að mínum skattgreiðslum er ekki ráðstafað af þessum aumu lúsablesum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
http://m.youtube.com/watch?v=Jv4cAVzC8xM
Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2013 kl. 20:45
Ekki gleyma blygðunarlausu arðráni Evrópusambandsins rómaða í sömu álfu.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2013 kl. 20:46
Heyr! Heyr!
Þór Saari (IP-tala skráð) 9.12.2013 kl. 22:26
Sama þjóðin og vældi út hlutfallslega mestu Marshallaðstoð allra þjóða eftir að hafa grætt allra þjóða mest á stríðinu á sama tíma og önnur lönd voru í rúst, hefur aldrei kunnað að skammast sín.
Sama þjóðin og heimtaði réttlæti varðandi það að fá að nýta sjálf og ein auðlindalögsögu sína til fiskveiða er nú komin í spor nýlenduarðráns Breta á Íslandsmiðum með því að kópera það yfir á arðrán Íslendinga á Afríkumiðum.
Eitt mesta ranglæti heimsins er styrkjakerfi Vesturlanda til landbúnaðar í heimalöndunum, sem bitnar svo mjög á suðrænum þjóðum að þróunaraðstoð er eins og dropi í hafið í samanburðinum.
Íslendingar eru í þvi efni engir eftirbátar annarra Vesturlandaþjóða en er kannski vorkunn, því að jafnvel þótt allir styrkir til íslensks landbúnaðar yrðu felldir niður, myndu niðurgreiddar landbúnaðarvörur frá Evrópu og Ameríku bara koma í staðinn.
Íslenskir ráðamenn knékrupu fyrir Könum og grátbáðu þá að halda uppi þarflausu varnarliði hér á landi og héldu í aumingjaskap sínum, að með því að gera Íslendinga að opinberum þátttakendum í stríðsrekstri á hendur fjarlægri þjóð fyrir upplognar sakir, myndi þeim verða umbunað með áframhaldandi hermangi.
Ómar Ragnarsson, 10.12.2013 kl. 00:08
Vitið þið hvert þessir peningar fara? Hvað fer í spillingu og yfirbiggingu? Hvað fer til að halda þjóðum frá uppbyggingu á infrastrúktúr og til sjálfshjálpar? Hvað skilar sér til nauðstaddra óskipt? Hvernig?
Hafið þið skoða þetta eða er þetta bara svona political correctess gone insane?
Jón Steinar Ragnarsson, 10.12.2013 kl. 02:36
Sælir drengir.
Nú er ég ósammála afleiðunni Róbert minn og Ómar, og les með betra auga það sem Jón Steinar setti inn.
Ég hef unnið við útgerð, bæði á sjó og í landi. Og það sem sló mig mest var hvað þetta var annars vegar áhættulegur bissness, og hins vegar hvað lógistíkin og færnin var mikil.
Útgerðir græða stundum, og stundum ekki. Ein var að leggja upp laupana í Eyjum bara í þessari viku.
Og við Afríkustrendur.....þá má í leiðinni minnast á þá leiðangra sem farnir voru til að kenna innfæddum nútímalegar aðferðir sem e-k þróunaraðstoð, - svo og að 200 mílna fiskveiðilögsaga er víðast í gildi, og fyrir tilstilli hverra?
Varðandi Marshallaðstoðina hef ég aldrei heyrt að hún hafi verið væld út, og spurði ég þó gúgla frænda. En hitt er víst að hún var klár leikur af hálfu Bandaríkjamanna og tengist......öhömmm.....meðal annars upphafi kalda stríðsins og þeirri skák.
Svo kemur landbúnaðurinn blessaður (mikilvægasta atvinnugrein heimsins) inn í, og þessir illu styrkir sem hamla því að þróunarþjóðir og fátækar geti keppt á sanngjörnum grundvelli gegn hinum.
Í fyrsta lagi eru matarborð þeirra margara ekki beinlínis að svigna, og arðrán á náttúru samt á fullu.
Í öðru lagi tengist gengismunur, misjöfn regluverk og arðrán samkeppnisstöðu hinna þróaðri þjóða.
Styrkirnir, sem víðast eru stundaðir eru til að halda vöruverði niðri, - þ.e.a.s. að hægt sé að selja vöruna inn á markað á verði sem er óbærilega lágt.
Tökum dæmi:
Í upphafi seinna stríðs, undir eins og þýskir kafbátar fóru að raska flutningum Breta, varð nær undir eins að taka upp skömmtun. Bretar frammleiddu engan veginn nóg í sig og skömmtuðu stíft frá 1940.
Þeir lærðu af þessu og stór-juku sína framleiðslu strax eftir stríð.
Ástæðan? Jú, það borgaði sig ekki, - ódýrara að vippa þessu inn frá nýlendunum. Er það ekki kannski arðrán, að kaupa á slikk af þjóðum sem eru í hálfgerðum svelti og þrælaríi?
Þjóðverjar hins vegar pössuðu betur upp á sitt, og ábúendur í matvælaframleiðslu voru m.a. undanþegnir herskyldu! Svo bættu þeir um betur og rændu hinar hernumdu þjóðir. Ekki almenn skömmtun fyrr en 1943.
Svona les ég þetta.
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.12.2013 kl. 07:26
Svona af því að það er spurt hér að ofan má benda fólki á ð Þróunarsamvinnustofnun hefur heimasíðu þar sem verkefnum er nákvæmlega lýst. Og þeir sem halda að við dælum bara peningum til þessara ríkja hljóta að hafa fylgst illa með. Stefán Jón lýsti þessu nú vel í viðtali fyrir nokkrum árum. Þar sagði hann frá nákvæmu bókhaldi með hverri krónu sem notuð var í löndunum og endurskoðun á reikningum sem m.a. kom upp um fjárdrátt Íslendings í einu af þessum verkefnum. Um eftirlit með fjármagni segir m.a. á síðounni: "
Og menn vita hér vel að við erum að byggja þarna skóla, heilsugæslur/sjúkrahús og hjálpa þeim um vatnsbrunna. Finnst skammarlegt að menn byggi á einhverjur sem var hér fyrir áratugum og við sem þáðum þróunaraðstoð fram til 1980 skulum nú þegar við erum orðin velstæð hafa svo marga sem segja að við eigum ekki að hjálpa þjóðum í neyð.
Magnús Helgi Björgvinsson, 10.12.2013 kl. 10:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.