Megamollið
2.5.2007 | 23:18
Ég lét mig hafa það að hætta mér inn í Mall of America um daginn. Þangað fer ég helst ekki ótilneyddur, en ég fékk til mín góða gesti frá Íslandi og þau langaði að sjálfsögðu til að bera þetta fyrirbæri augum.
Það er sorgleg staðreynd að þessi stærsta verslunarmiðstöð í Bandaríkjunum er mest sótta "túrista attractsjónið" í Minnesota, en árlega sækja þangað 40 milljónir gesta. Eftir að Icelandair hóf að fljúga á Minneapolis hefur mollið orðið vinsæll áfangastaður kaupglaðra íslendinga sem mæta gráðugir með Visakortið sitt til þess að gera góð kaup á meðan gengið á dollarnum er hagstætt. Flestir þessara íslendinga koma hingað í helgarferðir og gefa sér því miður aldrei tíma til að skoða neitt annað sem Minnesota og tvíburaborgirnar Minneapolis og St. Paul hafa að bjóða og fara því á mis við mikið. Þar fyrir utan gera þeir nú ekkert sérstaklega góð kaup í mollinu því þar er allt mikið dýrara en í sérverslununum sem finna má annars staðar, til dæmis í stóra "factory outlet" verslunarkjarnanum í Albertville, rétt fyrir utan Minneapolis. Þar er verðlagið að jafnaði 20-30% ódýrara en í megamollinu.
Það má alveg reikna með heilum degi í ferð í mollið og eins gott að vera á góðum gönguskóm því gólfflöturinn eru heilir 390,000 m² á fjórum hæðum. Sé maður ekki í verslunarhugleiðingum getur verið gaman að kíkja í sædýrasafnið í kjallaranum, eða fara í rússíbanaferð í Camp Snoopy skemmtigarðinum í miðjunni og gæða sér svo á rækjurétti á Bubba Gump Shrimp (tilvísun í Forrest Gump myndina) eða grilluðu BBQ svínarifi á Tony Roma´s.
Nú stendur til að stækka mollið um helming því í ljós kom að búið var að byggja stærra moll í Kanada og í Kína og því búið að ræna Mall of America titlinum um stærsta moll í heimi...það gengur auðvitað ekki.
Það má til gamans geta þess að kvikmyndin "Jingle All The Way" með Arnaldi Schwarzenegger og Jake Lloyd (sem síðar öðlaðist frægð sem Anakin Skywalker í The Phantom Menace) í aðalhlutverkum, var tekin upp í Mall of America og á götum Minneapolis.
Athugasemdir
Ég hef nú ekki farið á Gubba Prump Shrimp ennþá, en lýst ágætlega á að fara á einhvern bar þarna í Mollinu meðan hún elsku konan mín verslar. Hittir maður ekki Íslendingana þar?
Ólafur Þórðarson, 3.5.2007 kl. 03:41
Hehehe...jú það má yfirleitt heyra íslensku á Hooters þar sem þreytt pokaburðardýrin slaka á, sötra bjór og slefa yfir gengilbeinunum á meðan eiginkonurnar halda ótrauðar áfram að versla.
Róbert Björnsson, 3.5.2007 kl. 04:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.