Yarmouk og Sýrlensk þakkargjörð

Í gærkvöldi reyndi ég að gera mér í hugarlund hvernig tilfinning það væri að sjá myndir af æskuheimili sínu og heimabæ í rjúkandi rústum.  Það er auðvitað ógjörningur að ímynda sér slíkt en fyrir "bróður minn" Muayad er það kaldur raunveruleikinn.  

Stjórnarher Assads ásamt Rússum gerðu harðar stórskota- og loftárásir á Yarmouk hverfið - um 8 km suður af miðborg Damaskus - í vikunni sem leið og jöfnuðu allt sem eftir stóð við jörðu.  

Yarmouk var hverfi flóttamanna frá Palestínu sem flúðu árásir og hernám Ísraela fyrir 70 árum síðan.  Afi Muayads var einn af þeim sem byggðu hverfið upp frá því að vera tjaldbúðir í eyðimörkinni yfir í blómlegt 160 þúsund manna samfélag (á 2.2 ferkílómetra svæði).  Muayad sýndi mér ljósmyndir af iðandi og fallegu torgi þar sem hann lék sér og tefldi skákir við gömlu mennina sem lögðu ofurkapp á menntun barna sinna.  Skólarnir á svæðinu voru raunar svo góðir að námsárangur, bæði í lestri og stærðfræði, var ekki einungis bestur í Sýrlandi heldur í öllum Araba-heiminum!  

Í lok árs árið 2014 var Yarmouk hverfið hertekið af vígamönnum ISIS.  Fjölskylda Muayads flúði heimili sitt og settust að nærri miðborg Damascus.  Í síðustu viku bjuggu um 3500 manns ennþá í Yarmouk - án vatns, rafmagns eða annara nauðþurfta.  Aðallega lasburðin gamalmenni og einstæðar mæður sem gátu ekki flúið.  Eftir sigur stjórnarhersins á ISIS í Austur-Gouta var nú loks látið til skarar skríða gegn Yarmouk og bókstaflega allt jafnað við jörðu.  Þar á meðal æskuheimili Muayads.

Foreldrar hans eru "örugg" en nú eru liðin 3 ár frá því að þau sendu son sinn, þá 18 ára gamlan, út í óvissunna.  Þá hafði hann fengið skipun um að hefja herþjónustu í stjórnarher Assads.  Að reyna flótta til Evrópu var hans eina von um líf og frið.  Sem "liðhlaupi" á hann aldrei afturkvæmt til Sýrlands.  

Þökk sé múttí Merkel þá endaði Muayad fyrir rest í fjölbýlishúsinu mínu hér í Saarlandi og ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þessum einstaka og góða dreng.  Ég þekki fáa sem búa yfir annari eins smitandi hlýju, jákvæðni, von og hugrekki.

Um síðustu helgi bauð hann, ásamt fimm fjölskyldum frá Sýrlandi, bæjarbúum til veislu í þakklætisskyni fyrir sýndan hlýhug og móttökur.  Þetta var falleg stund og bæjarbúar fylltu ráðhússalinn en færri komust að en vildu.  Nákvæmlega svona lítur semsagt "flóttamanna-vandamálið" út í Þýskalandi!  Gleði og samkennd í stað ótta, tortryggni og haturs.  

Bætti líka við myndum af okkur bræðrunum á Íslandi í fyrra - en það er óhætt að segja að drengurinn hafi orðið mikill Íslandsvinur og engin spurning með hverjum hann heldur á HM þrátt fyrir að við séum báðir að bíða eftir þýsku ríkisfangi.  

31081469_10103005706362711_3756838000305154506_n

31092071_10103005706372691_7074007517618946341_n

31118471_10103005706367701_5050668154803975246_n

fam

20620844_10102564242040751_6771683492255875993_n

21271269_10102618547317541_5653770771755500492_n

21192064_10102618546788601_1033135977791960163_n

21151265_10102618545366451_2551576154665827266_n

20663687_10102574461979911_4427291614227524215_n


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Valur Arnarson

Flottur pistill Róbert!

Valur Arnarson, 30.4.2018 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.