Andvökunótt í Wal-Mart

Stundum skiptir ekki máli hversu margar kindur maður reynir að telja í huganum eða hversu oft maður byltir sér í bælinu...allt kemur fyrir ekki og maður er glaðvakandi, pirraður og fúll yfir því að geta ekki sofið.

Klukkan er hálf-fjögur, það er heitt og rakt og allir gluggar opnir uppá gátt (með pödduskerma) en það dugar ekki til...hávaðinn í loftkæli-maskínunni er slíkur að ógjörningur er að reyna að sofna með hana í gangi auk þess sem maður fær alltaf kvef í kvert skipti sem kveikt er á gripnum.

Ég gefst upp á rúminu og sest út á svalir og hlusta á engisspretturnar tísta í grasinu og verð var við leðurblöku sveima um á milli trjánna veiðandi moskítóflugur...kem mér þó inn aftur áður en flugurnar byrja að veiða mig.  Fyndið hvernig fæðuhringurinn virkar.  Hver étur leðurblökurnar?

Ég kveiki svo á sjónvarpinu...eða öllu heldur skjávarpanum, því ég á ekkert venjulegt sjónvarp.  Ég er með digital kapal-box sem ég tengi beint við skjávarpa og horfi svo á herlegheitin á 80" tjaldi.  En núna fær maður bara ofbirtu í augun og þrátt fyrir að surfa í gegnum einhverjar 120 rásir virðist vera sami sjónvarpsmarkaðurinn alls-staðar.  Það á að koma inná mann Dysan ryksugu, Foreman grilli, blandara og Bowflex heima-gymmi allt í einum pakka...for only three amazing low payments of $79.99 and thats not all!  Act now and get a free Bonus with your order...call the number on your screen now...our telephone operators are standing by!  *Click*

Ég stend upp og opna ísskápinn.  Ég veit ekki af hverju ég geri það því ég veit að hann er alltaf jafn tómur.  Tómatssósa, smjör, tóm ferna af appelsínusafa og egg sem eru komin nokkrar vikur fram yfir síðasta söludag.  Þetta gengur ekki...ég þarf annaðhvort að fá mér butler eða kærasta sem nennir að elda.  Ég velti því fyrir mér að opna dós af ORA grænum baunum sem er það eina sem ég sé ætilegt í eldhússkápnum, en nei fjandakornið...ég verð að geyma þær til betri tíma.  Hins vegar er ég kominn með slæmt tilfelli af the munchies og ákveð að fara í verslunarleiðangur um miðja nótt.

Það eru ekki margir á ferli á þessum tíma sólarhringsins, mæti tveimur löggubílum á leiðinni útí Wal-Mart.  Venjulega versla ég ekki í Wal-Mart ef ég mögulega kemst hjá því, af pólitískum ástæðum, en það er ekki margt opið 24-hours.  Að vísu er Cub-Foods opið líka, en í dag læt ég mig hafa það og strunsa inní Wal-Mart.  Það er ágætt að koma inní kuldann, en loftkælingin er á full blast innandyra en samt perlar svitinn af áfyllingafólkinu sem rífur uppúr pappakössum og raðar í hillurnar af mikilli lagni.

Það er alltaf svolítið skemmtilegt en spúkí að fara í Wal-Mart að nóttu til því þá sér maður fólkið sem lætur ekki sjá sig meðal fólks á daginn.  Þarna sér maður 400 kílóa fólkið hreinsa upp nammi-deildina, sem og fólk sem er...skulum við segja öðruvísi...í útliti og klæðaburði heldur en gengur og gerist.  Það væri örugglega verðugt verkefni fyrir mannfræðinga og félagsfræðinga að skoða "næturlífið" í Wal-Mart nánar.

Á heimleiðinni kveiki ég á útvarpinu og hlusta á Minnesota Public Radio...gömlu góðu gufuna...og það færist yfir mann ákveðin ró...það verður gott að sofa út í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég hef lent í svona andvökunóttum annað slagið, en ekki er þó mollunni fyrir að fara hérna  Hér eru 10/11 verslun ekki langt frá mér opin allan sólarhringinn. Maður sér þó ekki svona þungt fólk eða sérkennilegt fólk versla hér á nóttunni, heldur frekar fullt fólk

Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.6.2007 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.