Memoirs of a Spartan Alumnus
14.2.2008 | 07:07
Nú um helgina verða liðin nákvæmlega 8 ár frá því ég settist fyrst á skólabekk í Bandaríkjunum. Bill Clinton var forseti og heimsbyggðin andaði léttar eftir að ekkert varð úr aldamótavillunni ógurlegu (Y2k Bug). Ég var 22 ára tölvunörd, lítt lífsreyndur og saklaus, en staðráðinn í því að standa mig á eigin fótum í fyrsta sinn, í stóra útlandinu. Ég vildi "verða eitthvað".
Spartan School of Aeronautics er mörgum íslendingum að góðu kunnur. Hundruðir íslenskra flugvirkja og flugmanna hlutu þjálfun sína hjá Spartan, allt frá árinu 1947. Spartan nafnið hefur alla tíð verið þekkt í flugheiminum og alltaf þótt ákveðinn gæðastimpill fylgja því að útskrifast frá Spartan. (eða svo teljum við okkur trú um...sem létu plata okkur í að borga skólagjöldin! ) Í dag er reyndar skólinn búinn að breyta um nafn; heitir Spartan College of Aeronautics and Technology...sem er auðvitað miklu virðulegra. Því miður var ég í hópi allra síðustu íslendinganna sem stunduðu nám við Spartan. Haustið 2001, um það leiti sem ég útskrifaðist, tóku nefnliega í gildi nýjar sam-evrópskar flug-reglur (JAR-Ops) sem leiddu til þess að Amerísk FAA skírteini fyrir flugvirkja og flugmenn, sem fram að því höfðu verið tekin góð og gild út um allan heim, voru ekki lengur nógu góður pappír fyrir Evrópu-markað (þ.m.t. ísland). Þess má geta að JAR-Ops reglurnar eru nánast orð fyrir orð kópering á FAA reglunum en málið var pólitískt til þess að koma í veg fyrir að Evrópubúar sæktu "ódýrt" flugnám til Bandaríkjanna.
Merki og mottó Spartan - Svartur köttur með númerinu 13 - "Knowledge and Skill Overcome Superstition and Luck"
Ég man að þegar ég lenti í Tulsa, Oklahoma var 23 stiga hiti (í febrúar) og daginn eftir vaknaði ég upp við loftvarnar-sírenur. Ég hélt að Rússarnir væru komnir...en nei þá var það bara tornado af styrkleikanum F3 ásamt viðeigandi eldingum, hagléljum og vatnsveðri. Maður átti eftir að venjast veðrinu.
Þrátt fyrir að það væru sennilega á milli 20 og 30 íslendingar í Tulsa á þessum tíma átti ég frekar lítil samskipti við þá flesta. Íslensku nemendurnir skiptust reyndar í tvo ólíka hópa. Annars vegar voru það jafnaldrar mínir, sem flestir voru miklir stuðboltar og virtust margir hafa meiri áhuga á ódýra bjórnum og kaftein Morgan í kók, heldur en skólabókunum. Hins vegar voru þarna líka nokkrir eldri og rólegri menn, sumir með fjölskyldur með sér, sem flestir leigðu íbúðir í suðurhluta Tulsa (Woodland Oaks á Memorial og 71st, nálægt Broken Arrow). Ég tók þá stefnu að leigja í nágrenni þeirra eldri og sleppa partístandinu, enda annálaður bindindismaður og var kominn til að læra en ekki leika mér.
Varðandi partístandið á sumum, heyrði maður margar skrautlegar sögur af þessu liði. Satt að segja var maður ekkert að flagga því að maður væri íslendingur þarna því í gegnum tíðina var búið að banna íslendingum aðgengi að ansi mörgum skemmti- og veitingahúsum. Það þurfti víst að beila nokkra slagsmálahundana og fyllibitturnar úr jailinu oftar en einu sinni og einhverjir drifu sig heim með næstu vél áður en þeir þyrftu að mæta fyrir dómarann, enda eru þeir ekkert sérstaklega liðlegir í Oklahoma og lítið spennandi að dúsa í nokkur ár í fangelsi þar. Ég heyrði um einn sem átti bara sex vikur eftir í útskrift þegar honum varð á í messunni og lét sig hverfa. Með 20 þús. dollara skólagjöld á bakinu, ekkert skírteini og með handtökuskipun sem þýðir að hann á ekki afturkvæmt til USA - ever. Bömmer!
Anyway...önnur ástæða þess að ég átti lítil samskipti við íslendingana var sú að flestallir voru þeir að læra flugvirkjun - dirty grease monkeys - eins og við snobb-liðið í Avionics deildinni kölluðum þá. Flugvirkjarnir lærðu í gömlum skýlum uppá flugvelli (Tulsa Intl.) á meðan við rafeinda-nemarnir lærðum mestmegnis í loftkældum skólastofum á suður-kampusnum svokallaða.
Námið í Spartan byggðist upp á stífum 6 vikna lotum þar sem eitt námsefni var tekið fyrir í einu. Þannig var hægt að ljúka flugvirkja- eða flugrafeindanámi á 18-21 mánuðum. Námið var samtals um 2300 klukkustundir og ef maður missti úr tíma varð maður að vinna hann upp með því að sitja eftir næsta dag, engin miskun. Ef maður missti úr heilan dag, gat það verið meiriháttar mál og þeir sem misstu úr tvo og hálfan dag urðu að endurtaka allan 6 vikna kúrsinn! Námið stóð yfir frá 7:30 á morgnana til 2:30 á daginn og yfirleitt var theoría á morgnana og verklegir tímar eftir hádegi. Við þetta bættust 2-4 tímar í heimanám á hverjum degi (a.m.k. í avionics náminu). Það voru svo haldin próf hvern einasta föstudag svo það þýddi lítið að slaka á. Nánast allir kennararnir mínir höfðu þjónað í Sjóhernum eða Flughernum og sumir voru frekar tense og héldu uppi góðum aga.
Sjá kynningarmyndband Spartan um avionics námið:
Þetta fyrirkomulag virkaði einstaklega vel fyrir mig og ég fann mig vel undir þessu álagi. Satt að segja hafði ég hálfpartinn slæpst, áhugalítill, í gegnum framhaldsskólann á Íslandi og einkunnirnar mínar voru svosem eftir því...mediocre at best. Þess vegna var ég frekar stressaður þegar ég hóf námið í Spartan, því ég vildi sanna það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég gæti staðið mig vel. Ég ætlaði sko ekki að gefast upp og fara heim með skottið á milli lappana. Sama hvað tautaði og raulaði, þá ætlaði ég að gera mitt besta. Það kom sjálfum mér þó mjög á óvart, hversu vel mér átti eftir að ganga.
Eitt af því sem hélt mér við efnið var að það kom fljótt í ljós ákveðin samkeppni meðal okkar sem best gekk í bekknum. Einkunnirnar voru alltaf hengdar uppá vegg þannig að við vissum nákvæmlega hvernig hver öðrum gekk. Það myndaðist fljótt hópur sem alltaf náði yfir 90% á öllum prófum og við vorum alltaf inná hinum svokallaða "President´s Honor Roll" og söfnuðum fyrir það hálfgerðum medalíum sem við festum á skólaskilríkin okkar, svona til að aðgreina okkur gáfnaljósin frá hinum bjánunum!
Svo gerðist það raunar strax eftir fyrstu tvær annirnar mínar að ég fékk tilkynningu um að ég hefði verið valinn "Student of the Quarter" sem var þónokkuð stór viðurkenning. Ég var boðaður í hádegisverð með forseta skólans auk æðstu yfirstrumpa þar sem mér var fært forláta viðurkenningarskjal með orðunum "For Positive Attitude, Exceptional Class Attendance, And Outstanding Work Ethic. Your Motivation And Enthusiasm For Learning Will Serve You Well In Your Studies And In Your Career. We Are Pleased To Recognize Your Achievement." Í ofanálag fékk "Student of the Quarter" sérmerkt bílastæði til afnota út ársfjórðunginn, sérstaka nælu á skólaskilríkin og nafninu var flassað á stóru ljósaskilti fyrir framan skólann...bara svona til að ALLIR vissu hver væri mesta nördið og kennarasleikjan! Mér þótti satt að segja frekar vandræðalegt hversu mikið var gert úr þessu en varð um leið áskynja að ég var töluvert öfundaður af þessum "bragging rights". Ég veit annars bara um einn annan íslending sem fékk þessa viðurkenningu, en sá er fluggáfaður tappi og starfaði síðast þegar ég vissi hjá Icelandair. *Leiðrétting - Mér hefur verið bent á a.m.k. þrjá til viðbótar! *
Ég verð að játa að þessi viðurkenning hafði virkilega hvetjandi áhrif á mig. Ég hafði aldrei áður fengið svona hrós fyrir vel unnin störf og mér fannst ég nú verða að standa undir þessari viðurkenningu með því að standa mig enn betur og sýna að ég væri þeirra verðugur. Þess vegna slakaði ég aldrei á heldur hélt út allan tímann og útskrifaðist með GPA uppá 4.0 sem er hæsta einkunn (og fékk auðvitað aðra viðurkenningu fyrir það).
Það var svo eiginlega þessum námsárangri að kenna að ég er hérna ennþá, því námsráðgjafinn minn taldi mér trú um að ég yrði endilega að halda áfram og taka bachelors gráðuna og þá væru mér nú allir vegir færir og græna kortið og allez...well... síðan eru nú liðnir ár og dagar og alls óvíst hvernig þetta ævintýri endar allt saman. En það sem mestu skiptir er að ég hef haft gaman af þessu. Það hefur verið ómetanleg og þroskandi lífsreynsla að fá tækifæri til að kynnast þessu stórfurðulega samfélagi og ég er þakklátur fyrir að hafa drifið mig af stað í þetta ferðalag fyrir réttum átta árum síðan.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Bloggar, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:56 | Facebook
Athugasemdir
Maður er bara klökkur.
Þú ert frábær !
Ragnhildur (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 10:39
Haha...takk sömuleiðis Ragnhildur mín!
Róbert Björnsson, 14.2.2008 kl. 17:14
Good old times...
Mer finnst tu nu gera full mikid ur tessum broggum sem voru tarna a south campus
JG (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 02:49
Good old times indeed!
Erhem...já það var svosem ekki íburðinum fyrir að fara...allt mjög spartanskt og hallærislegt og maður furðaði sig á í hvað öll skólagjöldin fóru eiginlega. Þessir skúrar minntu helst á trailer park og mesta furða að þeir hafi ekki fokið í einhverju rokinu. En þrátt fyrir allt var eitthvað vinalegt og kósý við þetta allt saman...ekki satt?
En JG? Hvenær varst þú þarna og þekkjumst við?
Róbert Björnsson, 15.2.2008 kl. 06:12
Sæll nafni,
Þú ert greinilega mikill snillingur. Kannski fylgir það nafninu?
Kv
R.Schmidt
Róbert Schmidt (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 11:54
Ju tad er rett...
Minnist tess tegar eg halladi mer upp ad einum af hvitu veggjunum i skolanum og Mr. Worthington (het hann tad ekki skolastjorinn) sagdi okkur ad snerta ekki veggina svo tad vaeri haegt ad nota peningana i einhvad annad en ad mala! Fleiri hundrud nemendur ad borga 2000 dollara a 6 vikna fresti.
JG (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.