Líkfylgdin í Monte Carlo
13.7.2008 | 06:45
Það getur verið vandræðalegt að lenda óvart inní miðri líkfylgd, sérstaklega þegar maður er að flýta sér og umferðin rétt lullast áfram á sannkölluðum jarðarfararhraða og maður kann engan vegin við að taka framúr. Sem betur fer gat ég skotið mér útúr röðinni og keyrt hliðargötur í dag þegar ég lenti í þessu en það minnti mig á aðra og svakalegri líkfylgd sem ég lenti í fyrir 18 árum síðan.
Foreldrar mínir höfðu tekið mig með í ferðalag til Evrópu (flug og bíll til Lux eins og vinsælt var á þessum árum) og höfðum við verið að þvælast um frönsku Riveriuna; Cannes og Nice og næst lá leiðin inní Monaco. Okkur þótti undarlegt að hvergi var sála á ferli, enginn að baða sig í Miðjarðarhafinu og allar verslanir virtust lokaðar. Við keyrðum sem leið lá í gegnum göngin frægu undir spilavítið (sem einhverjir kannast við úr Formúlu 1 kappakstrinum) og loks komumst við uppá aðalgötu þar sem eitthvað virtist um að vera og talsverð umferð.
Umferðin gekk frekar hægt þannig að auðvelt var fyrir pabba að taka beygjuna inná veginn og smella sér inní bílalestina. Við vorum svosem hætt að gapa yfir flottu bílunum enda annar hver maður þarna á Ferrari eða Lamborghini...en fljótt fór þó að renna á okkur tvær grímur. Þegar við fórum að líta betur í kringum okkur tókum við eftir því að fólk stóð prúðbúið á gangstéttunum og fylgdist með bílalestinni og virtist afar alvarlegt á svipinn...mér fannst eins og sumir væru að stara á okkur. Fyrir framan okkur var svört Benz límosína og þegar ég leit aftur fyrir okkur sá ég svakalegan silfurlitaðan Rolls Royce og númeraplatan "Monaco 1111"...þetta hlaut að vera einhver merkilegur...sennilega einhver úr Grimaldi fjölskyldunni.
Bílalestin hélt áfram uns við komum loksins að Chapelle de la Paix kirkjunni en þá áttuðum við okkur fyrst á því hvers lags var. Þá sáum við að u.þ.b. átta bílum fyrir framan okkur var líkbíll all glæsilegur og mikill mannfjöldi var samankominn fyrir framan kirkjuna. Pabbi náði sem betur fer á síðustu stundu að smeygja sér niður á bílastæði rétt hjá áður en við lentum í fasinu á ljósmyndurum og sjónvarpsvélum...það mátti ekki miklu muna. Við fylgdumst með hersingunni úr öruggri fjarlægð og sáum þarna sjálfan Rainer fursta, Albert krónprins og Karólínu prinsessu sem við vissum ekki fyrr en þá um kvöldið að var ný-orðin ekkja og var þarna að kveðja eiginmann sinn Stefano Casiraghi sem hafði látist þegar hraðbát hans hvolfdi á grunsamlegan hátt. Sumir halda því fram að ítalska mafían hafi þar átt hlut í máli.
Þess má geta að við ókum á grænum Ford Sierra station!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Vinir og fjölskylda | Breytt 16.7.2008 kl. 22:23 | Facebook
Athugasemdir
Mikið held ég að syrgjendur og áhorfendur hafi brotið heilann um hverjir þessir tignu gestir í grænu Sierrunni væru. Algerlega brilliant saga. Ég sá þetta svo skemmtilega fyrir mér að ég skellihló. Þetta á heima í bíómynd!
Jón Steinar Ragnarsson, 13.7.2008 kl. 23:43
Hehe já þetta var eiginlega eins og í Mr. Bean þætti...við vorum bara alveg grunlaus að rúnta í mesta sakleysi.
En talandi um bíómynd þá rifjast það nú upp fyrir mér að þetta er allt til á vídeó einhversstaðar! Eg verð endilega að fara í gegnum staflann af gömlu 8-mm spólunum hans pabba og bjarga þessu á DVD áður en þetta glatast...svo ég geti nú sannað að sagan sé byggð á sönnum atburðum hehe.
Róbert Björnsson, 14.7.2008 kl. 03:11
Hehe...það skildi þó ekki vera...
Róbert Björnsson, 16.7.2008 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.