Vinur minn og Purpurahjörtun

Purple Heart

Að gefnu tilefni birti ég aftur þessa færslu sem ég póstaði í fyrra.  Var að heyra í kappanum og líf hans gengur bærilega.  Smile

...

Um daginn fékk ég tölvupóst frá gömlum skólafélaga sem ég hafði ekki heyrt í lengi.  Ýmislegt hefur dregið á daga hans síðan ég sá hann síðast, í október 2001.  Mig langar til að deila með ykkur sögu hans.

Ég kynntist Terry Hudson í febrúar árið 2000.  Við vorum samferða í gegnum nám í flugrafeindavirkjun (avionics) við Spartan School of Aeronautics, í Tulsa, Oklahoma.  Þrátt fyrir mjög ólíkan bakrunn kom okkur strax mjög vel saman og við mynduðum ágætt teymi í verklegu tímunum ("lab parntners") auk þess sem við grúskuðum ýmislegt utan skólatíma.

Terry er svartur og ólst upp í gettóinu í suðurhluta Chicago.  Til að sleppa undan fátækt, gengjastríðum og crack-cocaine faraldrinum, skráði hann sig í herinn 18 ára gamall.  Það var árið 1990, árið sem Saddam Hussein heitinn réðst með offorsi inn í Kúvæt, sællar minningar.  Terry var umsvifalaust sendur á svæðið til að taka þátt í Operation Desert Storm sem fallbyssuskytta á M1A1 Abrams skriðdreka.  Hann var mjög súr yfir því að hafa aldrei lent í alvöru "combat" en þó kom hann heim með Purpurahjarta í farteskinu því hann fékk sprengjubrot í handlegginn þegar að Skud-flugskeyti lenti nálægt herskálanum hans í Sádí-Arabíu.  Hann var voða stoltur yfir því blessaður að vera "wounded veteran".

Terry hélt áfram í hernum (active-duty) næstu 9 árin og lauk ferlinum sem Staff Sergeant (E-6).  Hann ákvað svo að nýta sér skólagjaldastyrk hersins til þess að afla sér mentunar og skráði sig í Spartan, en í hernum hafði hann nokkra reynslu af viðhaldi á þyrlum og ýmsum vopnakerfum.

Um það leiti sem við vorum að útskrifast úr Spartan voru framin skelfileg hryðjuverk, kennd við 11. september, 2001.  Terry var mikill "patriot" og sagðist sko ætla beint í herinn aftur til að taka í lurginn á þessum bansettu "towelheads".  Þegar leiðir okkar skildu vissi ég að hann var búinn að skrá sig í varaliðið (Army reserves) en ætlaði samt að leita sér að vinnu í nýja faginu.  Síðan heyrði ég ekki frá honum í nokkur ár.

Í ársbyrjun 2005 var varaliðs-deildin hans kölluð út og send til Írak.  Þegar kallið kom hafði hann verið búinn að koma sér fyrir í sæmilegri vinnu hjá Lockheed Martin suður í Dallas, Texas.  Eftir tæplega 4 mánaða dvöl í Írak særðist hann svo aftur þegar brynvarinn Hum-Vee sem hann var farþegi í keyrði yfir jarðsprengju.  Hann slapp tiltölulega vel miðað við aðstæður, fékk í sig sprengjuflísar og hlaut innvortis blæðingar auk þess sem hann missti varanlega heyrn á öðru eyra.  Félagi hans í jeppanum lét lífið. 

Eftir einhverja dvöl á hersjúkrahúsi í Þýskalandi fór hann heim til Texas með nýja Purpurahjartað sitt í barminum.  Þegar heim var komið komst hann að því að konan hans hafði haldið framhjá honum og var horfin á brott.  Starfið hans hjá Lockheed Martin var sömuleiðis farið (fyrirtæki eru ekki skyldug til að taka aftur við varaliðsmönnum sem kvaddir eru á brott).  Honum var bara tjáð að fyrirtækið hefði þurft að segja upp fjölda manns vegna samdráttar (ég sem hélt að það væri rífandi bisness hjá hergagnaframleiðendum á stríðstímum).

Terry var svo atvinnulaus í nokkra mánuði uns hann fór að vinna við afgreiðslu á bensínstöð!  Hann er með sykursýki og þarf að kaupa insúlínið sitt sjálfur, því engin er sjúkratryggingin.  Hann fær að vísu einhver "VA benefits" frá hernum en þau dekka ekki insúlínið.  Nú ætlar hann svo að flytjast aftur til Chicago og reyna að byrja nýtt líf.

Já, svona er lífið hér í landi tækifæranna.  Leiðin úr gettóinu í suðurhluta Chicago getur verið þyrnum stráð.  En Terry Hudson er stoltur af Purpurahjörtunum sínum...þó svo öllum öðrum sé slétt sama.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aumingja maðurinn, þetta er sannarlega land tækifæranna

kv Sara

sara (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 11:26

2 identicon

Já rosalega er farið illa með grey kallinn maður verður bara reiður þegar maður les þetta maðurinn er tilbúinn að fórna lífi sínu fyrir landið sitt svo eru þetta þakkirnar þegar hann kemur til baka.

Þórarinn Sigfússon (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 18:28

3 identicon

Hvað stríðið varðar þá veistu hvað mér finnst um það Róbert,  en það er alltaf ömurlegt þegar fólk fer illa úr því.  Verst að hann geti ekki fengið neitt fyrir að selja hjarta andskotann!

Jón Haukdal (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 20:13

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Já, þó svo stríðið sé ömurlegt og mistök frá upphafi til enda þá má ekki kenna hermönnunum um það... þrátt fyrir allt þá eru þeir bara manneskjur af holdi og blóði og bera ekki ábyrgð á heimskunni í Hvíta Húsinu. 

Fyrir suma, sem ekki hafa efni á menntun, er hermennskan eina "leiðin út"... og aðrir velja starfið af því að þeir trúa á landið sitt...hvað svo sem má segja um það...blind einfeldni í sumum tilfellum.

En það er sorglegt hvernig þjóðfélagið tekur á móti þessum "hetjum" sínum þegar þeir koma heim... að þeim sé bara hent á götuna.  Þakklætið fyrir fórnirnar er ekki meira en þetta.

En Jón ég hugsa að Terry myndi fyrr selja nýrun úr sér en Purpurahjörtun sín...þau eru honum örugglega afar dýrmæt.  

Róbert Björnsson, 6.8.2008 kl. 20:41

5 identicon

Það eru 40 miljónir Bandaríkjamanna án sjúkratryggingar og þar af 10 miljónir barna. Það eru innan við 20% af Bandaríkjamönnum sem finnast heilbrigðiskerfið þeirra gott. Ungbarnadauði er 7 af hverjum 1000 miðað við 2 af hverjum 1000 hér á landi. Þetta er þjóðfélag þar sem hver hugsar um sig, annað er kommúnismi. Já það er sorglegt að þessi ríka þjóð skuli ekki einu sinni hjálpa hermönnunum sínum meira en raun ber vitni. Leiðin frá fátækt til þó ekki væri nema millistéttar er mjög erfið. Ameríski draumurinn er goðsögn og ekkert annað. Mig langar að benda þér á bók sem heitir The Working Poor eftir pulitzer prize winnerinn David K Shipler, þar er sagt frá hvernig stór hluti þjóðarinnar er læstur í fátækt og er á svo lágum launum að endar ná ekki saman. Þetta er eitthvað sem ég held að sé að gerast hér en þó ekki í eins stóru hlutfalli. Þetta er ómenntað fólk í þjónustustörfunum,eins og á MC Donalds, öldrunarheimilum, hótelþjónustu og þess háttar störfum. Við erum búin að frjálshyggjuvæða okkar þjóðfélag og er það á hraðri leið í þessa átt. Er ég hræddur um.

Valsól (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 22:57

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Já, eins og það er nú margt ágætt við Ameríku þá eru skuggahliðarnar margar og þær hef ég auðvitað komið auga á.  Það er margt rotið og mikið rétt að fyrir flesta er Ameríski draumurinn ekkert annað en tálsýn.

Róbert Björnsson, 8.8.2008 kl. 19:43

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sorgarsaga....og maður verður eitthvað svo magnvana fyrir framan þetta.

Já og til Hamingju með daginn og allt það. Annars var ég að dásama lúkkið hjá þér áðan en finnst samt síðan hlaðast svakalega hægt niður og videóin bara alls ekki.  Einhver skýring? Is it me or is it you?

Jón Steinar Ragnarsson, 10.8.2008 kl. 01:51

8 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir það...leiðinlegt að missa af fjörinu! :(  ekki nándar nærri eins góð stemmning á Minneapolis Pride þó svo hún sé bæði mun stærri og fjölmennari.  Sástu vídeóið sem ég tók af því?

Hmmm...síðan virðist virka ágætlega hérna megin.

Róbert Björnsson, 10.8.2008 kl. 07:04

9 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Sorgarsaga sem er örugglega fjarri því að vera einsdæmi...

Haraldur Davíðsson, 14.8.2008 kl. 07:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.