Ike hlífir Key West
9.9.2008 | 05:26
Ef Paradís er í Bandaríkjunum (haha!) þá er hún á Key West undan ströndum Flórída! Þrátt fyrir að liggja á versta mögulega stað í vegi fyrir fellibyljum sem herja á svæðinu á hverju ári hefur Key West sloppið ótrúlega vel í gegnum tíðina...sérstaklega með tilliti til þess að hæsti punktur eyjarinnar er heila 6 metra yfir sjávarmáli.
Reyndar þarf oft að rýma eyjarnar (Florida Keys eyjaklasann) í varúðarskyni en þangað liggur bara einn einbreiður vegur (hwy 1) yfir ótal brýr, þar á meðal eina 7 mílna langa. Það er svolítið skrítið að keyra þarna niðureftir, því maður er í raun að keyra lengst út í ballarhaf. Key West, syðsta eyjan í klasanum er um 160 mílur suður af Miami.
Key West er raunar syðsti oddi Bandaríkjanna (fyrir utan Hawaii) og eru aðeins 90 mílur yfir til Havana á Kúbu. Castro er því nálægasti "höfðinginn" á svæðinu, því Governor Jeb Bush er lengst upp í Tallahassee, um 650 mílum norðar. Það þarf því ekki að koma á óvart að það er mikið um Kúbversk "áhrif" á menninguna á Key West.
Stemmningin í gamla bænum og á Duval Street er engu lík, stanslaus hamingja, má kannski helst líkja við French Quarter hverfið í New Orleans. Götulistamenn eru á hverju horni og suðræn tónlistin ómar stöðugt á meðan maður horfir á sólina setjast í Mexíkó-flóa. Picture perfect.
Frægasti íbúi eyjarinnar í dag er tónlistarmaðurinn Jimmy Buffet (sem kallar eyjuna reyndar Margaritaville í lögum sínum). Annars búa um 25 þúsund manns á eyjunni að staðaldri auk fjölda túrista. Eyjan hefur í gegnum tíðina dregið að sér ýmis konar bóhema og fríþenkjandi fólk og meðal frægustu íbúa í gegnum tíðina má nefna stórskáldin Ernest Hemmingway og Tennessee Williams. Hús Hemmingways er eitt aðal túrista-attractjónið á eyjunni, en þar búa ennþá um 50 kettir sem allir hafa 6 klær á hverri löpp! Allt afkomendur katta Hemmingways.
Andrúmsloftið á Key West er mjög "liberal" á Amerískan mælikvarða og hvort sem það er ástæðan eða afleiðing þá er eyjan næst fjölsóttasti sumarleyfis-áfangastaður samkynhneigðra Ameríkana á eftir Provincetown í Massachusetts.
Önnur áhugaverð staðreynd, fyrir áhugamenn um flugsöguna, er sú að hið fornfræga flugfélag Pan American Airlines var stofnað á Key West árið 1926 og var fyrsta flugleiðin á milli Key West og Havana á Kúbu. Key West er án efa staðurinn til að flytja á þegar maður sest í helgan stein...verst að það eru sennilega 40 ár þangað til ...en vonandi fær maður tækifæri til að kíkja þangað í heimsókn við og við í millitíðinni.
Dregið hefur úr styrk Ike | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Klukk!
Þú hefur verið klukkaður.
Heimir Tómasson, 9.9.2008 kl. 22:40
Haha já Hippó við hverju bjóstu? Takk fyrir skemmtilegt komment.
Heimir: Klukkið er í vinnslu.
Róbert Björnsson, 10.9.2008 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.