Obama boðar sömuleiðis 3% hátekjuskatt EN...

taxes_large.gifÞað þarf nú engum að koma á óvart að Steingrímur J. láti það verða sitt fyrsta verk að setja á "hátekjuskatt" og í fullkomnum heimi sósíaldemókratisma er það að sjálfsögðu réttlátt og sjálfsagt að þeir sem geta, borgi hlutfallslega meira til samfélagsins en hinir - þó svo færa megi rök fyrir því að "óheflaður" jafnaðar-ismi endi að sjálfsögðu með því að allir verða á endanum lágtekjufólk...og hvar á þá að taka hátekjuskattinn? Whistling

En raunveruleikinn sem blasir við okkur er auðvitað sá að einhvernvegin verðum við að fá meiri aur í þjóðarkassann og þrátt fyrir að fólk sé þegar að sligast undan myntkörfulánunum sínum, verðtryggingu, 17% stýrivöxtum, verðhjöðnun og eignar-rýrnun, töpuðu sparifé, launalækkunum og öðrum hörmungum...er samt um að gera að hækka skattpíninguna líka ofan á allt saman.  Skítt með það þótt helmingur heimila og fyrirtækja í landinu sé á leiðinni í gjaldþrot og að hjól atvinnulífsins séu algerlega stopp vegna þess að fólk hefur ekkert á milli handana til þess að viðhalda eðlilegri neyslu.

Velferðar-flokkurinn VG hefur hingað til ekki sagt okkur hvernig þeir ætla sér að slá "skjaldborg um heimilin" né hvernig þeir hyggjast veita innspýtingu í hagkerfið til þess að koma atvinnustarfsemi af stað aftur í landinu.  Hvar á að finna fleira "hátekjufólk" til að standa undir 15%-25% atvinnuleysi?  Senda fleira fólk til Kanada bara...eða út í sveit að stunda sjálfsþurftarbúskap á samyrkjubúi?

taxes_people.jpgSvo skemmtilega vill til að skynsemis-jafnaðarmaðurinn Barack Obama hefur sömuleiðis boðað til 3% hátekjuskatts hér í Bandaríkjunum.  Það er hins vegar smávægilegur munur á því hvernig Steingrímur J. og Obama skilgreina hátekjufólk og hverjir þeir telja að tilheyri hinni svokölluðu millistétt.  Jú sí, Obama áttar sig nefnilega á því að það er millistéttin sem verður að standa vörð um í þessu árferði og í stað þess að skattpína það fólk sem er þegar í hættu á að missa heimili sín og sjálfsbjargarviðleitni er skynsamlegra að gera þeim kleift að halda áfram að borga af sínum lánum, forðast gjaldþrot og ekki væri verra ef fólkið hefði svo einhvern aur afgangs til þess að fara út að borða eða í bíó svona endrum og eins til þess að halda atvinnulífinu gangandi.

3% hátekjuskattur Obama leggst því einungis á fólk með heildartekjur yfir $250 þúsund á ári (ca 28 milljónir kr. m.v. núverandi gengi).  Millistéttin stendur í stað og þeir sem lægstar tekjur hafa fá aukinn skatta-afslátt!  Athugið að þetta er gert þrátt fyrir að fjárlagahalli Bandaríkjanna sé nú yfir 1.8 trilljónir dollara (billjarðar samkvæmt evrópskum málhefðum) og heildarskuldir þjóðarbúsins sé yfir $11 trilljónum!  IceSave hvað?

En comrad Steingrímur J. er greinilega sannfærður um að 500 þús. kr. á mánuði séu ofurlaun.  Passleg millistéttarlaun í hans huga eru þá sennilega svona 250-350 þúsund á mánuði...sem er auðvitað fjandans nóg til þess að lifa af á íslandi í dag - ekki satt???   Já svo er um að gera að fækka þessum helvítis háskólum...alltof mikið af of-menntuðu fólki á íslandi í dag sem nennir ekki að vinna í framleiðslunni!  Angry

Munið X við O.


mbl.is 3% skattur á 500 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bó

Þetta er það sem vænta mátti af Steingrími.

Þetta er auðvitað mesta óréttlæti sem fyrir finnst í nútíma - vestrænu samfélagi. Það að taka af einum laun, sem hann hefur með einum eða öðrum hætti áunnið sér, er það óréttlættasta sem er til.

Tek það fram (þó það skipti ekki máli en verð að gera það til að verjast árásum frá gráðugum vinstri mönnum sem ekkert vilja vinna sér inn sjálfir) að ég hef ekki há laun og hef aldrei haft há laun. Það breytir þó ekki þeirri sannfæringu minni að svona ógeðfeldar aðgerðir eru vægast sagt ósanngjarnar.

, 23.3.2009 kl. 19:54

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Skattar eru að sjálfsögðu nauðsynlegir - og ég er jafnvel samþykkur skattþrepum þó svo mér finnist etv. meira réttlæti í flötum skatti svo eitt sé látið yfir alla ganga.  Eftir sem áður borga þeir tekjuhæstu mest í krónum talið.

Það sem ég er hins vegar að gagnrýna er að þessi skattahækkun sé kölluð "hátekjuskattur" því ég leyfi mér að fullyrða að það sé enginn ofsæll af 500 þúsundum íslenskum krónum á mánuði miðað við núverandi verðlag og gengi.  Að minnsta kosti telja Bandaríkjamenn sig ekki hátekjufólk með $50 þús. í árstekjur.  Þú sérð allavega ekki fyrir mjög stórri fjölskyldu, hundi og bíl "and a white picket fence" á svoleiðis launum.

Róbert Björnsson, 23.3.2009 kl. 20:15

3 identicon

Athyglisverð pæling hjá þér. Ertu nokkuð með á hreinu hversu há prósenta af íslendingum eru með yfir 500 þúsundkalla á mánuði? Er það virkilega millistéttin á Íslandi? Það getur verið að menn verði ekki feitir af þeim launum á Íslandi, en ég hélt samt að það væri betra en flestir hefðu það. Það væri gaman að fræðast meira um þetta.

Davíð Arnar (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 20:43

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Nei ég er ekki með þær tölur á hreinu og það er sennilega því miður rétt hjá þér að íslenska "millistéttin" nái ekki upp í 500 þús. í mánaðartekjur...ég viðurkenni að ég hef ekki fylgst vel með launaþróun á íslandi undanfarin ár og það er kannski ósanngjarnt að reikna þetta yfir í dollara og bera saman við tekjur og lifsgæða-standard Bandaríkjamanna.

Við þurfum svo náttúrulega ekki eins há laun á íslandi sko...með okkar yndislega "ókeypis" heilbrigðiskerfi þar sem þjónustan er til fyrirmyndar og sumir M.S. sjúklingar fá lyfin sín.  Svo búum við svo óskaplega vel að öldruðum og öryrkjum að það hálfa væri nóg og menntakerfið okkar er svo til fyrirmyndar... oh hvað mig hlakkar til að flytja heim í þessa paradís!

Róbert Björnsson, 23.3.2009 kl. 21:03

5 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Bíðum við X - O???   Ég hlustaði á viðtal við Bjarna X-O Harðar um daginn þar sem hann sagði að sér þætti eðlilegt að hátekjuskattur byrjaði við 250þúsund krónur. Held barasta ég setji ekki X við O.

 Annars er þetta fín úttekt hjá þér.

X-B

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 23.3.2009 kl. 21:36

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Snæþór - Bjarni Harðar býður sig fram fyrir L-listann - flokk öfgasinnaðra þjóðernissinna og trúarnötta.  X-O er Borgarahreyfingin - hvurs stefnumál eru þverpólitísk og snúast aðallega um að koma á neyðarráðstöfunum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu - að boðað verði til stjórnlagaþings þar sem landsmenn semji sjálfir sína stjórnarskrá (ekki flokkarnir) - lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla og spilling verði upprætt og komið verði á beinu lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum í öllum stærri málum.

Annars er annar ágætur fyrrum Framsóknarmaður kominn í okkar raðir - Þráinn Bertelsson.

Róbert Björnsson, 23.3.2009 kl. 21:46

7 Smámynd: Róbert Björnsson

Tek það fram að ég tala ekki fyrir hönd X-O þó svo ég styðji þá í þessum kosningum og þessar pælingar mínar um skattheimtu hafa ekkert með skoðanir Borgarahreyfingarinnar að gera.

Róbert Björnsson, 23.3.2009 kl. 21:47

8 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Afsakið, biðst forláts :-)

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 23.3.2009 kl. 21:51

9 Smámynd: Róbert Björnsson

Ekki málið - takk fyrir innlitið

Róbert Björnsson, 23.3.2009 kl. 21:52

10 identicon

Eins og talað út úr mínu hjarta!

Vona fyrir þína hönd að þú fáir vinnu úti, hefðum samt sem áður þurft á svona rétthugsandi fólki að halda hérna. Ég held hinsvegar að okkur sé ekki við-bjargandi hérna þannig að ég óska þér alls hins besta sem og öðrum íslendingum.

Ragnar (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 21:55

11 Smámynd: Róbert Björnsson

Kærar þakkir Ragnar - þrátt fyrir allt langar mig nú að geta snúið heim einhvern daginn og við megum ekki bara gefast upp.  En því miður virðist núverandi stjórnkerfi gjörsamlega ráðalaust og vanhæft til þess að koma okkur út úr þessu klandri.  Maður vill vera bjartsýnn en það heyrast engar alvöru lausnir og gamla flokkakerfið er ennþá fast í eiginhagsmunapoti og að rakka niður hugmyndir hvers annars í stað þess að allir leggist á eitt til þess að finna praktískar lausnir - lausar við kreddur hugmyndafræðinnar.

Róbert Björnsson, 23.3.2009 kl. 22:11

12 identicon

Sæll Róbert. Vonandi gengur þér vel að finna vinnu hérna heima. Ég flutti heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, og ég verð að segja það að þrátt fyrir allt er ég ánægðari með skattana, menntakerfið og heilbrigðiskerfið hér. Þetta er ekki fullkomið hérna, langt í frá, en þó skömminni skárra en úti. :) Ég er til dæmis alveg ótrúlega sátt við það að geta farið eftir fyrirmælum læknisins míns og ljósmóður í mæðraeftirlitinu frekar en fáránlegum reglum einhvers tryggingarfélags. En þar sem þig langar greinilega heim, grunar mig nú að þú vitir þetta alveg... ;) 

Ágústa (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 00:03

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bendi á afar gott viðtal við Þór Saari í dag í Zetunni á mbl.is http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/thor_saari_i_zetunni

Baldvin Jónsson, 24.3.2009 kl. 01:34

14 Smámynd: Heimir Tómasson

Skál!

Heimir Tómasson, 24.3.2009 kl. 03:48

15 identicon

Bíðum við. Það kemur að vísu ekki skýrt fram í fréttinni, en ég geri ráð fyrir að þessi skattur leggist á tekjur umfram 500.000. Annars kemur upp sú staða að einstaklingur með 501.000 í bruttótekjur sé að fá töluvert minna í aðra hönd en einstaklingur með 499.000, sem að ég held að engum manni detti í hug að sé réttlátt.

Ef að þetta er rétt hjá mér myndi einstaklingur með 600.000 krónur í mánaðarlaun (og já, miðað við launakjör á Íslandi almennt myndi ég kalla það hátekjur) borga 3.000 kr. á mánuði eða 36.000 kr. á ári aukalega í skatt. Ekki get ég talið það neina ofurskatta.

Ef að þetta telst vera andstætt stefnu Borgarahreyfingarinnar þarf ég víst að fara að leita að nothæfum stjórnmálaflokki aftur. Eins og þetta leit annars að mörgu leiti vel út :-( .

 Kveðja, Kári.

Kári (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 11:56

16 Smámynd: Róbert Björnsson

Sæll Kári - já það kann að vera að ég hafi misskilið eitthvað og gert úlfalda úr mýflugu.  Hvernig svo sem það nú er þá ýtreka ég að ég tala EKKI fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar - er EKKI í framboði og þessar pælingar mínar voru mínar eigin og tengjast stefnu X-O ekki á neinn hátt!   Veit raunar ekki til þess að X-O sé með neina einstaka stefnu í skattamálum enda þverpólitísk hreyfing.

Bestu þakkir fyrir innlitið.

Ágústa: Já vissulega er margt rotið í heilbrigðis-og tryggingakerfinu hér - svo sannarlega.  En stundum finnst mér íslendingar gera svolítið mikið úr ágæti íslenska kerfisins sem er langt frá því að vera ókeypis og þjónustan er ekki í öllum tilfellum ásættanleg að mínu mati.  En jú - maður kemur nú örugglega heim á endanum þrátt fyrir allt!

Róbert Björnsson, 24.3.2009 kl. 18:17

17 identicon

Þetta er góð ábending. Auðvitað er það svo að þessar meintu hátekjur við 500 þúsund eru rétt fyrir ofan meðallaun og því er verið að skattleggja stóran hóp. Svo má ekki gleyma því að flestir með tekjur á bilinu 500-750þús er háskólamenntað fólk sem skuldsetti sig til að geta haft hærri tekjur - nú á að refsa fyrir að leggja á sig háskólamenntun og í raun hvetja fólk til að fara ekki í nám.

Það er sorglegt að halda því fram að það sé fólgið réttlæti í því að þeir sem hafi hærri tekjur greiði hærri skatta t.d. hátekjuskatta. Kerfið er nú þegar þannig uppbyggt að raunskattlagning hækkar með hækkandi tekjum, en þetta er vegna áhrifa persónuafláttarins. þeir sem hafa hærri tekjur (500-750) fá t.d. engar bætur og heldur ekki endurgreiðslu t.d. lækniskostnaðar. Þannig að kerfið virkar í raun þannig í dag að þeir tekjuminni fá meiri fyrirgreiðslu og hinum tekjumeiri er refsað. Ég get lifað með því kerfi, þó svo ég sé ekki alveg sáttur.

En aukaskattur eins og lagt er til er eitthvað sem ég get ómögulega séð sem sanngjarnt á nokkurn hátt. Í mínum huga er ég með sæmilegar tekjur eingöngu af því ég lagði á mig langskólanám og skuldsetti mig hressilega, varði í það mörgum árum og færði margar aðrar fórnir s.s. minni frítíma á námsárum osfrv. Af hverju á að refsa mér fyrir að hafa gengið menntaveginn?  Launin sem ég hef í dag eru á mörkum þess að vera nægilega góð til þess að réttlæta það sem ég lagði á mig, og ég sé það ekki breytast til batnaðar á næstu árum.

Seðillinn (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.