Átak gegn einelti

Heimili og skóli - Landssamtök foreldra og SAFT standa nú fyrir átaki gegn einelti og var því formlega ýtt úr vör í Austurbæjarskóla í dag.  Ingibjörg Baldursdóttir, stofnandi Liðsmanna Jerico, og Ögmundur Jónasson alþingismaður, tóku á móti fyrstu eintökum nýs fræðsluheftis um einelti fyrir foreldra og Þorkatla Sigurðardóttir, þolandi eineltis, sagði frá reynslu sinni og áhrifum langvarandi eineltis á barnæskuna og fullorðinsárin.

anti-bullying_927168.jpgÍ fyrrasumar sagði ég frá upplifun minni af einelti á formi vídeó-bloggs (sjá neðar).  Bekkjarbróðir minn, Haraldur Geir Eðvaldsson, sá frásögn mína og kom hún honum mjög í opna skjöldu því hann hafði ekki upplifað sig sem þátttakanda í einelti.  Það vill svo til að Haraldur starfar sem kennari í dag og starfar með börnum á svipuðum aldri og við vorum á umræddum tíma.  Haraldur fékk þá mögnuðu hugmynd að sýna nemendum sínum þessa frásögn mína á sérstökum degi tileinkuðum Olweusar-áætluninni - og í kjölfarið sagði hann krökkunum frá okkar tengslum og hvernig hann hefði upplifað okkar samskipti.  Hann endurtók svo leikinn á foreldrafundum.  Þetta skapaði auðvitað mjög sérstakar og gagnlegar umræður í skólanum  - því þó reynslusögur þolenda eineltis séu margar, vantar oft skiljanlega að sjónarhorn gerenda komi fram. 

Einelti getur verið flókið fyrirbæri og til þess að fyrirbyggja einelti þurfum við að skilja það frá öllum hliðum.  Þess vegna eru frásagnir gerenda ekki síður mikilvægar en þolenda.  Það hefði ekki hverjum sem er látið sér detta í hug að framkvæma það sem Haraldur gerði og ég er afar stoltur af honum og þakklátur.  Það er mér heiður að kalla hann góðan vin minn í dag.

poster_no_bully_zone.jpgNýlega vorum við Haraldur beðnir um að leggja átaki Heimilis og skóla lið með því að segja sögu okkar í Kastljósi.  Okkur er báðum hjartans mál að uppræta einelti og því gátum við ekki skorast undan því.  Vitanlega gátum við ekki komið öllu því til skila sem við vildum, en vonandi gátum við vakið einhverja til umhugsunar um eineltismál.  Þögnin er versti óvinurinn.  (Hér má sjá viðtalið)

Í tilefni dagsins endurbirti ég hér þetta vídeó-blogg mitt.  Ég vil taka það fram að þrátt fyrir að ég gagnrýni viðbrögð skólans í frásögn minni - er mér hlýtt til þess ágæta fólks sem þar starfaði.  Skólastjórinn og aðrir kennarar vildu mér vel og ég efast ekki um að þau gerðu sitt besta út frá þeim úrræðum sem í boði voru á þessum tíma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Róbert minn.

Ég held að ég þekki þig ekki. En ég held að ég hafi búið í sama bæjarfélagi og þú á árunum 1993-2004. Ég hlustaði á Kastljós viðtalið við þig í kvöld. Mér fannst þú koma rosalega vel út úr viðtalinu. Þú stóðst þig vel. Engin spurning.

Ég ef ég skil þig rétt var líka í Sólvallaskóla (Vallaskóli í dag) og gekk ég í gegnum mjög mikið einelti þar. Mér fannst mjög lítið tekið á eineltinu á þeim árum sem ég var í þessum skóla. Sálfræðingur talaði við mig o.s.frv. Þetta er bara hræðilegt.

Svo tók ekki betra við í FSU. Enda bjóst maður ekki við öðru.

Ég er búin að vera að vinna í mér á síðustu árum. Það hefur tekið mjög mikið á. En þetta hefst á endanum. Það er ég viss um. Eða allavega vona ég það.

Ég skildi þig svo vel, varðandi þetta með reunionið og það allt saman. Mér hefur sem betur fer ekki verið boðið í svoleiðis af mínum jafnöldrum, þannig að ég er mjög sáttur við að vera laus við það.

En gangi þér vel vinur. Þú stóðst þig enn og aftur frábærlega. Þú getur ef þú vilt hafa samband við mig og spjalla um þessi mál ef þú villt. Þér er það velkomið. Ég er með bloggsíðu hérna á blog.is og þar geturðu séð emailið mitt á síðunni. Það væri gaman að spjalla við þig.

Bestu kveðjur og gangi þér vel vinur.

Valgeir Matthías Pálsson (1981), valgeirmatthias.blog.is

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 19:59

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Sæll Valgeir og takk fyrir hlý orð.   Ég veit að við erum mörg sem höfum svipaða sögu að segja - þetta var og er alltof algengt.  En nú er kominn tími til að við segjum hingað og ekki lengra og hjálpumst að við að snúa þessum málum við. 

Svona upplifun getur skilið eftir djúp sár á sálinni og það tekur sinn tíma að vinna sig út úr því - en góðu fréttirnar eru þær að það er vel hægt.   Gangi þér sömuleiðis vel og hafðu það sem allra best!

Róbert Björnsson, 28.10.2009 kl. 00:02

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sæll Róbert. Mig langar að segja þér hvað mér fannst þú standa þig vel í Kastljósinu. Þá er ég búinn að sjá báðar klippurnar þínar sem þyrftu að fara sem víðast.

Þó ég hafi ekki þurft að þola einelti, eða mér vitanlega verið þátttalandi  - nema með því að standa álengdar og aðhafast ekkert; Þá vil ég meina að unglingar og krakkar á Grunnskólaaldri eiga flestir að gera sér grein fyrir þegar einelti á sér stað. Ég get ekki hafa verið ein um það er ég var á þeim aldri. Ég man alla vega mög vel eftir því hvað manni leið oft illa er maður varð vitni að því er verið var að níðast á einhverjum eins og það var kallað. Það er kannski hluti af lausninni að reyna að virkja þá fjölmörgu sem standa álengdar. Gangi þér allt í haginn.         

Atli Hermannsson., 28.10.2009 kl. 01:33

4 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég er búin að vera bloggvinur þinn lengi og sá þig svo í Kastljósinu í gærkvöldi og horfði síðan á spólurnar tvær og mér finnst þú vera algjör hetja.  Hegðun þín er til fyrirmyndar og meigum við hin læra mikið af henni.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 28.10.2009 kl. 11:34

5 identicon

Sæll Róbert

Ég hefði örugglega einhverntíma verið til í að taka þátt í róttækum hefndaraðgerðum með þér þarna á Selfossi ef ég hefði ekki verið allt of niðurbrotin og trúgjörn. Það er svo flott að sjá svona vel máli farinn mann tala um það sem einsamalt barn getur ekki fært í orð. Tilfinningin gleymist seint. 

bkv. Gerður ´78

gerður (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 12:27

6 identicon

Róbert í mínum huga ertu hetja.

Ásgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 15:44

7 identicon

Mikið stóðuð þið ykkur vel báðir í kastljósinu í gær Róbert minn, frábært að þessi ömurlega reynsla skuli geta orðið öðrum til hjálpar

Bestu kveðjur  Sara Arnarsd.

sara (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 17:31

8 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Tek undir góðar kveðjur og þakklæti fyrir að vekja athygli á þessu grimma atferli, orsökum þess og afleiðingum.  Horfði á ykkur félaga í Kastljósi og var ánægð að heyra að "kennarinn" hafi tekið þetta upp í sínum bekk og sýnt myndbandið þitt.

Þetta er grafalvarlegt mál, allstaðar í heiminum.  Hörmulegustu afleiðingar eru þær, þegar fórnarlömb, hreinlega gefast upp og svifta sig lífi.

Hér þar sem ég bý í Canada, eru svona mál litin grafalvarlegum augum, og umræðunni haldið vakandi með reglulegu millibili.   Því miður vegna þess að nýtt fórnarlamb hefur fallið í valinn.

Enn og aftur bestu þakkir og kveðjur.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 28.10.2009 kl. 18:04

9 identicon

sæll vertu - og takk fyrir að vera til

já - það er nefnilega ástæða til að þakka þér fyrir að vera til - og svo mörgum fleirum sem hafa lennt í sömu stöðu og við.

ég deili með þér hliðstæðri reynslu - líkamlegu og andlegu ofbeldi, niðurlægingu kennaranna sem í raun tóku þátt í þessu með því að gera ekkert eða verra - kalla til sálfræðing handa mér einni en ekki öðrum og allur skólinn vissi. Áratugum síðar glími ég enn við eftirköstin - þrátt fyrir að hafa leita mér aðstoðar á seinni árum þá á ég í miklum vandræðum með náin samskipti við fólk.  ég ólst upp í litlu plássi - og ég á skyldmenni þar sem ég sæki heim - en ég get ekki hugsað mér að sjá né hitta allt annað fólk í plássinu - því það voru allir þátttakendur - ef ekki gerendur þá þeigendur - þ.e. með sinnuleysi sínu samþykktu þeir litlu skrýtnu stelpuna sem reglulega var niðurlægð með orðum, ofbeldi, eignaspjöllum og svo mætti lengi telja.

Mér hefur verið sagt að fyrirgefningin sé stór hluti í ferlinu að ná bata eftir svona áfall - og ókei - ég get mögulega fyrirgefið krökkunum - en ekki foreldrunum og kennurunum sem ásökuðu mig um falskar ásakanir.

Áföll skólaáranna gerðu mig að auðveldu fórnarlambi nauðgunar og annara áfalla - nokkuð sem ég hef baslað við síðustu misserin að komast upp úr - en í allri minni meðferð rekst ég á höfnun samfélagsins - fólksins sem brást þessu barni.

Enn í dag viðgengst sama ofbeldið - enn í dag er fullt af foreldrum sem trúa engu illu upp á börnin sín - fullt af kennurum sem vilja ekki skíta sig út á að bjarga skrýtnu skælandi börnunum...

hve mörg börn - þolendur svona ofbeldis og skilningsleysis - ætli fylli raðir þeirra sem hafi tekið eigið líf ?

Alls hins besta óska ég þér - hugrakki maður

María (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 18:35

10 identicon



Sæll Róbert. Mig langar svo að senda þér póst, ekki villtu vera svo vænn að senda mér e-mail addressu svo ég geti sent þér línu :)

Með kveðju Vigdís Rós frudis@simnet.is

Vigdís Rós Gissurardóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 19:52

11 Smámynd: Róbert Björnsson

Kærar þakkir öll fyrir falleg orð og stuðning! 

Til ykkar sem þekkið þetta af eigin raun vil ég bara segja að batinn kemur ekki að sjálfu sér - það krefst vinnu að horfast í augu við fortíðina og ná sáttum.  Mikilvægasta skrefið er að geta fyrirgefið sjálfum sér og losað sig við sjálfsásakanir á borð við - "ég hefði átt að þora að berja á móti" eða "bara ef ég hefði gert þetta öðruvísi" eða "kannski var þetta mér að kenna".   Það biður enginn um að vera lagður í einelti og einelti er aldrei þolendunum að kenna.   Í mínu tilfelli var lang erfiðast að losa mig við reiðina sem ég bar í garð sjálfs míns fyrir að hafa "leyft þessu að gerast".

Þá fyrst getur maður lært að fyrirgefa öðrum þegar maður hefur fyrirgefið sjálfum sér - og næsta skrefið er að reyna að setja sig í spor gerendanna og skilja hvað varð til þess að þeir gerðu það sem þeir gerðu - í mörgum tilfellum eiga gerendur eineltis við mikla vanlíðan að stríða sjálfir - sem brýst svo svona út.  Og það má ekki gleymast að veita gerendunum þá hjálp og stuðning sem þeir þurfa.

Gangi ykkur öllum vel og takk aftur fyrir kveðjurnar!

Róbert Björnsson, 28.10.2009 kl. 22:49

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Robbi minn, þú ert stór mannezkja.

Það var snilld að sjá þig þarna opna þig um vandamálið.

Held þú hafir kennt mörgum margt.

Takk fyrir mig.

Steingrímur Helgason, 30.10.2009 kl. 01:23

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einelti er eitt það ljótasta sem hægt er að gera neinni manneskju.  Þú átt heiður skilin fyrir að opna þig á þennan hátt.  Ég er viss um að það er erfitt að koma svona fram og ræða þessi viðkvæmu mál.  Knús á þig elskulegur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2009 kl. 12:05

14 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Róbert, þú ert flottur.

Ólafur Þórðarson, 13.11.2009 kl. 15:02

15 Smámynd: Róbert Björnsson

Kærar þakkir fyrir hólið kæru vinir!

Róbert Björnsson, 14.11.2009 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.