Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Trúleysinginn ég og leitin að hinu góða

Stundum er erfitt að vera trúleysingi.  Það kemur fyrir að ég öfundi þá sem geta fundið huggun í trú sinni þegar erfiðleikar steðja að.  Sem betur fer finn ég mína huggun og innri frið á annan hátt og lifi síður en svo í einhverju svartnætti þrátt fyrir að trúa ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri eða æðri máttarvöld.  Þess í stað trúi ég á okkar eigin mátt, náttúruöflin, lýðræðið, rökvísi, réttlæti og kærleik.

Hið góða býr innra með okkur, manneskjunum.  Það kemur ekki að ofan, heldur að innan.  Samkennd, kærleikur og ást fjölskyldu okkar og vina, er það sem gefur okkur huggun og hugarró á þessum síðustu og verstu.

Undanfarin ár hef ég af sumum verið talinn "herskár trúleysingi", sem samkvæmt skilgreiningunni, hef barist gegn trúarbrögðum í ræðu og riti og reynt að fá trúað fólk til að sjá "villu síns vegar" og fá það til að vakna upp af vitleysunni og sjá veruleikann eins og hann blasir við mér.  Með öðrum orðum, hef ég tekið þátt í að stunda eins konar "trúboð" trúleysingjans.  Rétt eins og aðrir trúboðar hef ég sinnt þessu hlutverki af mestu umhyggju, velvild og með von um bætt samfélag samkvæmt mínum skilningi.

Stundum hefur það þó komið fyrir að ég hef sært tilfinningar þeirra trúuðu vina minna sem sjá heiminn í öðru ljósi en ég.  Það hefur komið fyrir, að sökum þeirrar óbeitar sem ég hef gagnvart ákveðnum þáttum skipulagðra trúarbragða , að mér hafi yfirsést sú staðreynd að sumt sem tilheyrir trúarbrögðum er í sjálfu sér af hinu góða og að trú getur veitt mörgu góðu fólki "inspírasjón" til góðra verka.  Trúarbrögð eru ekki eins svarthvít og þau hafa stundum birst mér.

Þegar ég var barn og unglingur var ég tiltölulega trúaður.  Ekki meira en gengur og gerist með íslensk börn, en móðir mín reyndi að ala mig upp í góðum siðum og gildum.  Við vorum ekki kirkjurækin og ég las ekki biblíuna fyrr en ég komst á fullorðinsaldur (las þá Gamla testamentið og varð fyrir skelfilegu áfalli Joyful).  Engu að síður leið mér alltaf vel þegar ég slysaðist í kirkju og fann þar oftast fyrir friði, hlýju og kærleika.  Sömuleiðis man ég eftir að hafa beðið til Guðs þegar ég fann fyrir ótta, kvíða og einmannaleika og ég man að trúin á að ég væri ekki einn í heiminum veitti mér mikla hugarró.

Smám saman fjaraði þó undan trúnni með aldrinum, sérstaklega eftir að ég fór að hugsa um hversu fáránleg og óraunsæ hugmyndin um Guð raunverulega er.  Einnig fannst mér Guð endanlega hafa yfirgefið mig þegar móðri mín veiktist af ólæknandi krabbameini og lést eftir hörmulega erfið veikindi.  Satt að segja fann ég þá fyrir biturð og reiði út í þann Guð sem ég taldi mig hafa þekkt.

Ofan á þetta kynntist ég hræsni og öfgum "sanntrúaðra" eftir að ég fluttist hingað til Bandaríkjanna.  Blind bókstafstrú, hvaða nafni sem hún nefnist, er að mínu mati eitt hið skelfilegasta mein sem herjar á mannkynið.  Hatur, ótti, dogma, græðgi, fals og lygi.  Þannig sé ég flest skipulögð trúarbrögð í dag.  Boðskapur margra Kristinna söfnuða (t.d. kaþólskra og hvítasunnusöfnuða) virðast hafa snúist upp í algera andhverfu þess boðskapar sem ég las eitt sinn í Nýja testamentinu.

Hitt hef ég þó líka verið að sjá að undanförnu, mér til mikillar gleði, að til er gott fólk sem boðar einfaldlega trú á hið góða í okkur sjálfum.  Til eru prestar, þ.m.t. innan Þjóðkirkjunnar, svo sem hjónin Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir sem raunverulega boða einungis sannan náungakærleik og samkennd.  Þau taka það besta úr Nýja testamentinu og skilja eftir hryllingssögur hins morðóða og valdasjúka guðs gyðinganna.

Þrátt fyrir að ég sé og verði áfram hamingjusamlega trúlaus (trúfrjáls), þá lýsi ég því hér með yfir að ég mun reyna að taka trúaða í aukna sátt og sýna þeim meiri skilning en ég hef gert í framtíðinni.  "Why can´t we all just...get along?" Smile

coexist1.jpg


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.