Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Átak gegn einelti

Heimili og skóli - Landssamtök foreldra og SAFT standa nú fyrir átaki gegn einelti og var því formlega ýtt úr vör í Austurbæjarskóla í dag.  Ingibjörg Baldursdóttir, stofnandi Liðsmanna Jerico, og Ögmundur Jónasson alþingismaður, tóku á móti fyrstu eintökum nýs fræðsluheftis um einelti fyrir foreldra og Þorkatla Sigurðardóttir, þolandi eineltis, sagði frá reynslu sinni og áhrifum langvarandi eineltis á barnæskuna og fullorðinsárin.

anti-bullying_927168.jpgÍ fyrrasumar sagði ég frá upplifun minni af einelti á formi vídeó-bloggs (sjá neðar).  Bekkjarbróðir minn, Haraldur Geir Eðvaldsson, sá frásögn mína og kom hún honum mjög í opna skjöldu því hann hafði ekki upplifað sig sem þátttakanda í einelti.  Það vill svo til að Haraldur starfar sem kennari í dag og starfar með börnum á svipuðum aldri og við vorum á umræddum tíma.  Haraldur fékk þá mögnuðu hugmynd að sýna nemendum sínum þessa frásögn mína á sérstökum degi tileinkuðum Olweusar-áætluninni - og í kjölfarið sagði hann krökkunum frá okkar tengslum og hvernig hann hefði upplifað okkar samskipti.  Hann endurtók svo leikinn á foreldrafundum.  Þetta skapaði auðvitað mjög sérstakar og gagnlegar umræður í skólanum  - því þó reynslusögur þolenda eineltis séu margar, vantar oft skiljanlega að sjónarhorn gerenda komi fram. 

Einelti getur verið flókið fyrirbæri og til þess að fyrirbyggja einelti þurfum við að skilja það frá öllum hliðum.  Þess vegna eru frásagnir gerenda ekki síður mikilvægar en þolenda.  Það hefði ekki hverjum sem er látið sér detta í hug að framkvæma það sem Haraldur gerði og ég er afar stoltur af honum og þakklátur.  Það er mér heiður að kalla hann góðan vin minn í dag.

poster_no_bully_zone.jpgNýlega vorum við Haraldur beðnir um að leggja átaki Heimilis og skóla lið með því að segja sögu okkar í Kastljósi.  Okkur er báðum hjartans mál að uppræta einelti og því gátum við ekki skorast undan því.  Vitanlega gátum við ekki komið öllu því til skila sem við vildum, en vonandi gátum við vakið einhverja til umhugsunar um eineltismál.  Þögnin er versti óvinurinn.  (Hér má sjá viðtalið)

Í tilefni dagsins endurbirti ég hér þetta vídeó-blogg mitt.  Ég vil taka það fram að þrátt fyrir að ég gagnrýni viðbrögð skólans í frásögn minni - er mér hlýtt til þess ágæta fólks sem þar starfaði.  Skólastjórinn og aðrir kennarar vildu mér vel og ég efast ekki um að þau gerðu sitt besta út frá þeim úrræðum sem í boði voru á þessum tíma.

 


Ómannúðleg stefna í málefnum hælisleitenda

amnesty.gifMig langar til að vekja athygli á góðri grein á Smugunni eftir Inga Björn Guðnason vin minn, um málefni hælisleitenda á Íslandi. 

Sú stefna stjórnvalda að senda hælisleitendur úr landi án efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli heimildar Dyflinnar-reglugerðarinnar er ekkert annað en sorgleg.  

Það er merkilegt að núverandi stjórnvöld sem réttilega gagnrýndu ólöglega þátttöku Íslands í Íraksstríðinu á sínum tíma - skuli nú senda stríðshrjáð fólk þaðan, í sárri neyð, til baka út í opinn dauðann, með viðkomu í ömurlegum flóttamannabúðum á Grikklandi.  Sveiattan!! 


Sinfónían er hljómsveitin mín

Ég fór á dásamlega tónleika í gærkveldi.  Sinfóníuhljómsveit Íslands, þjóðargersemi okkar, lék kvikmyndatónlist eftir John Williams.  Þetta voru aukatónleikar og troðfullur salur unnanda góðrar tónlistar og klassískra bíómynda.

Hljómsveitin skilaði sínu af miklum sóma og hef ég þó góðan samanburð, því ég gerði mér tvívegis far til Chicago til þess að hlusta á sama prógramm flutt af Chicago Symphony Orchestra undir stjórn sjálfs meistarans og höfundarins John Williams.  S.Í. gaf þeim í Chicago lítið eftir og það vakti mikla lukku þegar sjálfur Darth Vader mætti í fullum herklæðum á sviðið og stjórnaði the Imperial March. Smile   Sjá myndband af atvikinu á bloggsíðu Halldórs Sigurðssonar!

french-horn-is-2.jpgSigrún Eðvaldsdóttir fiðlusnillingur fór á kostum í stefi Schindler´s List og brass-deildin fór mikinn allt kvöldið...það þarf sko sterkar varir í þetta.  Stefán Bernharðsson, sem ég man eftir sem polla á lúðrasveitarmótum í gamla daga, er greinilega orðinn fullskapaður "virtuoso" hornleikari og ég viðurkenni að ég dauð-öfundaði hann af djobbinu í gærkvöldi og sé eftir að hafa misst af sóló-tónleikum hans um daginn.

John Williams er raunar töluverður áhrifavaldur í mínu lífi enda var það tónlist hans að þakka að ég fékk áhuga á klassískri tónlist sem barn og ákvað að læra á hið göfuga hljóðfæri franska hornið og reyndi að klóra mig í gegnum horn-konserta Mozarts í gamla daga með misjöfnum árangri.  Það sem ég sé mest eftir í lífinu, hingað til, er að hafa lagt hornið á hilluna...en hver veit nema maður dusti rykið af því einn daginn og gerist brúklegur í lúðrasveitina á nýjan leik.

Persona Non Grata í USA

Kaus í Bandarísku forsetakosningunum árið 2004 – stöðvaður við komuna til Minneapolis og neitað um landgöngu.  Dýrkeypt prakkarastrik og "tæknileg mistök".

"We cherish our democratic process" sagði landamæravörðurinn grafalvarlegur og ég passaði mig á því að bíta í tunguna á mér.

robert_dc3_925450.jpgTilgangur ferðar minnar um síðustu mánaðarmót var að sækja hluta búslóðar minnar sem ég skildi eftir í geymslu þegar ég snéri heim til Íslands í sumar.  Ég dvaldi við nám í Bandaríkjunum í tæp 9 ár og átti mér einskis ills von við komuna til Minneapolis enda búinn að ferðast mörgum sinnum til og frá Bandaríkjunum á undanförnum árum.  Um leið og ég steig út úr vélinni og gekk inn í salinn þar sem vegabréfaskoðunin fer fram, kom vígalegur landamæravörður á móti mér og bað mig um að fylgja sér inn í yfirheyrslu-herbergi.  Það var greinilegt að þeir áttu von á mér. 

Þetta kom mér þó ekki alveg í opna skjöldu því áður en ég lagði af stað hafði ég sótt um ferðaheimild á netinu (ESTA) og fengið neitun.  Ég hélt að það væri sökum þess að þegar ég yfirgaf Bandaríkin hafði mér ljáðst að láta skólann vita svo þeir gætu skráð mig út úr SEVIS tölvukerfinu sem fylgist með erlendum nemendum.  Ég hélt því að ég væri fyrir mistök “out of status” í kerfinu þrátt fyrir að vera með gilda námsmanna-vegabréfsáritun.  Ég fór því í sendiráðið og þeir staðfestu að ég væri enn skráður í SEVIS sem nemandi, svo ég varð að hringja í skólann og leiðrétta það auk þess sem ég þurfti að sækja um almenna ferðamanna-vegabréfsáritun sem ég og fékk og hafði ég því ekki frekari áhyggjur af því máli.  Það hvarflaði ekki að mér að forsetakosningarnar 2004 væru að bíta í rassinn á mér núna, 5 árum síðar, sérstaklega þar sem ég hef ferðast fram og til baka mörgum sinnum vandræðalaust síðan þá.

i_voted.jpgLandamæravörðurinn leit út eins og klipptur út úr klisjukenndri bíómynd.  Þessi stereótýpíska harða lögga sem tekur starfið sitt mjög alvarlega og nýtur þess að horfa á sjálfan sig í speglinum í skothelda vestinu með byssuna í beltinu.  Ég var látinn lyfta hægri hendi og sverja að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann.  Þessu fylgdi að ég ætti rétt á að svara ekki spurningum þeirra en ef að ég segði ósatt gæti það þýtt fimm ára fangelsisvist ellegar $10,000 sekt. 

Því næst tóku við alls kyns furðulegar spurningar sem greinilega voru ætlaðar til þess að gera mig taugaóstyrkan og það virtist fara í skapið á mínum manni að ég skyldi ekki virka hræddur við hann.  Loks kom hann sér að efninu og spurði mig hvort ég hefði nokkurn tíma kosið í Bandarískum kosningum og þarmeð þóst vera Bandarískur ríkisborgari.  Þá var mér fyrst ljóst að ég væri í klandri og að ferðaáætlun mín myndi varla standast úr þessu.

Hvað kom til að ég kaus í Bandarísku forsetakosningunum?

florida-recount.jpgÞegar ég kom fyrst til Bandaríkjanna var Bill Clinton ennþá forseti og lífið var ljúft.  Ég hafði orðið vitni að mikilli hnignun Bandarísks samfélags næstu fjögur árin og stóð ekki á sama um hvert stefndi.  Íraksstríðið var í algleymingi og öfgasinnaðir kristnir hægrimenn háðu menningarstríð með tilheyrandi mannréttindabrotum.  Tilhugsunin um annað kjörtímabil George W. Bush var skelfileg.

Skólafélagar mínir voru virkir meðlimir í “College Democrats” og fengu mig til þess að taka þátt í sjálfboðastarfi fyrir forsetakosningarnar 2004.  Það leiddi meðal annars til þess að ég hitti og tók í spaðann á ekki ómerkari mönnum en Howard Dean, fyrrv. Ríkisstjóra Vermont, forsetaframbjóðenda   og síðar formanns Demókrataflokksins sem og Al Franken nýkjörinum Öldungardeildarþingmanni frá Minnesota.

Stuttu fyrir kosningarnar stungu kunningjar mínir upp á því að ég skyldi mæta á kjörstað og kjósa.  Þeir tjáðu mér að það eina sem ég þyrfti að gera væri að mæta með rafmagnsreikning til þess að sanna búsetu sem og einhver persónuskilríki með mynd.  Til þess dugði skólaskírteinið mitt.

Ég ætlaði varla að trúa því að þetta væri hægt – en svo las ég mér til um það á netinu að þessi galli á kosningakerfinu leiddi til þess að í hverjum kosningum kysu hundruðir þúsunda ólöglegra innflytjenda frá Mexíkó sem og fjöldinn allur af látnu fólki.  Ennfremur kom fram að sjaldan kæmist upp um þá sem kjósa ólöglega og að nánast aldrei væri fólk ákært eða dæmt fyrir kosningasvindl.

i_voted2.jpgMér voru forsetakosningarnar árið 2000 enn í fersku minni sem og skandallinn í Flórída sem leiddi til þess að Bush gat stolið kosningunum.  Hann var að mínu mati ekki réttmætur forseti og það dró úr samviskubitinu yfir því að kjósa.  Ég taldi mér trú um að þeim væri nær að “bjóða upp á þetta” og að það væri m.a. þessu gallaða kosningakerfi að kenna að Bush væri nú forseti.  Ég vissi samt að það væri rangt af mér að mæta á kjörstað – en það var einhver skrítin samblanda af forvitni, spennufíkn, kæruleysi, prakkaraskap og öðrum tilfinningum sem ráku mig áfram.  Mig langaði til þess að komast að því hvort ég kæmist virkilega upp með þetta og hvort eftirlitið með kosningakerfinu væri virkilega svona lélegt.  Ennfremur báru tilfinningarnar mig ofurliði að því leiti að fyrr um daginn hafði ég mætt á kosningafund þar sem myndaðist gríðarleg stemmning.  Hvert einasta atkvæði gæti skipt sköpum um það hvort Bush yrði endurkjörinn og þarmeð var framtíð heimsbyggðarinnar að veði.  Ég lét glepjast í múgæsingnum, mætti á kjörstað með rafmagnsreikninginn minn og kaus John Kerry.  Heimskulegt já - en svo sannarlega áhugaverð upplifun.  Maður lifir ekki nema einu sinni.  Whistling

Kerry vann með yfirburðum í Minnesota en það dugði því miður skammt.

Þegar ég gekk út af kjörstað fékk ég forláta límmiða sem á stóð “I Voted” sem kjósendur áttu að bera á barmi til þess að minna aðra á að fara og kjósa.  Ég á þennan límmiða ennþá og hann er mér kær minjagripur um þá lífsreynslu sem þessi gjörningur átti eftir að valda. 

voter_registration_card.jpgTveim vikum eftir kosningarnar fékk ég svo bréf í pósti frá “Minnesota Secretary of State” þess efnis að ég væri nú skráður kjósandi í Sherburne sýslu og gæti því átt von á að vera kallaður fyrir kviðdóm (Jury duty).  Þetta þótti mér stórmerkilegt en jafnframt svolítið óþægilegt.

Svo leið og beið og ekkert gerðist fyrr en rétt fyrir “sveitarstjórnarkosningarnar” árið 2006.  Þá fékk ég óvænt símtal frá Skerfaranum í Sherburne sýslu og ég var spurður um hvort ég hefði kosið tveim árum fyrr.  Ég þorði ekki annað en að játa brot mitt fúslega og bjóst við hinu versta.  Samkvæmt lagabókstafnum hefði verið hægt að dæma mig í fangelsisvist.  Ég var gráti nær af iðrun í símanum og spurði Skerfarann ráða um hvort ég ætti að pakka niður og yfirgefa landið áður en mér yrði stungið í steininn.  Þá spurði hann mig hvern ég hefði kosið og eftir að ég sagðist hafa kosið Kerry varð hann ósköp kammó og sagði mér að hafa ekki miklar áhyggjur af þessu.  Ég skildi bara vera rólegur og klára námið.  Hann yrði að vísu að senda skýrslu til saksóknara en fullvissaði mig um að það væri ólíklegt að ég yrði kærður auk þess sem játning mín og samstarfsvilji myndi teljast mér til tekna.  Ég andaði því léttar og málið virtist úr sögunni.

voting.jpgEftir að hafa játað að hafa kosið tók við löng bið á flugvellinum á meðan þeir ráðfærðu sig um hvað skyldi gera við mig.  Þeir hringdu í Skerfarann í Sherburne sýslu og komust að því að málið hefði verið látið niður falla á sínum tíma.  Það var því loks ákveðið að ég yrði ekki ákærður enda var mér sagt að refsingin sem hefði getað beðið mín væri sennilega of hörð miðað við alvarleika brotsins.  Eftir sat þó að mér yrði ekki hleypt inn í landið heldur yrði ég sendur heim með næstu vél.  Ef ég vildi snúa aftur til Bandaríkjanna yrði ég að sækja um nýja vegabréfsáritun í Sendiráðinu og fá sérstaka undanþágu.  Ég hef því ekki verið gerður endanlega útlægur frá Bandaríkjunum en það er í sjálfu sér ekkert sjálfgefið að ég fái nýja vegabréfsáritun og ef ég þekki þá rétt mun það kosta mikið skrifræði og fyrirhöfn.

Þegar þarna var komið við sögu stóð eftir eitt vandamál.  Flugvélin var farin og ekki var von á annari Icelandair vél fyrr en tveimur dögum síðar.  Samkvæmt “standard procedure” átti því að ferja mig í St. Paul County Jail, klæða mig í appelsínugulan samfesting og láta mig dúsa þar og iðrast gjörða minna þar til hægt væri að senda mig heim.  Ég var myndaður í bak og fyrir og enn og aftur tóku þeir af mér fingraför, í þetta sinn með bleki á pappír.  Ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér leið á þessum tímapunkti.  Ég var farinn að undirbúa mig andlega undir að verða sendur í jailið og satt að segja þótti mér það hálf fyndið.  Ég sá fyrir mér auglýsingu fyrir þáttaröðina Fangavaktina.  Þetta var orðinn farsi.

pylsur.jpgLoks var mér tjáð að þetta væri “my lucky day” (einmitt það já!) því þeir hefðu ákveðið að þar sem það væri ólíklegt að ég reyndi að flýja, þá yrði mér sleppt inn í landið (paroled) gegn því skilyrði að ég gæfi mig fram fjórum tímum fyrir flug, tveim dögum síðar.  Ég varð hins vegar að skilja töskurnar mínar og ferðatölvuna eftir á flugvellinum og fékk bara að hafa með mér nærföt til skiptanna og tannburstann.  Loks var ég varaður við að láta mér ekki detta það í hug að mæta ekki á settum tíma því annars myndi téður landamæravörður persónulega sjá um að finna mig og þá fyrst væri ég í vondum málum!  Þvínæst þakkaði hann mér fyrir þolinmæðina og samstarfsviljann og gerðist svo biblíulegur og sagði “The Truth will set you free” (Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsan).  Ég verð að viðurkenna að mig langaði að sýna honum fingurinn...en sem betur fer tókst mér að halda aftur af mér.

Sá stutti tími sem ég hafði sem “frjáls maður” í Bandaríkjunum var skrítinn og fljótur að líða en mér tókst þó að sinna mínum helstu erindum, ganga frá dótinu mínu og svo átti ég mína “síðustu kvöldmáltíð” með mínum kæru vinum í St. Cloud.

acf3e41.jpgMér var sýnd fyllsta kurteisi á flugvellinum þegar ég gaf mig fram á tilsettum tíma en satt að segja var frekar óþægilegt að vera leiddur inn í flugvélina í lögreglufylgd eins og ótýndur glæpamaður fyrir framan alla hina farþegana.  Að lokum afhenti landamæravörðurinn yfirflugfreyjunni umslag sem innihélt vegabréfið mitt og öll málsgögn með þeim fyrirmælum að ég mætti fá umslagið þegar við værum komin inn í “alþjóðlega lofthelgi”.

Nú þegar heim er komið er ég varla búinn að átta mig á þessari skringilegu atburðarrás og ég veit eiginlega ekki hvort ég á að hlægja eða gráta.  Þetta er allavega lífsreynsla sem ég mun seint gleyma og maður hefur allavega frá áhugaverðri sögu að segja. Eftir að hafa eytt einum þriðja ævinnar í þessu “landi hinna frjálsu” þykir mér afar vænt um þessa kjána og ég vona svo sannarlega að ég eigi eftir að geta ferðast þangað aftur í framtíðinni.  Þó hef ég satt að segja ekki geð í mér til þess alveg á næstunni eftir þetta ævintýri.

god-bless-america_eagle-flag-liberty_925465.jpgMátti heldur ekki kjósa á Íslandi – Til gamans má geta að ég hef áður átt í vandræðum með forsetakosningar en mér var synjað um að fá að kjósa í mínum fyrstu kosningum á Íslandi á þeim forsendum að ég væri ekki Íslenskur ríkisborgari.  Sjá þá sögu hér. :-)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband