Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
TF-AMU lendir í Jeddah (myndband)
15.10.2011 | 10:43
Óska félögum mínum í Jeddah gleðilegrar Hajj vertíðar. Allahu ackbar!
Auk farþegaflugsins er sömuleiðis nóg að gera í fraktinni (aðrar 8 vélar í augnablikinu - 4x Boeing 747-200, 2x Boeing 747-400 og 2x Airbus A300).
Þetta myndband tók ég af einum fraktaranum í Jeddah í sumar áður en ég húkkaði mér far til Hong Kong.
Átta vélar frá Air Atlanta í pílagrímaflugi til Jeddah | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Marsa-tónleikar Svansins og LV í Ráðhúsi Reykjavíkur
11.10.2011 | 20:52
Ég lét nýlega gamlan draum rætast og byrjaði að blása aftur í franska hornið eftir nokkurra ára hiatus. Ég hef æft með Lúðrasveitinni Svaninum í haust og nú er komið að fyrstu tónleikunum.
Fyrir hönd Svansins leyfi ég mér að vekja athygli á marsa-tónleikum í Ráðhúsi Reykjavíkur annað kvöld (miðvikudag) kl. 20. Lofa heilmiklu trukki, en auk Svansins spilar Lúðrasveit Verkalýðsins. Þema kvöldsins verða franskir her-marsar frá Napóleon-tímabilinu en auk þess hljómar John-Phillip Sousa, Páll Pamplicher Pálsson og loks verður frumflutt nýtt íslenskt verk fyrir tvær lúðrasveitir eftir Þórunni Guðmundsdóttur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Vegið að Sinfó
6.10.2011 | 18:58
Sinfóníuhljómsveit Íslands er þjóðargersemi og eitt af því fáa sem við megum sannarlega vera verulega stolt af sem þjóð. Það er ekkert sjálfgefið að 300 þúsund manna samfélag geti státað af slíkri heimsklassa-hljómsveit - þvert á móti er það heilmikið afrek.
Listafólkið sem skipar hljómsveitina er afreksfólk - alls ekki síður en handboltakapparnir okkar. Að baki árangri þeirra liggur margra ára linnulausar æfingar og nám - blóð, sviti og tár. Sjálfsagt gætu flestir meðlimir hljómsveitarinnar starfað við mun betri kjör í nafntoguðum erlendum hljómsveitum - en þökk sé hugsjón þeirra og tryggð við íslenska menningu, erum við svo lánsöm að fá að njóta starfskrafta þeirra og listsköpunar hér - í okkar stórkostlegu Eldborg (hvað svo sem segja má um Hörpu að utan).
En nú heyrist tísta í smásálum úr stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins - að í ljósi núverandi fjárlagahalla og niðurskurðar væri réttast að afnema ríkis-styrki til Sinfóníunnar og þar með leggja hana niður. Erum við virkilega svo snauð, bæði andlega og veraldlega að við getum ekki/viljum ekki halda á lífi megin-stoð lista og menningar á Íslandi? Ég held ekki - það eru til aðrar og skynsamari lausnir.
Ekki einu sinni menningarsnauðum Ameríkönum myndi detta slíkt í hug. Þar í landi frjálshyggjunnar njóta sinfóníuhljómsveitir opinberra styrkja úr National Endowment for the Arts.
Það er sorgleg staðreynd að margir líta á klassíska tónlist sem eitthvert snobb ríku elítunnar. Þetta er skelfilegur misskilningur - það geta ALLIR notið klassískrar tónlistar, óháð stöðu og stétt. Stór hluti tónleikaáskrifenda Sinfóníunnar er alþýðufólk og verkamenn sem kunna að vera fátækir af peningum en því ríkari í anda! Fólk með reisn. Ef ég fengi að ráða væri unnið að því að breikka ennfrekar þann hóp sem fær að njóta Sinfó með því að fjölga tónleikum úti á landi sem og að bjóða öryrkjum og ellilífeyrisþegum andlega næringu þeim að kostnaðarlausu.
Nóg er framboðið af upphafinni og forheimskandi lágmenningu, fótbolta og "America´s Got Talent" að engin undra er að fimmtungur drengja í 10. bekk er ólæs! Segjum hingað og ekki lengra og stóreflum tónlistarkennslu grunnskólabarna og gefum þeim þá dýrmætu gjöf að verða "læs" á tónlist og fagurfræði.
Áður en Sinfónían verður drepin legg ég til að ríkið hætti að styrkja fótboltalandsliðið og ríkis-kirkjuna! Þar fara tvær vita-gagnslausar stofnanir sem má fullyrða að séu mun meiri sóun á skattpeningum okkar en Sinfó. Segi það og skrifa.
...
P.S. Hér má sjá frumlegan flutning á fimmtu sinfóníu Beethovens - í beinni lýsingu íþróttafréttamanna og svo tekur dómarinn til sinna ráða!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)