Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
Kjarnorku mótmælt í Schengen
11.3.2012 | 16:55
Í dag fóru fram kröftug mótmæli hér hinum-megin við Mósel-ánna, í bænum Schengen í Lúxemborg. Ekki snérust mótmælin um vindhanann Sarkozy og örvæntingafulla tilraun hans til þess að höfða til lægstu hvata þjóðernissinna með tillögu sinni um að draga Frakkland út úr Schengen samkomulaginu. Nei, þessi mótmæli beindust að kjarnorkuverinu í Cattenom í Frakklandi, sem er í um 10 km fjarlægð héðan frá mér hér í Perl.
Mótmæli þessi trufluðu sunnudagsbíltúrinn minn, því brúnni hér yfir var lokað í um hálftíma á meðan mestu lætin stóðu yfir í þessum græningjum. En loks tókst mér að komast leiðar minnar og ég hélt yfir til Frakklands, þar sem ég keyrði um blómlegar sveitir Lorraine héraðs, kom við í Thionville og Metz og keyrði svo að sjálfsögðu framhjá Cattenom í bakaleiðinni.
Mér líður ágætlega vitandi af kjarnorkuverinu í bakgarðinum og deili ekki áhyggjum Die Linke og GreenPeace félaga af hættunni sem þeir telja að stafi af þessu. Verið var tekið í gagnið 1986 og er hið þriðja stærsta í Frakklandi með fjórum kjarnaofnum sem skila um 1300 MW hver og samtals um 34 Tera-vattsstundum á ári. Frá kæliturnunum rísa fallegir gufustrókar sem á björtum degi setja svip sinn á umhverfið og maður getur glaðst yfir hreina loftinu sem þeir tákna - því ef ekki væri fyrir kjarnorkuna, þyrfti að brenna óhemju magni af kolum eða olíu sem myndi þýða gríðarlega mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Í bandaríkjunum er talið að allt að 50 þúsund manns látist árlega af völdum öndunarfærasjúkdóma sem rekja má til kolabrennslu-orkuvera.
Hræðslan við geislun frá kjarnorkuverum er auðvitað skiljanleg en jafnframt er hún byggð á fullkominni vanþekkingu. Meðal-geislun sem íbúar í nágrenni kjarnorku verða fyrir umfram aðra er um 3/8 úr einu milliremi á ári - en til samanburðar er geislaskammturinn úr einni röntgen-myndatöku allt að 50 millirem.
Líkurnar á kjarnorku-slysi líkt og í Fukushima eða Chernobyl eru sömuleiðis hverfandi, í það minnsta hér í Cattenom. Hér verða ekki náttúruhamfarir á borð við sterka jarðskjálfta eða flóðbylgjur sem gætu hrundið af stað slíkri atburðarrás.
Staðreyndin er sú að kjarnorka er örugg, ódýr og "græn" orka sem við komumst ekki hjá því að nýta okkur næstu áratugina hið minnsta, eða þangað til tæknin gerir okkur kleyft að ná betri nýtni úr endurnýjanlegri orku eins og sól og vind.
Stóra vandamálið við kjarnorkuna er auðvitað úrgangurinn. Úran-eldsneytis-stangirnar verður að geyma á öruggum urðunar-geymslustað næstu þúsund árin eða svo. Enginn vill auðvitað urða geislavirkan úrgang í bakgarðinum sínum, en þrátt fyrir að samkomulag náist um hentuga staðsetningu, t.d. í neðanjarðar-göngum í Úral-fjöllum, þá er ekki nema hálfur sigur unninn. Flutningurinn þangað er nefnilega veikasti hlekkurinn í öryggis-keðjunni. Þess vegna er lausnin til bráðabirgða sú að geyma all unnið eldsneyti á staðnum, í kjarnorkuverunum sjálfum, en það getur þó aldrei verið varanleg lausn.
Hótar að draga Frakkland úr Schengen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Kveðja úr Mósel-dalnum
2.3.2012 | 20:37
Þá er maður loks búinn að koma sér fyrir í hjarta Evrópu og maður leyfir sér að horfa björtum augum á framtíðina. Byrjunin lofar í það minnsta góðu - nýja starfið hjá Cargolux leggst vel í mig og umhverfið er ekki af lakari endanum.
Ég leigi íbúð (sjá myndir) í Þýska bænum Perl í Saarlandi sem stendur við Mósel-ánna gegnt Lúxembúrgíska bænum Schengen (þar sem samnefnt landamæra-samkomulag var undirritað á sínum tíma). Frakkland er svo ekki langt undan (um 2 km) og er þetta svæði því kallað "dreiländereck" eða þriggja landa hornið. Og hér vaxa sko rúsínurnar - í orðsins fyllstu merkingu...eða a.m.k. vínberin. :)
Nálægt því helmingur þeirra sem vinna í Hertogaríkinu Lúxemborg búa hinum-megin landamæranna, ýmist í Frakklandi, Þýskalandi eða Belgíu - sökum húsnæðisverðs í Lúx. Við köllumst "grenzgänger" en þökk sé Schengen samkomulaginu er það lítið mál. Ég er um hálftíma að keyra í vinnuna uppá Findel-flugvöll - 26 km í gegnum blómlegar sveitir og vínakra. Eitthvað annað en blessuð Hellisheiðin. Veðrið er líka aðeins skárra - í dag var 15 stiga hiti og léttskýjað og ég býst við að það styttist í túlípanana!
Ég hef svo passað mig á því að fylgjast sem minnst með íslenskum fjölmiðlum og þjóðfélagsumræðu - og viti menn, þvílíkur léttir! Ég finn hvernig blóðþrýstingurinn lækkar og lundin léttist! Í alvöru talað - ísland er orðið einn allsherjar Kleppur!
Bestu kveðjur frá "hinu illa heimsveldi" ESB - Schengen - Eurozone. Gangi ykkur vel með krónuna og "fullveldið" og verði ykkur að góðu - suckers*! ;)
(*þessari stríðni er að sjálfsögðu eingöngu beint til valinkunnra Moggabloggara og Heimssýnar-félaga sem kynnu að slysast inná þessa síðu - aðra bið ég afsökunar og votta þeim samúð mína!)
P.S. Þetta er útsýnið af svölunum mínum :)
Evrópusambandið er framtíð okkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.7.2012 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)