Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Heimsmet í þróunaraðstoð og arðrán íslenskra útgerðarmanna við Afríkustrendur

Sem skattgreiðanda í Lúxemborg yljar það mér um hjartaræturnar að vita til þess að ekkert annað ríki veraldar veitir jafn-háu hlutfalli vergrar þjóðartekna sinna til þróunar-aðstoðar við bágstödd ríki. Samtals ver Lúxemborg heilu prósenti af þjóðartekjum sínum í þróunar-aðstoð, sem á síðasta ári nam yfir $430 milljónum eða rúmum 51 milljörðum íslenskra króna.  Til samanburðar nam þróunar-aðstoð Íslands á síðasta ári 0.22% þjóðartekna þrátt fyrir loforð og alþjóðlegar yfirlýsingar um að framlögin skyldu vera 0.7%. 

Nú hafa lýðskrumara-plebbarnir í Stjórnarráðinu hins vegar ákveðið að íslendingar séu of fátækir til þess að halda úti heilbrigðisþjónustu (að ég minnist nú ekki á mennta-og menningarstofnanir) öðruvísi en að hætta stuðningi við þá íbúa jarðarinnar sem líða hvað mestan skort (af þeirri tegund sem fæstir íslendingar geta ímyndað sér, sem betur fer). 

Þrátt fyrir meinta fátækt Íslands (sem kannski er fremur andleg fátækt en veraldleg) ákváðu aumu smá-sálirnar í Stjórnarráðinu að nú væri upplagt að lækka auðlegðarskatta (á mis illa fengið fé) þeirra ríkustu og að afnema auðlindagjöld á arðræningjana í útgerðinni.  

Já, þessa sömu arðræningja og sjóræningja sem moka upp fiski við strendur Afríku og hverra uppgefinn gróði nam 2.6 milljörðum í fyrra og rúmum 19 milljörðum á árunum 2007-2011.  Sjá http://www.dv.is/frettir/2012/11/25/samherji-hagnadist-um-26-milljarda-afrikuveidunum/

Ebenezer Scrooge leynist víða og ljóst að hugmynd hans um hugtakið "samfélagslega ábyrgð" nær ekki langt út fyrir lóðarmörkin í Vestmannaeyjum og Akureyri.  Það er borin von að fólk sem ekki telur sig knúið til þess að leggja sitt af mörkum til þess að halda úti grunnstoðum eigin lands og þjóðar sé fært um að hugsa um "samfélagslega ábyrgð" í alþjóðlegu samhengi.  

Þetta fólk kann ekki að skammast sín.

En mikið óskaplega er ég feginn að mínum skattgreiðslum er ekki ráðstafað af þessum aumu lúsablesum.

Dev Aid GDP


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.