Færsluflokkur: Lífstíll
Húsnæðisleigan hækkar
14.11.2007 | 06:26
Í dag fékk ég bréf frá landlordinum þess efnis að sökum hækkanna á leigumarkaðinum sé hún tilneydd til að hækka hjá mér leiguna frá og með 1. janúar næstkomandi. Ég svitnaði upp og ætlaði nú varla að þora að fletta fylgiskjalinu til að sjá hversu mikil hækkunin yrði. Ég var strax farinn að sjá fyrir mér verulega lífskjaraskerðingu og aukin yfirdráttarlán.
Ég andaði hins vegar töluvert léttar þegar ég sá að hækkunin nemur heilum $10 á mánuði! Jamm...600 kall...bévað...nú eru það bara núðlur í hvert mál!
Þess má geta að ég leigi blokkaríbúð sem er 900 sq.ft. (ca. 83 m2) að stærð sem inniheldur tvö rúmgóð herbergi (myndi þá væntanlega flokkast sem 3ja herbergja íbúð samkvæmt íslenskum stöðlum) og fyrir herlegheitin greiði ég heila $570 ($580 frá og með 1. jan.) sem gerir um 35 þúsund krónur miðað við núverandi gengi dals og krónu.
Nú er hins vegar farið að styttast í að ég klári loksins námið og þá vakna verulega óþægilegar spurningar um framtíðina og þann kalda veruleika sem blasir við ef/þegar maður kýs/neyðist til að flytja aftur til Íslands.
Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld er húsaleigumarkaðurinn í Reykjavík þannig í dag að fermetraverð er á bilinu 2-5 þúsund krónur!!! Þetta þýðir að herbergiskitra eða stúdíó-íbúð getur kostað allt að 100 þúsund krónum á mánuði og íbúð sambærileg þeirri sem ég leigi hér á 35 þús. getur kostað á bilinu 160-250 þúsund krónur! Ma..ma...ma...mabbbara áttar sig ekki á svona ruggli! Hvernig í ósköpunum fær fólk þetta til að ganga upp??? Að ég tali nú ekki um ósköpin, að ætla sér að kaupa húsnæði...á þessum svívirðilegu okur-lána glæpa-vöxtum sem viðgangast og fólk lætur bjóða sér.
Nei...fjandakornið...
Nú verður held ég bara farið á fullt í að redda sér græna kortinu með öllum tiltækum ráðum... nema kannski... nei andskotinn, ætli ég færi nú að giftast kellingu???
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Spakmæli dagsins
5.10.2007 | 18:12
The rock on which the greatest universities are founded is the rock of change . . . The future will be won by those who are capable of creating the future, not by those who undertake to defend the present as it is."
- Archibald MacLeish (1892-1982)
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
National Coming Out Day - 11. október
4.10.2007 | 05:52
Ameríkanar eru mikið fyrir að tilnefna hina og þessa daga sem sérstaka átaks eða baráttudaga fyrir hin ýmsustu málefni. Við höfum National Wear Red Day, National Pink Ribbon Day, National Endangered Species Day og National Day of Climate Action...og ég veit ekki hvað og hvað... hver dagur á dagatalinu er merktur einhverjum merkis viðburði þannig að maður gerði ekki mikið annað ef maður ætlaði að taka þátt í öllu þessu stöffi. En...maður verður víst að velja og hafna...
Þann ellefta október (eftir rétta viku) er haldið upp á National Coming Out Day - og þá eiga allir sem ennþá hírast inni í "skápnum" að manna sig upp og koma út með pompi og prakt.
Í tilefni dagsins gaf HRC (Human Rights Campaign - hagsmunasamtök GLBT fólks í USA) út þetta myndband þar sem saga dagsins er rifjuð upp og skorað er á fólk til að taka þátt í youtube gjörningi.
Og auðvitað varð ég að taka áskoruninni... Erhem...you know...taka þátt og vera með.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Pólitíkin í flugdeildinni
19.9.2007 | 21:58
Háskólaprófessorar eru eins misjafnir og þeir eru margir og hef ég verið nokkur sáttur við flesta mína prófessora hérna hingað til þó svo sumir séu svolítið sérvitrir og erfiðir í umgengni.
Í flugrekstrarfræðinni átti ég mér mína uppáhalds prófessora og svo var reyndar einn sem fór í taugarnar á mér. Sá heitir Jeff Johnson og er um margt sérstakur karakter. (Sjá SCSU Aviation faculty) Ég sat bara einn kúrs hjá honum en mér þótti mjög skrítið þegar hann eyddi heilli kenslustund í að segja okkur hversu mikilvægt það væri fyrir fólk í flugbransanum, sérstaklega þá sem eru langtímum frá heimili sínu, að sækja kirkju reglulega til að viðhalda heilbrigðu fjölskyldulífi! Ok...svo stofnaði hann kristilegt nemendafélag og fékk fyrrverandi hershöfðingja úr Flughernum til að halda fyrirlestur á samkomu sem hann kallaði "Soldiers for Christ".
Johnson var svo orðinn forseti "College Republicans" og í fyrra bauð hann sig fram til þingsetu á fylkisþingi Minnesota - Sjá framboðsvef hans hér. Hann tapaði í kosningunum en fékk stuðning rótækra "lífsverndarsinna" vegna skoðana hans á fóstureyðingum.
Um daginn gróf ég svo upp smá dirt um manninn, en ég komst að því að hann hafði verið rekinn úr stöðu sinni sem prófessor við flugdeild háskólans í Nebraska. (Sjá grein hér) Skýring brottrekstursins var sú að Johnson hafði ekki staðist fagleg skilyrði um starfsárangur og gæði kennslu var ábótavant. Johnson heldur því hins vegar fram að orsök brottreksturins hafi verið af pólítískum toga en hann hafði stuttu áður sent tölvupóst á nemendur og starfsfólk skólans þar sem hann gagnrýndi harðlega þá nýju stefnu skólans að réttindapakki (m.a. sjúkratryggingar og lífeyrisgreiðslur) sem fram að þessu hafði verið í boði fyrir maka starfsfólks skólans yrði nú líka gerður aðgengilegur fyrir samkynhneigt starfsólk skólans og þeirra maka.
Ég sendi þessa grein að gamni mínu til míns fyrrum umsjónar-prófessors en skrifstofur þeirra Johnsons eru hlið við hlið og nýlega sá ég svo regnbogalitaðan límmiða á skrifstofuhurðinni hans sem á stendur "GLBT Safe Space" Það ættu því að fara fram líflegar umræður á kennarastofunni þessa dagana, hehe.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hinsegin tilvera
11.8.2007 | 04:20
Því miður er staðan allt önnur ansi víða í veröldinni, þ.m.t. í ríkjum sem við skilgreinum sem vinaþjóðir okkar og ríki sem við eigum mikil viðskipti við. Nú nýlega fóru Vilhjálmur borgarstjóri og Gísli Marteinn borgarbarn ásamt fríðu föruneyti í opinbera heimsókn til Moskvu. Þar hittu þeir borgarstjóra Moskvu, Yuri Luzhkov, og færðu honum gjafir, m.a. tvo íslenska hesta og tilkynntu honum að nú stæði til að reisa rússneska réttrúnaðarkirkju á besta stað í Reykjavík. Fyrr á árinu hafði Yuri þessi borgarstjóri beitt lögregluvaldi til að koma í veg fyrir að haldin yrði Gay Pride ganga í Moskvu, sem hann lýsti sem djöfullegri ónáttúru. Er réttlætanlegt að púkka uppá svona lið?
Íslenska gleðigangan virðist vera farin að vekja nokkra athygli erlendis og er orðið þónokkuð um erlenda gesti sem gera sér far til landsins í þeim tilgangi að taka þátt í Hinsegin dögum.
Í gær skellti ég mér í sögu-göngu um miðborg Reykjavíkur sem hjónakornin Felix Bergsson og Baldur Þórhallsson stóðu fyrir. Gengið var um staði sem tengdust sögu og menningu samkynhneigðra á Íslandi síðustu 150 ár og það var margt áhugavert og skemmtilegt sem fram kom í máli þeirra Felix og Baldurs. Gangan í gær fór fram á ensku og var aðallega ætluð útlendingum, en önnur fjölmennari ganga fór fram í fyrradag á íslensku.
Það vildi svo sérkennilega til að einn útlendingurinn vatt sér að mér og spurði mig hvort ég væri frá Minnesota! Það kom til af því að ég klæddist peysu merktri skólanum mínum en í ljós kom að viðkomandi var ættaður frá smábæ í nágrenni litlu borgarinnar minnar St. Cloud, og það sem meira var, bróðir hans stundar nú nám í skólanum mínum og er að læra það sama og ég! How wierd is that!? Þessi náungi var hins vegar búinn að fá nóg af Bandaríkjunum og fluttur til Vancouver í Kanada, sem hann sagði vera frábæran stað.
Meanwhile...í Bandaríkjunum fóru fram áhugaverðar kappræður forsetaframbjóðendanna í gær. Það var sjónvarpsstöðin LOGO í samvinnu við HRC sem bauð til þessara kappræðna sem snérust eingöngu um málefni samkynhneigðra. Slíkt hefur aldrei áður gerst en það kom fáum á óvart að allir frambjóðendur Repúblikanaflokksins hundsuðu boðið, en Demókratarnir mættu allir nema Joe Biden og Chris Dodd.
Hér má sjá útsendinguna í heild sem og brot úr viðtölum við einstaka frambjóðendur. (Go Dennis Kucinich! )
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Kommar á Stokkseyri
30.7.2007 | 04:36
Stokkseyringar eru alltaf svolítið spes, og þessi hafði tekið uppá því um daginn að flagga Sovéska fánanum við hún. Ekki veit ég hvort viðkomandi gerði það af eldheitri byltingar-hugsjóninni einni saman eða hvort þetta sé bara húmoristi, en í hverju falli þá var þetta svolítið áhugaverð sjón og kannski bara skemmtilega viðeigandi!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
How do you like Iceland?
26.7.2007 | 12:04
Samt er það kannski þjóðarsálin sem breytist mest. Þjóðarsálin endurspeglast ákaflega vel í umferðinni og þar má vel merkja ríkjandi viðhorf og innræti borgaranna. Frekja, yfirgangur, tillitsleysi, dónaskapur, stress, hraði, græðgi, eigingirni. Allt eru þetta neikvæðir eiginleikar, en því miður er þetta það sem maður upplifir hvað sterkast í umferðinni.
Allt eru þetta líka eiginleikar sem mig grunar að fólk beri með sér í síauknu mæli annarsstaðar en bara í umferðinni. Maður mætir þessu viðmóti jafnt í verslunum sem og opinberum stofnunum. Enginn brosir, býður þér góðan dag eða sýnir minnstu kurteisi. Öll mannleg samskipti einkennast af hroka, stressi og þurrkuntuskap. Ég viðurkenni að ég er kannski orðinn of vanur þessu "yfirborðskennda" Ameríska viðmóti sem mörgum íslendingum finnst kjánalegt, en ég held að þrátt fyrir allt komi það manni í betra skap. Ef þú smælar framan í heiminn, smælar heimurinn framan í þig!
Ég fæ það á tilfinninguna að Íslendingar séu að verða óhamingjusamari en þeir voru þrátt fyrir aukna hagsæld. Margur verður nefnilega af aurum api. Mér finnst stundum eins og Íslendingar séu að reyna að apa upp allt það versta í fari Bandaríkjamanna og séu kannski komnir langt framúr Kananum hvað það varðar á sumum sviðum. Óheflaður kapítalismi og græðgi ásamt algjöru skeytingaleysi um nágrannann og náttúruna.
Ég vona að þessi þróun snúist við.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hot town, Summer in the City
20.7.2007 | 06:07
Ég brá undir mig betri fætinum í dag og keyrði niður til Minneapolis og eyddi deginum í Uptown og við Lake Calhoun. Uptown hverfið, sem er staðsett rétt fyrir sunnan downtown (go figure), er svona hálfgert "kúltúr" hjarta Minneapolis. Hverfið minnir örlítið á Greenwich Village í NY, mikið um listafólk og bóhema, kaffihús, bókabúðir, veitingahús og skemmtistaði. Meðal ungra listamanna sem hófu ferilinn í Uptown var sjálfur Prince, sem á eftir Bob Dylan er kannski frægasti sonur Minnesota.
Ég skellti mér í hið fornfræga Uptown Theater kvikmyndahús, sem var byggt árið 1916 og miðað við rifin sætin og myglufýluna virðist ekki miklu hafa verið eytt í endurbætur á húsinu síðan. Þrátt fyrir það er gaman að koma þarna, enda einhver sjarmi og stemmning í húsinu sem erfitt er að skilgreina. Þarna eru eingöngu sýndar "independent" myndir sem ekki fá mikla dreifingu í stóru megaplexunum og í dag var verið að sýna Sicko myndina hans Michael Moore, sem enn er ekki kominn í almenna dreifingu. Þetta, ásamt Lagoon bíóinu hinum megin við götuna eru einu bíóin sem sýna myndina í Minnestoa enn sem komið er. Ég man reyndar eftir því að sama var upp á teningum með Farenheit 9/11 og meira að segja Brokeback Mountain. Þær myndir voru ekki sýndar uppí St. Cloud fyrr en eftir dúk og disk og ég gerði mér far niðurí Uptown til þess að sjá þær með öllu hinu "líberal pakkinu".
Michael Moore brást ekki bogalistin með Sicko, sem er mynd sem allir verða að sjá. Hún er virkilega sorgleg á köflum, en Moore tekst þó að halda uppi húmornum eins og honum er einum lagið. Ég nenni ekki að tjá mig mikið um heilbrigðiskerfið hérna í Ameríkunni í þessari færslu...en djöfull er það rotið...eins og svo margt annað í þessu þjóðfélagi...sem samt á líka sínar góðu hliðar auðvitað!
Eftir Sicko var haldið á Famous Dave´s BBQ and Blues búlluna í Calhoun Square. Þar var auðvitað étið á sig gat af svínarifjum og öllu tilheyrandi og hlustað á blús í leiðinni.
Þvínæst var kíkt niður að Lake of the Isles og Lake Calhoun og notið verðurblíðunnar. Það er alltaf unun að fylgjast með fallega fólkinu með fullkomnu magavöðvana skokka og hjóla með smáhundana sína meðfram vatninu. Það er auðvelt að missa sig í dagdraumum um hið ljúfa líf...eignast eina af þessum milljón dollara lakefront villum og Jagúarinn í innkeyrslunni. Ekki væri verra ef báturinn og einn af þessum "stud muffins" með magavöðvana fylgdi með í kaupunum! Keep on dreamin´ boy.
Áður en maður kom sér heim í sveitina var svo komið við í Whole Foods Market og spurt um íslenskt lambakjét. Þar var mér tjáð að þeir fengju bara eina sendingu á ári og sú næsta kæmi í byrjun nóvember. Hann ráðlagði mér hins vegar að hringja um miðjan október og láta taka frá fyrir mig, því kjötið entist venjulega ekki út vikuna! Það var heldur ekkert íslenskt skyr eða súkkulaði til, það fæst eingöngu á austurströndinni enn sem komið er, en ég keypti að gamni rándýra flösku af íslensku vatni.
Ég hefði kannski betur sleppt því, en ég fæ nóg af ókeypis íslensku kranavatni á mánudaginn! Jamm...hætti við að fara á Oshkosh flugsýninguna í Wisconsin og er á leiðinni á klakann í sumarfrí.
Titill þessarar færslu er annars tilvísun í þetta ágæta lag frá 1966 með The Lovin´Spoonful.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Minnesota næs
8.7.2007 | 19:29
Samkvæmt þessari frétt CNN eru íbúar Minneapolis/St. Paul þeir hjálpsömustu í öllum Bandaríkjunum og mun líklegri til þess að stunda sjálfboðavinnu og samfélagsþjónustu heldur en aðrir Ameríkanar. Samkvæmt nýjustu tölum höfðu um 4 af 10 íbúum Minneapolis svæðisins boðið fram ókeypis hjálparhönd á síðasta ári.
Áberandi munur er á framboði sjálfboðaliða eftir landshlutum í Bandaríkjunum, en mið-vesturríkin virðast koma best út og þá sérstaklega á þeim svæðum þar sem menntunarstig er hátt, en á eftir Minneapolis/St. Paul koma Austin í Texas, Omaha í Nebraska, Salt Lake City, Utah og Seattle í Washington.
Þeir þættir sem virðast hafa hvað mest áhrif á hjálpsemi íbúanna eru hátt menntunarstig sem skilar sér í aukinni "borgaralegri þátttöku", samgöngumál (stuttur tími í og úr vinnu gefur fólki meiri tíma til umráða), hlutfall þeirra sem eiga eigin heimili eykur tengsl fólks við samfélagið sitt og svo auðvitað hversu margar "non-profit organizations" starfa á viðkomandi svæði.
Lægsta hlutfall sjálfboðastarfs er í Las Vegas í Nevada þar sem einungis 14.4% sinntu einhverju sjálfboðastarfi á síðasta ári, og ástandið er litlu skárra í Miami á Flórída, Virginia Beach í Virginíu og New York City.
Fróðlegt væri að sjá sambærilegar tölur frá Íslandi...eitthvað fær mig til þess að gruna að Íslendingar séu almennt of uppteknir í lífsgæðakapphlaupinu til að stunda of mikla sjálfboðavinnu og kannski eru Íslendingar líka enn meiri kapítalistar í sér en blessaður Kaninn!
En það er gott að búa í Minnesota og hér er vingjarnlegt fólk, enda eru flestir hér af Skandínavískum sósíaldemókrata ættum.
P.S. Á meðan ég var að skrifa þessa færslu ringdi niður haglélum sem voru eflaust um sentímeter í þvermál, þrátt fyrir að úti sé 35 stiga hiti. Semsagt inniveður í dag, loftkælingin á full blast og engin sjálfboðavinna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)