Yfirgef Ísland á ný – hasta la vista, baby!

Eftir tæplega þriggja ára viðdvöl á Íslandi er nú aftur komið að því að leggjast í Víking og herja á nýjar slóðir eftir nýjum tækifærum og ævintýrum.  Í næsta mánuði flyt ég til hjarta Evrópu, Lúxemborgar, þar sem smérið drýpur af hverju strái.

Ég ákvað að grípa gæsina þegar mér bauðst starf (Maintenance Programs & Reliability Engineer) hjá hinu fornfræga og íslensk-ættaða flugfélagi Cargolux.   Það verður spennandi áskorun og einstækt tækifæri til að vaxa faglega og taka þátt í metnaðargjarnri uppbyggingu hjá framsæknu fyrirtæki sem er leiðandi í heiminum á sínu sviði.   Cargolux er þessa dagana að endurnýja flugflota sinn og er nýbúið að taka við heimsins fyrstu Boeing 747-8F flugvélunum sem er nýjasta útfærslan á gömlu góðu „Júmbó-bumbunni“ eða „Drottningu háloftanna“.  Nýja „áttan“ er fimm og hálfum metra lengri en -400 týpan, ber allt að 29 tonnum meira og nýjir vængir og hreyflar gera hana allt að 16% sparneytnari.   Sem áreiðanleikasérfræðingur mun ég vinna mjög náið með verkfræðingum Boeing sem fylgjast grannt með „performance“ og öllum hugsanlegum byrjunarörðugleikum, bilunum og viðhaldsgögnum.

 

Það verður með miklum söknuði sem ég kveð frábæra félaga og kollega hjá Air Atlanta í bili – en þessi bransi er lítill og aldrei að vita hvenær/hvar við sjáumst aftur. Þá á ég auðvitað eftir að sakna góðra vina, ættingja, Lúðrasveitarinnar Svans...og íslenskrar náttúru.

En nokkurra hluta reikna ég ekki með að sakna:

• Íslenskrar stjórnmála-umræðu/menningar – vanhæfs Alþingis.

• „Djöfulsins snillinga“ sem búa sig nú undir að taka við stjórnartaumunum á ný eftir að hafa talið þjóðinni trú um að hið „svokallaða hrun“ hafi bara verið misskilningur sem enginn ber ábyrgð á.

• Íslensku krónunnar

• Verðtryggingarinnar

• Verðsamráðs, neyslustýringar, okurs og skattpíningar

• Íslenskra fjármálastofnanna

• Íslensks réttarkerfis

• Íslensks menntakerfis

• Íslenskrar ríkis-kirkju og varðhunda hennar

• LÍÚ og bændamafíunnar

• Útvarps Sögu og valinkunnra ofstækisfullra og „þjóðhollra“ Mogga-bloggara haldna ýmsum komplexum

• Þjóðrembu og ótta við útlendinga og erlent samstarf

• Idjóta sem láta sérhagsmunaklíkur blekkja og heilaþvo sig til hlýðni

• Gillzenegger-væðingar

• Heilbrigðis-og tryggingakerfis sem greiðir „skinkum“ fyrir nýja sílíkon-púða í tútturnar á sér á sama tíma og þeir neita að taka þátt í að greiða fyrir handa-ágræðslu Guðmundar Grétarssonar.

Og svo mætti svosem lengi, lengi telja...en því í ósköpunum að ergja sig á því fyrst maður er svo gott sem „sloppinn“? Whistling

En þetta eru kannski hlutir sem þeir sem eftir sitja geta velt fyrir sér þegar allt unga og menntaða fólkið sem hefur tækifæri til að komast burt er farið?  Kannski þarf einhverju að breyta hérna?   Eða hvað?   Það er svosem sem ég sjái það.   Og kannski er bara „landhreinsun“ af okkur „landráðamönnunum“ sem svíkjum íslensku sauðkindina og fjallkonuna og stingum af til illa óvina-heimsveldisins ESB?  Ísland er jú, hefur alltaf verið og mun áfram verða, „bezt í heimi!“. Pinch


Bloggfærslur 11. janúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband