Af meintum "reverse rasisma" Páls Óskars

Hin árlega gleðiganga Hinsegin daga er fagur vitnisburður um það besta í fari íslendinga. Við megum vera stolt og þakklát fyrir að búa í einu af frjálslyndustu samfélögum heims þar sem flestir eru sammála um gildi jafnréttis og mannréttinda minnihlutahópa. Þegar þriðjungur þjóðarinnar mætir með góða skapið og gleðina til þess að sýna samkynhneigðum stuðning, ást og staðfestingu á tilverurétti okkar – bærast ólýsanlegar tilfinningar í brjósti hvers homma og hverrar lesbíu. Gleymum því ekki hversu stutt er síðan tilvera okkar var sveipuð þöggun, skömm og ótta.

Einn er sá eðal-hommi sem ber sennilega meiri ábyrgð en flestir aðrir á því að fá þorra þjóðarinnar á okkar band á undanförnum árum. Með einlægni sinni, hreinskilni og persónutöfrum, hefur Páli Óskari tekist að koma við hjartað á íslendingum svo um munar. Hann var því vel að því kominn að hljóta mannréttinda-viðurkenningu Samtakanna 78 þetta árið. Eins og hann benti réttilega á í lok göngunnar á laugardaginn stendur Gay Pride á Íslandi orðið fyrir meira en „bara“ réttindabaráttu samkynhneigðra – þetta er orðin fjölskyldu-þjóðhátíð ALLRA íslendinga sem láta sig frjálslynd viðhorf og mannréttindi varða.

Ekki eru allir sáttir

Auðvitað fyrirfinnast enn einstaklingar sem láta Pál Óskar og Gay Pride fara í taugarnar á sér. Það kom því vart á óvart að einhverjir ákváðu að misskilja, oftúlka og snúa útúr ummælum Páls í Sjónvarpsfréttaviðtali um „hvíta gagnkynhneigða miðaldra karlmenn í jakkafötum, hægrisinnaða sem eiga peninga“ sem stundum eru með „biblíuna í annari hendi og byssuna í hinni“. Valinkunnir Mogga-bloggarar virtust taka þessi ummæli til sín og þóttu e.t.v. vegið að stöðu sinni og ímynd, þar á meðal Jón Magnússon hæstarréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður. Aðrir “usual suspects” eins og Jón Valur Jenson, þekktur öfgatrúarmaður og fordómapési, notfærði sér tækifærið og býsnaðist yfir meintum kostnaði Reykjavíkurborgar af gleðigöngunni.

a768_bm-viNú er það sem betur fer svo að flestir hvítir gagnkynhneigðir miðaldra karlmenn í jakkafötum – hvar sem þeir standa í pólitík og hvort sem þeir eiga peninga eða ekki – eru fordómalausir og sómakærir borgarar. Það eru ekki þeir sem létu ummæli Páls Óskars móðga sig – heldur þessar fáu risaeðlur sem eiga erfitt með að sleppa takinu af forréttinda stöðu sinni og íhaldssömum viðhorfum. Þessum mönnum sem líður illa í frjálslyndu og opnu samfélagi þar sem þeir fá ekki að drottna. Feminismi , jafnrétti og fjölmenning er eitur í þeirra beinum. Og þegar biblíur og byssur blandast í málið geta afleiðingarnar orðið skelfilegar eins og sannaðist nýverið í Noregi. Raunar er eftirtektarvert að þeir bloggarar sem helst hafa kvartað undan ummælum Páls Óskars eru flestir hinir sömu og kvörtuðu hæst yfir þeim „aðdróttunum“ að Anders Breivik væri „kristinn hægriöfgamaður“. Það voru nefnilega ekki „skoðanir“ hans sem voru brenglaðar heldur einungis verknaðurinn, að þeirra mati og það var óásættanlegt að sverta þeirra fínu og fullgildu lífsskoðanir vegna verknaðs eins „geðsjúklings“ sem af fullkominni tilviljun deildi skoðunum þeirra um „trúvillinga“, kynvillinga, útlendinga, kvenfólk og annað óæðra fólk.

Hrun feðraveldisins og sjálfsmynd karlmennskunnar

Ljóst er að með auknu jafnræði í samfélaginu hefur staða karlmannsins breyst. Þrátt fyrir að launamunur kynjanna á vinnumarkaði sé enn til staðar er það svo að karlar sitja ekki einir að valdastöðum í reykfylltum bakherberjum. Karlaklúbbarnir riða til falls. En til eru þeir karlar sem eiga erfitt með að aðlagast og finnast þeir jafnvel niðurlægðir. Við getum ekki og megum ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að „karlmennskan“ er í vissri tilvistarkreppu.

Þróunin hefur verið á þá leið að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum á meðan karlar hafa dregist aftur úr í menntun. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að konur munu koma til með að hafa hærri laun en karlar og verða aðal-fyrirvinnur heimilisins á sama tíma og atvinnuleysi eykst hraðast meðal ungra karlmanna. Þetta særir stolt þeirra og þeim finnst að þeim vegið. Reiðin brýst m.a. út í karl-rembu og and-femínisma.

Unga karlmenn skortir tilfinnanlega jákvæðar fyrirmyndir. Í grunnskólunum fyrirfinnast varla lengur karlkyns kennarar og of margir feður taka alltof lítinn þátt í uppeldi sona sinna. Þegar svo Agli Gillzenegger er hampað sem „fyrirmynd“ unglinga er orðið eitthvað verulega mikið að. Við verðum að gæta þess að hlúa betur að strákunum okkar, styrkja sjálfsmynd þeirra og hjálpa þeim út í lífið. Margir ungir karlmenn eiga um sárt að binda í dag og þeir tilheyra sko engum forréttindahópi þrátt fyrir að vera karlmenn. Þetta er sá hópur sem fær minnstan stuðning frá félags- og heilbrigðiskerfinu.

Atvinnuleysi og fátækt er hrikalegur bölvaldur sem nú ógnar heilli kynslóð. Við vitum að sá ótti, reiði, örvænting og tilgangsleysi sem herjar á ungt atvinnulaust fólk er hættuleg gróðrastíja fyrir öfga og hatur. Við verðum með öllum mætti að sameinast um að minnka atvinnuleysi og bæta félagsleg úrræði fyrir unga karlmenn áður en það er um seinan. Hættan er aðsteðjandi.

Elliheimili fyrir samkynhneigða

Í viðtali við DV talaði Páll Óskar um þörfina á sérstöku elliheimili fyrir samkynhneigða. Mörgum brá í brún og furðuðu sig á þeirri hugmynd, enda er markmiðið með réttindabaráttunni ekki aðskilnaður heldur samlögun. En við nánari athugun kemur í ljós að málið er flóknara en svo.

Viðtal við 77 ára gamlan homma birtist í dagskrárriti Hinsegin daga í ár. Þar lýsir hann því hvernig hann hafi notið þess að sækja kyrrðarstundir í Langholtskirkju í hádeginu þar sem hann naut samveru við aðra eldri borgara. Þetta breyttist allt eftir blaðaviðtal við hann í Morgunblaðinu árið 2007 þar sem hann opinberaði kynhneigð sína. Uppfrá þessu mætti hann gjörbreyttu viðmóti jafnaldra sinna í kirkjunni. Enginn tók undir þegar hann heilsaði né yrti á hann. Þá stóð fólk upp og færði sig þegar hann settist við borð eða kirkjubekk. Hann var flæmdur burt. Athugið að þetta var árið 2007...og ekki í neinum “sértrúarsöfnuði” heldur þjóðkirkju Íslands!

Hommar eru e.t.v. Í meiri hættu en aðrir á að einangrast í ellinni þar sem margir eiga ekki afkomendur, maka eða stórar fjölskyldur. Við vitum að hamingjusömustu gamalmennin eru þau sem bera gæfu til að njóta samvista við annað fólk sem það á samleið með. Sumir eldri borgarar stunda mikið félagslíf, dansæfingar og kvöldvökur og einhverjir eru jafnvel svo lánssamir að verða ástfangnir! Hvað er dásamlegra en það?

Hvers á einmanna homminn á Grund að gjalda?


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Mér hefði þótt orð Páls Óskars viðeigandi með hundrað manns á bak við sig en ekki hundrað þúsund.

Þessir vesalnings "hópar" sem hann talaði um eru meirihlutahópar en ekki minnihlutahópur. Ætli Páll Óskar viti hver Hörður Torfason er? Veist þú hver það er? Varst þú fæddur eða orðin læs þegar viðtalið birtist eftir hann í Samúel? Eru til samkynhneigðir miðaldra karlar með byssu og biblíu í báðum? Ef ekki. Er hugsanlegt að þeir verði til? 

Ég held að hommar séu lítt frábrugðnir restinni af öðrum körlum og að vera hommi er ekki trygging fyrir einu né neinu, því miður. 

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.8.2011 kl. 21:03

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Hommar og lesbíur eiga ekki að þurfa að hræðast ellina miðað við þær móttökur sem þau fá á hverju ári. Tæplega helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins kemur og fagnar þeim.

Þetta er kannski meiri brenglun en er hjá samkynhneygðu.

Hefur þú einhver svör fyrir þetta fólk, sem fagnar með afbrygðileika náttúrunnar og samfélagis?

Eggert Guðmundsson, 8.8.2011 kl. 21:12

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það eru því miður fleiri en tvær manneskjur sem hafa mætt svona viðhorfi eins og ég les út úr færslu Eggerts. Og þær þurfa að óttast og treysta á fólk "sem fagnar með afbrygðileika náttúrunnar og samfélagis "

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.8.2011 kl. 21:23

4 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Flott grein, Róbert. Ljúfur og vel skrifandi að vanda.

Lýsingin á vanda gamla hommans árið 2007 verður líklega ekki reynsla næstu kynslóða, í ljósi þess að fólk eldist með önnur viðhorf. Annars þekki ég alveg nokkra rjúkandi hómófóba, sem segja alla réttu hlutina nema þegar kemur að því að ímynda sér að þeirra eigin synir verði gay eða að einhver karlmaður gefi þeim undir fótinn. Dálítið merkilegt.

Femínisma gagnrýni ég stundum, enda er það ekki gallalaus hugmyndafræði, en mér líst engu að síður bara vel á framtíð þar sem konu ráða "öllu". Það verður ábyggilega dálítið skemmtilegur heimur - aðrar áherslur?

Palli á ekkert röfl skilið fyrir þessa athugasemd. Hann hefur í grófum dráttum rétt fyrir sér og um það snýst málið.

Kristinn Theódórsson, 8.8.2011 kl. 21:48

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þér Róbert maður skynjar hræðslu þessara miðaldra, jakkafata, sem jarma í kór og taka þetta til sín, misskilja "viljandi" orðin hans og býsnast, en þar með gera sjálfa sig að litlum körlum.  Þeirra er skömmin.  Þannig er það bara.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.8.2011 kl. 22:36

6 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk Ásthildur og Kristinn! :)  Kristinn...sko, það eru til femínistar...og svo eru til öfga-femínistar.  Held að við séum sammála um það! ;)

Kristján:  Ég næ ekki alveg pointinu í þessu með Hörð Torfa?  Þér er velkomið að umorða eða útskýra.  Er annars sammála þér um að hommar eru hvorki betri né verri en aðrir menn og því miður eru líka til öfgasinnaðir og fordómafullir hommar af ýmsu tagi.

Eggert:  kannski er brenglunin fólgin í því að kunna ekki að virða fegurð og fjölbreytileika náttúrunnar heldur festast í afbrygðilegri og ónáttúrulegri bælingu!  

Róbert Björnsson, 8.8.2011 kl. 22:52

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hörður Torfason er persónulegur vinur minn og leikbróðir mannsins míns í æsku, hann er frábær drengur og hefur svo sannarlega barist fyrir tilvist homma og lesbía á Íslandi, enda þurfti hann á tímabili að flýja land.  En kom til baka og er í raun Guðfaðir samtakanna 78.  Hann er frábær manneskja og lætur ekki kaupa sig þess vegna gat hann staðið á Austurvelli og talað sig út, það var reynt að finna allar leiðir til að drepa hann niður, en menn fengu aldrei neinn höggstað á honum, nema að koma því svo fyrir að það fækkaði fólki sem fór á tónleika hjá honum, með undirróðri og illkvittni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.8.2011 kl. 23:13

8 identicon

Skil nú ekki hvað þú ert að tengja Breivik við þessi ummæli Páls. Var Breivik miðaldra og gékk hann í jakkafötum daglega?

Páll var að ráðast á ihaldsöm gildi, og ákvað í einfeldni sinni og fáfræði að heimfæra þessi ihaldsömu gildi upp á einn hóp, og bara einn hóp.

Þú þarft ekki að leita lengi að konu sem er bæði rasisti og hefur vanþóknun á hommum og lesbíum. Það er haugur af svertingjum sem eru stækir hommahatarar. Svona er hægt að halda áfram endalaust. En þú, hugsanlega af sömu einfeldni og fáfræði og Páll, gerir nákvæmlega það sama, heimfærir þessi neikvæðu viðhorf uppá einn hóp og eingöngu einn hóp.

Svona til að bæta þér upp vanþekkinguna og fáfræðina þá voru það hægrisinnaðir miðaldra hvítir karlar sem skópu bestu og réttlátustu þjóðfélög mannkynssögunnar. Þjóðfélög sem flestir sem lifa utan þess gæfu allt sem þeir eiga til að fá að búa í. Fjölmargir fórna lífinu á hverju ári í von um að fá að búa í þjóðfélagi sem var skapað af hægrisinnuðum miðaldra körlum. Gleymdu því ekki væni.

bjarni (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 01:08

9 Smámynd: Rebekka

Ég skil ekki hvernig fólk skilur orð Palla sem "árás" á hvíta karlmenn. Ég heyrði hann ekki segja neitt ljótt. Hann sagði: "Það er engu líkara en að sá hópur sem fær að vera hvað mest í friði sé hvítur gagnkynhneigður karlmaður, í jakkafötum..." o.s.frv.

Hann sagði að það virtist sem hvítir gagnkynhneigðir karlmenn sæti hvað minnstum fordómum. Hvernig er þetta árás á þann hóp?!

Btw, flottur brandari bjarni. Var kvenréttindabaráttan líka leidd af hvítum karlmönnum? :D Voru hvítir karlmenn í fararbroddi með Martin Luther King í mannréttindabaráttu svertingja í Ameríku? Minnihlutahópar hafa ávallt þurft að berjast fyrir betra þjóðfélagi.

Rebekka, 9.8.2011 kl. 06:35

10 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Bjarni

Palli sagði ekkert um hverjir það eru sem eru fordómafyllstir. Hann talaði aðeins um hverjir yrðu síst fyrir fordómum.

Kristinn Theódórsson, 9.8.2011 kl. 08:59

11 Smámynd: Jens Guð

  Flottur pistill.  Ég vil vekja athygli á að Páll Óskar Wilde minntist ekki á miðaldra.  Aftur á móti er hrópandi að miðaldra skápahommar,  þessir hvítu hægri sinnuðu með Biblíuna og byssudýrkunina,  hafa tekið til sín orð Páls Óskars og bætt við og velt sér upp úr meintri vísun í miðaldra.        

Jens Guð, 10.8.2011 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband