Vegið að Sinfó

Sinfóníuhljómsveit Íslands er þjóðargersemi og eitt af því fáa sem við megum sannarlega vera verulega stolt af sem þjóð.  Það er ekkert sjálfgefið að 300 þúsund manna samfélag geti státað af slíkri heimsklassa-hljómsveit - þvert á móti er það heilmikið afrek.

Listafólkið sem skipar hljómsveitina er afreksfólk - alls ekki síður en handboltakapparnir okkar.  Að baki árangri þeirra liggur margra ára linnulausar æfingar og nám - blóð, sviti og tár.  Sjálfsagt gætu flestir meðlimir hljómsveitarinnar starfað við mun betri kjör í nafntoguðum erlendum hljómsveitum - en þökk sé hugsjón þeirra og tryggð við íslenska menningu, erum við svo lánsöm að fá að njóta starfskrafta þeirra og listsköpunar hér - í okkar stórkostlegu Eldborg (hvað svo sem segja má um Hörpu að utan).   

En nú heyrist tísta í smásálum úr stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins - að í ljósi núverandi fjárlagahalla og niðurskurðar væri réttast að afnema ríkis-styrki til Sinfóníunnar og þar með leggja hana niður.  Erum við virkilega svo snauð, bæði andlega og veraldlega að við getum ekki/viljum ekki halda á lífi megin-stoð lista og menningar á Íslandi?  Ég held ekki - það eru til aðrar og skynsamari lausnir. 

Ekki einu sinni menningarsnauðum Ameríkönum myndi detta slíkt í hug.  Þar í landi frjálshyggjunnar njóta sinfóníuhljómsveitir opinberra styrkja úr National Endowment for the Arts.

Það er sorgleg staðreynd að margir líta á klassíska tónlist sem eitthvert snobb ríku elítunnar.   Þetta er skelfilegur misskilningur - það geta ALLIR notið klassískrar tónlistar, óháð stöðu og stétt.  Stór hluti tónleikaáskrifenda Sinfóníunnar er alþýðufólk og verkamenn sem kunna að vera fátækir af peningum en því ríkari í anda! Fólk með reisn. Ef ég fengi að ráða væri unnið að því að breikka ennfrekar þann hóp sem fær að njóta Sinfó með því að fjölga tónleikum úti á landi sem og að bjóða öryrkjum og ellilífeyrisþegum andlega næringu þeim að kostnaðarlausu. 

Nóg er framboðið af upphafinni og forheimskandi lágmenningu, fótbolta og "America´s Got Talent" að engin undra er að fimmtungur drengja í 10. bekk er ólæs!   Segjum hingað og ekki lengra og stóreflum tónlistarkennslu grunnskólabarna og gefum þeim þá dýrmætu gjöf að verða "læs" á tónlist og fagurfræði.

Áður en Sinfónían verður drepin legg ég til að ríkið hætti að styrkja fótboltalandsliðið og ríkis-kirkjuna! Þar fara tvær vita-gagnslausar stofnanir sem má fullyrða að séu mun meiri sóun á skattpeningum okkar en Sinfó.  Segi það og skrifa.

...

P.S. Hér má sjá frumlegan flutning á fimmtu sinfóníu Beethovens - í beinni lýsingu íþróttafréttamanna og svo tekur dómarinn til sinna ráða! Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég ætla nú bæði að vera þér sammála og ósammála :) Best er samt að taka það fram að ég hef ekki lesið þessa grein eftir SSF (stuttbuxnadeild sjálftökuflokksins) enda lít ég ekki á þessa síðu.

En aftur á móti, hvað svo sem segja má um þetta flotta tónlistarfólk okkar í sinfoníunni, þá finnst mér nú réttlætismál að niðurskurður bitni á öllum. því ætti að skera niður hjá SÍ líka, sem og listamannalaunum, utanríkisráðuneyti, alþingi og fleirum. Því miður held ég að sú umræða sem virðist vera farinn af stað, um að einhver (sama hver) hluti af t.d. listum, eigi að vera undanþeginn niðurskurði, verði til þess að fólk fái neikvæða mynd af þessum stofnunum.

Við verðum víst að horfast í augu við að það er ekki til peningur (og nú er ég ekki að tala um hægri/vinstri, með/móti stjórn/stjórnarandstöðu) eins og staðan er í dag, og meðan sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir skera niður, þá einfaldlega verða aðrir líka að sætta sig við niðurskurð.

Larus Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 08:19

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ætli það sé nú ekki bruðlað með annað eins fé og það sem fer í Sympóníuna.  Stundum verðum við að skilja að lífið er ekki bara saltfiskur, fagurkerin í okkur krefst líka andlegs fóðurs.  Hinsvegar var Harpan bruðl sem átti aldrei að gerast, og nýja hátæknisjúkrahúsið má bíða enn um sinn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.10.2011 kl. 09:35

3 identicon

Jú, Ásthildur, það er sko örugglega bruðlað með annað eins :) verst að það gengur illa að ná því niður. En á ekki að skera niður hjá öllum, mér finnst kominn tími á það. Ekki bara heilbrigðis og menntakerfið, þó að þar hafi KANNSKI mátt skera aðeins í :)

Larus Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 09:51

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jú það má auðvitað skera niður allstaðar, nú er til dæmis forseti alþingis í embættiserindum á Möltu.... hvað ætli sé svo áríðandi þar að forseti alþingis þurfi að flengjast þangað núna?  ætli það sé góða veðrið?  Hefur fólkið sem stjórnar landinu aldrfei heyrt um síma, internet eða bara Skype?  Féautur utanríkisráðuneytisins hefur margfaldast í kreppunni.  Svo von er að manni blöskri niðurskurður á því sem mest er þörfin eins og í heilbrigðiskerfinu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.10.2011 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband