Vinur minn og Purpurahjörtun

Purple HeartUm daginn fékk ég tölvupóst frá gömlum skólafélaga sem ég hafði ekki heyrt í lengi.  Ýmislegt hefur dregið á daga hans síðan ég sá hann síðast, í október 2001.  Mig langar til að deila með ykkur sögu hans.

Ég kynntist Terry Hudson í febrúar árið 2000.  Við vorum samferða í gegnum nám í flugrafeindavirkjun (avionics) við Spartan School of Aeronautics, í Tulsa, Oklahoma.  Þrátt fyrir mjög ólíkan bakrunn kom okkur strax mjög vel saman og við mynduðum ágætt teymi í verklegu tímunum ("lab parntners") auk þess sem við grúskuðum ýmislegt utan skólatíma.

Terry er svartur og ólst upp í gettóinu í suðurhluta Chicago.  Til að sleppa undan fátækt, gengjastríðum og crack-cocaine faraldrinum, skráði hann sig í herinn 18 ára gamall.  Það var árið 1990, árið sem Saddam Hussein heitinn réðst með offorsi inn í Kúvæt, sællar minningar.  Terry var umsvifalaust sendur á svæðið til að taka þátt í Operation Desert Storm sem fallbyssuskytta á M1A1 Abrams skriðdreka.  Hann var mjög súr yfir því að hafa aldrei lent í alvöru "combat" en þó kom hann heim með Purpurahjarta í farteskinu því hann fékk sprengjubrot í handlegginn þegar að Skud-flugskeyti lenti nálægt herskálanum hans í Sádí-Arabíu.  Hann var voða stoltur yfir því blessaður að vera "wounded veteran".

Terry hélt áfram í hernum (active-duty) næstu 9 árin og lauk ferlinum sem Staff Sergeant (E-6).  Hann ákvað svo að nýta sér skólagjaldastyrk hersins til þess að afla sér mentunar og skráði sig í Spartan, en í hernum hafði hann nokkra reynslu af viðhaldi á þyrlum og ýmsum vopnakerfum.

Um það leiti sem við vorum að útskrifast úr Spartan voru framin skelfileg hryðjuverk, kennd við 11. september, 2001.  Terry var mikill "patriot" og sagðist sko ætla beint í herinn aftur til að taka í lurginn á þessum bansettu "towelheads".  Þegar leiðir okkar skildu vissi ég að hann var búinn að skrá sig í varaliðið (Army reserves) en ætlaði samt að leita sér að vinnu í nýja faginu.  Síðan heyrði ég ekki frá honum í nokkur ár.

Í ársbyrjun 2005 var varaliðs-deildin hans kölluð út og send til Írak.  Þegar kallið kom hafði hann verið búinn að koma sér fyrir í sæmilegri vinnu hjá Lockheed Martin suður í Dallas, Texas.  Eftir tæplega 4 mánaða dvöl í Írak særðist hann svo aftur þegar brynvarinn Hum-Vee sem hann var farþegi í keyrði yfir jarðsprengju.  Hann slapp tiltölulega vel miðað við aðstæður, fékk í sig sprengjuflísar og hlaut innvortis blæðingar auk þess sem hann missti varanlega heyrn á öðru eyra.  Félagi hans í jeppanum lét lífið. 

Eftir einhverja dvöl á hersjúkrahúsi í Þýskalandi fór hann heim til Texas með nýja Purpurahjartað sitt í barminum.  Þegar heim var komið komst hann að því að konan hans hafði haldið framhjá honum og var horfin á brott.  Starfið hans hjá Lockheed Martin var sömuleiðis farið (fyrirtæki eru ekki skyldug til að taka aftur við varaliðsmönnum sem kvaddir eru á brott).  Honum var bara tjáð að fyrirtækið hefði þurft að segja upp fjölda manns vegna samdráttar (ég sem hélt að það væri rífandi bisness hjá hergagnaframleiðendum á stríðstímum).

Terry var svo atvinnulaus í nokkra mánuði uns hann fór að vinna við afgreiðslu á bensínstöð!  Hann er með sykursýki og þarf að kaupa insúlínið sitt sjálfur, því engin er sjúkratryggingin.  Hann fær að vísu einhver "VA benefits" frá hernum en þau dekka ekki insúlínið.  Nú ætlar hann svo að flytjast aftur til Chicago og reyna að byrja nýtt líf.

Já, svona er lífið hér í landi tækifæranna.  Leiðin úr gettóinu í suðurhluta Chicago getur verið þyrnum stráð.  En Terry Hudson er stoltur af Purpurahjörtunum sínum...þó svo öllum öðrum sé slétt sama.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er alger viðurstyggð að heyra.  Menn hætta lífi sínu og limum fyrir landið og það er spýtt í andlitið á þeim í staðinn. 

Þakka þér fyrir að sýna mér inn í hið sanna eðli þessara stríðsherra.  Virðingarleysi fyrir lífi og afkomu annara er alger og það á báða bóga.  Þetta er ekki saga, sem recrúttarnir segja óhörðnuðum unglingum, sem þeir tæla tillags við þessa morðmaskínu.  Hvenær skyldi Bandarísk alþýða ætla að opna augun fyrir þessum hryllingi og segja "Hingað og ekki lengra!" 

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2007 kl. 10:47

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Já, þetta er nú allt þakklætið fyrir þjónustuna.  Vissulega hefur herinn skapað mörgum ágæt tækifæri og fyrir marga er þetta eina leiðin út úr ömurlegum aðstæðum, sérstaklega allslausu ungu svörtu eða hispanic fólki sem annars gæfist enginn kostur á menntun.  En eins og Jón Steinar bendir á eru þetta oftast óharðnaðir unglingar sem auðvelt er að heilaþvo.  Recruiterinn segir þeim aldrei að þau þurfi að fara í stríð, heldur beita alls kyns lygum, prettum og gylliboðum.  Um leið og þau skrifa undir pappírana eru þau hins vegar orðin réttlaus eign (þrælar) hersins a.m.k. næstu fjögur árin. 

Virðing fyrir lífi þeirra er ekki mikil.  Þetta eru fórnanleg peð.  Enginn kippir sér upp við daglegar fréttir af hermönnum sem láta lífið í Írak.  Þetta er bara nafnlaus tölfræði.  Þeir sjá ekki einu sinni sóma sinn í að útvega þeim þann besta tækjabúnað sem völ er á.  Þeir eru látnir keyra um í Baghdad í óbrynvörðum jeppum og með ónýt (ó)skotheld vesti.  Í þokkabót eru þeir svo notaðir sem tilraunadýr (sbr. Gulf War Syndrome).

Þeir sem koma svo heim úr stríði (hvort sem það var Víetnam eða Írak) eru í mörgum tilfellum örkumlaðir á sál og/eða líkama.  Þeim reynist erfitt að aðlaga sig að lífi hins óbreytta borgara eftir að heim er komið.  Sumir lifa við stanslausar martraðir og flestum gengur erfiðlega að fá vinnu.  Vinnuveitendur vilja þá ekki því þeir þora ekki að taka áhættuna um að þeim fylgi einhver vandamálapakki.  Fjölskyldur flosna upp, áfengis-og víumefna misnotkun er algeng og þeir enda svo á götunni, leiðast út í glæpi eða fremja sjálfsmorð.  Aðstoðin er lítil sem engin.

Maður hefði haldið að þeir hefðu lært eitthvað af Víetnam...en nei, sagan endurtekur sig.

Róbert Björnsson, 2.3.2007 kl. 18:51

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lærdómurinn af Vietnam var m.a. sá að halda hryllilegum "smáatriðum" frá fjölmiðlum og birta aldrei myndir af þjáningu borgara, föllnum hermönnum eða líkkistum. Nú eru bara blaktandi stars and stripes í sólarlagi og silúettur rómantískra skriðdreka við eiðimerkurhiminn.  Flott tæki og tól með standpínu og hetjudýrkun án nokkurs ávænings um blóð eða tár. Almenningur skynjar þetta sem draum eða bíómynd.  

Það er ekki hægt að setja sig upp á móti hryllingi sem ekki er raunverulegur eða engar upplýsingar eru um.  Fjölmiðlarnir matreiða og fólkið þegir. 

Jón Steinar Ragnarsson, 3.3.2007 kl. 00:49

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Jón Steinar:  Rétt með fjölmiðlana.  Þeir matreiða þetta ansi fallega með Fox "news" í broddi fylkingar.

Guðmundur:  Þakka þér sömuleiðis innlitið.  Vissulega er þessi þýðing á Secretary svolítið kjánaleg   Það er alltaf þannig með tungumál að sumt verður "lost in translation".

Já vissulega var gaman að heyra aftur í kappanum þó honum hafi ekki farnast mjög vel að undanförnu, en hann á örugglega eftir að rétta úr kútnum.  Mörgum er illa við herinn sem stofnun en þó ber að huga að því að þeir sem í honum starfa eru bara venjulegar manneskjur með sína drauma og þrár.   Það er auðvitað "The Commander in Chief" sem ber ábyrgðina á verkum hersins.

Takk aftur fyrir lesturinn og kommentið.

Róbert Björnsson, 3.3.2007 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband