Óskaddað höfuðleður og vistvænir forsetar
10.4.2007 | 07:33
Ég vona að enginn hafi óttast um höfuðleður mitt þrátt fyrir að ekkert hafi heyrst frá mér síðan áður en ég fór uppá indíjánaverndarsvæði. Ég slapp alveg óskaddaður úr þeirri reisu, sem reyndist annars ágætis skemmtun. Helgin var viðburðarík þó ég kjósi að halda smáatriðunum fyrir mig...what happens in Vegas, stays in Vegas...nú já eða þannig.
Ég mun sennilega ekki hafa mikinn tíma fyrir bloggið á næstu vikum. Farið að styttast í annan endann á önninni og fyrirlestrarnir, verkefnin og ritgerðirnar farnar að hrannast upp eins og gengur. Einnig er von á góðum gestum frá Íslandi fljótlega þannig að það verður margt betra við tímann að gera.
Einn kúrsinn sem ég sit þessa önnina fjallar um endurnýtanlega orkugjafa. Mikið er rætt um loftlagsbreytingarnar og hvernig hægt sé að bregðast við þeim. Prófessorinn minn virðist hafa mikinn áhuga á jarðvarmaorku og beislun hennar á Íslandi og fól mér það verkefni að safna öllum upplýsingum sem ég gæti fundið um fyrirbærið og halda svo smá fyrirlestur um það fyrir bekkinn. Ég hafði nú satt að segja takmarkaðan áhuga á þessu verkefni fyrst í stað, enda get ég nú ekki sagt að ég hafi verið sérfróður um jarðvarmaorku fyrir, þó ég teljist íslendingur og hafi notið heita vatnsins sem lyktar eins og úldið egg. En það var svosem nógu auðvelt að afla sér heimilda og ýtarefnis. Við eigum jú eitt stykki Jarðhita háskóla Sameinuðu Þjóðanna og svo fékk ég sent ágætt kynningarmyndband frá Helga Pé (í Ríótríóinu) um Orkuveitu Reykjavíkur. Það sló alveg í gegn og ég held að hálfur bekkurinn hafi ætlað að bóka far til Íslands í sumar. Veit ekki hvort ég nenni með...nema þau borgi mér sérstaklega fyrir leiðsögn plús þjórfé.
Í dag mætti prófessorinn svo með úrkilppu úr Time sem hann lét okkur lesa yfir. Ég kannaðist eitthvað við karlinn á myndinni...jú jú, enginn annar en President Olafur Grimsson. Fékk auðvitað að heyra glósur frá samnemendum mínum eins og "Hey Bjornsson, is he your cousin? Didn´t you say everyone was related up there, you damn inbreeds?"
President Grimsson er barasta orðinn að okkar Al Gore! Ætlar ásamt teymi frá Columbia University að dæla koltvíoxíð-hlöðnu vatni niður í borholur þar sem það á að bindast basalt-bergi og breytast í skaðlaus steinefni í stað þess að fljóta um í andrúmsloftinu og valda gróðurhúsaáhrifum. Hrein Snilld! Þó ekki væri nema fyrir það að gamli komminn og stjónmálafræði-doktorinn er nú allt í einu orðinn skyldulesning í Amerískum háskólum (sbr. fyrirlesturinn í Ohio State). Gaman að þessu og skemmtileg landkynning. Efast ekki um að Hannes Hólmsteinn bölvar í hljóði!
Athugasemdir
Gaman að þessu!
Haukur Nikulásson, 12.4.2007 kl. 00:23
Ég bölva alls ekki í hljóði. Ólafur R. Grímsson vinnur að mörgu leyti gott starf, meðal annars með því að kynna það fyrir umheiminum, að Íslendingar standa framarlega í vistvænni stóriðju. Orkugjafar okkar menga ekki eins og orkugjafar annarra þjóða. Þess vegna er furðuleg hin hatramma andstaða þeirra Íslendinga, sem vilja kenna sig við umhverfisvernd, við virkjunum. Sú orka er einmitt miklu vistvænni en brennsla olíu eða kola. Þar hittir Ólafur R. Grímsson naglann á höfuðið. Hann er einnig duglegur að vinna fyrir íslenska auðmenn, kynna málstað þeirra erlendis og bjóða vinum þeirra og gestum heim á Bessastaði, og er ekki nema gott eitt um það að segja. HHG
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 22.4.2007 kl. 23:15
Kærar þakkir fyrir innlitið og kommentið Hannes! Maður verður greinilega að passa sig þegar maður skrifar um "opinberar persónur" á blogginu...aldrei að vita nema þær kíki í heimsókn. Gaman hvað Ísland er lítið land.
Ég vona að ég hafi ekki móðgað þig með þessu skoti...mér þótti bara svolítið kaldhæðnislegt að það væri Ólafur Ragnar sem var nú á fyrirlestraferð í landi kapítalismans, en ekki fyrrum andstæðingar hans í pólitíkinni, eins og þú sjálfur. En tímarnir breytast og mennirnir með, eins og þú bendir á er Ólafur orðinn duglegur að vinna fyrir íslenska auðmenn, og virðist því eitthvað hafa mildast í garð frjálshyggjunnar nú á seinni árum.
Vissulega er það rétt að orkugjafar okkar eru hreinni og umhverfisvænni heldur en víðast annarsstaðar í heiminum og það er frábært að Ísland er í fremstu röð hvað varðar beislun jarðvarmaorku. Vatnsfallsvirkjanirnar hafa auðvitað þann stóra galla að nauðsynlegt er að sökkva stórum landssvæðum undir lón og því skiljanlegt að um það sé deilt. Ennfremur skiljanlegt að margir séu ósáttir við stóriðju í bakgarðinum hjá sér og það eru ekki allir sáttir við hugtakið "vistvæn stóriðja". En margir góðir umhverfisverndarsinnar eiga það samt til að gleyma að hugsa hnattrænt, heldur þjást af "NIMBY heilkenninu" (Not In My Back Yard). Álið verður auðvitað framleitt einhversstaðar í heiminum og spurning hvort það sé betra að það sé gert í þriðjaheimslandi þar sem orkan er fengin með brennslu kola eða olíu og minni kröfur gerðar til mengunarvarna. Það er tvískinnungsháttur og skammsýni.
Róbert Björnsson, 23.4.2007 kl. 02:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.